Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Ítarefni Sunnudagaskólinn TTT

Hlutbundin kennsla

Góði hirðirinn Mattheus 18. 12-14, Lúkas 15. 4-6, Jóhannes 10

 

Leikur

 Kennslugögn: Teppi eða lak og börnin sjálf.

 Safnið börnunum saman og segið þeim söguna.

Byrjið á að spyrja þau.

Hvernig mynduð þið lýsa Guði? Hvernig lítur Guð út?

– Leyfið þeim að svara og gefið góðan tíma í það. (Vel mætti skrifa svör þeirra á töflu eða spjald ef aðstæður leyfa).

– Leyfið mér nú að segja ykkur nokkur dæmi um það hvernig Guði er lýst í Biblíunni: Bjarg, hæli (sem er öruggur staður), garðyrkjumaður, brauð lífsins, vinur, ljós heimsins, meistari, læknir, konungur, kennari, skapari og hirðir.

Veit einhver hvað hirðir er?

– Hirðir er sá sem passar kindur. Sá sem er góður hirðir þekkir hverja einustu kind með nafni sem hann er að passa og kindurnar þekkja hirðinn. Þeim líður vel og þær eru öruggar þegar hirðirinn er með þeim. Jesús sagði um sjálfan sig: Ég er góði hirðirinn. Það merkir þá að við erum kindurnar sem hann er að passa.

         Einu sinni sagði Jesú dæmisögu um mann sem átti hundrað kindur. Eitt lambið týndist. Maðurinn skildi hinar 99 eftir og leitaði að þessu eina lambi. Þegar hann hafði fundið lambið var hann svo glaður að hann hélt veislu og bauð vinum sínum heim til sín. Hann var svo glaður af því honum þótti svo vænt um kindurnar sínar og hver einasta þeirra skipti hann máli. Þannig þykir Jesú vænt um okkur öll.

 

Leikur

Biðjið um 5-7 sjálfboðaliða úr hópnum. (Ef börnin í sunnudagaskólanum eru undir 10 talsins er um að gera að leyfa þeim öllum að vera með). Ef börnin þekkjast ekki látið þau segja hvað þau heita. Veljið einn til að vera hirðinn. Hinir eru kindurnar. Látið kindurnar ganga um í hring og jarma. Bindið slæðu eða trefil fyrir augu hirðisins í smástund og veljið eina „kind“ úr hópnum og látið hana fela sig undir teppinu eða lakinu. Leysið svo slæðuna eða trefilinn frá augum hirðisins og leyfið honum að spreyta sig á að finna út hvaða sauður er horfinn. Þegar sauðurinn kemur undan teppinu þá verður hann hirðir næsta leiks. Ef börnin eru of mörg í leikinn má velja annan hóp til að vera kindur í næsta holli.

 

Categories
6-9 ára Æskulýðsstarf Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla

Hlutbundin kennsla – Mattheusarguðspjall 28. kapítuli


Einföld sjónhverfing sem fjallar um upprisuna.

Hlutir
IMG_2936

 

 

 

 

 

 

– Ein króna eða annar myntpeningur (króna er best).

– Tvö lítil umslög

– Eitt stórt umslag.

– Límband (helst þykkt ).

– Hjartað, sem var notað í síðustu fræðslu (sjá páskar).

 

Undirbúningur:

Lokið öðru litla umslaginu, innsiglið það vel með límbandi og setjið síðan þetta litla umslag ofan í stóra umslagið.

IMG_2939 IMG_2940IMG_2941

Kennsla:

Munið þið hvaða hátíð var á síðasta sunnudag?

– Páskarnir.

Rifjum upp sögu páskanna. (Sýnið krónupeninginn).

króna

Hér er ég með eina krónu. Hafið þið skoðað myndina á krónunni? – Þetta er skeggjaður maður sem á að vera bergrisi, einn af landvættum Íslands. Meðan ég segi þessa sögu þá er þessi mynd á krónupeningnum í þykjustunni mynd af Jesú.

Sýnið krónuna aftur til áréttingar.

Þessi króna táknar Jesú.

Hafið krónuna ennþá sýnilega en takið fram litla umslagið.

Á föstudaginn langa dó Jesús á krossinum.  Allir voru sorgbitnir og grátandi: María, móðir Jesú og vinir og vinkonur Jesú. Jesús var tekinn niður af krossinum og klæddur í sérstök föt, sem eru kölluð líkklæði. Svoleiðis líkklæði voru notuð í gamla daga. Þeim var vafið vandlega utan um fólk sem var dáið.

Meðan þið útskýrið þetta setjið þið krónupeninginn í tóma litla umslagið og lokið því, brjótið það saman og límið á sama hátt og tóma umslagið sem þið voruð búin að undirbúa og setja í stóra umslagið.

IMG_2938IMG_2941IMG_2943

 Sýnið börnunum umslagið með krónunni í og haldið svo áfram frásögunni.

Og þegar líkami Jesú hafði verið vafinn í líkklæðin var hann settur í gröf.

Setjið umslagið með krónunni í ofan í stóra umslagið.

Gröfin hans Jesú var lítill hellir.

Lokið stóra umslaginu og haldið svo áfram með frásögnina.

Líkami Jesú var settur í gröfina og stórum steini var velt fyrir til að loka henni vel.

Hér mætti leggja enn meiri áherslu á þetta með því að innsigla umslagið rækilega með límbandinu.

Þannig leið föstudagurinn langi og þannig leið laugardagurinn.

Lærisveinarnir, vinir Jesú földu sig vegna þess að þeir voru hræddir um að verða handteknir, eins og Jesús.

Eldsnemma um sunnudagsmorguninn ákváðu nokkrar vinkonur hans að fara út að gröfinni og kanna hvort þær mættu fá að sjá hann og fá að smyrja hann. Í gamla daga var það oft gert við dáið fólk að smyrja það með smyrlsum sem ilmuðu vel.

Þær vissu samt ekki alveg hvernig þær ættu að fara að því af því steinninn fyrir gröfinni var risastór.

En þegar þær komu að gröfinni var búið að velta steininum frá.

– Um leið og þið segið þetta rífið þið efsta hlutann af stóra umslaginu.

Ofan á steininum sat engill sem sagði: Ekki vera hræddar. Þið eruð að leita að Jesú frá Nasaret, sem var krossfestur. Hann er ekki hér. Jesús lifir, hann er upprisinn.

Og konurnar fóru inn í gröfina og sáu líkklæðin hans Jesú.

– Takið nú litla tóma umslagið upp úr stóra umslaginu, rífið það upp og sýnið börnunum inn í það.

Og konurnar sáu að Jesús var ekki lengur í gröfinni.

– Margir fengu að sjá Jesú. Konurnar, lærisveinarnir og fjöldi annarra. Þegar lærisveinarnir sáu að Jesús var upprisinn voru þeir ekki lengur hræddir. Jesús sagði þeim að fara út um allan heim og segja frá því sem þeir höfðu séð og heyrt. Og Jesús sagði: Ég er með ykkur alla daga. Lærisveinarnir hlýddu Jesú. Þeir fóru út um allan heim og boðuðu trúna á hann. Þess vegna erum við hér í sunnudagaskólanum í dag.

Guð reisti Jesú upp frá dauðum til að segja okkur að þó líkaminn okkar deyi þá hættum við ekki að lifa. Við eigum eilíft líf með Guði á himnum.

Sýnið hjartað sem notað var í páskasamverunni.

Rifjum upp versið Litlu Biblíuna, sem við lærðum á páskadag:

Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Categories
6-9 ára Barnasálmar og söngvar Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla

Hlutbundin kennsla

PÁSKAR

Litla Biblían – Jóhannesarguðspjall 3:16

 

hjartaklippHlutur:
Mynd af hjarta, eða hjarta klippt út úr rauðum pappa og sett inn í Biblíu sem bókamerki. Skrifið inn í hjartað:

Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn
til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Kennsla:
Vitið þið hvaða bók þetta er?
– Biblían.
Biblían er bók um Guð og það sem Guð vill segja við okkur. Biblían er í rauninni ekki ein bók heldur margar. Í hana er safnað saman mörgum bókum sem voru skrifaðar á mjög löngum tíma, nokkur hundruð árum.
Sjáið hvað þetta eru margar blaðsíður (Gaman að segja hversu margar blaðsíðurnar eru).
Það tekur langan tíma að lesa um allt sem Guð vill segja við okkur í Biblíunni.

Nú ætla ég að segja ykkur svolítið merkilegt.
Það mikilvægasta sem stendur í Biblíunni er í raun mjög einfalt.

Opnið Biblíuna og lesið Jóh. 3:16.
Þessi orð hafa verið kölluð litla Biblían því þetta er það mikilvægasta sem Guð vill segja við okkur í einni setningu.

En skilduð þið það sem ég var að lesa?
Ég skal skýra það betur út.

Dragið hjartað sem þið teiknuðuð eða klipptuð út upp úr Biblíunni.

Sýnið börnunum hjartað.
Nei, sko. Hvað er þetta?
– Hjarta.

Þegar við sjáum svona hjarta eins og ég held á hvað dettur okkur í hug?
– Ást, kærleikur.

Af hverju skyldi hjarta vera tákn ástar og kærleika?
– Kannski vegna þess að þegar okkur þykir svo vænt um einhvern að við elskum þá getum við fundið það í hjartanu okkar.

Og mikilvægu orðin, Litla Biblían, sem ég las áðan þýða: Guð elskar heiminn, elskar okkur.
Á páskunum gleðjumst við vegna þess að Guð elskar okkur.

Þess vegna gaf hann okkur son sinn, Jesú, sem fæddist lítið barn í Betlehem, kenndi um kærleika Guðs og gerði kraftaverk. Hann síðar tekinn fastur og dó á krossinum á Golgata.

Jesús dó en ást Guðs til okkar vakti hann aftur til lífsins, reisti hann frá dauðum.

Að trúa á Jesú merkir að við trúum á ást Guðs og sú ást deyr aldrei.

Boðskapur Biblíunnar og boðskapur páskanna er mjög skýr og einfaldur. (Lesið litilu biblíuna aftur). Við getum meira að segja stytt þetta niður í þrjú orð.

GUÐ-ELSKAR-MIG

Lærum þessi orð, segjum þau saman og munum þau: Guð elskar mig!

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Ítarefni Sunnudagaskólinn

Biblíusagan – Hlutbundin kennsla

Skírdagur

(Jóhannesarguðspjall 13.1-7)

Hlutur: Kóróna úr pappa eða leikfangakóróna.

Kennsla: Sýnið kórónuna, leyfið börnunum jafnvel að prófa hana sjálf og spyrjið þau:

Hvaða fólk er með kórónu?

– Drottningar og konungar.

Hvað gera konungar?

– Þeir stjórna ríkjum, fara í stríð. Allir þjóna þeim.

Er Jesús konungur?

– Ef þau segja nei má minna þau á að vitringarnir leituðu að stjörnu hins nýfædda konungs og Jesús hefur oft verið kallaður konunugur.

Hvernig konungur er Jesús?

– Leyfið þeim að svara.  Punktar til að enda umræðuna. Jesús sagðist sjálfur hafa allt vald á himnum og á jörðinni en hann var ekki kominn til að stjórna heldur til að þjóna. Þetta sýndi hann vinum sínum, lærisveinunum skömmu áður en hann dó á krossinum.

Páskahátíðin var á næsta leyti og Jesús fann það á sér og vissi að bráðum myndi allt breytast. Hann átti marga óvini sem sögðu að Jesús væri hættulegur því hann sagðist vera sonur Guðs og vildu láta handtaka hann. Hann vissi að ef það yrði gert myndi hann deyja, verða tekinn af lífi.

Honum þótti það mjög erfitt tilhugsunar. Hann átti marga vini sem hann elskaði mikið og hann vildi alls ekki fara frá þeim.

Hann ákvað að bjóða þeim í veislu. Máltíðin var kveðjustundin hans til þeirra.

Hann gaf þeim brauð og vín og sagði þeim að í hvert skipti sem þeir kæmu saman til að borða með þessum hætti þá væri hann með þeim. Hann myndi aldrei yfirgefa þá þótt hann ætti eftir að deyja. Þetta var kveðjustund sem vinir hans gleymdu aldrei.

Meðan þeir voru að borða stóð Jesús upp, klæddi sig úr kyrtlinum sínum og vafði handklæði um mittið. Svo sótti hann vaskafat. Hann hellti vatni í vaskafatið og þvoði fætur lærisveinanna. Þetta þótti þeim skrýtið því að það var bara þjónustufólk sem þvoði fætur, ekki vinir og ALLS EKKI konungar. Jesús er öðru vísi konungur.

Allir konungar jarðarinnar láta þjóna sér.

Jesús er konungur sem þjónar öllum og kennir okkur að gera það sama. Hann kenndi okkur. Það mikilvægasta af öllu er að elska hvert annað og þjóna hvert öðru.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Hlutbundin kennsla

Bænin Faðir vor  (Mattheusarguðspjall 6. 9-13)

Hlutur: GSM sími
Kennsla: Sýnið símann og spyrjið börnin hvort þau viti hvað þetta er (sem þau gera örugglega). Til hvers notum við síma? Svar: Til að hringja í einhvern. Það er ekki nóg að vera með síma. Við þurfum að velja rétta númerið. Síminn er svo magnað tæki að ef ég vel rétt númer get ég hringt í vin minn sem á heima í útlöndum. Spyrjið börnin hvort þau kunni einhver símanúmer.
Jesús kenndi okkur að biðja, það er að tala við Guð eins og vin sem við sjáum ekki. Þegar við biðjum til Guðs þá þurfum við ekki síma. (Til að leggja áherslu á orð ykkar takið símann og slökkvið á honum eða setjið hann í vasann).
Vinir Jesú komu til hans og báðu hann að hjálpa sér að tala við Guð því þeir vissu ekki hvað þeir ættu að segja. Þá kenndi Jesús þeim bæn sem hann sagði að væri allt sem við þurfum að segja við Guð. Þessi bæn kallast Faðir vor. Það er mikilvægt að læra Faðir vor og geta beðið til Guðs með bænarinnar sem Jesús kenndi, en stundum langar mig að tala við Guð um það sem ég er að hugsa og gera og þá geri ég það með mínum orðum og það megum við líka.
Þegar við biðjum er gott að:
– Loka augunum svo ekkert sem við sjáum sé að trufla okkur.
– Hvíla hendurnar svo við séum ekki að gera neitt annað á meðan.
– Tala við Guð um allt sem við viljum. Við megum velja hvort við segjum það upphátt eða hugsum það. Guð heyrir bænirnar okkar.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Hlutbundin kennsla

Bladra 1Bladra 3Bladra 2-1 

Netið fullt af fiski (Jóhannesarguðspjall 21.1-6)

Hlutbundin kennsla

Hlutur:
Blaðra sem búið er að teikna net og fiska öðru megin en og broskarl hinu megin. Svipað og á myndinni hér til hliðar. MIKILVÆGT! Gætið þess að teikna á blöðruna meðan hún er uppblásin og hleypa síðan loftinu úr. Notið permanent penna til að teikna á blöðruna, annars geta myndirnar sjúskast, eins og greina má á ljósmynd 1, en því miður hafði ég aðeins töflutúss við hendina 🙂
Kennsla:
Leiðbeinandinn: Á ég að sýna ykkur hvað ég er með í dag? (Láta börnin svara og sýna svo blöðruna). Nei, hvað er þetta? Þessi blaðra er alveg loftlaus og tóm. Það minnir mig á sögu.
Einu sinni var Jesús að ganga með ströndinni og sá Pétur vin sinn og aðra fiskimenn koma að landi með tóman bátinn. (Haldið blöðrunni í lófanum eins og báti – mynd 1). Þeir voru búnir að reyna að veiða alla nóttina en engan fisk fengið. Jesús kallaði til þeirra og sagði þeim að kasta netinu hægra megin við bátinn. Þeir gerðu það og um leið fylltist netið af fiski. (Blásið blöðruna upp og sýnið myndina af netinu og fiskunum – mynd 2). Þetta voru svo margir fiskar að fiskimennirnir komust varla fyrir í bátnum lengur. Lærisveinarnir töldu fiskana. Fiskarnir voru 153. Lærisveinarnirn urðu mjög glaðir (sýnið broskarlinn – mynd 3) en um leið undrandi á hvernig Jesús gat þetta. Jesús hjálpaði Pétri og hinum fiskimönnunum og hann getur hjálpað okkur. Stundum jafnel á óvæntan hátt, eins og þegar tómu netin fylltust af fiski.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Dómarinn

Hlutbundin kennsla:

Hlutur: Reipi eða band 1-3 metrar að lengd.

 Kennsla:
           Sýnið bandið og biðjið um sjálfboðaliða. Látið barnið halda í annan enda bandsins og loka augunum. Segið svo að þið ætlið að kippa í bandið og þegar barnið finni kipp eigi það að segja: NÚ!

Þegar barnið er tilbúið kippið þá varlega í spottann. Þegar barnið segir „nú“ má bjóða öðrum sjálfboðaliða til leiks. Útskýrið að bandið sé að sumu leyti eins og bænin. Við getum talað við Guð og hann heyri bænirnar okkar, rétt eins og sjálfboðaliðarnir urðu varir við þegar kippt var í spottann. En það er samt ekki alltaf þannig að Guð svari okkur strax eða svari okkur eins og við viljum að hann svari bænum okkar.

Segjum sögu: Einu sinni sagði Jesús sögu af ranglátum dómara og gamalli ekkju (ekkja er kona sem hefur misst maka sinn). Að vera ranglátur er það sama og að vera ósanngjarn og Jesús bætti því við að þessi dómari hafi hvorki óttast Guð né menn. Ekkjan bað dómarann um að hjálpa sér en honum fannst hann hafa svo mikið að gera að hann sinnti henni ekkert. Ekkjan gafst ekki upp og lét dómarann ekki í friði. Á hverjum degi og oft á dag spurði hún hann á hvenær hann ætlaði að hjálpa sér. Að lokum var dómarinn orðinn þreyttur á henni og sagði við sjálfan sig: Þessi ekkja er sísuðandi í mér. Það er best að ég hjálpi henni svo ég fái frið. Og það gerði hann.

Jesús sagði þessa sögu til að benda á að þó við biðjum til Guðs alla daga og oft á dag hugsar Guð ekki eins og dómarinn í sögunni. Guð er alltaf tilbúinn að hlusta á bænir okkar og þreytist ekki á okkur. Það er þó ekki þar með sagt að við fáum allt sem við biðjum um. Stundum gerist það þannig, stundum þurfum við að bíða aðeins og stundum svarar Guð nei, en hann vill alltaf hlusta á okkur og vill okkur alltaf það besta.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Biblíusagan: Jesús kyrrir vind og sjó


Mattheusarguðspjall 8.23-27

HLUTBUNDIN KENNSLA 

Tillaga 1

Hlutir:
Krukka eða flaska með víðu opi og skrúfuðum tappa, eins og ljósmyndin sýnir. Passið að vefja límbandi utan um tappann því ekki væri heppilegt ef hann losnaði af 🙂 Smellið á YouTube myndina fyrir neðan til að sjá hvernig þetta virkar. Fyllið krukkuna/flöskuna með olíu, bláu vatni (notið matarlit) og litlum báti. Bátinn er hægt að klippa út úr plastglasi eða plastdiski. Báturinn sem ég notaði er reyndar gamall hillutappi 🙂 Athugið að það er lang flottast að hafa krukkuna/flöskuna á hvolfi þegar sagan er sögð.

IMG_2879 Screen Shot 2017-01-26 at 11.05.34

 

 Kennsla:

Ef þið notið þessa tillögu er skemmtilegast að hafa börnin nálægt sér þegar sagan er sögð. Þá sjá þau betur hvað á sér stað í krukkunni/flöskunni.

Sjáið þið hvað ég er með hér, krakkar. Þetta er lítill bátur sem ég klippti út. Sjáið hvað hann siglir fallega á sjónum. Nú ætla ég að segja ykkur sögu. Einu sinni var Jesús á ferð með vinum sínum, lærisveinunum. Þeir þurftu að ferðast með báti yfir vatn sem heitir Galíleuvatn. Þegar þeir komu um borð varð Jesús syfjaður. Hann lagði sig aftast í bátnum, í skutnum og steinsofnaði. Þegar báturinn var kominn út á vatnið versnaði veðrið. (Haldið krukkunni/flöskunni á loft og hristið pínulítið). Og á skammri stundu varð algerlega brjálað veður (Hristið krukkuna/flöskuna duglega til og frá og haldið því áfram meðan þið segið söguna). Öldurnar gusuðust inn fyrir borðstokkinn, stormurinn blés og öskraði og lærisveinarnir æptu af hræðslu en Jesús steinsvaf í öllum látunum. Vinir Jesú, lærisveinarnir, veittu því athygli, vöktu hann og spurðu:  Ætlar þú bara að sofa? Er þér alveg sama þó báturinn sé að sökkva?  Jesús vaknaði, stóð upp og kallaði á vindinn og vatnið: Hafðu hljóð! (Hættið að hrista krukkuna/flöskuna og leyfið vatninu að kyrrast). Og skyndilega hættu öldurnar að gusast, stormurinn að öskra og lærisveinarnir sem áður æptu af hræðslu urðu orðlausir af undrun. Þegar þeir loksins gátu stunið upp orði sögðu þeir hver við annan: Hvernig maður er Jesús? Vindurinn og vatnið hlýða honum. Þá lærðu lærisveinarnir að það er alltaf best að leita til Jesú, hversu erfiðar sem aðstæðurnar eru.

 

Tillaga 2

Hlutir:
Límband sem auðvelt er að ná af gólfinu aftur, rafvirkjateip sem er til í öllum byggingarvöruverslunum í litaúrvali hentar vel. (Gaffer límband hentar best en erfitt er að fá það og það er dýrt).

 Undirbúningur:
Markið bát á gólfið með límbandinu. Hann þarf að vera nægilega stór til að sá fjöldi barna sem venjulega sækir sunnudagaskólann ykkar geti komist fyrir í honum.

 Kennsla:

Bjóðið börnunum að koma um borð í bátinn af því nú ætlið þið að segja þeim sögu. Gefið börnunum tíma til að koma sér fyrir og segið síðan söguna.

Einu sinni var Jesús á ferð með vinum sínum, lærisveinunum. Þeir þurftu að ferðast með báti yfir vatn sem heitir Galíleuvatn. Þegar þeir komu um borð varð Jesús syfjaður. (Veljið eitt barnanna til að vera Jesús) Hann lagði sig aftast í bátnum, í skutnum og steinsofnaði. (Látið barnið koma sér fyrir þar, leggjast niður og þykjast sofa). Þegar báturinn var kominn út á vatnið versnaði veðrið. (Fáið bæði börnin og foreldra til að leika veðrið og ölduganginn). Og á skammri stundu varð algerlega brjálað veður (Sjáið til þess að leikurinn æsist og magnist, fólk hvæsi og blási hærra og börnin velkist enn meir um í bátnum). Öldurnar gusuðust inn fyrir borðstokkinn, stormurinn blés og öskraði og lærisveinarnir æptu af hræðslu (fáið börnin til að æpa) en Jesús steinsvaf í öllum látunum. Vinir hans, lærisveinarnir, veittu því athygli (veljið börn til að vera lærisveina sem fara til að vekja Jesú) vöktu hann (Látið börnin kalla: Vaknaðu Jesús) Og þeir spurðu hann:  Ætlar þú bara að sofa? Er þér alveg sama þó báturinn sé að sökkva? Jesús vaknaði, stóð upp (látið barnið sem leikur Jesús standa á fætur) og kallaði á vindinn og vatnið: Hafðu hljóð! (látið barnið endurtaka þau orð). Og skyndilega datt allt í dúnalogn. (Ef börnin eiga erfitt með að stoppa ölduganginn strax þá má æfa það einu sinni tvisvar að þegar „Jesús“ kallar Hafðu hljóð þá stoppi allt. Þegar það hefur tekist skuluð þið halda áfram með söguna). Þegar Jesús hafði kallað þetta hættu öldurnar að gusast, stormurinn að öskra og lærisveinarnir sem áður æptu af hræðslu urðu orðlausir af undrun. Þegar þeir loksins gátu stunið upp orði sögðu þeir hver við annan: Hvernig maður er Jesús? Vindurinn og vatnið hlýða honum. Þá lærðu lærisveinarnir að það er alltaf best að leita til Jesú, hversu erfiðar sem aðstæðurnar eru.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Biblíusagan – Vaknaðu Lasarus!

Jóhannesarguðspjall 11:1-45         

Hlutir:

Allt sem hægt er að búa til hávaða með. Til dæmis væri mjög gott að hafa vekjaraklukku (gæti verið vekjari í síma), bjöllur, lúður, gjallarhorn, pottar og pönnur.

Kennsla:
Byrjið á að biðja alla sem eru vaknaðir að rétta upp hönd. Auðvitað eru allir vaknaðir. Hægt er að spyrja hvenær krakkarnir hafi vaknað og hvort það hafi verið auðvelt eða erfitt. Stundum er nefnilega auðvelt að vakna og stundum getur það verið erfitt. Það eru til alls konar leiðir að vekja fólk. Sumir nota vekjaraklukkur eins og þessa (leyfið krökkunum að hlusta á hringinguna í vekjaraklukkunni og ef þið notið síma má jafnvel hlusta á nokkrar tegundir af hringingum, en þær geta verið mjög ólíkar að áreiti).  Sumir sofa svo fast að ekki er ekki nóg að nota venjulegar vekjaraklukkur. Þá er hægt að gera svona (berjið potta og pönnur og/eða blásið í lúður ef hægt er). Það er hægt að vekja jafnvel verstu svefnpurkur ef við getum myndað nógan hávaða.  Það er hinsvegar alveg sama hversu mikinn hávaða við búum til þá er ekki hægt að vekja dáið fólk.  En samt er einn sem getur vakið fólk frá dauðum. Það er Jesús.  Það er sagt frá því í Jóhannesarguðspjalli að vinur Jesú sem hét Lasarus dó og hann hafði verið dáinn í fjóra daga þegar Jesús ætlaði að heimsækja hann. Auðvitað gat enginn látið Lasarus lifna við, en Jesús kallaði: Vaknaðu Lasarus!  Biðjið börnin að hrópa það með ykkur: Vaknaðu Lasarus! Um leið vaknaði Lasarus frá dauðum og lifnaði við. Það er stórkostlegt að Jesús hafi mátt til að vekja fólk frá dauðum.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Biblíusagan: Daníel í ljónagryfjunni

krakkar að biðja

 

Spádómsbók Daníels 6

Hlutur:
Annað hvort mynd af einhverjum að biðja t.d. meðfylgjandi mynd eða þá að kennarinn leggur hendurnar saman og lokar augum og spyr börnin hvað hann/hún sé að gera núna.

Kennsla:
Byrjið á að spyrja börnin annaðhvort hvað börnin á myndinni séu að gera eða að þið leggið saman hendurnar ykkar og lokið augunum. Svarið er: Að biðja.
Sjáið hvað þetta er einfalt. Við lokum augunum svo ekkert annað trufli okkur, leggjum saman hendurnar því við erum ekki að gera neitt annað á meðan og svo tölum við við Guð.

Sums staðar er þetta ekki svona einfalt. Þar er fólki jafnvel bannað að trúa á Guð. Ég ætla að segja ykkur sögu sem gerðist fyrir óralöngu síðan.

Saga:
Einu sinni var maður sem hét Daníel. Daníel vann fyrir konung sem hét Nebúkadnesar. Þeir voru mjög góðir vinir. Einn daginn datt konunginum í hug að hann sjálfur, Nebúkadnesar konungur, væri Guð og það mætti ekki biðja til neins Guðs nema hans sjálfs, Nebúkadnesars konungs. Og ef einhver myndi trúa á annan Guð en Nebúkadnesar konung myndi honum verða varpað í stóra gryfju fulla af ljónum.

Daníel heyrði þetta en hætti samt ekki að biðja til Guðs. Hann fór heim, opnaði gluggann og allir gátu heyrt að hann var ekki að biðja til Nebúkadnesars konungs heldur Guðs.

Þegar konungurinn frétti að Daníel hefði beðið til Guðs varð hann mjög leiður. Honum þótti svo vænt um Daníel og vildi alls ekki láta varpa honum í ljónagryfjuna. En hann var búinn að segja þetta við fólkið og þess vegna fannst honum hann verða að standa við það sem hann hafði sagt. Þess vegna lét hann taka Daníel fastan og varpa honum í gryfjuna. Svo fór Nebúkadnesar heim að sofa en hann gat ekki sofið vegna þess að honum leið svo illa vegna Daníels og hafði svo miklar áhyggjur af honum. Þess vegna fór hann út að gryfjunni morguninn eftir og kallaði á Daníel. Hann var heldur en ekki glaður þegar hann fékk svar. Daníel kallaði á móti: Já, konungur. Ég er hér. Guð sendi engil til að passa mig og ljónin gerðu mér ekki neitt. Þá lét Nebúkadnesar draga Daníel upp úr ljónagryfjunni og sagði fólkinu að héðan í frá mættu allir sem vildu biðja til sama Guðs og Daníel.

Hægt er að enda kennsluna á að biðja börnin um að loka augum, spenna saman greipar eða leggja saman hendur, og biðja með þeim. Ef leiðbeinandi vill má meira að segja bjóða börnunum að biðja upphátt, stuttar setningar eins og: Takk fyrir lífið, blessaðu mömmu og pabba, hjálpaðu þeim sem eiga erfitt o. s. frv.