Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Brúðuleikrit – Vaka og Rebbi

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur DVD Sunnudagaskólinn TTT

NEBBANÚ

nebbs

Smellið hér. Nauðsynlegar upplýsingar um þættina.

Passinn – (Týndi sauðurinn)

Kennsluleiðbeiningar

1. hluti – sýndur

Í þessum þætti er unnið með söguna um týnda sauðinn (Lúkas 15:3-7). Nebbi á í vandræðum því blaðamannapassinn hans fýkur upp á hillu.

 

Á milli þáttahlutanna

Leikur – Að fela hlut: Krakkarnir hjálpa sunnudagskólafræðaranum að fela hlut á meðan einn sjálfboðaliði bíður frammi. Sjálfboðaliðinn á svo að leita að hlutnum á sama tíma og allir syngja eitthvert lag hátt eða lágt eftir því sem viðkomandi nálgast eða fjarlægist hlutinn. Þetta er hægt að endurtaka nokkrum sinnum. Einnig er hægt að láta krakkana alla leita að mörgum hlutum (t.d. 20 sprittkertum eða skeiðum o.s.frv.) sem búið væri að fela víðsvegar um rýmið.

 

2. hluti – sýndur

Í seinni hluta þáttanna hjálpa börnin Nebba með því að blása.

 

Umræðupunktar

Spurning: Munið þið að í Biblíusögunni týndist einn sauður af hundrað. Hvað gerði hirðirinn þegar hann áttaði sig á þessu?

 

Svar: Hann leitaði og leitaði að þessum eina sauði þar til hann fannst. (Eins og þegar við leituðum í leiknum áðan.)

 

Spurning: Hvernig haldið þið að týnda sauðnum hafi liðið þegar hann var týndur?

 

Svar: Hann var örugglega hræddur og einmana. En þá er gott að vita að hirðirinn leitaði og gafst ekki upp fyrr en sauðurinn fannst. Góði hirðirinn í sögunni er Guð sjálfur, sem gefst ekki upp og hættir ekki að leita fyrr en hann finnur okkur.

 

Spurning: Nebbi týndi blaðamannapassanum sínum en fann hann svo á endanum aftur því hann gafst ekki upp. En hverju gleymdi Nebbi í lokin?

 

Svar: Hljóðnemanum sínum. Við öll eins og Nebbi getum nefnilega gleymt mikilvægustu hlutum en það gerir Guð ekki.

 

 

Munum að: Guð gleymir okkur aldrei og leitar að okkur ef við týnumst.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Brúðuleikrit – Vaka og Rebbi

Undibúningur:

  1. Hlustið á hvernig A hui ho kakou (Bless og sjáumst seinna á hawaiiísku) er borið fram á þessari síðu hér.
  2. Verið búin að biðja einhvern. Ef til vill eitthvað foreldrið að taka mynd á símann sinn af Vöku, Rebba og börnunum í lok leikritsins. Svo væri skemmtilegt að birta myndina á heimasíðu eða Facebook síðu kirkjunnar ykkar.

A hui ho kakou

 Rebbi birtist.

Rebbi: Góðan dag, krakkar.

Ef börnin svara ekki segir hann það aftur.

Rebbi: Góðan dag, krakkar. Ætlið þið ekki að segja: Góðan dag?

Krakkar: Góðan dag, Rebbi?

Rebbi: Fór af stað? Já, ég fór af stað áðan í sunnudagaskólann.

Rebbi lítur til beggja hliða og byrjar svo að haga sér eins og hann sé að leita að einhverju. Vel má láta hann kíkja undir og bak við nærliggjandi hluti.

Rebbi: Hvar er hún eiginlega?

Leitar meira. Vaka birtist.

Vaka: Ertu að leita að mér?

Rebbi er eins og hann taki ekki eftir neinu.

Vaka (kallar): ERTU AÐ LEITA AÐ MÉR, REBBI?

Rebbi hrekkur við.

Rebbi: Vaka! Ég heyrði þig ekki koma. Nei ég veit ekkert um neitt eitur.

Vaka: Ég sagði ekki EITUR. Ég sagði: Ertu að LEITA að mér?

Rebbi: Hvaða vitleysa. Þú ert ekkert feit, Vaka mín.

Vaka: Heyrirðu eitthvað illa í dag, Rebbi minn?

Rebbi: Nei, takk, ómögulega. Ég er búinn að borða.

Vaka: Ég veit það!

Rebbi: Leita? Já, þú mátt hjálpa mér að leita. Ég er að leita að myndavélinni minni.

Vaka: Myndavélinni?

Rebbi: Í kyndiklefanum? Nei, mér hafði ekki dottið í hug að leita þar.

Rebbi hverfur í smá stund. Á meðan lítur Vaka í kring um sig og leitar.

Rebbi kemur aftur.

Rebbi: Nei, myndavélin var ekki í kyndiklefanum.

Vaka: Allt í lagi. (snýr sér að Rebba og talar hátt beint í eyra hans):
ÉG SKAL FARA ÚT OG LEITA!

Rebbi: Ha? Af hverju ertu að kalla mig feitan?

Vaka hristir hausinn og fer út.

Rebbi hristir hausinn þegar hann horfir á eftir henni og þegar hún er farinn hristir hann hausinn enn meira og hættir því skyndilega.

Rebbi: Já, það tókst! Hún er farin. Hellan er farin! Ég fór í bað í morgun og fékk vatn í eyrun svo ég heyrði ekki neitt. Nú náði ég að hrista vatnið úr eyrunum og heyri vel aftur.

Vaka kemur inn og stillir sér upp við eyrað á Rebba.

Vaka: MYNDAVÉLIN ER EKKI ÚTI!

Rebbi: Óþarfi að öskra á mann. Allt í lagi, Vaka mín. Róleg.

Vaka: Nú? Ertu kominn með heyrnina aftur, Rebbi minn?

Rebbi:  Já, ég fékk smá vatn í eyrun í morgun og náði að hrista það út.

Vaka: Það var gott. En af hverju þarftu myndavél?

Rebbi:  Mig langaði svo að taka mynd af þér og krökkunum af því að þú ert að fara aftur til Hawaii í frí.

Vaka: Já, þú meinar það. Við gætum kannski beðið einhvern um að taka myndina fyrir okkur og senda okkur hana.

Rebbi: Já, eða setja hana á heimasíðu ________kirkju.

Vaka: Frábær hugmynd, Rebbi!

Rebbi: Hver er til í að taka mynd af okkur krökkunum á eftir?

Sjálfboðaliðinn gefur sig fram.

Rebbi: Jæja, Vaka mín. Nú er komið að kveðjustund. Við sjáumst hress þegar þú kemur aftur frá Hawaii.

Vaka: Að sjálfsögðu, Rebbi minn.

Rebbi: Eigum við að segja bless við krakkana áður en við tökum myndina?

Vaka: Já, gerum það.

Rebbi: Hvernig segir maður aftur bless á Hawaii.

Vaka: A hui ho kakou. Það þýðir bless og sjáumst síðar.

Réttur framburður hér.

Rebbi: A hui ho kakou. Eigum við að segja þetta öll saman, krakkar? Einn tveir og þrír: A HUI HO KAKOU.

Vaka: Bless, krakkar og sjáumst síðar.

ENDIR

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Ítarefni Sunnudagaskólinn TTT

Hlutbundin kennsla

Góði hirðirinn Mattheus 18. 12-14, Lúkas 15. 4-6, Jóhannes 10

 

Leikur

 Kennslugögn: Teppi eða lak og börnin sjálf.

 Safnið börnunum saman og segið þeim söguna.

Byrjið á að spyrja þau.

Hvernig mynduð þið lýsa Guði? Hvernig lítur Guð út?

– Leyfið þeim að svara og gefið góðan tíma í það. (Vel mætti skrifa svör þeirra á töflu eða spjald ef aðstæður leyfa).

– Leyfið mér nú að segja ykkur nokkur dæmi um það hvernig Guði er lýst í Biblíunni: Bjarg, hæli (sem er öruggur staður), garðyrkjumaður, brauð lífsins, vinur, ljós heimsins, meistari, læknir, konungur, kennari, skapari og hirðir.

Veit einhver hvað hirðir er?

– Hirðir er sá sem passar kindur. Sá sem er góður hirðir þekkir hverja einustu kind með nafni sem hann er að passa og kindurnar þekkja hirðinn. Þeim líður vel og þær eru öruggar þegar hirðirinn er með þeim. Jesús sagði um sjálfan sig: Ég er góði hirðirinn. Það merkir þá að við erum kindurnar sem hann er að passa.

         Einu sinni sagði Jesú dæmisögu um mann sem átti hundrað kindur. Eitt lambið týndist. Maðurinn skildi hinar 99 eftir og leitaði að þessu eina lambi. Þegar hann hafði fundið lambið var hann svo glaður að hann hélt veislu og bauð vinum sínum heim til sín. Hann var svo glaður af því honum þótti svo vænt um kindurnar sínar og hver einasta þeirra skipti hann máli. Þannig þykir Jesú vænt um okkur öll.

 

Leikur

Biðjið um 5-7 sjálfboðaliða úr hópnum. (Ef börnin í sunnudagaskólanum eru undir 10 talsins er um að gera að leyfa þeim öllum að vera með). Ef börnin þekkjast ekki látið þau segja hvað þau heita. Veljið einn til að vera hirðinn. Hinir eru kindurnar. Látið kindurnar ganga um í hring og jarma. Bindið slæðu eða trefil fyrir augu hirðisins í smástund og veljið eina „kind“ úr hópnum og látið hana fela sig undir teppinu eða lakinu. Leysið svo slæðuna eða trefilinn frá augum hirðisins og leyfið honum að spreyta sig á að finna út hvaða sauður er horfinn. Þegar sauðurinn kemur undan teppinu þá verður hann hirðir næsta leiks. Ef börnin eru of mörg í leikinn má velja annan hóp til að vera kindur í næsta holli.

 

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur DVD Sunnudagaskólinn TTT

Nebbanú

nebbs

Kennsluleiðbeiningar – 6. Fjallið

1. hluti – sýndur

Þessi þáttur er upphaflega skrifaður með frásöguna af því þegar Jesús ummyndaðist á fjallinu í huga (Matteus 17:1-8). Að þessu sinni tengjum við hana upprisu Jesú.

Nebbi á í vandræðum með að finna skjól fyrir miklum hávaða.

Á milli þáttahlutanna

Leikur – Hávaði og hljóð. Biðjið krakkana um að búa til eins mikinn hávaða og þau geta og þagna svo þegar sunnudagaskólafræðarinn setur höndina upp. Hægt er að safna saman pottum, sleifum, hljóðfærum og öðru sem börnin/foreldrar geta notað í hávaðasköpun sinni. Meðan á hávaðanum stendur snýr stjórnandi leiksins baki í hópinn og segir eitt einfalt orð á venjulegum hljóðstyrk. Stjórnandinn getur verið einhver sjálfboðaliði úr sal eða sunnudagskólafræðarinn sjálfur. Biðjið krakkana svo um að giska á orðið sem þau mjög líklega heyrðu ekki áður en rétt orð er uppgefið. Þá er tekin önnur umferð þar sem stjórnandinn segir nýtt orð á sama hljóðstyrk en nú í algerri þögn, þar sem börnin leggja allt frá sér, spenna greipar, loka augum og hlusta á nýtt orð. Markmiðið þarna er að allir heyri orðið hátt og skýrt. Leikinn er svo hægt að endurtaka t.d. með nýjum stjórnendum.

2. hluti – sýndur

Í seinni hluta þáttanna hjálpa börnin Nebba með því að einbeita sér með honum.

Umræðupunktar

Spurning: Í biblíusögunni heyrðum við að lærisveinar Jesú hefðu orðið hræddir þegar Jesús dó á krossinum. Hvers vegna var það?

Svar: Þeir voru hræddir um að verða handteknir eins og hann.

Spurning: Svo sáu þeir Jesú upprisinn og þá voru þeir ekki lengur hræddir. Hvers vegna ekki?

Svar: Vegna þess að þeir sáu Jesú og trúðu því að hann væri með þeim alla daga.

Spurning: Hvort var auðveldara í leiknum áðan að hlusta í hávaðanum eða þögninni?

Svar: Það var auðveldara að hlusta á orðið í þögninni því þá gátum við einbeitt okkur betur að því að hlusta. Þegar við biðjum bænir erum við að tala við og hlusta á Jesús/Guð. Við lokum augunum okkar og leggjum saman hendurnar svo ekkert trufli okkur. Þannig getum við einbeitt okkur að bæninni og átt betra samtal við Jesús/Guð.

Spurning: Hvernig fór Nebbi að því að einbeita sér þótt það væri óstöðvandi hávaði allt í kring um hann?

Svar: Með okkar hjálp og bæn til Guðs, fann hann friðinn innra með sér sem var eins og að vera uppi á háu fjalli. Eftir smá kyrrð gekk honum mun betur að undirbúa heimsóknina sína.

Munum að: Það er gott að taka frá tíma á hverjum degi í friði og ró og tala við Guð.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Brúðuleikrit – Vaka og Rebbi

GÓÐAN, SÆTAN SÚKKULAÐIDAG!

Rebbi birtist með miklum látum, hoppandi út um allt.
Rebbi: Ég er svo glaður í dag!

Það má vel láta Rebba hoppa fram til krakkanna með miklum gleðilátum (án þess þó að hræða þau). Hann má spyrja þau hvort þau séu ekki í góðu  skapi, hrópa húrra og vei og bravó en ekki minnast á af hverju.

Vaka birtist.
Vaka: Halló, Rebbi.
Rebbi tekur ekkert eftir henni.
Rebbi: Jibbí! Ég er svo glaður,
Vaka: Rebbi! Heyrirðu ekki í mér!
Rebbi tekur eftir Vöku.
Rebbi: Halló, Vaka. Gott að sjá þig. Ertu ekki í glöð í dag?
Vaka: Jú!
Rebbi: Já, þetta er frábær dagur. Mikilvægasti dagur ársins.
Vaka: Ég er alveg sammála þér, Rebbi.
Rebbi: Við erum glöð saman í dag af því …
Segja samtímis.
Vaka: Jesús er upprisinn.
Rebbi: Af því við fáum páskaegg?
Vaka: Hvað sagðir þú, Rebbi?
Rebbi: Ég fæ páskaegg! Góðan og sætan súkkulaðidag, Vaka mín!
Vaka: Góðan súkkulaðidag?  Maður á að segja: Gleðilega …
Rebbi: Allt í lagi. Gle-ði-legan súkkulaðidag!

Vaka: Þessi dagur heitir ekki súkkulaðidagur.
Rebbi: Ég veit það, en af hverju í ósköpunum ætti hann ekki að heita súkkulaðidagur?
Vaka: Af því hann heitir páskadagur.
Rebbi: Já, einmitt. Hann heitir páskadagur út af öllum páskaeggjunum og þau eru búin til úr … SÚKKULAÐI! Gleðilegan súkkulaðidag!
Vaka: Nei, Rebbi. Páskarnir heitir ekki eftir eggjunum heldur eggin eftir páskunum.
Rebbi: Nú, allt í lagi. En hvað með það?
Vaka: Páskarnir eru ekki haldnir hátíðlegir til að borða súkkulaði. Þú veist hvað gerðist á páskunum og af hverju við höldum páskana.
Rebbi: Já, auðvitað veit ég það. Til að borða sú…. (þögn).
Vaka: Borða sú? Súpu? Súrmjólk?
Rebbi: Nei, ég ætlaði að segja súkkulaði en svo fattaði ég að það getur ekki verið rétt. Segðu mér það, Vaka! Ég man þetta ekki. Af hverju eru páskarnir aftur?
Vaka: Út af Jesú.
Rebbi: Hvað með Jesú?
Vaka: Hann dó á krossinum og reis frá dauðum.
Rebbi: Já, alveg rétt. Hvernig læt ég. Ég kann meira að segja lagið.
Vaka: Lagið?
Rebbi: Já, lagið um það sem gerðist á páskunum. (Syngur) Upprisinn er hann, húrra, húrra.
Vaka: Ég hef ekki heyrt þetta lag áður.
Rebbi: Nú. Jæja. Ég skal kenna þér það. Krakkar, eigum við að kenna Vöku að syngja þetta lag? Syngjum öll saman: Upprisinn er hann, húrra, húrra. Hann lifir, hann lifir, hann lifir enn. (Ef börnin í ykkar sunnudagaskóla kunna ekki lagið kennir Rebbi þeim það líka).

Syngið þetta nokkrum sinnum með börnunum.
Vaka: Jæja, Rebbi. Nú þurfum við að fara að fara.
Rebbi: Já, við skulum fyrst kveðja krakkana. Bless krakkar. Góðan, sætan súkkulaðidag.
Vaka: REBBI!
Rebbi: Ég var að grínast! Segjum það saman. Einn, tveir og þrír!
Rebbi og Vaka: Gleðilega páska!

Categories
6-9 ára Barnastarfið Sunnudagaskólinn

Nebbanú – Páskaeggið

Á sama hátt og jólaþátturinn, sker þessi þáttur sig úr að því leyti að hann er spilaður allur í einu án þess að stoppa og hefur fyrst og fremst skemmtigildi.
Í þættinum gerist það meðal annars að Nebbi brýtur páskaegg en gaukurinn tekur á sig sökina fyrir það. Nebbi sér tengsl milli þess og hvernig Jesús tók á sig sekt mannanna en það er ekki rætt frekar í þættinum.
Vel mætti ræða hvað það merkir að taka á sig sök fyrir annan.

Categories
6-9 ára Biblíusögur DVD Sunnudagaskólinn

NEBBANÚ

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Brúðuleikrit

Brúðuleikrit – Vaka og Rebbi

Klapp, klapp

Brúðuleikrit

Vaka kemur inn syngjandi.

Vaka: Upprisinn er hann. Húrra, húrra! Hann lifir, hann lifir ….

Rebbi birtist og botnar:

Rebbi: … hann lifir enn.

Vaka: Hahahæ, Rebbi.

Rebbi: Ertu ennþá að syngja lagið sem við kenndum þér síðast í sunnudagaskólanum?

Vaka: Já, það er svo skemmtilegt. Ég er búin að vera með það á heilanum síðan og hef sungið það á hverjum degi.

Rebbi: Frábært.

Vaka: Það er samt eitt sem vantar.

Rebbi: Hvað er það?

Vaka: Klappið. Mér finnst erfitt að klappa.

Rebbi: Klappa?

Vaka: Já, það heyrist ekkert þegar ég klappa.

Rebbi: Nú?

Vaka: Sjáðu bara. (syngur) Upprisinn er hann. Húrra, húrra (vaka klappar tvisvar eins og á að gera í laginu en ekkert heyrist).

Rebbi: Heyrist ekkert þegar þú klappar?

Vaka: Nei. Framlappirnar mínar eru svo mjúkar að það heyrist ekkert þegar ég klappa.

Rebbi: Hmmm… ? Athyglisvert! Leyfðu mér að heyra aftur.

Vaka: (Syngur). Upprisinn er hann. Húrra, húrra. (klapp, klapp án hljóðs).

Rebbi: Ég er með hugmynd. Prófaðu að klappa með hausnum.

Vaka: Hausnum?

Rebbi: Já, prófaðu að lemja hausnum utan í eitthvað í staðinn fyrir að klappa.

Vaka: Heldurðu að það gangi betur?

Rebbi: Það sakar ekki að reyna. Það gengur ekki að þú getir ekki klappað. Ég skal syngja og svo klappar þú með hausnum.

Vaka: Allt í lagi. Byrjaðu þá að syngja.

Rebbi: Upprisinn er hann, húrra, húrra.

Vaka hendir sér niður með hausinn á undan.

Vaka: Ái! Þetta var vont. Það var ekki góð hugmynd að klappa með hausnum. En Rebbi?

Rebbi: Já, hvað?

Vaka: Þú verður bara að klappa fyrir mig. Ég syng og þú klappar.

Rebbi: Uuuu …. (vandræðalegur) Jæja, Vaka mín. Hefurðu fengið einhver bréf frá Hawaii nýlega?

Vaka: Já, já. En nú klappar þú. Einn, tveir, þrír, fjór. (syngur) Upprisinn er hann, húrra, húrra.

Rebbi klappar ekki.

Rebbi: Jæja, ég þarf víst að fara að drífa mig heim. Maturinn er tilbúinn.

Vaka: Af hverju klappaðirðu ekki?

Rebbi: Bara … ég, ég var að fatta að ég kann ekki heldur að klappa.

Vaka: Nú? Getur þú ekki klappað heldur?

Rebbi (dapur): Nei, ég kann það og get það ekki.

Vaka (Með gríntóni í röddinni): Ekki einu sinni með hausnum?

Rebbi (vandræðalegur): He, he.

Vaka: En það er allt í lagi, Rebbi.

Rebbi: Nei, það er ekki í lagi að hvorugt okkar kunni að klappa.

Vaka: Jú, við höfum hjálparmenn.

Rebbi: Hvað meinarðu?

Vaka: Krakkarnir geta hjálpað okkur. Við syngjum og þau klappa. Eruð þið ekki til í það krakkar? Við syngjum (syngur) Upprisinn er hann, húrra, húrra og þá gerið þið klapp, klapp?

Leyfið börnum að svara.

Rebbi: Frábært. Þá gerum við það þannig. Ertu tilbúin, Vaka?

Vaka: Já.

Rebbi og Vaka: Einn, tveir, einn, tveir, þrír, fjór. Upprisinn er hann húrra húrra.

Krakkarinir klappa. Sunnudagaskólafræðari eða fræðarar mættu hjálpa til og taka undir klappið.

Rebbi og Vaka: Hann lifir, hann lifir, hann lifir enn.

Krakkarnir klappa.

Vaka: Ha,ha. Það gerir ekkert til þó við kunnum ekki að klappa, Rebbi. Krakkarnir hjálpuðu okkur. Takk fyrir hjálpina.

Rebbi: Ekkert að þakka.

Vaka: Rebbi!

Hér mætti láta þau endurtaka sönginn og láta krakkana klappa ef stemmningin er þannig.

Rebbi og Vaka: Bless og takk, krakkar. Sjáumst næsta sunnudag.

ENDIR

 

Categories
6-9 ára Æskulýðsstarf Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla

Hlutbundin kennsla – Mattheusarguðspjall 28. kapítuli


Einföld sjónhverfing sem fjallar um upprisuna.

Hlutir
IMG_2936

 

 

 

 

 

 

– Ein króna eða annar myntpeningur (króna er best).

– Tvö lítil umslög

– Eitt stórt umslag.

– Límband (helst þykkt ).

– Hjartað, sem var notað í síðustu fræðslu (sjá páskar).

 

Undirbúningur:

Lokið öðru litla umslaginu, innsiglið það vel með límbandi og setjið síðan þetta litla umslag ofan í stóra umslagið.

IMG_2939 IMG_2940IMG_2941

Kennsla:

Munið þið hvaða hátíð var á síðasta sunnudag?

– Páskarnir.

Rifjum upp sögu páskanna. (Sýnið krónupeninginn).

króna

Hér er ég með eina krónu. Hafið þið skoðað myndina á krónunni? – Þetta er skeggjaður maður sem á að vera bergrisi, einn af landvættum Íslands. Meðan ég segi þessa sögu þá er þessi mynd á krónupeningnum í þykjustunni mynd af Jesú.

Sýnið krónuna aftur til áréttingar.

Þessi króna táknar Jesú.

Hafið krónuna ennþá sýnilega en takið fram litla umslagið.

Á föstudaginn langa dó Jesús á krossinum.  Allir voru sorgbitnir og grátandi: María, móðir Jesú og vinir og vinkonur Jesú. Jesús var tekinn niður af krossinum og klæddur í sérstök föt, sem eru kölluð líkklæði. Svoleiðis líkklæði voru notuð í gamla daga. Þeim var vafið vandlega utan um fólk sem var dáið.

Meðan þið útskýrið þetta setjið þið krónupeninginn í tóma litla umslagið og lokið því, brjótið það saman og límið á sama hátt og tóma umslagið sem þið voruð búin að undirbúa og setja í stóra umslagið.

IMG_2938IMG_2941IMG_2943

 Sýnið börnunum umslagið með krónunni í og haldið svo áfram frásögunni.

Og þegar líkami Jesú hafði verið vafinn í líkklæðin var hann settur í gröf.

Setjið umslagið með krónunni í ofan í stóra umslagið.

Gröfin hans Jesú var lítill hellir.

Lokið stóra umslaginu og haldið svo áfram með frásögnina.

Líkami Jesú var settur í gröfina og stórum steini var velt fyrir til að loka henni vel.

Hér mætti leggja enn meiri áherslu á þetta með því að innsigla umslagið rækilega með límbandinu.

Þannig leið föstudagurinn langi og þannig leið laugardagurinn.

Lærisveinarnir, vinir Jesú földu sig vegna þess að þeir voru hræddir um að verða handteknir, eins og Jesús.

Eldsnemma um sunnudagsmorguninn ákváðu nokkrar vinkonur hans að fara út að gröfinni og kanna hvort þær mættu fá að sjá hann og fá að smyrja hann. Í gamla daga var það oft gert við dáið fólk að smyrja það með smyrlsum sem ilmuðu vel.

Þær vissu samt ekki alveg hvernig þær ættu að fara að því af því steinninn fyrir gröfinni var risastór.

En þegar þær komu að gröfinni var búið að velta steininum frá.

– Um leið og þið segið þetta rífið þið efsta hlutann af stóra umslaginu.

Ofan á steininum sat engill sem sagði: Ekki vera hræddar. Þið eruð að leita að Jesú frá Nasaret, sem var krossfestur. Hann er ekki hér. Jesús lifir, hann er upprisinn.

Og konurnar fóru inn í gröfina og sáu líkklæðin hans Jesú.

– Takið nú litla tóma umslagið upp úr stóra umslaginu, rífið það upp og sýnið börnunum inn í það.

Og konurnar sáu að Jesús var ekki lengur í gröfinni.

– Margir fengu að sjá Jesú. Konurnar, lærisveinarnir og fjöldi annarra. Þegar lærisveinarnir sáu að Jesús var upprisinn voru þeir ekki lengur hræddir. Jesús sagði þeim að fara út um allan heim og segja frá því sem þeir höfðu séð og heyrt. Og Jesús sagði: Ég er með ykkur alla daga. Lærisveinarnir hlýddu Jesú. Þeir fóru út um allan heim og boðuðu trúna á hann. Þess vegna erum við hér í sunnudagaskólanum í dag.

Guð reisti Jesú upp frá dauðum til að segja okkur að þó líkaminn okkar deyi þá hættum við ekki að lifa. Við eigum eilíft líf með Guði á himnum.

Sýnið hjartað sem notað var í páskasamverunni.

Rifjum upp versið Litlu Biblíuna, sem við lærðum á páskadag:

Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.