Categories
6-9 ára Aðventa og jól Barnastarfið Sögur Sunnudagaskólinn

Músin sem breytti jólunum- sagan um Heims um ból. Einföld, myndskreytt útgáfa fyir börn

Sjá myndaseríu fyrir skjávarpa í viðhenginu hér neðst á síðunni. Best er að vista myndaseríuna í tölvuna áður en hún er sýnd.
Þau sem ekki hafa aðgang að skjávarpa mega ljósrita myndirnar og sýna börnunum þær þannig.

Þið kannist ábyggilega öll við sálminn Heims um ból. Hann er sunginn á jólunum um allan heim. Eigum við að prófa að syngja hann saman?
Það mætti halda að þessi sálmur hafi alltaf verið til en það er að sjálfsögðu ekki þannig.

Sagan hófst á ísköldu aðventukvöldi. Og ég veit ekki hvort þið trúið mér, en það var pínulítilli svangri mús að þakka að þessi fallegi og frægi jólasálmur varð til.
Kíkjum á þetta betur. Gefum litlu músinni orðið.

1. Hugsið ykkur bara hvað það er erfitt að vera svöng mús. Já og það meira að segja á sjálfum jólunum. Ég skammaðist mín svakalega mikið þegar ég neyddist til þess að fara að naga orgelið í kirkjunni. En þótt orgel sé kannski ekki matur, þá er hægt að gera sér mat úr ýmsu þegar maður er svangur. Ég áttaði mig á því að neðst á orgelinu eru pokar úr leðri. Leður er hægt að borða ef maður er alveg rosalega svangur.

2. Það var ekki fyrr en organistinn kom og ætlaði að fara að æfa sig á orgelið fyrir jólamessuna að það gerðist. Hann settist við orgelið og setti fótinn á fótstigið sem er notað til að blása lofti í það svo það geti spilað og þá kom í ljós að ég var búin að skemma orgelið.

3. En ég ætlaði reyndar ekki að skemma neitt. Þetta var bara neyð. Ég vissi það ekki áður en ég veit það núna að ef maður nagar gat á leðurpokana sem eru á orgelum, þá er bara ekkert hægt að spila á þau. Í staðinn fyrir tignarlega hljóma og tóna koma bara hljóð eins og pffff tffff pffff og það er ekki fallegt. Í staðinn fyrir að allt loftið færi upp í orgelpípurnar, fór það bara út um gatið sem ég hafði nagað og beint framan í mig!

4.Aumingja organistinn, sem hét reyndar Franz Gruber, horfði ráðþrota á orgelið.

5. Í því kom presturinn, Jósef Mohr inn í kirkjuna. Franz organisti, sagði honum hvernig orgelið léti. -Heldurðu að það sé hægt að gera við orgelið fyrir miðnæturmessuna, spurði hann en presturinn var viss um að það væri engin von til þessi.

6. En þeir ákváðu samt að skoða orgelið betur og sjá hvað væri að. Og það var þá sem allt komst upp. Þeir komu auga á mig, sökudólginn og gatið sem ég hafði nagað á belginn. Ég hef aldrei verið svona hrædd á ævinni. En þeir létu mig vera. Þeir höfðu greinilega annað og mikilvægara að gera en að eltast við mýs.

7. Ég heyrði þá tala saman og ég herti upp hugann og kíkti til þess að sjá betur.
– Heyrðu Jósef, sagði organistinn við prestinn. Hvernig í ósköpunum eigum við að fara að því að halda miðnæturmessu þegar við höfum ekkert orgel til að spila á? Presturinn klóraði sér í höfðinu og sagði svo:- Tjah…ég veit það ekki…Hmmm.

8. Svo var eins og allt í einu hefði kviknað á perunni hjá prestinum. – Heyrðu Franz, sagði hann. Ég hef ort kvæði. – Og?…, sagði Frans. -Nú þú ert svo mikill hæfileika maður að ég er viss um að þú getur búið til lag við kvæðið. Síðan getum við tveir sungið það með barnakórnum og þú spilað undir á gítar.

9.Og nú tók organistinn Franz fram gítar og byrjaði að semja lag við kvæðið.
Fljótlega gat ég heyrt lag út úr þessu hjá honum og þeir fóru báðir að syngja, hann og presturinn. Þetta var fallegasti jólasálmur sem ég hef nokkru sinni heyrt og hef ég nú heyrt þá marga, enda er ég kirkjumús! Hann hljómaði svona: Heims um ból, helg eru jól!

10. Brátt mættu krakkarnir í barnakórnum. Franz og Jósef kenndu krökkunum lagið og þau voru enga stund að læra það. Það var eins og þetta lag hefði alltaf verið til.
Þegar fólk mætti til messunnar fékk það að heyra nýja sálminn. Allir urðu stórhrifnir af sálminum- svo hrifnir að sálmurinn er orðinn frægur út um allan heim.

11.Já og mörgum finnst jólin ekki vera komin fyrr en þessi sálmur hefur verið sunginn.
Og allt mér að þakka. Litlu músinni sem beit gat á orgelbelginn.

Nú skulum við syngja þennan sálm saman.

Texti og teikningar: Elín Elísabet Jóhannsdóttir 2011

Categories
6-9 ára Barnastarfið Sögur Sunnudagaskólinn

Sagan af herra Ókeypis – Við fáum margar gjafir frá Guði – tökum eftir þeim, þökkum fyrir þær og njótum þeirra

Athugið að í viðhenginu má finna myndaseríu með þessari sögu. Það er þó vel hægt að segja sögunnar án hjálpar mynda.

1. Einu sinni var lítill kall sem vildi fá allt ókeypis. Þess vegna kölluðu vinir hans hann aldrei neitt annað en herra Ókeypis.
Að fá eitthvað ókeypis þýðir að maður þarf ekkert að borga fyrir það sem maður fær.

2. Hann fór út í Verslun Jóa og spurði Jóa afgreiðslumann hvort það væri eitthvað til í búðinni sem væri ókeypis.

3. Afgreiðslumaðurinn Jói klóraði sér í höfðinu og hugsaði sig vandlega um. Ja…þú getur fengið klaka inni í frysti. Þeir eru ókeypis, sagði hann og stóð upp til að ná í klaka handa hr.Ókeypis.

-Nei, ég hef ekkert að gera við klaka, sagði herra Ókeypis. Klakar eru búnir til úr vatni og hvað á ég svosem að gera við vatn?

Jói afgreiðslumaður hugsaði sig betur um, en hann mundi ekki eftir neinu öðru sem til var í búðinni sem væri ókeypis.

4. Herra Ókeypis fór því heim, hann labbaði, því það er ókeypis að labba. Það kostar að keyra bíl og herra Ókeypis vildi ekki gera neitt sem kostaði eitthvað. Hann flautaði lagstúf á göngunni því herra Ókeypis var allaf svo glaður þegar hann gat gert eitthvað sem kostaði ekki neitt. Og það var jú algjörlega ókeypis að flauta.

5. Herra Ókeypis vildi ekki eiga heima í eigin húsi, því það er ekki ókeypis að eiga heima í húsi svo hann reyndi að fá Völu og Óla, til þess að leyfa sér að búa hjá sér, og þá að sjálfsögðu ókeypis.

6. Vala og Óli ákváðu að leyfa herra Ókeypis að búa hjá sér í nokkra daga, ókeypis, en ef hann vildi búa þar lengur yrði hann að borga fyrir það.

7. Herra Ókeypis var mjög ánægður með þetta og flutti það allt dótið sem hann átti yfir í húsið þeirra. Þið getið auðvitað ímyndað ykkur að allt dótið sem herra Ókeypis átti hafði hann fengið gefins héðan og þaðan.

8. Þegar herra Ókeypis var búinn að búa ókeypis hjá Völu og Óla í nokkra daga, sagði Vala: – Heyrðu, herra Ókeypis. Nú ert þú búinn að búa hjá okkur, ókeypis, í marga daga og nú verður þú að flytja eitthvert annað, eða borga okkur leigu fyrir að búa hérna.

9. Svo benti Vala honum á að hann hafi reyndar líka borðað ókeypis hjá þeim, notað fötin hans Óla ókeypis og fengið að keyra bílinn hans ókeypis.
-Það er ekkert ókeypis í þessari veröld, bætti Vala við. Það kostar allt eitthvað.
Herra Ókeypis sá að það var rétt. Hann neyddist því til þess að flytja burt frá þeim.

10. Herra Ókeypis fór út í móa, en það er algerlega ókeypis að fara út í móa. Hann lagðist niður í lyngið og horfði upp í himininn. Hann fór að hugsa.

11.Ég get ekki búið ókeypis í húsi.

12.Ég get ekki verið í ókeypis fötum.

13. Ég get ekki borðað ókeypis mat.

14.Ég get ekki átt ókeypis bíl.
Hvað er þá ókeypis eiginlega. Það virðist ALLT í lífinu kosta eitthvað.

15. Á meðan herra Ókeypis lá þarna og hugsaði …
(því eins og allir vita er það algerlega ókeypis að hugsa)

…rann upp fyrir honum ljós. – Allt sem Guð gefur okkur er ókeypis og það er líka það dýrmætasta sem við eigum. Við þurfum að hafa fyrir öllu hinu sjálf eins og húsnæði, mat og hlutum.
(Kannski ekki á meðan við erum börn- en við þurfum að gera það þegar við erum fullorðin og það gerum við t.d. með því að vinna og fá pening í staðinn sem við getum notað til þess að kaupa hluti og mat með.)
En hvað er það sem við fáum ókeypis frá Guði?

Fáið börnin til þess að koma með hugmyndir

Lífið
Loftið sem við öndum að okkur
Vatnið sem við böðum okkur í
Og drekkum
Sólskinið
Gróðurinn
Náttúruna
…og hvort annað!

En stærsta gjöf Guðs…sem líka er algerlega ókeypis er besti vinur okkar Jesús Kristur sem er alltaf hjá okkur og gaf líf sitt á krossi svo við mættum lifa með honum í himnaríki.

Höfundur texta og mynda: Elín Elísabet Jóhannsdóttir 2011

Categories
6-9 ára Barnastarfið Sögur Sunnudagaskólinn

Sagan um óþekku ungana hennar Huppu hænu

Boðskapur:Huppa hæna elskar alla ungana sína þótt þeir séu misjafnlega óþekkir. Hún er tilbúin til að fyrirgefa þeim og breiða yfir það sem þeim verður á.

Athugið að myndasería fylgir sögunni- sjá viðhengið hér neðst á síðunni.

1. Huppa hæna hafði verpt átta eggjum og nú beið hún spennt eftir því að sjá þau klekjast út. Hún hélt hita á eggjunum og hugsaði afar vel um þau.

2.Svo gerðist það dag nokkurn að ungarnir tóku að skríða út úr eggjunum einn af öðrum. Þeir voru pínulitlir, gulir hnoðrar og Huppa hæna varð bókstaflega ástfangin af þeim við fyrstu sýn. Hún elskaði tístið í þeim og hún elskaði mjúka fiðrið þeirra. Henni fannst þeir algjörlega fullkomnir.
Ungarnir elskuðu líka mömmu sína. Þeim fannst gott að kúra undir mjúku, hlýju vængjunum hennar og þegar þeir voru þar fannst þeim þeir vera algjörlega öruggir. Ekkert illt gat hent þá.

3. Fyrst voru þeir ósköp ósjálfbjarga en fljótlega fóru þeir að geta hreyft sig um. Huppa mátti ekki hafa augun af þeim- þeir voru svo miklir kjánar. Þeir vildu fara hver í sína áttina og Huppa mátti hafa sig alla við að týna þeim ekki. Hún safnaði þeim saman undir vængina sína og reyndi að hafa hemil á þeim.
-Elsku litlu sætu krúttin mín, þið verðið að vera svolítið rólegir. Ég get ekki verið svona á hlaupum allan daginn, sagði hún við þá- en litlu ungarnir virtust ekkert vera að hlusta. Þeir gerðu bara það sem þeim sýndist og tístu hver í kapp við annan.

4. -Óskaplegur hávaði er þetta í ungunum þínum Frú Huppa, sagði stór hæna sem kom þar að. Svo eru þeir eitthvað svo…óþekkir. Iss ekki voru mínir ungar svona óþekkir þegar þeir voru litlir, bætti hún við. Mínir ungar voru alltaf svo þægir. Nú eru þeir orðnir merkilegir hanar og merkilegar hænur á hænsnabúi nálægt borginni, sagði hún ánægð….ja…eða pínulítið montin.
-En gaman að heyra það, sagði Huppa hæna. Það er svo gaman að sjá hvernig litlu ungarnir læra og þroskast. Bráðum læra mínir ungar líka að vera stilltir og þægir. Þeir eiga bara eftir að æfa sig svolítið í því, bætti hún við bjartsýn.
-Iss, ég hef nú enga trú á því, sagði stóra hænan og trítlaði roggin í burtu.

5. -Af hverju var hún svona neikvæð? spurði einn unginn. –Já, af hverju var hún svona reið? spurði annar. – Næst þegar ég sé hana, ætla ég sko að gogga í hana, sagði sá þriðji.
-Svona, svona litlu ungar, stillið ykkur nú. Stóra hænan áttaði sig bara ekki á því að hún væri að særa ykkur með því að segja að þið væruð svona óþekk. Kannski var hún bara að reyna að hjálpa með því að benda mér á eitt og annað sem betur mætti fara í uppeldinu.

6. -Erum við óþekk? spurði þá einn unginn.
-Þið eruð svolítið fjörug, sagði mamma þeirra og blikkaði ungana pínulítið. Smátt og smátt lærið þið að stilla ykkur betur og brátt verðið þið þægustu og bestu hænuungar sem ég hef séð.
-Þá verður sko stóra hænan hissa, sagði einn unginn. Við skulum sko sýna henni hvað við getum verið góð, bætti hann við.
-Það líst mér vel á, sagði Huppa hæna ánægð, og ég skal hjálpa ykkur að æfa ykkur.
-Hvernig gerirðu það? sögðu ungarnir.
-Ja, ég gæti til dæmis minnt ykkur á að vera ekki á þeytingi úti um allt. Ég gæti líka minnt ykkur á að hafa ekki mjög hátt, sagði hún.

7. Og nú byrjuðu ungarnir að æfa sig í því að vera stilltir. Þeir léku sér í fallegum leikjum og höfðu ekkert hátt. Þeir hlupu ekki hver í sína áttina.
Allt gekk vel þar til einn unginn gleymdi sér. Allt í einu sá hann orm. Hann skreið undan væng Huppu hænu og elti orminn, goggaði í hann og tísti hátt.

8. Þegar hinir ungarnir sáu þetta urðu þeir reiðir. – Sjáðu mamma!Hrópaði einn: – Hann er að stríða ormi!
Hænumamma kallaði á ungann sinn og sagði: – Nú gleymdirðu þér alveg- það er alveg bannað að stríða. Manstu þið eruð að æfa ykkur í því að vera stilltustu ungar í heimi!
Litli unginn varð skömmustulegur og flýtti sér að hætta að stríða orminum. En hinir ungarnir skömmuðu hann og sögðu að hann eyðilegði allt.
-Ekki vera reiðir, ungarnir mínir, sagði hænumamma og hættið undir eins að gogga! Þið eigið að vera góðir.

11.Ungamamma elskaði ungana sína mjög heitt. Þess vegna hjálpaði hún þeim að haga sér vel og fyrr en varði voru þeir orðnir hlýðnustu, stilltustu og skemmtilegust ungar í heimi.
Þegar stóra hænan kom aftur gangandi framhjá og sá hvað þeir voru orðnir þægir, varð hún alveg hissa. Hún brosti og sagði:- Þeir eru bara orðnir þægari en ungarnir mínir!
Ungamamma og litlu ungarnir urðu stolt og glöð og brostu út að eyrum!

Höfundur texta og mynda: Elín Elísabet Jóhannsdóttir 2011

Categories
6-9 ára Barnastarfið Sögur Sunnudagaskólinn

Óska- bjúgað -Tunguna er torvelt að temja/Þakklæti, vanþakklæti

Athugið að í fylgiskjali má finna 8 litríkar teikningar sem sýna má á skjávarpa um leið og sagan er sögð- einnig má ljósrita myndirnar og sýna þær þannig.
Söguna má einnig segja án mynda. Gaman væri að útfæra hana sem (brúðu)leikrit.

Sagan er ágætis dæmi um það hve torvelt það getur verið að temja tunguna. Það sem við segjum getur haft afleiðingar bæði fyrir okkur sjálf og aðra.

1. Fátækur bóndi og kona hans settust einu sinni að borði og höfðu eigi annað til matar en kartöflur.
Konan varpaði öndinni mæðulega og sagði:
,,Ó, ég vildi að við fengjum einhvern tíma eitthvað annað að borða en þessar kartöflur.“

2. Í sömu andránni stökk álfur upp á borðið og sagði:,,Þið skuluð fá þrjár óskir. Segið þið til hvað þið viljið fá.“
Konan var ekki lengi að hugsa sig um og sagði: ,,Ég vildi að ég ætti mér álnarlangt bjúga til miðdegisverðar.“

3. Boms! Bjúgað datt niður á diskinn hennar.

4. Ánægjan skein út úr konunni við þetta, en maður hennar varð bálreiður og hrópaði í bræði sinni: ,,Alltaf ertu jafn heimsk. Ekki nema það þó, að óska sér bjúga, þegar maður getur fengið langtum betra. Það væri mátulegt á þig að bjúgað að tarna yrði fast við nefið á þér.“

5. Boms. Bjúgað stökk upp á nefið á konunni.

6. Karlinn togaði í bjúgað og konan togaði á móti með nefinu en bjúgað sat sem fastast.

7. Þá klóraði bóndi sér í hökunni og sagði með grátstafinn í kverkunum:,,Sjáðu nú. Tvær óskirnar eru búnar. Nú er ekki nema ein eftir. Og ekki geturðu gengið með bjúgað á nefinu alla ævina. Nú er ekki annað ráð en að óska því burtu aftur.“

8. Bjúgað hvarf og hjónin settust aftur að kartöflunum sínum og óskuðu sér nú einskis framar.

(Texti: Úr tíu ævintýrum-Æskan 81.árgangur 1980 10.tbl.bls.15)
Teikningar: Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Categories
6-9 ára Barnastarfið Sögur Sunnudagaskólinn

Skjaldbakan og refurinn – að hjálpa náunga úr vanda

Sjá myndir í viðhenginu hér fyrir neðan.
Vistið myndirnar í tölvuna áður en þær eru sýndar.
Einnig má ljósrita þær og sýna börnunum. Þeir sem ekki hafa aðgang að neinu slíku geta líka sagt söguna án mynda.

1. Skjaldbakan og refurinn voru vinir þótt ólík væru.
Refurinn var slunginn en skjaldbakan fór sér hægt. Þau skemmtu sér konunglega saman.

2. Kvöld eitt sátu þau við ána og voru að tala saman þegar hlébarði stökk allt í einu út úr skógarþykkninu.
Þessi sterki og fallegi hlébarði var varasamur.

3. Refnum tókst að koma sér undan því hann var snar í snúningum en aumingja skjaldbakan komst ekkert.

4. Hún gat hins vegar dregið sig inn í hörðu skelina sína og vonað það besta.
Hlébarðinn krafsaði með egghvössum klónum í skelina og refurinn fylgdist logandi hræddur með því sem fram fór.
Skjaldbakan skalf af hræðslu inni í skelinni.

5. Refurinn vissi að ekki liði á löngu þar til hlébarðinn væri búinn að naga sig inn í skelina En refurinn var slunginn. Hann ákvað að segja hlébarðanum hvernig best væri að éta skjaldböku.
Hlébarðinn hlustaði vandlega, en skjaldbakan skildi ekki hvert vinur hennar var að fara. ,,Ætlar vinur minn refurinn að segja hlébarðanum hvernig ég skuli étin?“ Refurinn sagði að vandinn væri sá að skelin væri hörð og sterk og þess vegna yrði að mýkja hana upp. Hann ráðlagði hlébarðanum að fleygja skjaldbökunni út í ána og bíða eftir því að skelin myndi mýkjast svolítið.

6. Hlébarðinn var ekkert sérstaklega snjall og þess vegna fór hann að ráðum refsins. Hann fleygði skjaldbökunni út í ána. Hún sökk til botns og synti síðan burt.

7. Nú vissi hlébarðinn ekki hversu lengi hann átti að bíða. Refurinn bað hlébarðann um að bíða þar til myrkur skylli á, því það væri auðveldara að eiga við skjaldbökuna í myrkri.
Hlébarðinn beið og garnirnar í honum gauluðu og hann varð argari og argari. Smám saman áttaði hann sig á því að það hafði verið leikið á hann. Skjaldbökuna fengi hann ekki.

8. Vinirnir, refurinn og skjaldbakan skemmtu sér hins vegar konunglega og hlógu að öllu saman.

LTH-v04
Teikningar: Elín Elísabet Jóhannsdóttir 2011

Categories
6-9 ára Barnastarfið Sögur Sunnudagaskólinn

Sagan um Lalla laufblað- hér er náttúran notuð til að tala um dauðann.

1. Á stórri grein á stóra, fallega lauftrénu niðri við djúpbláu ána, hékk Lalli laufblað. Hann var fallega grænn á litinn. Hlýr sunnanvindurinn lék um hann og honum leið vel. Lalla þótti lífið dásamlegt.

2. Vinur hans, þrösturinn, sat oft á greininni og söng fyrir Lalla. Honum þótti gaman að hlusta á söng þrastarins og bað hann oft um að syngja fyrir sig söngva úr hinum stóra heimi.

3. Þrösturinn sagði honum líka frá konu sinni, henni þrastamömmu og frá ungunum sínum litlu, sem voru í hreiðrinu og þurftu að borða vel, svo að þeir gætu orðið stórir og flogið út í hinn stóra heim.

4. Þrösturinn sagði Lalla líka frá fiskunum í vatninu og frá veiðimönnunum, sem reyndu að veiða þá.
,,Hvað verður um fiskana, þegar veiðimennirnir eru búnir að ná þeim?” spurði Lalli laufblað.
,,Þeir deyja,” svaraði þrösturinn, ,,og svo borða mennirnir þá.”

5.Það þótti Lalla undarlegt. Hann spurði: ,,Borða mennirnir mig líka, þegar ég dey?!
,,Nei, það held ég ekki,” svaraði þrösturinn.
,,Hvað gerist þegar ég dey?” spurði Lalli.
,,Ég er ekki viss,” sagði þrösturinn, ,,en mig minnir að í fyrra hafi hangið laufblað á þeim stað, þar sem þú ert nú. Hann var grænn, alveg eins og þú , en svo varð hann gulur á litinn rétt áður en hann dó … svo datt hann af trénu niður á jörðina.”
,,Verð ég þá gulur líka?” spurði Lalli laufblað.
,,Ég býst við því,” svaraði þrösturinn og þar með var hann floginn til konu sinnar og unga.

6. Sumarið var gott og Lalli laufblað naut lífsins. En svo kom haustið og honum fór að líða undarlega, fannst hann vera lasinn og við fyrsta frostið fór litur hans að breytast.
Lalli laufblað fór að hugsa:,, Skyldi ég vera að deyja? Ég vil ekki deyja einn. Hvar er þrösturinn, vinur minn?”

7. Lalli varð sífellt veikari og dag einn, þegar þrösturinn, vinur hans, var hjá honum, sagði hann:,,Ég get ekki orðið grænn aftur og mér líður ekki vel. Ég held að það sé best, að ég fái að deyja. Sjáðu bara hvað ég er orðinn gulur. Vertu sæll, kæri vinur. Það var gott að eiga þig að.”

8. ,,Vertu sæll,” sagði þrösturinn, ,,ég mun sakna þín.”
Svo féll Lalli laufblað til jarðar og dó.

9. Það fór að snjóa

10.og snjórinn huldi Lalla laufblað.

11. Kaldur norðanvindurinn blés á nakið tréð. Öll laufin höfðu fallið til jarðar. Vetur konungur var genginn í garð.

12. En þegar vorið kemur að nýju, þá munu aftur vaxa græn lauf á stóra, fallega lauftrénu niðri við vatnið og þrösturinn mun aftur sitja á greininni og syngja söngva um vin sinn, Lalla laufblað, sem var honum svo kær.

13.Svo kemur sumarið…

Höfundur: Bragi Skúlason

Teikningar: Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Categories
6-9 ára Barnastarfið Sögur Sunnudagaskólinn

Vaðstígvélin

Sjá myndaseríu í viðhenginu neðst á síðunni. Myndasýninguna má hvort heldur sem er sýna með skjávarpa eða ljósrita og sýna börnunum hana þannig.

1. Það voru aðeins fáeinir dagar til jóla. Árni litli kom hlaupandi að fjósdyrunum með skólatösku dinglandi á bakinu. Honum var mikið niðri fyrir.
– Mamma, ég ætla að gefa Jesú vaðstígvélin mín, kallaði hann um leið og hann leit inn um fjósdyrnar. Hann fékk ekkert svar og kallaði því aftur, ennþá hærra:
– Mamma, það er satt. Jesús á að fá vaðstígvélin mín. Heyrirðu það mamma?
Hann á að fá vaðstígvélin mín.

2. Mamma kom út í dyrnar alveg hissa.
– Hvað ertu að segja? Svo þú heldur að Jesús þurfi að eiga vaðstígvél. Þú heldur þó ekki að hann gangi um votur í fæturna? Það sem þér getur dottið í hug – eða er þetta nú eitthvað sem þið lærið í skólanum? En sú vitleysa!
– Þetta er engin vitleysa. Það stendur skýrum stöfum í lesbókinni.
– Datt mér ekki í hug. Þú hefur verið að lesa eitthvert ævintýri.
– Nei, þetta er satt – það er nefnilega svoleiðis; að þegar við gerum eitthvað til hjálpar þeim sem eiga bágt – já, þá hjálpum við Jesú um leið.

3. Við lásum um riddara í skólanum í dag. Hann kom ríðandi á hestinum sínum og var svo rosalega kalt, en hann var í einhverri kápu eða skikkju, sem hann gat vafið um sig. Þetta var mjög hlý flík. Þá sá hann einhvern vesaling sem var svo kalt, svo hann, ég meina riddarinn tók sverðið sitt og skar kápuna í tvennt og gaf fátæka manninum helminginn af flíkinni – skikkjunni meina ég. Nokkru seinna sá hann Jesú koma gangandi í hálfri kápu. Þú getur nú rétt ímyndað þér, hve riddarinn varð sneyptur – hugsa sér – að gefa honum bara hálfa kápu. Hann átti nú auðvitað að gefa honum alla kápuna.

4. – Mér finnst nú riddarinn hafi vel gert, sagði mamma. Það myndu nú ekki allir vilja gefa helminginn af kápunni sinni – flestir hefðu nú viljað eiga allt sjálfir og ekki gefa neitt. Árni stóð um stund í djúpum hugsunum, sagði síðan mjög lágt: Mér finnst nú, að þetta hafi verið hálfgerð níska. Hefði ég verið í hans sporum, hefði ég gefið honum alla kápuna.
– Það myndir þú eflaust hafa gert. Mamma klappaði honum á vangann. En kemur þetta nokkuð vaðstígvélunum þínum við? bætti hún við brosandi.

5. – Já, ég gæti nú ekki hugsað mér að gefa bara annað stígvélið. Þetta er satt mamma. Jesús á að fá vaðstígvélin mín. Hann er nú eiginlega búinn að fá þau. Ég skipti á stígvélunum við hann Jóa í Koti. Þú veist hver það er? Hann á heima í gamla bænum á bak við skólann. Það segja allir að foreldrar hans séu svo fátækir.
– Mamma hans fórnaði höndum. Ég á nú ekki eitt einasta orð. Ertu að segja mér að þú hafir skipt á stígvélunum? Hún snarstoppaði og starði á Árna. Ég held að þú sért orðinn alveg hringasnarvitlaus. Hvað ertu með á fótunum? Handónýta garma!

6.- Hún þreif til drengsins og dröslaði honum inn fyrir fjósdyrnar. Ég skipti við Jóhann – skipti við Jesú –hö – hö – hö.
– Hefurðu virkilega gefið vaðstígvélin þín? Mamma hans var reið. Hún beygði sig niður og tók upp sokkana hans. Hann var votur langt uppá leggi. Stígvélin voru gatslitin, stór göt á hælunum og stóra táin á öðrum fætinum stakk sér út um gat. – Svona, komdu inn, þú færð bara lungnabólgu af því að vera svona votur. Klæddu þig úr votu sokkunum og farðu í þurra. Ég skal tala við foreldra Jóa. Það er engin meining í því að þú látir gabba þig svona.
– Ég var ekkert gabbaður. Við skiptum á leiðinni heim úr skólanum. Jói vildi ekki taka við stígvélunum, en ég sagði honum að hann yrði að gera það, sagði Árni, ennþá grátandi.
– Gráttu ekki, sagði hún. Þetta lagast allt. Ég skal tala um þetta við hann pabba þinn.
– Fær þá Jesús – ég meina Jói – að halda stígvélunum?
– Við skulum sjá. Hún strauk honum um vangann með mildri móðurhendi, ýtti honum varlega út úr fjósinu og lokaði dyrunum.
Foreldrar Árna voru ágætisfólk. Þeim fannst að vísu ekki alveg nógu gott af drengnum að gefa frá sér stígvélin, en þau gátu ekki fengið af sér að breyta því, svo Jói fékk að hafa þau áfram.

7. Á þriðja dag jóla var jólatrésskemmtun í skólanum. Þar voru einnig foreldrar krakkanna viðstödd. Það var alveg troðfullt af fólki, börnum og fullorðnum.
Jói í Koti var þarna líka í fínu vaðstígvélunum sínum. Enginn hafði séð hann svona glaðan áður. Hann gekk í kringum jólatréð og ljómaði eins og sólin. Þegar skemmtunin stóð sem hæst, kom kennslukonan upp að mömmu Árna og þakkaði henni.
Þú átt góðan dreng. Hann hefur hjartalag, sem allir ættu að hafa. Það var ekki annað séð en að Jói þyrfti að vera heima um jólin, hann átti ekki skó á fæturna, og hann hefði ekki komist hingað á jólatrésskemmtunina. Mamma hans sagði mér þetta. Hún grét af þakklæti, þegar hún sagði mér þetta.
Mamma hans Árna vöknaði um augun, og hún brá vasaklútnum sínum upp að augunum svo lítið bar á. Mér þykir verst að hann skuli ekki hafa fengið sokka líka, sagði hún. Það skal vera mitt fyrsta verk þegar ég kem heim að senda honum sokka. Hún renndi augunum að jólatrénu, þar gengu börnin í kring, héldust í hendur og sungu jólasöngva.
Skyndilega sá hún nokkuð sem enginn annar sá. Hún sá það með augum sálarinnar. Í miðjum hringnum gekk Frelsarinn og hélt í höndina á drengnum hennar. Hann brosti og kinkaði kolli. Það var eins og elding færi um hana alla. Hvað var þetta, sem hún sá? Frelsarinn var í vaðstígvélum – stígvélunum, sem drengurinn hennar hafði gefið Jóa.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Sögur Sunnudagaskólinn

Bærinn sem gleymdi jólunum

Sjá myndaseríu fyrir skjávarpa í viðhenginu hér fyrir neðan.
Þau sem vilja geta prentað myndirnar út og sýnt börnunum þær þanni.
Að sjálfsögðu er einnig hægt að segja söguna án mynda.

1. Langt uppi í fjöllum kúrði lítill bær. Fólkið sem bjó þar var ósköp venjulegt og hversdagslegt fólk.
En það skar sig úr hvað eitt snerti. Það átti svo auðvelt með að gleyma og allir gleymdu því sama á sömu stundu.

2. Ef einn gleymdi að fara í skó einhvern daginn þá var það segin saga að allir gleymdu því samtímis og gengu um skólausir.

3. Og öllum varð kalt á fótunum.
„Hverju höfum við nú gleymt í dag?“ var oft spurt og engin gat áttað sig á því fyrr en einhver kom auga á skó eða eitthvað annað sem hafði gleymst þann daginn. Síðan var boð látið út ganga um hvað hafði gleymst.

4. Einu sinni gerðist það meira að segja að fólkið gleymdi að borða! Margir dagar liðu án þess að nokkur borðaði og svo fór að allir veiktust.

5. Þá var kallað á lækninn. En hann hafði líka gleymt að borða og var því veikur eins og hinir.

6. Það bjargaði málum að læknirinn kom skyndilega auga á mús með ostbita í munninum og þá mundi hann hvað hafði gleymst. Hann flýtti ér að borða og dreif sig til fólksins og sagði því að borða undir eins því það hefði nefnilega gleymst í þetta sinn. Allir hresstust auðvitað við og urðu fljótt sprækir.

7. En nú gerðist dálítið voðalegt. Fólk gleymdi að jól voru á næsta leiti.
Aðfangadagur gekk í garð og enginn tók eftir því. Þess vegna tók enginn til. Enginn skreytti hjá sér og enginn setti upp jólatré. Og í búðunum var ekkert sem minnti á jólin. Ekki minnsta skraut, hvorki englar né jólasveinar. Engar bækur. Engin ljós. Ekkert!

8. Í litlu húsi efst í bænum var lítil stúlka að leika sér. Hún gekk um gólf og var hugsi. Hún var bara fimm ára og var vön að leika sér, hlaupa um og hoppa. En nú gekk hún bara um og hugsaði. Hún rölti út í skóg og horfði á litlu greintrén.
„Nú höfum við örugglega gleymt einhverju,“ sagði hún við sjálfa sig. „Þessi litlu tré minna mig á eitthvað en ég veit ekki hvað.“

9. Hún fór aftur inn til sín og sótti skæri og gráan pappír. „Skærin minna mig á eitthvað,“ hugsaði hún, en kom því ekki fyrir sig.

10. Hún gekk út í hlöðu og kom þar auga á kornknippi. „Þetta kornknippi minnir mig líka á eitthvað,“ hugsaði hún með sér. Hún stóð þarna stundarkorn og horfði í kringum sig. Þá kom hún allt í einu auga á stöngina sem notuð var til að festa kornknippið á um jólin. Þá mundi stúlkan að jólin voru að koma! Fólkið í þessum bæ var nefnilega vant því að festa kornknippi á stóra stöng þegar jólin voru að koma. Þetta var þeirra gamli og góði siður.

11. „Það er aðfangadagur!“ hrópaði hún upp með sjálfri sér.

12. „Hvernig get ég minnt alla á að jólin eru að koma? sagði stúlkan við sjálfa sig.

13.Hún reyndi að draga stöngina út til að setja kornknippið efst á hana. En það tókst ekki því stöngin var svo þung. Þá kom henni ráð í hug.
Fánastöngin! Hún gæti dregið kornknippið upp eins og fána! Og það réð hún við. Nú blakti kornknippið í golunni svo allri gátu séð.

14.Hátt uppi í grenitré þar skammt frá var lítill fugl og sá til litlu stelpunnar.

15. Hann barði vængjunum sínum ótt og títt svo snjórinn þyrlaðist niður úr greinunum.

16.„Hvert ertu eiginlega að fara?“ tístu hinir fuglarnir sem sátu dottandi í skjóli greinanna og hristu af sér snjóinn.„Það eru að koma jól! Jólin eru að koma! Litla stúlkan hefur dregið upp kornknippið,“ söng litli fuglinn fagnandi.
„Jól! Við komum líka með!“ sungu hinir fuglarnir.

17. „Hvert eruð þið að rjúka? spurðu starrarnir sem sátu hnípnir á símalínum. Í rósarunna við símstöðina var alltaf fjöldi fugla og nú hófu þeir sig til flugs þegar þeir heyrðu hvað væri á seyði.

18. Konurnar á símstöðinni hlupu út að glugganum til að sjá hvert allir fuglarnir væru að fara, því það kom svo mikill hvinur frá þeim og þá sáu þær kornknippið á fánastönginni. Símakonurnar voru ekki seinar á sér að hringja í allar áttir og segja hvað hefði gleymst í þetta sinn. Jólin voru á næsta leiti!
„Það eru jól!“ Jólin eru að koma,“ sungu litlu fuglarnir og flögruðu um allt.
„Við komum líka með!“ sungu starrarnir kröftuglega og hófu sig allir til flugs þar sem þeir sátu á símalínunum.
Og vesaling símakonurnar fengu verk í eyrun þegar starrarnir spyrntu sér allir samtímis af símalínunni.

19. Nú varð uppi fótur og fit í bænum. Ilmur af kökum barst um öll hús og ljúffeng jólasteikin kraumaði í ofni. Allir tóku að undirbúa jólin og enginn lét sitt eftir liggja.

20. Ekki mátti gleyma jólabaðinu! Járnsmiðurinn í bænum hafði smíðað risastóran bala meðan allir voru að undirbúa jólin og nú var hann fylltur af vatni. Allir í bænum böðuðu sig í þessum bala samtímis.

21. Þegar því var lokið og allir komnir í sitt fínasta púss og mamma litlu stúlkunnar búin að binda rauðan borða í hár hennar, þá hringdu kirkjuklukkurnar jólin inn. Já, jólin voru komin!

Úr bókinni Framtíðarlandið

Categories
6-9 ára Barnastarfið Sögur Sunnudagaskólinn

Að elska Guð af öllu hjarta

Nú er komin myndasería fyrir skjávarpa með þessari sögu. Athugið að vel er hægt að segja söguna án myndaseríunnar en oft gengur börnum betur að hlusta þegar þau hafa eitthvað að horfa á.

1. Hvernig get ég elskað Guð af öllu hjarta og samt elskað þig, pabba og litla bróður, afa og ömmu, spurði Gunnar mömmu sína, kvöld eitt þegar þau voru að elda kvöldmatinn.
– Ef ég elska Guð af öllu hjarta, er ekkert pláss eftir til að elska ykkur.

2. Mamma rétti Gunnari fötu.
– Farðu niður í kjallara og fylltu fötuna af kartöflum. Gunnar hlýddi mömmu sinni.

3. Honum fannst svolítið skrýtið að mamma skyldi ekki svara spurningunni.
Hann fór niður í kjallara og gerði eins og mamma hans hafði beðið um.

4-9. Brátt var fatan full af kartöflum. Hann kom upp með fötuna.
Mamma hans tók við henni og setti hana á eldhúsgólfið.

10.- Er fatan full núna? spurði hún.
– Já, það sýnist mér, svaraði Gunnar.

11. Mamma teygði sig upp í skáp og náði í stóran poka af baunum.

12. Hún hellti úr baunapokanum ofan í fötuna. Gunnar starði á mömmu sína, var hún orðin eitthvað verri?!

13-16. Baunirnar smugu inn á milli kartaflnanna og brátt var fatan full af baunum og kartöflum.

17. En mamma var ekki búin enn. Hún náði í sykurpoka upp í skáp.

18-20. Hún stráði úr honum ofan í fötuna, yfir kartöflurnar og baunirnar. Sykurinn smaug á milli kartaflanna og baunanna. Brátt var fatan full af kartöflum, baunum og sykri. Gunnar horfði undrandi á.

21. Mamma reisti sig upp og dustaði sykurinn af sér og sagði:
– Sjáðu nú til, Gunnar minn. Ef þessi fata væri hjartað þitt og kartöflurnar sem fylla fötuna væri kærleikur þinn til Guðs, væri samt ennþá nóg pláss til þess að elska ýmsa aðra. Sástu hvernig baunirnar smugu inn á milli kartaflnanna?
Gunnar kinkaði kolli.
– Þegar baunirnar og kartöflurnar fylltu fötuna var samt nóg pláss fyrir sykurinn.

22.Þannig er nóg rúm í hjartanu til að elska Guð, náunga okkar og sjálf okkur. Nú skildi Gunnar þetta betur. Nú skildi hann að það var endalaust pláss í hjartanu hans til þess að elska Guð af öllu hjarta og samt elskað mömmu sína, pabba, litla bróður og afa og ömmu.

Endursagt: Elín Elísabeta Jóhannsdóttir
Myndasería í viðhengi: Elín Elísabet Jóhannsdóttir 2011

Categories
6-9 ára Barnastarfið Sögur Sunnudagaskólinn

Pétur, Anna og kirkjuklukkurnar

Sögu þessari fylgir myndasería fyrir skjávarpa. Sumum myndunum fylgja einhver hljóð þannig að nú er um að gera að sperra eyrun (þegar notaður er ppt fællinn. Hljóðin heyrast því miður ekki í pdf fælnum). Smellið með músinni á myndina ef og þegar þið viljið losna við hljóðin eða setja hljóðin aftur á.

Athugið að vel er hægt að segja söguna án myndaseríunnar.

Þessi saga er samin með það til hliðsjónar að litlum börnum finnst gaman að heyra endurtekningar.

1. Bimm, bamm, bimm, bamm, heyrðist um allan bæinn.

2. Pétur og Anna voru kominn upp í kirkjuturninn. Þau gátu horft yfir bæinn, í allar fjórar áttirnar, út um gluggana á kirkjuturninum. Það var skrýtið að standa svona hátt uppi og horfa niður á öll litlu húsin, bryggjuna, höfnina og hafið. Þeim hafði verið falið að hringja kirkjuklukkunum þennan sunnudag.

3. Nú var kominn tími til að láta klukkurnar hætta að hringja. Þau horfðu niður úr kirkjuturninum og biðu í ofvæni eftir því að sjá fólk koma streymandi til kirkjunnar
4. En enginn kom! Hvar er allt fólkið? Af hverju kemur enginn? Ætli við höfum ekki hringt klukkunum nógu lengi?

5. Pétur og Anna urðu svolítið vonsvikin. Þau höfðu vonað að hringingin þeirra hefði mikil áhrif. Þau höfðu lagt sig svo mikið fram. Þau settust á turngólfið. Þau heyrðu sálmasöng berast hægt og virðulega alla leið upp í turninn.
– Kæri Jesús, báðu þau hljóðlega. Þér hlýtur að þykja leiðinlegt hvað það koma fáir í húsið þitt í dag. Hjálpaðu okkur að fá fleiri til þess að koma.

6. Þau risu á fætur. Þau ákváðu að fara út og finna fólk og bjóða því að koma í kirkjuna.
Fyrst hittu þau gamlan mann. Gamli maðurinn sat á bekk.
– Góðan daginn, gamli maður, heyrðir þú í kirkjuklukkunum? spurðu þau kurteislega.
Gamli maðurinn leit á börnin.
– Já, vissulega heyrði ég í þeim. Það er notalegt að sitja hér á bekknum í góðu veðri og hlusta á kirkjuklukkurnar.
– Það vorum við sem hringdum klukkunum. Við gerðum það eins vel og við gátum. Samt kom enginn í kirkjuna. Vilt þú koma?

7. Gamli maðurinn brosti. Hann reis stirðlega á fætur og tók í hönd Péturs.
Á vegi þeirra varð málari. Hann var að mála grindverk.
– Góðan daginn, sögðu Petur, Anna og gamli maðurinn kurteislega. Heyrðir þú í kirkjuklukkunum?
– Já, það gerði ég, sagði málarinn hressilega.
– Það vorum við sem hringdum klukkunum. Við gerðum það eins vel og við gátum.
Samt kom enginn í kirkjuna. Vilt þú koma?

8. (Hér heyrist mjálm. Ýtið átakkann í hægra horninu á skjánum til að láta kisu mjálma aftur). Málarinn gekk frá penslinum sínum og slóst í för með Pétri og gamla manninum.
Næst varð á vegi þeirra ung kona með barn í kerru.
– Góðan dag, sögðu Pétur, Anna, gamli maðurinn og málarinn. Heyrðir þú í kirkjuklukkunum?
– Já, það gerði ég, sagði unga konan.
– Það vorum við sem hringdum klukkunum. Við gerðum það eins vel og við gátum. Samt kom enginn í kirkjuna. Vilt þú koma?
Unga konan tók vel í það.
– Jú, ég er hvort sem er í göngutúr með barnið mitt. Kannski ég komi með ykkur.

9. Nú sáu þau tvær stelpur. Þær voru að sippa.
– Góðan daginn, sögðu Pétur, Anna, gamli maðurinn, málarinn, unga konan og barnið í vagninum.
– Góðan daginn, sögðu stelpurnar.
-Heyrðuð þið í kirkjuklukkunum?
-Já, það gerðum við, sögðu stelpurnar.
– Það vorum við sem hringdum klukkunum. Við gerðum það eins vel og við gátum.Samt kom enginn í kirkjuna. Viljið þið koma?
Stelpurnar gengu frá sippuböndunum og slógust í för með þeim.

10. Á gatnamótum sat skeggjaður maður í bíl.
-Góðan daginn, sögðu Pétur, Anna, gamli maðurinn, málarinn, unga konan, barnið í vagninum og stelpurnar tvær. – Ekki vildir þú koma með okkur í kirkjuna?
Skeggjaði maðurinn tók vel í það. Hann lagði bílnum sínum og fór með þeim.

11. Nú voru þau næsum því komin að kirkjunni. Þar sáu þau gamla konu. Hún stóð upp við húsvegg og naut sólarinnar.
-Góðan daginn, sögðu Pétur, Anna, gamli maðurinn, málarinn, unga konan, barnið í vagninum, stelpurnar tvær og skeggjaði maðurinn.
-Vilt þú koma með okkur í kirkjuna?
Það glaðnaði yfir gömlu konunni. Henni fannst þetta vera góð hugmynd. Hún slóst í för með þeim.

12. Maður sat í hjólastól, sat upp við kirkjutröppurnar.
-Góðan daginn, sögðu Pétur, Anna, gamli maðurinn, málarinn, unga konan, barnið í vagninum, stelpurnar tvær, skeggjaði maðurinn og gamla konan.
-Ekki vildir þú koma með okkur í kirkjuna?
-Jú, sagði maðurinn í hjólastólnum, þið verðið bara að hjálpa mér upp tröppurnar. Og þótt það þyrfti ekki svona marga til þess að lyfta stólnum upp tröppurnar, hjálpuðust allir að.

Þau gengu inn í kirkjuna, Pétur, Anna, gamli maðurinn, málarinn, unga konan, litla barnið, stelpurnar tvær, skeggjaði maðurinn gamla konan og maðurinn í hjólastólnum.
-Nú verður Jesús glaður. Í dag koma margir í húsið hans, hugsuðu Pétur og Anna ánægð.
Ég var glaður, er menn sögðu við mig: ,,Göngum í hús Drottins.“ (Sálm.122:1)