Categories
6-9 ára Barnastarfið Sögur Sunnudagaskólinn TTT

Sagan um græna hjólið

Þeir sem vilja geta nýtt sér myndaseríuna í viðhenginu. Betra er að vista hana í tölvuna eða á kubb þegar hún er sýnd í starfinu, en að vera með tölvuna nettengda meðan á sýningu stendur.

1. Stúlka nokkur ætlaði að mála hjólið sitt. Hún fór og keypti græna málningu. Grænt var uppáhaldsliturinn hennar. En stóri bróðir hennar sagði þá við hana: „Svona grasgrænt hjól hef ég nú aldrei séð. Málaðu það heldur rautt, það er miklu fallegra.“

2. Stúlkunni fannst rautt raunar einnig fallegur litur. Hún fór og keypti rauða málningu og málaði hjólið.

3. En vinkona hennar kom og sagði: „Það eru allir á rauðum hjólum, af hverju málarðu það ekki heldur blátt?“
Stúlkan hugsaði sig um og málaði hjólið svo blátt.
Þá kom strákur úr nágrenninu og sagði: „Blátt? Það er eitthvað svo dökkt. Gult er miklu glaðlegri litur.“

4.Og stúlkan var eiginlega sammála honum innra með sér og útvegaði sér gula málningu. En þá var það kona nokkur í sama húsi sem sagði: „Þetta er ljótur gulur litur.

5. Hvers vegna ekki að mála hjólið í bleikum lit, það finnst mér fallegt.“ Og svo málaði stúlkan hjólið sitt bleikt.

En þá birtist bróðir hennar aftur og kallaði til hennar: „Þú ætlaðir að mála hjólið rautt. Bleikt er asnalegur litur. Fáðu þér rauða málningu.“

6. En þá hló stúlkan og náði í grænu málningardósina og málaði hjólið sitt grænt, grasgrænt.
Og henni var alveg sama hvað aðrir höfðu sagt.

Úr bókinni Græna hjólið.
Ursula Wölfel
Dr. Gunnar Kristjánsson þýddi.