Categories
Átak í kreppunni

Viltu auðvelda foreldrum fermingarbarna undirbúninginn fyrir veisluna?

Upplýsingar fyrir foreldra fermingarbarna

Það er engin skylda að halda fermingarveislu, en þar sem flestir gera það má finna hér upplýsingar sem gætu auðveldað undirbúninginn og geta einnig stuðlað að því að gera veisluna ódýra en góða.

Þær spurningar sem helst brenna á vörum þeirra sem eru að fara að halda veislu geta verið þessar:
Hvað þarf mikið af mat?
Hvað þarf mikið af tertum?
Hvað þarf mikið af brauði eða brauðtertum?
Hvað þarf mikið af heitum réttum?
Hvað þarf mikið af gosi?
Hvað þarf mikið af kaffi?

Til þess að flýta fyrir og auðvelda foreldrum undirbúning veislunnar má hér að finna svör öllum þessum spurningum. Hér fylgja einnig uppskriftir af góðum réttum sem ekki kosta svo ýkja mikið en eru samt saðsamir og flottir á hvaða borð sem er.

Hlaðborð:
Tveir kaldir forréttir og tveir kaldir aðalréttir.
Tveir heitir aðalréttir (kjöt)

250 gr. af hreinu kjöti á mann það er beinlausu og óelduðu.
75f gr. Fiskur t.d. í forrétt.
½ dl. af sósu.
Meðlæti: u.þ.b. 100 gr. af kartöflum á mann og 100 gr. af salati eða öðru grænmeti eins og baunum, rauðkáli og þessháttar.

Kaffiboð:
Gos: ½ lítra á mann
Kaffi: 3 bollar á mann.
3 tegundir af tertum
2 tegundir af köldu brauði
1 heitur réttur

Magn:
Ein venjuleg stærð af hringlaga tertu sem sögð er u.þ.b. 12 manna dugir fyrir u.þ.b. 20 manns.
Brauðterta sem er fjögurra laga jafnstór og rúllutertubrauð (ef það er flatt út) dugar fyrir 40 manns.
Smurt brauð (kaffisnittur) eru áætlaðar 3 stk. á mann.
Heitir réttir í eldföstu móti stærð 23cm x 33cm duga fyrir 15-20 manns.

Veislusamsetningar

Árverður ( Brunch )
Matarmikil súpa
Góð brauð
Álegg
Ávextir
Fermingarterta

Hádegishlaðborð
Kaldur fiskréttur
Kaldur kjötréttur
Heitur kjötréttur
Pastasalat
Brauð
Meðlæti með réttunum
Fermingarterta

Kaffihlaðborð
Marsípanterta
Marensterta
Súkkulaðiterta
Brauðterta
Snittur
Heitur réttur

Síðdegis og kvöldverðar hlaðborð
Tveir forréttir t.d. einn með fiski og hinn með kjöti
Einn kaldur fiskréttur
Einn kaldur kjötréttur
Tveir heitir kjötréttir
Pastasalat
Meðlæti
Fermingarterta

Uppskriftir af tveimur matarmiklum súpum

Karrýsúpa
3 msk. grænmetiskraftur
3 msk. kjúklingakraftur
3 msk. tómat puré
3 msk. karrý ekki sterkt
1 lítri vatn.

Þetta er soðið saman í u.þ.b. 25 mín og þá er tveimur pökkum af maísena sósujafnara skellt úti og hrært saman þar til það verður að þykkum graut. Kælt.

Þá er að laga sjálfa súpuna.

Ein msk. af þessum grunni er fyrir eina manneskju, svo þú tekur eins mikið af grunni og þú þarft, en allur þessi grunnur dugar fyrir 30 manns.

Síðan setur þú grunn, ananaskurl og rjóma saman í pott og hitar, setur síðan allt það grænmeti sem þú vilt og skelfisk eða kjúkling líka
Hitar allt upp að suðu nema ef þú ert með hráan kjúkling þá læturðu sjóða í u.þ.b. 10 mín.
Súpan tilbúin.

Mælt er með að setja frosna brokkolí blöndu, frosinn maís, frosna sveppi, ferskan púrrulauk og kjúklingabringur í þessa súpu sem gerir hana að lostæti með góðu brauði.

Magn miðað við 30 manns
6 dósir af ananaskurli 425 gramma
6 lítra af rjóma
4 kg kjúklingabringur í smábitum
2 poka af brokkolí blöndu
2 poka af maís
4 poka af sveppum
3 púrrulauka smátt saxaða.

Ungversk gúllassúpa
Magn miðað við 6-8 manns

600 gr. nautagúllas
3 msk. ólífuolía
400 gr. hráar kartöflur
3 stk. laukar
6 stk. hvítlauksrif
2 stk. rauðar paprikur
2 dósir tómat puré
6 dl. vatn
4 dl. mjólk
1 tsk. Oregano
1 tsk. Kúmen (fræ)
3 tsk. Paprikuduft
salt og svartur pipar

1 dós sýrður rjómi 18%

Aðferð:
Takið stóran pott og brúnið kjötið í honum í olíunni smá stund og bætið þá við söxuðum lauk og hvítlauk svissið í smá stund í viðbót.
Látið kartöflur í teningum, papriku í teningum, tómat puré og kryddið úti og vatnið. Hrærið vel saman og látið sjóða í u.þ.b. 40 mín, eða þar til kjötið er orðið meyrt. Bætið mjólkinni saman við og látið malla í u.þ.b. 10 mín í viðbót.

Berið fram með sýrðum rjóma og steinselju ef vill.

Fylltar kjúklingabringur með rjómaosti og pestó
Magn: Miðað við 4

4 stk. kjúklingabringur
2 dósir rjómaostur með sólþurrkuðum tómötum
½ dós sólþurrkaðir tómatar í olíu
1 dós svartar ólífur
1 dós grænar ólífur með papriku
1 dós hvítlaukur í olíu
½ dós grænt pestó
½ dós rautt pestó
½ dós fetaostur

Aðferð:
Skerið vasa í bringurnar fletjið þær út og smyrjið með rjómaostinum leggið tvær sneiðar af sólþurrkuðum tómötum yfir ostinn og þrjár svartar ólívur skornar í tvennt yfir tómatana lokið bringunni og setjið í eldfast mót.
Smyrjið pestóinu yfir bringurnar, fyrst græna svo rauða, stráið síðan grænu og svörtu ólífunum yfir þá hvítlauknum og fetaostinum.

Bakið í ofni við 180 gr. í 35 mín.

Borið fram með hrísgrjónum og góðu grænu salati.

Höfundur:
Ásdís Hjálmtýsdóttir

Categories
Átak í kreppunni

Fermingarstörf Þjóðkirkjunnar MA ritgerð Torfa K.Stefánssonar Hjaltalín

Tilgangur þessarar ritgerðar er að rannsaka námsefnis- og námskrárgerð í fermingarstörfum
íslensku þjóðkirkjunnar. Í því skyni hafa verið notaðar bæði eigindlegar og meginlegar rannsóknaraðferðir
til að kanna núverandi stöðu mála í söfnuðum kirkjunnar, með viðtölum,
gagnasöfnun og spurningarlistum fyrir fermingarfræðara og fermingarbörn. Niðurstöður er
bornar saman við fyrirliggjandi kannanir. Einnig er gerður samanburður við fermingarstörfin í
nágrannalöndunum. Hvað námskrárfræðin varðar þá byggi ég á mikilvægi þarfagreiningar og
kenningum um að opinber, formleg námskrá verði annars vegar að byggja á skoðun
fræðaranna og hins vegar á viðhorfum nemendanna. Auk þess byggi ég á kenningum hugsmíðahyggjunnar
um að hafa nemendurna og hugmyndaheim þeirra miðlæga í öllu námi.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að draga þarf úr trúarlegri áherslu
starfanna og leggja í staðinn meiri áherslu á ungmennin sjálf, byggja störfin frekar á þeirra
eigin forsendum en á forsendum kirkjunnar. Einnig kalla aðstæður í samfélaginu í dag á stóraukna
umfjöllun um siðferðileg gildi. Auk þess þarf að fjölga fræðslustundum, koma á fót
fermingarstarfahópi og fá söfnuðina til að gera verklýsingar fyrir fermingarstörfin sem og
safnaðarnámskrár. Á þeim forsendum lagði ég fram drög að nýrri námskrá fermingarstarfanna.

Categories
Æskulýðsstarf Barnasálmar og söngvar Fermingarstörf Söngvasjóður

Kveikt á öðru kertinu á aðventukransinum. Barnastund á aðventu María Ágústsdóttir 2008

Söngur

Signing og bæn

Kveikt á aðventukransinum með þessum orðum:

Við kveikjum á fyrsta kertinu, spádómakertinu.
Spámaðurinn Jesaja sagði þetta löngu áður en Jesús fæddist (Jes 7.14):
Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.

Við kveikjum á öðru kertinu, Betlehemskertinu.
Í litlu spádómsbókinni hans Míka stendur (Mík 5.1):
En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.

Við kveikjum á þriðja kertinu, hirðakertinu.
Um hirðana lesum við í Lúkasarguðspjalli (Lúk 2.20):
Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

Síðast kveikjum við á fjórða kertinu, englakertinu.
Við heyrum um englana í jólaguðspjallinu (Lúk 2.13)
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð…
Söngur

Jólaguðspjallið flutt

Söngur

Frásögn með hreyfingum
Spádómurinn um Immanúel.
Spádómur er eitthvað sem er sagt löngu áður en það gerist. Í Biblíunni er spádómur orð sem Guð gefur fólki sem kann að hlusta á hann. Stundum skildi fólkið ekki orðin frá Guði. Stundum skiljum við ekki orðin hans Guðs. En við kunnum öll að óska okkur, er það ekki? Fólkið í landinu þar sem Jesús fæddist, Ísrael, óskaði sér að Guð kæmi til þeirra til þess að þeim gæti liðið vel.
Það er svolítið svipað eins og þegar mamma eða pabbi eru í burtu og við óskum okkur að þau séu hjá okkur. Stundum eru þau bara í vinnunni og koma fljótt heim. Stundum fara þau til útlanda og eru þá lengi í burtu. Þá óskum við okkur að þau væru hjá okkur. Og þau koma alltaf aftur til okkar, er það ekki? En stundum þurfum við að bíða svolítið lengi.
Nú skulum við rétta út hendina, beint fyrir framan augun okkar. Horfum á myndina í kirkjunni í gegn um fingurna. Myndin heitir altaristafla. Sjáið þið hana? Ég sé hana alla vega að hluta til. Ég veit að hún er þarna þó að ég sjái hana ekki alveg. Drögum nú að okkur hendina og skoðum myndina aftur. Nú sjáum við hana alveg skýrt.
Guð er alltaf hjá mér, líka þegar ég kem ekki auga á hann.

Staðurinn þar sem Jesús fæðist.
Við heyrðum áðan lesið um staðinn þar sem Jesús fæddist, litlu borgina Bethlehem. Sumum þótti hún ekki nógu merkilegur fæðingarstaður fyrir frelsarann sjálfan. En allir staðir eru merkilegir í augum Guðs. Og Jesús var lagður í jötu. Dýrin éta úr jötunni. Jötur eru ekki alltaf hreinar. En samt eru jötur mikilvægar í augum Guðs.
Hendurnar okkar eru ekki alltaf hreinar. Stundum koma vondar hugsanir í hjarta okkar. En einn fallegi jólasálmurinn sem við syngjum fjallar um að hjartað okkar geti samt verið vaggan hans Jesú. Nú skulum við aftur rétta fram hendina okkar og búa til eins og litla vöggu með lófanum. Finnum hvernig það er að strjúka lófann með hinni hendinni. Svona nálægt er Jesús okkur. Leggjum svo höndina þétt á brjóstið okkar, þar sem hjartað er. Vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri…
Við erum öll merkileg og mikilvæg í augum Guðs og hann langar að vera hjá okkur, alltaf.

Hirðarnir og englarnir lofuðu Guð.
Það þótti ekkert fínt að vera fjárhirðir. Stundum var ekki einu sinni tekið mark á því sem fjárhirðar sögðu. Samt hafa hirðar hafa örugglega verið eins og fólk er flest, margir heiðarlegir og aðrir kannski pínulítið óheiðarlegir. Englar eru ekki fólk. Þeir eru sendiboðar Guðs. Ef við hittum engil tækjum við áreiðanlega mark á því sem hann segði.
En hirðar og englar hafa sama hlutverk. Þetta hlutverk er að lofa Guð. Við erum hvorki hirðar né englar. Við höfum þó sama hlutverk, að lofa Guð. Við lofum Guð með því að þakka honum og sýna fólkinu í kring um okkur kærleika. Nú skulum við búa til litla englavængi með því að láta lófana snertast neðst þar sem heitir úlnliður. Þá verða hendurnar eins og vængir eða kannski blóm eða ljósker. Blómin og ljósin lofa Guð með því að vera til. Við skulum líka lofa Guð með því að vera til og gleðjast og hjálpa hvert öðru.
Í lokin notum við hendurnar okkar til að flétta saman fingur. Það er kallað að spenna greipar. Og svona höfum við hendurnar þegar við biðjum.

Góði Guð. Þakka þér fyrir að við erum til. Þakka þér fyrir mömmu og pabba, afa og ömmu, kennarana og starfsfólkið í skólanum, systkini okkar, vini og bekkjarfélaga. Viltu vernda okkur öll og líka börn sem eiga bágt. Í Jesú nafni. Amen.

Faðir vor
Blessunarorð

Söngur og útganga

Categories
Átak í kreppunni

Forskóli fermingarfræðslunnar

Tilraunaverkefni í Hvammstangakirkju vorið 2007-2008

Categories
Æskulýðsstarf Barnastarfið Föndur

Hugmyndir að páskaföndri

Hér er að finna margs konar hugmyndir að skemmtilegu páskaföndri:
Páskaföndur

Categories
Átak í kreppunni

Í stuttu máli sagt – Kennsluleiðbeiningar

Þýtt og staðfært: Halla Jónsdóttir

Categories
Átak í kreppunni

Námskrá fermingarstarfanna frá 1989

Námskráin var unnin af fermingarstarfanefnd og Æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar.

Categories
Átak í kreppunni

Fermingarstörf Þjóðkirkjunnar- Rannsóknarskýrsla

Rannsókn unnin á fermingarstörfum Þjóðkirkjunnar 2008.
Torfi K.Stefánsson Hjaltalín.

Categories
Söngvasjóður

Heilræði og siðareglur

Heilræði og siðareglur fyrir starfsfólk í barna- og unglingastarfi.

Categories
Átak í kreppunni

Fermingarbörn með hlutverk í kirkjunni

Hér er að finna hugmyndir að því hvernig hægt er að virkja fermingarbörnin í kirkjustarfinu. Hugmyndir þessar gera ráð fyrir því að börnin taki þátt í fræðslu sunnudagaskólabarna eða komi með þessi atriði í fjölskylduguðsþjónustum eða messum.