Categories
Ítarefni Messuform

Sorgarguðsþjónusta

Sorgarguðsþjónusta er í fylgiskjalinu hér að neðan.

Categories
Æskulýðsdagurinn Lúther Messuform

TRÚUM AF HJARTA -GUÐSÞJÓNUSTA Á ÆSKULÝÐSDAGINN

Þetta form ná nota í heild, að hluta, eða sem grunn að því sem passar í hverjum aðstæðum. Formið gerir ráð fyrir undirbúningi sem getur farið fram í samverum/æskulýðsfundum vikurnar áður. Í helstu liðum guðsþjónustunnar er hægt að fara ólíkar leiðir eftir því sem hentar aðstæðum:

1) að prestur/djákni/leiðtogi tali frá eigin brjósti
2) að ungmennum hafi verið falið að skrifa/flytja sjálf það sem fram fer
3) að notast við það sem fylgir þessu formi

Tónlist má vera hefðbundin eða í flutningi ungmenna. Með þessu formi fylgja uppástungur af sálmum sem hægt er að nota.

1. Söfnumst saman/Innganga

Tónlist (Hér má notast við hefðbundið forspil eða unglingahljómsveitir þar sem þær eru)

 Á meðan tónlistin hljómar er gengið með Biblíuna inn kirkjuna og hún lögð á altarið. Þá má líka kveikja á kertum og leggja blóm á altarið.
Ein útfærsla er að nota 4 kerti sem kallast á við litina í Lúthersrósinni, svart (krossinn), rautt (hjartað), hvítt (rósin) og gyllt (hringurinn).

Ávarp

Guðsþjónustuna má leikmaður, prestur eða djákni leiða. Í ávarpinu er gott að bjóða fólk velkomið í guðsþjónustu á æskulýðsdaginn og minna á þemað sem er ,,Trúum af hjarta” í tilefni minningar um siðbótina. Tilvalið að útskýra athöfnina, sérstaklega það sem er öðruvísi en fólk í söfnuðinum á að venjast. Minna á starfið með börnum og unglingum í kirkjunni og að í þessari guðsþjónustu séu gjafir þeirra sérstaklega sýnilegar. Ávarpið á ekki að vera langt en þó er góð regla að nefna þau sem koma að þjónustunni.

Bæn

Hér má velja 1) (frá eigin brjósti) 2) (ungmenni undirbúa) eða 3) (eftirfarandi)

 Lesari: Góði Guð, við þökkum þennan dag þegar við fáum að koma saman í húsi þínu til að heyra það sem þú vilt segja okkur, læra af þínum heilaga anda og upplifa trú, von og kærleika í samfélagi við hvert annað. Við biðjum í Jesú nafni.

Svar: Amen.

Víxlestur
Hér má velja 1) (frá eigin brjósti) 2) (ungmenni undirbúa) eða 3) (eftirfarandi)

Lesari: Guð gefur okkur trú

Svar: Trúum af hjarta

Lesari: Fyrir frelsara okkar Jesú Krist

Svar: Trúum af hjarta

Lesari: Jesús gefur okkur frið

Svar: Trúum af hjarta

Lesari: Við þurfum ekki að óttast

Svar: Trúum af hjarta

Tónlist/sálmur

2. Orðið

Fjórir textar lesnir upp, einn fyrir hvert tákn í Lúthersrósinni. Hér er hægt að útdeila lestrunum (eftir undirbúning) eða leiðtogi flytur.

Það má líka prenta út á litla miða og fela foreldrum eða öðrum fullorðnum það að lesa úr sætum!

 Við hvern lestur má lyfta upp táknum rósarinnar (kross, hjarta, rós, hringur) í því formi sem ungmennin hafa undirbúið.

* Lesari 1: Hinn réttláti mun lifa fyrir trú. Rm 1.17 (Krossinn)

 * Lesari 2: Með hjartanu er trúað til réttlætis. Rm 10.10 (Hjartað)

* Lesari 3: Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Jh 14.27 (Rósin)

* Lesari 4: Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum. 1P 1.3 (Hringurinn)

 Tónlist/sálmur

Trúarjátning

 Hér má velja 1) (frá eigin brjósti/postullega trúarjátningin) 2) (ungmenni undirbúa sína eigin trúarjátningu sem þau flytja) eða 3) (eftirfarandi sem er víxllestur)

 Lesari: Við trúum á Guð

Svar: sem skapar, frelsar og huggar

Lesari: Við trúum á Jesú

Svar: sem mætir okkur þar sem við erum

Lesari: Við trúum á Guð

Svar: sem elskar okkur öll, eins og við erum

Lesari: Við trúum á heilagan anda

Svar: sem gefur okkur frið

Lesari: Við trúum á Guð

Svar: sem gefur okkur kraft til að standa upp á ný

Lesari: Við trúum á Guð

Svar: sem sendir okkur til þeirra sem þurfa á því að halda

Lesari: Við trúum á Guð

Svar: sem gefur okkur von um að lífið sé sterkara en dauðinn og kærleikurinn sterkari en óvild og kuldi. Við trúum af hjarta. Amen.

Hugvekja

Hér má velja 1) (frá eigin brjósti) 2) (ungmenni undirbúa) eða 3) (eftirfarandi)

Uppástunga að ólíkum formum hugvekju: Sá eða sú sem leiðir stundina getur flutt hugvekju frá eigin brjósti. Ungmenni, t.d. krakkar úr fermingarhópi eða öðrum kirkjuhópum, geta líka undirbúið hugvekju og flutt eftir efnum og aðstæðum. Sumstaðar passar vel að hafa samtalsprédikun sem fleiri en einn taka þátt í að semja og flytja.

Í hugvekjunni er t.d. hægt að tala um Lúthersrósina og nota þessa punkta, ásamt því sem fylgir í inngangi um efni æskulýðsdagsins (efst í þessu efni). Athugið að þetta eru umhugsunarpunktar til undibúnings og hver og einn prédikari þarf að heimfæra til sín og sinna aðstæðna:

Við trúum af hjarta!

Hvað er trú? Hvernig birtist hún í lífinu okkar? Hvernig birtist hún í lífi Lúthers?
Ef við skoðum merkið hans, hvernig tengjast krossinn og hjartað? Hvernig tengjum við trúna við tilfinningarnar sem fylgja því að vera manneskja? Hvernig líður okkur í dag og hvernig tengist það Guði?

Hvernig tengist rósin og hringurinn? Hvernig tengjum við í tilfinningar okkar um trú og von? Hvað vonum við? Hvað er það besta sem við getum vonað fyrir okkur sjálf, fyrir þau sem við elskum og fyrir allan heiminn?

Hvernig tölum við um trú? Getum við upplifað hana sem gjöf? Getum við upplifað trúna sem frelsi? Hvernig sjáum við trúna í kringum okkur? ?

Hvað þýðir náð? Getum við talað um náð á tungumáli sem við skiljum í dag Hvað þýðir það að vera kristin manneskja í heiminum eins og hann er í dag? Hvaða afleiðingar eða möguleika hefur það fyrir okkur að fá trúna og vonina að gjöf inn í lífið okkar?

Tónlist/sálmur

3. Bænin

Í bænakaflanum má sem fyrr fara ólíkar leiðir. Hér má velja 1) bænir frá eigin brjósti 2) bænir sem ungmenni hafa undirbúið eða 3) eftirfarandi
Hér má líka fara ólíkar leiðir í því að leggja fram bænir safnaðarins:

A. Bera fram bænirnar sem krakkarnir hafa undirbúið, t.d. í hjartalaga körfu og leggja á altarið.

B. Við búum til bænabönd – tökum tíma í að þræða fjórar perlur sem tákna krossinn, hjartað, rósina og hringinn (svarta, rauða, hvíta og gyllta) á bönd og tökum með okkur. Má vera tónlist undir.

 C. Bænastöðvar: útbúnar nokkrar stöðvar með blöðum og blýöntum þar sem fólk getur staldrað við og skrifað bænir sem síðan eru lagðar í körfur sem bornar eru til altarisins. Má vera tónlist undir.

 D. Lesnar fjórar bænir sem tengjast krossinum, hjartanu, rósinni og hringnum (sjá skýringar að ofan) og í hvert skipti kveikt á kerti í litum Lúthersrósarinnar (svart, rautt, hvítt, gyllt).

Bænir

Elsku góði Guð, við þökkum þér lífið og þennan dag. Hjálpaðu okkur að muna eftir Jesú í lífinu okkar og að trúa því að kærleikur þinn er öllu sterkari. Við biðjum í Jesú nafni. Svar: Drottinn heyr vora bæn.

Góði Guð, takk fyrir allt sem við finnum í hjartanu okkar. Blessaðu kærleikann og ástina sem kviknar og gefðu henni líf. Hjálpaðu okkur að trúa af hjarta. Við biðjum í Jesú nafni. Svar: Drottinn heyr vora bæn.

Góði Guð, komdu til okkar þegar við erum hrædd. Hjálpaðu okkur að hugga aðra þegar óttinn ætlar að yfirbuga. Takk fyrir friðinn sem þú gefur okkur í hjartað. Við biðjum í Jesú nafni. Svar: Drottinn heyr vora bæn.

Góði Guð, við þökkum fyrir allar góðar gjafir lífsins og biðjum þig að hjálpa okkur að fara vel með þær. Takk fyrir trúna sem þú gefur okkur í hjartað. Við biðjum í Jesú nafni. Svar: Drottinn heyr vora bæn.

 Faðir vor

4. Sending

Blessun

Hér má velja 1) (blessun frá eigin brjósti) 2) (blessun sem ungmenni hafa undirbúið) eða 3) (eftirfarandi sem er víxllestur)

 Lesari: Guð sem skapar, frelsar og huggar

Svar: leiði okkur á veg friðarins í ljósi vonarinnar um eilíft líf og réttlæti öllum til handa.

Lesari: Guð sem skapar, frelsar og huggar

Svar: opni augu okkar fyrir þjáningu annarra og gefi okkur hugrekki til að koma til hjálpar

Lesari: Guð sem skapar, frelsar og huggar

Svar: gefi okkur trú í hjarta, blessi okkur og varðveiti frá öllu illu. Amen.

Tónlist Hér má vera hefðbundið eftirspil eða samsöngur.