Categories
Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Biblíusagan- Ríki unglingurinn (Mark. 10:17-27)

Hlutir

Götóttur sokkur, nál og tvinni.

Kennsla

Þegar ég ætlaði að leggja af stað í sunnudagaskólann í morgun sá ég að það var komið gat á uppáhalds sokkinn minn. (Sýnið börnunum sokkinn og rekið jafnvel fingur í gegn um gatið).  Ég ætla að reyna að stoppa í sokkinn, sauma fyrir gatið og tók þess vegna með mér nál og tvinna (sýna). Og nú tek ég tvinnann og þræði hann hérna í gegn um gatið efst á nálinni. Vitið þið hvað það heitir?

– Já, nálarauga. Er ekki merkilegt að við skulum segja að nál sé með auga?

(Gerið nokkrar misheppnaðar tilraunir til að þræða nálina. Ef leiðbeinandi er flinkur með nál og tvinna má gera sér upp klaufaskap).

Jæja, nú er þetta komið og á meðan ég stoppa í sokkinn ætla ég að að segja ykkur sögu af Jesú.

Einu sinni kom ungur maður til Jesú og spurði hann. Hvað á ég að gera til að eiga eilíft líf? Jesús svaraði: Farðu eftir boðorðum Guðs og vertu góður og heiðarlegur maður.

Ungi maðurinn svaraði: Ég hef haldið boðorðin síðan ég var lítill strákur.

Seldu allt sem þú átt og gefðu fátækum, svaraði Jesús. Þá varð ungi maðurinn leiður og fór. Hann var nefnilega ríkur og þótti svo vænt um peningana sína að hann vildi ekki sleppa þeim frá sér.

Þá sagði Jesús við lærisveinana, vini sína, að það væri auðveldara fyrir úlfalda að fara gegn um nálarauga en fyrir ríkan mann að komast inn í Guðs ríki. Hugsið ykkur bara! Það var nú nógu erfitt fyrir mig að þræða tvinnann gegn um nálaraugað. Haldið þið að risastór úlfaldi kæmist þar í gegn?

Vinir Jesú urðu hissa á að hann skyldi segja þetta og spurðu? Hvernig er það þá hægt að komast í Guðs ríki? Jesús svaraði: Mennirnir geta það ekki sjálfir en Guð getur allt.

 

Til vara má einnig rekja sögu jólanna. Hér er frásagan af boðun Maríu með myndum fyrir skjávarpa:

SMELLIÐ HÉR!

Categories
6-9 ára Biblíusögur Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Hlutbundin kennsla: Örkin hans Nóa- 1.Mós.5.32-10.1

Hugmynd að hlut í fjársjóðskistu: – Tuskudýr   

 Hlutir: Pappakassi og tuskudýr frá börnunum (ef gleymst hefur að biðja börnin að taka tuskudýr með sér í sunnudagaskólann er nauðsynlegt að sunnudagaskólakennarar skaffi þau sjálfir fyrir þessa kennslu). Ef tími er til væri sniðugt að vera búin að skreyta kassann einhvhernveginn og/eða útbúa mastur og setja í miðjan kassann eða í eitt af hornunum og búa til segl úr pappír. Þar sem notuð er fjársjóðskista og hún nægilega stór má vel nota fjársjóðskistuna sem örk. Hér er frábær útfærsla af hugmyndinni fyrir þá sem hafa góðan tíma og mikinn metnað til undirbúnings: http://www.thecrafttrain.com/1/post/2014/10/cardboard-box-noahs-ark.html

Kennsla: En hvað það er gaman að sjá hversu mörg ykkar með bangsa, dúkkur og tuskudýr með sér í sunnudagaskólann. (Ef sú er ekki raunin talar fræðarinn um dýrin sem hann/hún tók með sér í sunnudagaskólann). Og þegar sé þennan stóra kassa og öll dýrin ykkar dettur mér í hug ein saga úr Biblíunni.

Einu sinni fyrir langa löngu var gamall og góður maður sem hét Nói. Guð varaði hann við því að bráðum færi að rigna og þá myndi koma mikið vatnsflóð um alla jörðina. Nói fékk það hlutverk að smíða risastórt skip, sem heitir örk og þegar hann væri búinn að smíða skipið átti hann að bjarga dýrunum á jörðinni um borð í örkina, tveimur af hverri tegund. Þetta gerði Nói. Hann smíðaði risastóra örk og safnaði saman öllum dýrunum í hana. Núna er kassinn sem ég tók með mér í þykjustunni örkin. Viljið þið koma með dýrin ykkar og setja í kassann hjá mér. (Takið tíma í þetta og þegar börnin hafa lagt sitt dýr í kassann er tilvalið að setja hann upp á borð svo allir sjái. Haldið síðan áfram með söguna). Þegar Nói hafði safnað öllum dýrunum í örkina gerðist það sem Guð hafði sagt. Það rigndi stöðugt í fjörutíu daga og fjörutíu nætur og það flæddi vatn yfir alla jörðina en Nói, fjölskyldan hans og dýrin björguðust vegna þess að hann gerði eins og Guð sagði honum að gera. Þegar rigningin hætti þá minnkaði flóðið smátt og smátt. Þá setti Guð regnbogann á himininn. Í sögunni um Nóa er sagt að regnboginn sé tákn um að svona flóð muni aldrei koma aftur.


 

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Hvar eru hinir 9? Hlutbundin kennsla

FullSizeRender (5)Hugmynd að hlut í fjársjóðskistu:
– Takkbankinn  eða miði með þakkarefni á.

Hlutbundin kennsla
Hlutur:
– Plastkassi eða stór krukka með loki (skerið rauf á lokið eða hliðina, svipað og gert er með sparibauk) og merkið: TAKKBANKINN
– Pappír (helst litaður) Klippið niður í miða (Úr A4 ætti að vera hægt að gera 10 miða).
– Skriffæri fyrir börnin.

Kennsla
Í dag ætla ég að opna nýjan banka í sunnudagaskólanum. Hann heitir Takkbankinn. Við ætlum að vera dugleg að safna þökkum í hann í vetur.
Ég man þegar ég var yngri þá gleymdi ég stundum að þakka fyrir mig. Þegar það gerðist þá var ég yfirleitt minnt(ur) á það. Kannski var einhver vinur minn að gefa mér afmælisgjöf sem ég bara tók við án þess að segja neitt. Þá leit mamma mín á mig og sagði: Hvað segir maður þá? Fyrst vissi ég ekkert um hvað hún var að tala. Vitið þið hvað ég hefði átt að segja? – Takk.
Alveg hárrétt. Takk! Það er mjög mikilvægt að vera þakklát.2
Einu sinni hitti Jesús tíu menn sem voru mjög alvarlega veikir. Þeir voru með sjúkdóm sem heitir líkþrái, sem lýsir sér í því að þá fær fólk sár út um allan líkamann. Líkþrái var algengur á tímum Jesú en engin lækning var til við sjúkdómnum. Mennirnir sáu Jesú og vissu hver hann var. Þeir vissu líka að hann gæti kannski læknað þá og þeir hrópuðu til hans: Jesús, meistari, miskunna þú oss. Þegar mennirnir fóru heim af stað og sáu þeir að sárin voru horfin. Jesús hafði Þeir hrópuðu og dönsuðu af gleði því þeir voru læknaðir en einn þeirra sneri við til að þakka Jesú fyrir að hafa læknað sig. Þegar hann kom sagði Jesús: Voruð þið ekki tíu? Hvar eru hinir níu? Bara einn maður mundi eftir því að segja: Takk.
Það er mikilvægt að vera þakklát. Bæði fyrir þann sem gefur okkur eitthvað eða gerir eitthvað fyrir okkur og líka fyrir okkur sjálf að gefa þakklæti í staðinn.
Fyrir hvað getum við sagt takk? (Takið við tveimur til þremur þakkarefnum og skrifið þau á jafnmarga af miðunum og setjið þá í Takkbankann).
Þegar sunnudagaskólinn er búinn á eftir megið þið skrifa (eða fá hjálp til að skrifa) allt sem þið eruð þakklát fyrir og leggja inn í Takkbankann. (Yngri börn sem ekki kunna að skrifa geta sagt Takkbankanum þakkirnar sínar).
Það er auðvelt að segja Takk á íslensku, en getum við þakkað fyrir með fleiri orðum? Kunnið þið að segja takk fyrir á öðrum tungumálum: Thank you, mange tak, gracias (spænska), merci (franska), arigato (japanska). Fleiri tungumál?

ATH – Takkbankinn má gjarna fá að vera sýnilegur í sunnudagaskólanum eftir þetta í allan vetur og gott að minna börnin á að skrifa (alltaf eða af og til) á miða fyrir eða eftir sunnudagaskólann um eitthvað sem þau eru þakklát fyrir.

MUNIÐ EFTIR AÐ SEGJA FRÁ ÞVÍ AÐ Í NÆSTA SUNNUDAGASKÓLA MEGI ALLIR KOMA MEÐ BRÚÐUR, BANGSA EÐA ÖNNUR TUSKUDÝR.