Categories
Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Allir jafnir og allir með

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla

REBBI : Hæ krakkar! Gaaaaman að sjá ykkur . . .   Nei ég verð að segja ykkur soldið!!!  Ég er svo ótrúlega spenntur að ég er að springa!

MÝSLA: Hæ krakkar! Hæ Rebbi – ertu að springa?

REBBI: Já hæ Mýsla  (nennir eiginlega ekki að tala við hana og heldur áfram að tala við krakkana) – Vitiði hvað?! Ég sá svolítið ótrúlega merkilegt í sjónvarpinu í gær! Það var þáttur um mig!!!   Hefur einhvern tíma verið þáttur um ykkur í sjónvarpinu?? Neeei.  En það var sko þáttur um mig.   Þetta var ekkert smá merkilegt!  Finnst ykkur það ekki??

(Vonandi taka krakkar undir að það sé merkilegt)

MÝSLA: Haaa? Var þáttur um þig Rebbi?

REBBI: Jááá! (á innsoginu)

MÝSLA: Og talaðirðu um hvað þér finnst gaman í sunnudagaskólanum?

REBBI: Nei. Eða sko – þátturinn var ekki um mig, Rebba – heldur um hvers konar refur ég er.  Annars hefði ég örugglega talað um það.  Og krakkar . . .

MÝSLA: Hvers konar refur?  Meinarðu þá hress refur? Skemmtilegur refur? Hávaðarefur?

REBBI: Nei Mýsla, ohh – þú ert stundum svo vitlaus.  Nei – veistu – ég er RAUÐ-REFUR.

MÝSLA: Rauð-refur?  Meinarðu að þú sért rauðhærður?

REBBI: Neiii!! Döh.  Ég er RAAAAUUUÐ-REFUR. Það eru sko miklu merkilegri refir en allir hinir refirnir. Rauðrefir eru gáfaðri og fljótari og fallegri og bara . . . Betri refir.

MÝSLA: Nú? Af hverju ?

REBBI: Af hverju?? Við . . . við bara erum það! Það var sagt í sjónvarpinu.  Með svo glansandi feld og glæsilegir.

MÝSLA: Hahaha! Svona diskórefir. Allt í lagi.  Ert þú svona Páll Óskar í refalandi?

REBBI: Æji Mýsla! Nei – oooh þú skilur þetta ekki, enda ertu bara mús en ekki merkilegur refur eins og ég.

MÝSLA: Fyrirgefðu?? Hvað sagðirðu Rebbi.   Er ég BARA mús

REBBI: Já. Og ég er að tala við krakkana og þú mátt ekki vera með.

MÝSLA: Veistu það Rebbi, að það er enginn merkilegri en annar. En það eru sumir hins vegar hræðilega merkilegir með sig

REBBI: Uuuu . . . Hvað þýðir það?

MÝSLA: Veistu það ekki? Sjálfur RaaaauðRefurinn??

REBBI: Eeehh . . . Jújú . . . Þaaaaað þýðiiir . . . uuummmm

MÝSLA: Montinn! Það þýðir að vera montinn! Sjálfumglaður. Drjúgur með sig. Og eiginlega Kjáni.

REBBI: Haaa?!

MÝSLA: Og veistu hvað er eitt það ljótasta sem hægt er að segja ?

REBBI: Nei? Biddu ég ætlað giska – . . . rassaprump?  Nei – táfýla!

MÝSLA: Eitt það ljótasta sem hægt er að segja er “þú-mátt-ekki-vera-með”.  Að útiloka einhvern er ljótt – því þá líður manni svo illa að mega ekki vera með

REBBI: Ó  (niðurlútur) Já. Það er satt.

MÝSLA: Manstu eftir laginu “hver hefur skapað blómin björt . . .”  – Þar syngjum við “hver hefur skapað þig og mig . . . Guð á himninum”  Guð skapaði okkur öll og honum þykir jafn vænt um okkur öll.  Því við erum öll merkileg og dásamleg.  En ekki bara einhver einn.

REBBI: Það er satt. (vælir) Fyrirgefðu Mýsla hvað ég var ótrúlega . . .

MÝSLA: Montinn? Merkilegur meððig?

REBBI: Mikill bjáni.

MÝSLA: Ég fyrirgef þér Rebbi minn. En það er mikilvægt að muna að Guði og Jesú þykir jafn vænt um okkur, hvort sem við erum með svart hár, ljóshærð, sköllótt, rauðhærð eins og þú . . .

REBBI: . . .Eða gráhærð eins og þú.  Mýsla – hvað ertu eiginlega gömul?? Eru ekki bara ömmur gráhærðar?

MÝSLA: Æhj.  Rebbi minn.  Ég er bara svona. Við mýsnar erum svona á litinn.  En eigum við ekki að syngja núna öll saman – “Hver hefur skapað blómin björt . . .”

REBBI: Jú gerum það. Öll saman.

Categories
Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Bartímeus blindi

Hjálpargögn Rebbi og Mýsla. Sólgleraugu, vasaljós og bómull.

Rebbi (Kemur syngjandi inn með ljós í hendinni) . . . Sjá við göngum í ljósi Guðs. Sjá við göngum í ljósi Guðs. Krakkar! Allir að syngja með . . . sjá við göngum í ljósi Guðs . . .

Mýsla (Kemur inn með sólgleraugu) Halló krakkar! Vá! Hvað þið syngið vel.

Rebbi dúmm de dúmm . . . finnst þér það ekki og sjáðu ljósið mitt (sveiflar ljósinu) vúhhúú!

Mýsla Ekki lýsa svona í augun á mér. Það er svo vont fyrir augun. Ái æi oj . . . ég er með bágt í augunum.

Rebbi Ha! Hvað er að og af hverju ertu með sólgleraugu?

Mýsla Ég vaknaði í morgun og gat ekki opnað augun. Ég var með grænt slím í augunum og ég er bara svo aum. Ó æi!

Rebbi Ojjjbara ullabjakk . . . grænt slím!

Mýsla Ég gat varla opnað augun í morgun. Það var svooo vont og það er ennþá slím í augunum á mér.

Rebbi Æi aumingja þú Mýsla. Þú hefur bara verið alveg blind og labbað um eins og draugur með slím í augunum. Krakkar, hafið þið fengið svona slím í augun? (Leyfa börnunum að svara)

Mýsla Æi þetta var mjög sárt og þess vegna er ekki gott að fá svona sterkt ljós í augun. Ljósið þitt er samt flott Rebbi.

Rebbi Takk Mýsla. Ég fékk það gefins í gær. Ég bjó til frábæran leik sem mig langaði til að fara í. Viltu vera með okkur í leiknum?

Mýsla Já ég væri alveg til í að vera með, en ég ætlaði að athuga hvort þú gætir verið miskunnsamur og hjálpað mér smá?

Rebbi Auðvitað vil ég hjálpa þér Mýsla. Hvað viltu að ég geri fyrir þig?

Mýsla Gætirðu hjálpað mér að hreinsa aðeins betur augun svo að ég geti séð betur og verið með í leiknum?

Rebbi Ha!? Viltu að ég Rebbi hjálpi þér að hreinsa þetta ógeðslega græna slím úr augunum á þér? Ég kann það ekkert.

Mýsla Jú þú getur það alveg. Ég er með heitt vatn og bómul svo að þetta er ekkert mál.

Rebbi (hikar og setur upp fýlusvip) Ööööö . . .

Mýsla Krakkar viljið þið hjálpa mér?

Rebbi Nei! Nei ég get alveg hjálpað þér Mýsla. Ég kann þetta alveg, en þetta er svolítið ógeðslegt. (Hjálpar Mýslu að hreinsa augun)

Mýsla Ó Æ hvað þetta er vont, en það er gott að þú hjálpar mér Rebbi svo að ég geti verið með í leiknum þínum.  . . . Já nú líður mér miklu betur og þarf ekki að nota sólgleraugun. Takk Rebbi!

Rebbi uhh ekkert að þakka (hryllir sig og hendir bómulinum frá sér)

Mýsla Ég veit að þetta er ekki fallegt, en þú varst nú góður við mig að hjálpa mér Rebbi.

Rebbi Takk Mýsla. Ég vona að ég fái ekki martröð í nótt og dreymi grænt slím (leikur draug) Vúhh!

Mýsla Þetta var nú ekki svo slæmt. Hættuessu Rebbi! Þú ert ekkert sniðugur að stríða mér svona.

Rebbi Vúhhú! (heldur áfram með draugalætin) Ég er Mýsla draugur með grænt slím . . .

Mýsla Ókei ókei . . . Hvernig er leikurinn sem þú ætlaðir að kenna okkur Rebbi?

Rebbi Hehehe æi ég ætlaði ekki að stríða þér. Ég er glaður að geta hjálpað þér, ég þarf líka stundum hjálp með mitt appelsínugula slím. Viltu fyrirgefa mér?

Mýsla Já, þú ert góður vinur. Hvernig var aftur leikurinn?

Rebbi Ég ætla að láta ljósið mitt skína á einhvern hlut og þið eigið að vera eins snögg og þið getið að segja hvað hluturinn heitir. Ok allir tilbúnir . . . einn tveir og byrja!

(Farið í leikinn í smá stund, eftir leikinn)

Rebbi og Mýsla Bless krakkar það var gaman að leika við ykkur. Sjáumst næsta sunnudag.

Categories
Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Gullna reglan

Hjálpargögn: Leiðbeinandi og tvær brúður. Geta verið nánast hvaða brúður sem eru. 

Rebbi og Mýsla eru að leika sér.

REBBI (er með bolta í munninum) grrhhhhh . . .

MÝSLA Vel gripið Rebbi! En – nei – ekki bíta í nýja boltann minn!

REBBI Hihihehhu!

MÝSLA Hættu! Hah ? Hvað sagðirðu?

REBBI (losar boltann úr kjafti) Fyrirgefðu sagði ég . . .

MÝSLA Allt í lagi.  Komum í mömmó – ég verð mamman og þú verður litla barnið.  (Fer að raula og humm) Dæræræræ

REBBI (Missir boltann og skimar eftir honum)  

MÝSLA Það er að koma maaatur elskan!

REBBI Elskan? Uuuh . . . frábært ! Og mér þykir líka voða vænt um þig Mýsla mín.

MÝSLA Nei Rebbi!

REBBI Jújú – mér þykir vænt um þig sko –

MÝSLA Æji það er gott, mér þykir líka vænt um þig – en manstu, í leiknum er ég mamman og þú ert litla barnið.

REBBI Alveg rétt. Fyrirgefðu – ég gleymdi mér.  Litla barnið. Ókei.

MÝSLA Það er kominn matur elskan.

REBBI Aaaah. Gúggúúú dadddaaa prplllhhhhhh (fruss)

MÝSLA Heyrðu! Ekki frussa framan í mig. Ojbara.  Þú ert bara barn þá, ekki litla barn.

REBBI Alltílæ. Fyrirgefðu frussið.

MÝSLA Ekkert mál. Maaatur!!

REBBI Veeeei. Mamma!  Ég vil pizzu í matinn! Nei – súrt slátur!

MÝSLA Nei nei. Það er soðinn fiskur. Komdu nú inn og taktu boltann með þér inn.

REBBI Boltann? Já. Ert þú ekki með hann?

MÝSLA Nei þú varst með hann.

REBBI (Skimar) Er það? Nei – þú tókst hann áðan. Var það ekki?

MÝSLA Ertu búin að týna nýja boltanum mínum?

REBBI Ég? Nei! Ég týndi engu. Þú hefur týnt honum sjálf!

MÝSLA Nei.  Þú ert með hann. Þú hefur ábyggilega stungið honum til hliðar og ætlað með hann heim.

REBBI Mýsla!? Nei – það er ljótt að segja svona!

MÝSLA Og það er ljótt að stela!

REBBI Ég stal engu!

MÝSLA Þú lýgur og það er ljótt að ljúgaaaa (fer að skæla)

REBBI og MÝSLA hálfskæla og rífast þegar leiðbeinandi kemur og gripur í taumana

LEIÐB. Halló halló halló! – Krakkar hvað gengur á?

MÝSLA Hann stal boltanum mínum!

REBBI Nei! Hún er að ljúga upp á mig!

LEIÐB. Þetta er ekki fallegt að heyra.  En . . . eruð þið nokkuð að meina þennan bolta?

MÝSLA og REBBI (andköf) Tókst Þú boltann??  

LEIÐB Nei nei.  Ég tók hann ekki. Það stal enginn neinu. Og það var enginn að ljúga. Þið voruð ansi fljót að segja svolítið ljótt, er það ekki.

MÝSLA En ég hélt . . . (leið á svip).

LEIÐB Ég veit. En þá á maður að spyrja. Og trúa vinum sínum.  Hafið þið heyrt um gullnu regluna? Hún er svona “það sem þér viljið að aðrir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra” Það þýðir “eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig, þannig skaltu koma fram við aðra”.  Við viljum að vinir okkar treysti okkur – er það ekki?

REBBI OG MÝSLA Jú . . .

LEIÐB Þá verðum við líka að treysta öðrum.  Þurfið þið ekki að segja núna eitthvað við hvort annað?

MÝSLA Viltu fyrirgefa mér Rebbi?

REBBI (um leið) Ég er svangur.  

LEIÐB Rebbi!

REBBI Já! fyrirgefðu líka Mýsla.  Mér þykir vænt um þig og auðvitað fyrirgef ég þér.

LEIÐB Fallegt hjá ykkur og farið nú að leika – við krakkarnir ætlum að syngja svolítið.

Categories
Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Faðir vor

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla

REBBI Ó-Ó-Ó . . . Æji ég finn svo til.  Svo ægilega til. Uhuhuuuuu . . . Hæ ææææjæjæjææææ krakkar (hálfskælandi) mikið er gaman að sjá ykkuuhuhhuuuur! . . . (harkar af sér) Úff!  Hafið þið fengið tannpínu?  Og þurft að fara til tannlæknis?  Nú þarf ég að gera það og það er svo vohohohoooðalegt . . .

MÝSLA (kemur raulandi inn)  Ég skal gefa þér kökusnúð með kardemommum og sykurhúð . . .

REBBI (Hvíslar) Krakkar – ekki segja Mýslu að ég hafi verið að skæla.  Allt í lagi?

MÝSLA Nei – Rebbi minn – en gaman að hitta þig!

REBBI Hææjæjæjæja . . . Mýsla.

MÝSLA Er ekki allt í lagi Rebbi minn?

REBBI Jú. Æjæjæjæj . . . ææægilega er gaman að hitta þig líka – ertu komin til að syngja í sunnudagaskólanum?

MÝSLA Já, mér finnst það svo gaman – en Rebbi, áður en við syngjum, þá kom ég með smá nammi með mér sem ég fékk í gær. Og ég geymdi sérstaklega handa þér stóra fílakaramellu, því ég veit að þér finnst þær svo góðar. Viltu fá?

REBBI Sérstaklega handa mér?

MÝSLA (Glöð) Já! Ég var að vonast til að hitta þig í dag.

REBBI Óóó – buhuhu . . . mikið var það fallegt af þér.

MÝSLA Jahérna Rebbi minn.  Ég vissi ekki að þú værir svona tilfinninganæmur.

REBBI Nei ég skæli ekki útaf því – ég get ekki borðað karamelluna.

MÝSLA Nú ? ertu í nammibindindi?

REBBI Alls ekki. Ég þarf að fara til tannlæknis – æjæjæjj . . .

MÝSLA Aaaah. Elsku Rebbi minn. Og ertu með svona mikla tannpínu?  Ég kann ráð við því. Nú við bara kippum tönninni úr.

REBBI Ha?!  

MÝSLA Já.  Við gætum notað spotta – bundið í gítarinn og spilað svo rosa hratt “djúp og breið!”

REBBI Uuuuh . . .

MÝSLA Eða! Eða við tökum í spottann og hlaupum öll saman út.

REBBI Neinei . . .

MÝSLA Svo á ég hamar sem . . .

REBBI Nei! Neineinei.  Ég veit að þú vilt hjálpa, eða . . . ég held það . . . en mér er ekkert illt í tönninni lengur.

MÝSLA Rebbi . . .

REBBI Alveg satt. Mér er ekki illt í munninum.  Mér er illt í magaaaaanuuuum.

MÝSLA Ó? Maganum? Ó . . . Rebbi. Kvíðirðu fyrir því að fara?

REBBI Nei! Ég er mjög hugrakkur Refur. Kvíði ekkert fyrir því.  Kannski smá. Kannski rosalega mikið. Kannski hef ég ekkert sofið í marga daga.  En bara kannski.

MÝSLA Elsku Rebbi minn. Það er ekkert mál að fara til tannlæknis. Í alvöru.  En þegar maður er hræddur og kvíðir fyrir, þá er mjög gott að biðja til Guðs. Það róar mann. Til dæmis að fara með Faðirvorið.

REBBI Fara meððað ? Hvert? Og hvernig hjálpar það?

MÝSLA Nei að biðja – Faðir vor er bæn sem Jesús kenndi okkur.  Og þú kannt það örugglega. En nú skulum við öll fara með það með þér.  Eruð þið tilbúin krakkar?

Allir fara með faðirvorið

REBBI Vá!  Mér líður miklu betur.  Það er ekkert vont í maganum núna?

MÝSLA Einmitt. Nú ertu búinn að spjalla við Guð og biðja hann um að vera með þér og passa þig.  Það hjálpar alveg ótrúlega.

REBBI Takk Mýsla og takk krakkar.  Hérna . . . Mýsla – Fílakaramellan . . . ?

MÝSLA Hahaha! Ég held að bæði tönnin þín og maginn hafi gott af því að sleppa henni í bili. En ég skal halda áfram að geyma hana handa þér.  

REBBI Ég veit! Allt í lagi. En má ég bara skoða hana?

MÝSLA. Komdu.  Auðvitað máttu það. Bless krakkar.

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Rusl og drasl

Hjálpargögn: Mýsla, Rebbi, jakki með vösum á Rebba og tissjú.

Mýsla: Halló Rebbi.

Rebbi: Halló krakkar og halló Mýsla.

Mýsla: Halló krakkar. Eru ekki allir kátir í dag? Þetta á sko eftir að verða frábær dagur.

Rebbi: Ég er mjög spenntur fyrir deginum í dag. Það er nefnilega svo margt að fara að gerast. (æðir um og sönglar). Sko fyrst er það sunnudagaskólinn, svo ætla ég að kíkja með músapésa á skauta/skíði/niðrá höfn (missir tissjú og heldur svo áfram að æða um) svo er ég að fara til frænda í vöfflur og svo til ömmu í heimsókn og svooo . . . tralalalaaa!

Mýsla: (Hneyksluð og grípur frammí) Rebbi. Tekurðu ekki upp eftir þig?!

Rebbi: Hvað meinarðu? (Æðir áfram) Amma gerir bestu lambasteikina. Það verður þvílík veisla að mæta til hennar í mat . . . (slurf) . . . og svo gerir hún frábæra . . .

Mýsla: (grípur frammí) Rebbi, Rebbi! Sástu ekki að þú misstir niður pappír eða bréf á gólfið?

Rebbi: (horfir á tissjúið) Þetta er svo lítið. Skiptir ekki máli. (æðir áfram) Ég hlakka svo til . . . (sönglar)

Mýsla: Ha! Hvað meinarðu Rebbi? Ætlarðu ekki að taka upp eftir þig?

Rebbi: Nei, til hvers? Það kemur einhver og tekur það og fer með það í ruslið. Ég hef aldrei þurft að tína neitt upp eftir mig.

Mýsla: Hver mun koma og taka upp eftir þig Rebbi?

Rebbi: Ha?! Ég veit það ekki, en ég hef aldrei þurft að taka neitt upp eftir mig. Var ég búinn að segja þér frá eftirréttinum sem amma gerir?! . . . Namm ég fæ alveg vatn í munninn við tilhugsunina.

Mýsla: Nú er ég hissa, ég hélt að þú værir duglegri að hugsa um jörðina Rebbi og skildir ekki rusl eftir hér og þar.

Rebbi: Ég er ekki með neinn ruslapoka á mér. – Langar þig ekki til að heyra hvaða eftirrétt amma gerir svo vel?

Mýsla: Jú, en ég myndi fyrst vilja að þú tækir upp pappírinn og settir hann í vasann eða héldir á ruslinu þar til þú sérð ruslatunnu og hentir því í hana.

Rebbi: Æi, Mýsla. Þetta er bara eitt pinkulítið bréf. Það tekur engin eftir því. Svo nenni ég ekki að halda á því og nú er það orðið svo skítugt að ég vil ekki setja það í vasann.

Mýsla: Rebbi, ef allir hugsuðu svona myndi jörðin vera full af rusli og drasli. Veistu hvað það eru margir sem búa á jörðinni??

Rebbi: Nei (skömmustulegur).

Mýsla: Það eru um sjö og hálfur milljarður manna og ef allir hentu ruslinu sínu þar sem þeir stæðu þá væri bara allt í rusli. Viltu búa þar sem það er allt í drasli, Rebbi?

Rebbi: (Skömmustulegur og tekur upp tissjúið) Nei. Ég vil búa þar sem það er hreint og fínt. Eins og hjá ömmu. (Krakkar sjáið þið ruslatunnu þar sem ég get hent tissjúinu? Ef það er ruslatunna á staðnum getið þið fengið krakkana til þess að hjálpa við að henda tissjúinu. Látið það t.d. ganga þar til það er komið í ruslið).

Mýsla: Frábært að heyra Rebbi (fegin). Gott að þú tókst upp tissjúið. Kannski geturðu hjálpað ömmu þinni í kvöld þegar þú ferð í heimsókn til hennar. Hjálpað henni með uppþvottinn og að ganga frá leirtauinu. Það er svo gott að fá hjálp annað slagið og ef við hjálpumst að við að halda jörðinni hreinni þá verður allt miklu léttara.

Rebbi: Já eins og segir í máltækinu. Margar hendur vinna létt verk.

Mýsla: Alveg rétt Rebbi minn. Mikið er ég stolt af þér. Var ég búin að segja þér að ég ætla að fara að plokka á eftir sunnudagaskólann. Kemurðu með? Það er mjög skemmtilegt.

Rebbi: Hvað er að plokka?

Mýsla: Það er að tína rusl sem er á víðavangi. Þá verður allt svo miklu hreinna í kringum okkur og okkur líður svo miklu betur þegar það er hreint. Kemurðu með? Þú mátt taka Músapésa með.

Rebbi: Við ætluðum á skauta/skíði/niðrá höfn.

Mýsla: Það er ekkert mál. Við tökum bara með okkur poka og tínum rusl í leiðinni.

Rebbi: Sniðug ertu Mýsla.

Mýsla: Rebbi, drífum okkur út að leika okkur að tína rusl. Komdu! Bless krakkar! (Flýtir sér í burtu).

Rebbi: Krakkar, ekkert rusl, er ekkert rugl! Ekkert drasl og  . . . lífið . . . lífið er betra . . . ööö (má reyna fleiri misheppnuð máltæki) Hehehe! Bless krakkar!

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla.

(Rebbi syngur á bak við)  Hér mætir Rebbi, sjá! – með mjóa kló á tá. (Rebbi birtist)

Í sunnudagaskólann kominn til að heyr’og sjá 

          Sögurnar um Guð

          Og farí svaka stuð

          Og syngja með hinum og þessum vinum

          Sem öll eru stórmögnuð

(þessu feitletraða má alveg sleppa)

Mýsla: Halló krakkar, mikið er gaman að hitta ykkur og hæ Rebbi.

Rebbi: Hæ Mýsla, halló krakkar! Ég er kominn!  Mikið er gaman að sjá ykkur,  og munið “öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir” Jæja, þá er þetta nú orðið gott í dag. Bless!

Mýsla: Bíddu bíddu bíddu – Rebbi?! Ertu orðinn svona agalega spenntur?

Rebbi: Heldur betur.  Ég hlakka alveg ógurlega til. Það er svo langt síðan ég hef farið í leikhús.

Mýsla: Ég hlakka líka mikið til, þetta verður svo skemmtilegt ! Ég hef aldrei séð Dýrin í Hálsaskógi áður og hefur alltaf langað – (hafið þið séð Dýrin í Hálsaskógi krakkar? )

Rebbi: Hefurðu aldrei séð?! Í alvöru? Ég hef séð Dýrin grilljón sinnum.  Og grilljón er meira en 10.  Ég hef sko einu sinni leikið Mikka ref þegar ég var í skátunum (raular). Hér mætir Mikki, sjá! Með mjóa kló á tá og mjúkan feld . . .

Mýsla: Varstu í skátunum?

Rebbi: Já maður. Yrðlingur.  Það var rosa gaman. Nema ég var ekki flinkur með alla hnútana – ég festi mig alltaf.

Mýsla: Hahaha! Rebbi klaufi.

Rebbi: Já – ég er það stundum. En jæja – eigum við ekki að drífa okkur?

Mýsla: Bíddu aðeins elsku Rebbi minn. Ertu kominn í fínu leikhúsfötin?

Rebbi: Jebbs.  Nema ég á ekki svona herdúfu eins og Mikki er alltaf með, mig hefur alltaf langað í svoleiðis

Mýsla: Ha? Her-dúfu?? Hvað er nú það?

Rebbi: Svona á hausinn á manni?

Mýsla: Ó? Áttu við der-húfu?

Rebbi: Einmitt! Það sem ég sagði

Mýsla: Jæja Rebbi minn – og ég er með miðana okkar og þá held ég að við ættum kannski bara . . . aaaaaaaatsjúh!

Rebbi: Já ! Piparkökusöngurinn hann er skemmtilegur (syngur) “breiða þær svo út á fjöööl atshúh!  Hahaha . . . Hann hnerraði svo af piparnum.

Mýsla: Aaaaaaahtjússh!

Rebbi: Einmitt! Þú hljómar alveg eins og bakaradrengurinn.  En nú skulum við fara – hah – nú næ ég þér amma mús og láttu ekki eins og þú sért ekki þarna – ég sé þig vel! Komdu nú.

Mýsla: Dólegur . . . Debbi – Hva? Hvað hefur gomið fyrir döddina í béh?

Rebbi: Döddina í béh?  Hvað segirðu?

Mýsla: Óneiiiiii – Aaathúh – ég e oddin lassin

Rebbi: Lasin? Nei það má ekki.  Uuu – ertu með hita? Má ég finna?  (leggur loppu á eyrað á Mýslu)

Mýsla: Hahahah bi kítlaaaaaaathúh!  Fydigebbu.

Rebbi: (þurrkar framan úr sér hnerrið) Ekkert að fyrirgefa.  En elsku Mýsla mín,  heldurðu að þú komist í leikhúsið?

Mýsla: Úff. É vedd a deggi.

Rebbi: Þarftu að hneggja?  Ertu með hestaflensu?  Ég hef heyrt um fuglaflensu – en hestaflensa hlýtur að vera miklu miklu verri – þetta er hræðilegt!

Mýsla: Nei – ég daf að leggjaht!  É geteggi fadid – þú veddur að fara einn

Rebbi: En, æji – ertu alveg viss?

Mýsla: Debbi minn – þú hefur hlakkað svo óskaplega til  – aaatjúh!

Rebbi: Reyndar.  En – Mýsla. (Tekur ákvörðun) Öll dýrin eiga að vera vinir. Og vinir yfirgefa ekki vini sína.

Mýsla: Ga meinaddu?

Rebbi: Það þarf einhver að hjúkra þér. Og – þú hefur aldrei séð  Dýrin í Hálsaskógi og ef þú getur ekki farið að sjá Dýrin. Þá koma Dýrin til þín.

Mýsla: É gil þig eggi?  Atjúh!

Rebbi: Ég leik bara fyrir þig Dýrin – ég er alveg jafn góður leikari og hann Spói. Nei, Kjói? Bófi?

Mýsla: Gói!

Rebbi: Það sem ég sagði! Komdu nú – þú mátt ekki smita krakkana. Nú ferð þú undir sæng og ég ætla að syngja fyrir þig (syngur) Dvel ég í draumahöll – bless krakkar!

Mýsla: Takk esssgu Debbi minn. Mikið ertu góður.  Bless Gakkaaah.

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Hver er mestur?

„Happening leikhús“

Leiðbeinandi er sögumaður og tvær brúður. Leiðbeinandi situr fyrir framan krakkana með brúðurnar / tveir leiðbeinendur með sitthvora brúðuna.  Mega vera músabörn eða hvaða brúður sem er, en ekki Rebbi.  Annars er líka hægt að opna með því að segja “segjum að þetta sé Jakob og þetta sé Jóhannes…” og kynna þannig þá félaga til leiks.

 

Sögumaður:

Komið nær.  Hlustið vandlega.  Ég ætla að segja ykkur söguna af því þegar að tveir af lærisveinunum héldu að þeir væru merkilegri en allir hinir.

Vitiði hverjir lærisveinarnir voru?  Það voru menn sem hættu að gera nokkuð annað en að elta Jesú hvert sem hann fór og að læra af honum. Þegar Jesús steig svo upp til himnaríkis og fór til Guðs, héldu þeir áfram að ferðast út um allt og sögðu fólki frá Guði.

Lærisveinarnir voru tólf.  En auðvitað hitti Jesú rosalega mikið af fólki og var þá með lærisveinana með sér. Tveir af þessum 12 voru bræður. Þeir hétu Jakob og Jóhannes. Einhvern tíma voru þeir pínu þreyttir eftir langt ferðalag. Þeir höfðu hitt á svo margt fólk á leiðinni og upplifað svo margt. Jakob var sofnaður en Jóhannes var voðalega mikið hugsi.

Brúður

Jóhannes: Jakob

Jakob: zzZzzZzzz . . .

Jóhannes: Jakob? JAKOB?!

Jakob: zZzzZzzz . . . nei mig langar ekki í spaghetti . . .

Jóhannes: KOBBI KÁTI!

Jakob: zZzzz…………mmmm (smjatt smjatt)  úlfaldabollur . . .

Jóhannes: (fær hugmynd)  ÞAÐ ER KOMINN MATUR!

Jakob: (vaknar) Ég kem (teygir úr sér) Aaaah.  Jæja, hvar er maturinn?

Jóhannes: Það er enginn matur. Þú hraust bara svo hátt

Jakob: Vaktirðu mig til að segja mér að það sé ekki matur?! Hvers lags bróðir ert þú eiginlega?

Jóhannes: Ég er frábær bróðir. Langbesti bróðir þinn.

Jakob: Þú ert eini bróðir minn. Svo þú gætir líka verið versti bróðir minn.

Jóhannes: Hættu þessu röfli og hlustaðu nú. Sko! Sko, ég var að hugsa.

Jakob: Æji nei.

Jóhannes: Jú sko, ég var að hugsa. Veistu, ég held að Jesú þyki vænna um okkur en hina lærisveinana.

Jakob: Nú ? Já, þú meinar . . . heldurðu það?

Jóhannes: Já, ertu ekki sammála?

Jakob: Ehh . . . Jú, jú veistu, ég held það bara.

Jóhannes: Sko ég held nefnilega að honum þyki vænna um okkur en hina af því að við erum svo sérstakir og góðir

Jakob: Já!   Og . . . og af því að við erum sterkari og líkari – Miklu líkari en hinir.

Jóhannes: og skynsamari!

Jakob: og mjórari!

Jóhannes: Mjórari? Hvað er það??

Jakob: Við erum mjóir??

Jóhannes: Mjah. Þú ert nú ekki mjór Kobbi minn.  En það skiptir engu hvort maður er mjór eða feitur? Og svo segir maður mjórri, en ekki mjórari.

Jakob: Nú?! Segir maður það? Það er asnalegt.   Mjór-mjórari.

Jóhannes: Jæja. Nú er ég frekar hár, myndirðu segja að ég sé hárari en þú ?

Jakob: Já.  Ef þú meinar loðnari.  Þú ert meira að segja með hár á bakinu.  Og á fótunum.  Og á . . .

Jóhannes: (dæsir) Hættu nú!

Jakob: (hvíslar) höndunum . . . á tánum . . . (glottir)

Jóhannes: Allavega.  Við erum þá líklega mestir af lærisveinunum.

Jakob: Kúl.

Jóhannes: MJÖG kúl.

Bið

Jakob: Jói mjói.

Jóhannes: hmmmm?

Jakob: Jói spói

Jóhannes: Já??

Jakob: Sko – Þegar Jesús er farinn til himna . . .

Jóhannes: Já?

Jakob: Ætli við fáum þá að sitja í hásætinu hjá honum ? Þá sjá líka allir að við erum mestir og flottastir.

Jóhannes: Mér finnst það bara mjög líklegt.

Jakob: Kúl.  Og ég verð þá hægra megin og þú vinstra megin.

Jóhannes: Haa? nei – það verður öfugt.

Jakob: Af hverju segirðu það?!

Jóhannes: Það er augljóst.  Þú ert örvhentur.

Jakob: Já. Nei? Spyrjum Jesú!

 

Sögumaður

Og þeir fóru og spurðu Jesú út í þetta svo það væri á hreinu að þeir sætu við hlið hans.  Þeim fannst það ekkert vafamál.  Svo þeir spurðu.

 

Jóhannes: Jesús – þegar þú ert farinn til himna hvort verð ég við hægri hlið þína eða Jakob?

 

Sögumaður

Jesús sagði þeim að hann réði því ekkert. Hinir lærisveinarnir heyrðu það sem Jói og Kobbi voru að spyrja og voru dáldið reiðir og sögðu “Hvað haldiði að þið séuð?? Haldiði að þið séuð eitthvað merkilegri en við?”  Og þeir fóru að rífast sem endaði með að Jesús sagði   “Strákar strákar strákar.  Ykkur langar til að vera mestir í himnaríki.  En sá sem vill vera mestur á að vera þjónn allra hinna.”

Það kom dauðaþögn.  Og það var augljóst að þeir skildu ekki baun.  Jesús hélt áfram. “Ég kom ekki í þennan heim til að láta þjóna mér – heldur til að þjóna öðrum. Gefa þeim líf mitt.” Og þá föttuðu þeir að Jesús var ekki svona kóngur með þjónustufólk. Hann var alltaf að hjálpa, lækna, aðstoða, alltaf að láta öðrum líða betur.  Samt var hann mestur allra í heimi.  Þeir hættu að rífast – enda er enginn merkilegri í augum Jesú. Hvort sem þú ert frægur, eða aleinn, eða góður í stærðfræði eða fótbolta eða lélegur í því. Jesús elskar okkur eins og við erum.  Það er engin manneskja merkilegri en önnur.

 

Brúður

Jóhannes: Það er satt.  Við erum öll ótrúlega merkileg.

Jakob: Já.  Og ótrúlega svöng.  Ég ætla að athuga hvort það sé ekki eitthvað eftir af úlfaldabollunum.

 

Sögumaður

Gerið það strákar. Við ætlum að syngja svolítið á meðan. (t.d. Þú ert þýðingarmikill)

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Kurteisi

Hjálpargögn: Rebbi

Rebbi: Urr! Halló!!! (hvæsir) urrr!

Leiðbeinandi: Vertu kurteis Rebbi minn og heilsaðu almennilega.

Rebbi: (Pirraður) Ég er ekki í stuði.

Leiðbeinandi: Af hverju ertu ekki í stuði?

Rebbi: Af því að Mýsla vildi ekki koma með mér í sunnudagaskólann. Hún þóttist vera veik. Ég held að hún sé bara að plata. Hún nennti ekki með mér. Urr!

Leiðbeinandi: Af hverju heldurðu að Mýsla hafi ekki nennt með þér?

Rebbi: Ég veit það ekki (setur upp sakleysissvip). Ég bankaði hjá henni og hún var eitthvað voðalega skrítin þegar hún kom til dyra.

Leiðbeinandi: Heldurðu að hún hafi ekki bara verið lasin?

Rebbi: Nei, það held ég ekki. Hún var bara að plata svo að hún gæti sofið lengur.

Leiðbeinandi: Því trúi ég ekki. Mýsla er alltaf svo morgunhress. Rebbi vertu ekki önugur.

Rebbi: Ég heiti ekki önugur. Ég heiti Rebbi og er refur.

Leiðbeinandi: Ég er ekki að segja að þú heitir önugur. Heldur að þú sért önugur. Önugur þýðir að vera fúll á móti eða úrillur. – Rebbi fórstu eitthvað öfugt fram úr rúminu í morgun?

Rebbi: Nei! Urr! Ég fer alltaf sömu megin fram úr rúminu. Og í morgun fór ég eins að eins og venjulega. Fór fram úr hægra megin. Nei bíddu (snýr sér í marga hringi) var það kannski vinstra megin? Nú er ég alveg orðinn áttavilltur og ráðvilltur.

Leiðbeinandi: Rólegur Rebbi minn. Hvað er eiginlega að angra þig?

Rebbi: (Sorgmæddur) Æi! Ég var búinn að plana nýjan leik sem ég ætlaði að kenna Mýslu eftir sunnudagaskólann og svo er hún bara lasin. Ég bara trúi þessu ekki. Ég sem var búinn að gera og græja fyrir leikinn og undirbúa svo vel.

Leiðbeinandi: Vá varstu að búa til nýjan leik fyrir ykkur Mýslu?!

Rebbi: Já. Og hvað geri ég núna?

Leiðbeinandi: Þú gætir farið heim til Mýslu og aðstoðað hana. Þegar maður er lasin þá hefur maður ekki sama kraft og venjulega. Þá er oft gott að fá hjálp frá vini sínum.

Rebbi: Heldurðu að Mýsla sé í alvörunni lasin?! (hissa)

Leiðbeinandi: Já, það held ég.

Rebbi: Oh . . . hvað ég hef verið vondur að halda að hún myndi plata mig.

Leiðbeinandi: Þú reddar þessu með því að fara heim til hennar og hjálpa henni. Hún verður þá fyrr að ná sér. Skilaðu kærri batakveðju frá okkur úr sunnudagaskólanum og við hlökkum til að sjá hana næst.

Rebbi: Takk Xx. Takk krakkar. Það er svo gott að koma í sunnudagaskólann og læra að vera kurteis. Nú er ég farinn að hjálpa Mýslu. Akradababa hviss bang! Ofur-Rebbi svífur af stað til hjálpar. BLEESSS!

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Litla Biblían

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla

Rebbi: Góðan dag krakkar!

Mýsla: Halló Rebbi og halló krakkar!

Rebbi: Mýsla, á ég að segja þér frá einu sem ég las um daginn?

Mýsla: Já endilega. Hvað varstu að lesa?

Rebbi: Sko. Ég var á Twitter og las tvít hjá einhverjum ofboðslega frægum munki . . .

Mýsla: [Grípur fram í]. Ha? Er þessi frægi munkur á Twitter? Ertu viss um það Rebbi?

Rebbi: . . . Já, æ en það skiptir ekki máli hvar ég las þetta heldur hvað það var sem ég las.

Mýsla: Allt í lagi, haltu áfram.

Rebbi: Þetta var alls ekki langur texti. Þetta var eignlega bara rosalega stuttur texti. Já, eiginlega bara mjög mjög stuttur, en um eitthvað . . . risastórt . . . og . . . merkilegt. [Endar setninguna hægt og er hugsi].

Mýsla: Eitthvað rosalega stutt en samt risastórt og merkilegt. Hmm . . . haltu áfram. [Smá efins].

Rebbi: Já og ég man að hann kallaði þennan litla texta Litlu Biblíuna.

Mýsla: Litlu Biblíuna? Er til einhver minni útgáfa af Biblíunni?

Rebbi: Já, eða nei, ekki alveg þannig . . .

Mýsla: Er þetta Biblía fyrir þá sem eru lávaxnir? Til dæmis fyrir mig? Ég er lítil mús. Er þetta kannski Biblía sem er sérhönnuð fyrir mig þannig að ég þurfi ekki að halda á stórri og þungri bók?

Rebbi: Tja . . . Nei, ég skildi þetta öðruvísi. Ef maður vill segja boðskap Biblíunnar með einni lítilli setningu þá er þessi setning sú setning Biblíunnar sem kemst næst því.

Mýsla: Nú jæja, útdráttur úr Biblíunni. Sniðugt. Og hvernig hljómar þessi setning?

Rebbi: Hún hljómar svona: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“

Mýsla: Já, þetta var ekki langur texti. Bara ein setning?

Rebbi: Einmitt en þessi setning fjallar um svo ótrúlega merkilegan hlut og boðskapur hennar er risastór.

Mýsla: [Hugsi]. Áhugavert. Þetta er falleg setning. Það er magnað að Guð skyldi láta son sinn Jesú fæðast á jörðinni.

Rebbi: Jebb. Jesús var frelsari mannanna. Hann sigraði dauðann.

Mýsla: Hey! Ég er með frábæra hugmynd fyrir þann sem skrifaði Biblíuna. Það væri mjög sniðugt fyrir hann eða hana að setja þessa setningu á bakhlið bókarinnar, til þess fólk geti áttað sig strax um hvað bókin er.

Rebbi: Ja, neee . . .

Mýsla: [Grípur fram í]. Já og síðan má hann eða hún ekki gleyma að taka fallega uppstillta mynd af sér, helst í rúllukragapeysu, og setja hana líka aftan á bókina. Hver var það eiginlega sem skrifaði Biblíuna?

Rebbi: Það var ekki bara ein manneskja sem skrifaði Biblíuna. Það voru mjög margir sem skrifuðu hana.

Mýsla: Nú? Er það?

Rebbi: Já, fullt fullt af fólki. Og veistu hvað orðið Biblía þýðir?

Mýsla: Nei, ég veit það ekki.

Rebbi: Vitið þið það krakkar? [Athuga hvort krakkarnir geti svarað].
Orðið Biblía þýðir nefnilega bækur eða bókasafn. Biblían er því ekki bara ein bók heldur samansafn margra bóka.

Mýsla: Merkilegt. Þú ert ekkert smá klár Rebbi. Fræðslumolar bara hægri vinsti.

Rebbi: Takk fyrir, Mýsla. Mér finnst þú líka mjög klár og sniðug . . . En nú þurfum við að fara krakkar. Bless bless.

Mýsla: Sjáumst næsta sunnudag!

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Rebbi veikur

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla

[Mýsla byrjar ein].

Mýsla: Halló krakkar, gaman að sjá ykkur. Hafið þið séð Rebba?

[Krakkarnir svara].

Mýsla: Hmm . . . hann sagði við mig að hann ætlaði að koma í sunnudagaskólann. Hann hlýtur að fara að koma.

[Það heyrist í Rebba hnerra á bakvið leikhústjaldið].

Mýsla: Heyrðuð þið þetta? Við skulum hlusta og gá hvort þetta heyrist aftur.

[Rebbi kemur upp á svið í flýti].

Rebbi: Aaaaaatsjúúh!

Mýsla: Guð blessi þig. [Flissar]. Og Góðan daginn. Gaman að sjá þig.

Rebbi: Takk. Sæl Mýsla . . . [Rebbi er nefmæltur og talar hægt, leikari getur til dæmis haldið fyrir nefið].

Mýsla: Þú ert svolítið seinn í dag.

Rebbi: Já, ég kom til þess að segja þér að . . . aaað . . . aaaatsjúh!

Mýsla: Guð blessi þig. Heyrðu, Rebbi þú átt eftir að heilsa krökkunum.

Rebbi: Já, halló krakkar. Það er ótrúlega gaman að sjá ykkur. Mýsla, ég þarf að segja þér eitt.

Mýsla: Já, hvað er það?

Rebbi: Það er að . . . aaað . . . aaaaaaaaaatsjúh!

Mýsla: Guð blessi þig. Rebbi, hvað eigum við að gera í dag með krökkunum?

Rebbi: Það var akkúrat það sem ég ætlaði að tala við þig um. Ég verð nefnilega að segja þér frá því að . . . aaað . . . aaaaaatsjúh!

Mýsla: Guð blessi þig. Hvað ertu eiginlega að reyna að segja mér, Rebbi?

Rebbi: Sko, að . . . aaað . . . aaaaaatsjúh!

Mýsla: Guð blessi þig. Rebbi, koma svo, út með það.

Rebbi: Allt í lagi. Ég get þetta. [Ávarpar sjálfan sig]. Rebbi, einbeita sér . . . Sko, það sem ég er að reyna að segja þér er . . . að . . . þannig er mál með vexti að . . . aaað . . .

Mýsla: Nei, nei . . .

Rebbi: Aaað . . . aaaað . . .

Mýsla: Nei ekki hnerra . . .

Rebbi: Aaaaaaaatsjúh!

Mýsla: Guð blessi þig. Rebbi, ég held þú verðir að viðurkenna að þú ert veikur. Ég held þú ættir að vera heima í dag og reyna að jafna þig.

Rebbi: JÁ! Það var akkúrat það sem ég ætlaði að segja þér Mýsla. Ég ætlaði að segja þér að ég kemst ekki í sunnudagaskólann í dag, af því ég er veikur.

Mýsla: Ó, þú hefðir átt að segja það fyrr. Við erum búin að vera hérna heillengi.

Rebbi: Einmitt. Það gekk svo illa að segja þér þetta. Ég þurfti alltaf að hnerra. Ég vildi bara ekki að þú værir að bíða eftir mér . . . aahh . . . [Finnst hann þurfa að hnerra en hnerrar ekki]. Úff . . . svo ég varð að koma og láta þig vita.

Mýsla: Það var fallega hugsað en drífðu þig nú heim og taktu því rólega. Þú ættir að skríða upp í sófa og láta fara vel um þig.

Rebbi: Ég skal gera það. Bless Mýsla. Bless krakkar.

Mýsla: Bless Rebbi og láttu þér batna!

[Rebbi fer út].

Mýsla: Hmm . . . Ég held ég fari bara með Rebba og hjálpi honum að koma sér vel fyrir uppi í sófa, færi honum eitthvað heitt að drekka og svona. Bless krakkar. Það var gaman að vera með ykkur í dag. Bíddu Rebbi! Ég er að koma!

[Sunnudagaskólakennararnir geta nýtt tækifærið að leikriti loknu og rætt um orðin „Guð blessi þig“ og „Guð hjálpi þér“. Hvenær segjum við þetta og af hverju?]