Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Ljósið

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla

Rebbi: Halló Mýsla

Mýsla: Nei blessaður Rebbi, hvað segir þú gott í dag?

Rebbi: Jú ég er bara eldhress en þú?

Mýsla: Ég er í svaka stuði. Á ég að segja þér eitt sem ég var að uppgötva?

Rebbi: Já endilega.

Mýsla: Þú veist hvað ljós er, ekki satt?

Rebbi: Jú auðvitað veit ég hvað ljós er . . .

Mýsla: Já og þú veist að ljós getur verið mis bjart. Það eru til alls konar ljósgjafar? Það eru til dæmis til venjulegar ljósaperur sem lýsa upp stór og lítil herbergi.

Rebbi: Og ef maður vill hafa kósý birtu þá getur maður kveikt á kertum.

Mýsla: Einmitt! Síðan getur maður notað vasaljós eða símann sinn til þess að leita að einhverju í myrkri.

Rebbi: Síðan má ekki gleyma risa stóra sjóðheita ljósinu . . . Sólinni!

Mýsla: Alveg rétt, sólin er risa stórt ljós sem færir okkur mikla birtu. En veistu það Rebbi, að sama hversu lítið ljósið er, þá lýsir það alltaf upp myrkrið.

Rebbi: Hmm . . . hvað meinarðu?

Mýsla: Sko, þú veist hvað myrkur er?

Rebbi: Auðvitað veit ég hvað myrkur er . . .

Mýsla: Já og þú veist að myrkur getur verið mis dimmt?

Rebbi: Já, passar . . .

Mýsla: En spáðu í þessu; Sama hversu mikið myrkur er á staðnum þá sigrar ljósið alltaf. Þar sem er alveg kolniðamyrkur, getur þú kveikt á pínulitlu kerti og birtan sigrar myrkrið og lýsir upp rýmið

Rebbi: Vó, en áhugavert.

Mýsla: Ef þú myndir safna saman öllu myrkri í öllum heiminum á einn stað, þá myndi pínu lítið eða veikt ljós samt sigra allt myrkrið. Presturinn hér í kirkjunni sagði einu sinni að Jesús hefði sagt: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“

Rebbi: Ég hef líka heyrt þetta einhvern tímann!

Mýsla: Já og ég held að það þýði að Jesús er eins og ljós í myrkrinu. Hann er sterkur og getur hjálpað okkur í gegnum okkar myrkur og okkar erfiðleika.

Rebbi: Hmm . . . ég skil . . . Þegar Jesús var á jörðinni heldurðu að hann hafi lýst í myrkri?

Mýsla: Neee ég held að þetta sé meira . . .

Rebbi: (Grípur frammí) Vó!! Hann hefur örugglega verið öööömurlegur í feluleik. Hann hefur örugglega alltaf þurft að “ver’ann.” Það hafa örugglega allir fundið hann strax.

Mýsla: Nei, ég held þú sért að aðeins að misskilja . . .

Rebbi: (Grípur frammí) En hann hefur örugglega verið mjög góður í því að finna þá sem voru að fela sig af því að hann lýsti allt upp og allir góðu felustaðirnir hurfu um leið (hljómar hugsi).

Mýsla: Sjálflýsandi Jesús. Híhí, þú ert nú meiri kallinn Rebbi. Ég held að Jesús sé ekki í neinum feluleik. Hann vill einmitt að allir finni sig. Hann vill vera vinur allra og lýsa veginn fyrir okkur.

Rebbi: Magnaður gæi.

Mýsla: Jebb, en nú þurfum við að fara.

Rebbi: Gaman að sjá ykkur krakkar!

Mýsla: Sjáumst í næsta sunnudagaskóla. Munum að meira að segja lítið ljós lýsir upp myrkrið. Bless!

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Týndi boltinn

Hjálpargögn: Rebbi, Mýsla og bolti (eða annað leikfang). Felið boltann á stað sem er ekki of augljós.

Rebbi:  Halló, krakkar!

Mýsla:  Halló, krakkar [hljómar leið].

Rebbi:  Er ekki allt í lagi Mýsla?

Mýsla:  Nei . . . Ég er búin að týna boltanum mínum.

Rebbi:  Hvað segirðu? Það er leitt að heyra. Hvernig lítur hann út?

Mýsla:  Hann er kringlóttur og ótrúlega flottur. Þetta er bolti númer 7 í boltasafninu mínu.

Rebbi:  Boltasafninu? Hvað áttu eiginlega marga bolta?

Mýsla:  35 . . . en núna eru þeir bara 34 [alveg við það að gráta].

Rebbi:  En Mýsla, 34 boltar. Það eru rosalega margir boltar. Þú getur ekki einu sinni haldið þeim öllum á lofti í einu.

Mýsla:  Já og hvað með það?

Rebbi:  Þú þarft ekki að vera leið yfir því að vera búin að týna einum. Þú átt 34 aðra bolta.

Mýsla:  Jú, hann er alveg einstakur.

Rebbi: Af hverju skiptir þessi eini bolti svona miklu máli?

Mýsla: Ég fékk hann í gjöf frá Magnúsi músafrænda.

Rebbi:  Ó, ég skil. Jæja, ég skal hjálpa þér að finna hann!

Mýsla:  Takk fyrir það!

Rebbi:  Manstu hvar þú týndir honum?

Mýsla:  Já [snöktir]. Ég held ég hafi týnt honum hérna í kirkjunni.

Rebbi:  Nú? Þá getum við öll hjálpast að við að leita að boltanum þínum.

Mýsla:  Já . . . eða kannski er boltinn bara heima. Ég ætla að fara aftur heim og leita að honum þar.

Rebbi:  Jæja þá. Bless Mýsla.

[Mýsla fer]

Rebbi:  Æi, það var leiðinlegt að sjá Mýslu svona leiða. Það væri svo gaman ef við myndum finna boltann. Það er svo gaman að gleðja aðra. Ég held að Mýsla yrði alveg svakalega glöð. Hvað segið þið krakkar? Eruð þið til í að hjálpa mér? Hún sagði að hún hefði líklegast gleymt boltanum hér í kirkjunni. Hvar eigum við að byrja að leita?

[Leiðbeinandi / eða sá sem lék Mýslu kemur og hjálpar börunum að leita að boltanum]

Rebbi: Kannski er boltinn undir stól. Allir að kíkja undir stólana sína.

Nei, hann er ekki þar. Kannski er hann . . . [gefa vísbendingar þar til boltinn finnst]

Leiðbeinandi: Við fundum boltann!

Rebbi:  Frábært. Ég skal taka boltann og fara með hann til Mýslu. Haldið þið að hún verði ekki ánægð? [Hlusta á svör krakkanna]. Jú það held ég líka. Ég hlakka svo til að sýna henni boltann og segja henni að við hjálpuðumst öll að við að finna hann fyrir hana. Takk allir fyrir að hjálpa til við að leita. Sjáumst næsta sunnudag! Bless!

 

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Skiptum jafnt á milli

Hjálpargögn: Mýsla, Rebbi og kex, ávextir eða eitthvað annað sem er til – helst eitthvað sem krökkunum er boðið upp á eftir sunnudagaskólann.

Mýsla: Góðan daginn.

Rebbi: Já, Góðan daginn! Hvað segið þið gott í dag, krakkar?

Mýsla: Rebbi, Rebbi, Rebbi, ég verð að segja þér.

Rebbi:  Já, hvað?

Mýsla: Mig langaði svo að fara með þér í einhvern leik þannig að ég bað XX (nafn sunnudagaleiðtogans) um að fela handa okkur tvö kex.

Rebbi:  Ha? Og hvað? Hvernig er leikurinn? Eigum við að leita að kexinu?

Mýsla: Já, ertu tilbúinn?

Rebbi:  Jamm. Ég er ótrúlega góður að þefa uppi kex!

Mýsla: Einn, tveir og byrja.

[Mýsla er fljót og þeytist um, en Rebbi tekur sér góðan tíma].

Rebbi:  Mrrh . . . má ég sjá, ekki hér . . . nei ekki heldur hér.

Mýsla: Jippí. Ég fann eitt. [Kemur með kexið og setur það svo það sjáist].

Rebbi:  Urrrr . . .

[Mýsla heldur áfram að þeytast um. Rebbi flýtir sér hægt].

Mýsla: Jejjj. Ég fann hitt kexið líka! Rebbi, þú getur hætt að leita. Ég er búin að finna þau bæði.

Rebbi: Ohhhh.

Mýsla: Vá hvað ég er heppin að fá að borða tvö kex.

Rebbi:  Ha? En Mýsla . . . [sár og svekktur]

Mýsla: Hvað?

Rebbi:  En . . . en . . . Faldi XX (nafn sunnudagaskólastarfsmanns) ekki eitt kex fyrir þig og síðan eitt fyrir mig?

Mýsla: Uhhhhh . . . nei. Þetta var keppni. Og ég var bara svo flink að leita að ég fann þau bæði. Þannig að ég fæ tvö kex.

Rebbi:  En . . . en . . .

Mýsla: Hefurðu ekki heyrt málsháttinn: Sá á fund sem finnur? Ég held að hann eigi sérstaklega við þegar um kex er að ræða.

Rebbi:  Ohhh . . . jú . . . ég þekki þennan málshátt. [Leiður]. Jæja þá. Ég ætla samt að athuga hvort það sé ekki eitt kex í viðbót einhvers staðar. Kannski faldi XX (nafn sunnudagaskólastarfsmanns) þrjú.

[Rebbi fer í hvarf. Mýsla er ein eftir með kexin tvö].

Mýsla: Æææi . . . krakkar, sáu þið Rebba. Ég held hann hafi verið svolítið leiður. Af hverju skildi það hafa verið? [Reyna að fá krakkana til að svara]. Það var kannski svolítið ósanngjart að ég skyldi fá tvö kex og Rebbi ekki neitt. Ég var pínu eigingjörn. Ég hefði átt að gefa með mér. Ummm. Ég held að ég verði að biðja Rebba afsökunar. [Kallar] Rebbi komdu aðeins!

Rebbi: [Leiður að sjá] Hvað?

Mýsla: Ég var aðeins að tala við krakkana og við erum sammála um að ég hafi verið frekar ósanngjörn við þig áðan. Auðvitað eigum við að skipta kexinu á milli okkar. Ég fæ eitt og þú færð eitt.

Rebbi:  Ha? Í alvöru? En þú fannst bæði kexin!

Mýsla: Já, ég veit, en maður á að gefa með sér og skipta jafnt á milli allra.

Rebbi: Takk, Mýsla . . . en hvað með krakkana? Fá þau ekkert kex? Ég get gefið þeim smá bita af mínu kexi.

Mýsla: Já! Allt í lagi. Gerum það! En . . .

Rebbi: En hvað?

Mýsla: Eru krakkarnir ekki vanir að fá kex eftir sunnudagaskólann? Kannski er best að þau fái bara sitt eigið kex þá.

Rebbi: Góð hugmynd. Það er örugglega nóg til fyrir alla!

Mýsla: Já! . . . Rebbi, við þurfum eiginlega að fara núna.

Rebbi: Þá þurfum við víst að kveðja. Bless krakkar.

Mýsla: Bless!

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Verum ekki áhyggjufull

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla

[Rebbi og Mýsla koma upp. Mýsla heilsar öllum glöð, en Rebbi er smeikur að sjá].

Mýsla: Sæl og blessuð. Gaman að sjá ykkur, krakkar!

Rebbi:  Halló . . . [hvíslar]

Mýsla: Er ekki allt í lagi Rebbi?

Rebbi:  Tja, ég veit ekki alveg . . . AAAH [hrópar upp yfir sig af hræðslu]

Mýsla: Hvað er að Rebbi?

Rebbi:  Æji, mig dreymdi martröð í nótt.

Mýsla:  Það er leitt að heyra Rebbi minn.

Rebbi:  Já og núna er ég hræddur í hvert skipti sem ég sé skugga. Og Mýsla veistu hvað? Þeir eru út um allt!

Mýsla: Já, skuggar eru út um allt. Þú þarft ekkert að vera hræddur við . . . [Rebbi grípur fram í fyrir Mýslu].

Rebbi:  Mýsla!! Það er skuggi á bak við þig!

Mýsla: [Mýsla kippist örlítið til] Ha?! Já, auðvitað. Þetta er bara skugginn af mér! Þú veist að þú ert líka með skugga.

Rebbi:  Ha? Hvað segðirðu?

Mýsla: Þú ert líka með skugga, eins og við öll.

Rebbi:  AAAAH! [Rebbi hleypur um eins og til að losna við skuggann].

Mýsla: Rebbi, Rebbi, Rebbi, slakaðu á! [Rebbi stoppar] Gerðu eins og ég. Andaðu inn um trýnið og út um munninn og aftur inn um trýnið og út um munninn. [Rebbi róast].

Rebbi:  Veistu, ég kvíði svolítið fyrir því að fara að sofa í kvöld. Hvað ef ég fæ aðra martröð?

Mýsla: Ekki hafa neinar áhyggjur, Rebbi minn. Guð og Jesús og allir englarnir gæta okkar.

Rebbi:  Já, ég veit . . . en ekki á nóttunni [fullvissa í röddinni].

Mýsla: Jú, Guð gætir okkar alltaf. Ekki bara stundum. Og Jesús vill hjálpa okkur að vera ekki áhyggjufull. Hann sagði að það væri óþarfi að vera með áhyggjur.

Rebbi:  Úff, það er gott.

Mýsla: Já, nákvæmlega! Það er svo gott að vita að við erum aldrei ein. Ég er með góða hugmynd. Amma-mús kenndi mér bæn sem getur örugglega hjálpað þér að sofna í kvöld.

Rebbi:  Nú, hvernig er hún?

Mýsla: Þetta er sko bæn sem ég fer alltaf með á kvöldin áður en ég fer að sofa. [Hljómar spennt]. Hún er svona:

Vertu yfir og allt um kring

með elífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

Rebbi: Þetta er falleg bæn.

Mýsla: Það finnst mér líka. Ég ímynda mér alltaf að Jesús sendi litla sæta engla sem sitja á sænginni minni alla nóttina og passa upp á mig.

Rebbi:  Það er fallegt. Mýsla ertu til í að kenna mér þessa bæn. Krakkar kunnið þið hana? Viljið þið læra hana með mér?

Mýsla: Já, auðvitað. Ég skal kenna ykkur hana. Hermið eftir mér.

[Mýsla segir eina línu í einu og Rebbi og krakkarnir endurtaka saman, eins og í hermibæn]

Vertu yfir og allt um kring

með elífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

Rebbi:  Vitið þið það, ég er ekki frá því að mér líði aðeins betur núna!

Mýsla: Það er nú gott að heyra.

Rebbi:  Ég ætla að reyna eins og ég get að muna þessa fallegu bæn. Mýsla, við ættum að drífa okkur heim.

Mýsla: Það er rétt. Bless, krakkar! Sjáumst næsta sunnudag.

 

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Tvöfalda kærleiðsboðorðið

Hjálpargögn: Mýsla og Rebbi (derhúfa).

Mýsla:  Komið þið sæl, krakkar. Gaman að sjá ykkur öll. Halló, Rebbi.

Rebbi:  Jó jó jó! Ég er mættur á svæðið.

Mýsla:  Ertu í góðu skapi Rebbi?

Rebbi:  Ég er alltaf í stuði með Guði!

Mýsla:  Það er bara svona.

Rebbi:  Já, ég er nefnilega búinn að finna hlutverk mitt í lífinu. Nú megið þið kalla mig Rebba rappara.

Mýsla:  Rebbi rappari? Það hljómar vel.

Rebbi:  Á ég ekki að sýna ykkur smá tóndæmi?

Mýsla:  Jú endilega.

Rebbi: [Rappar]

Rebbi rappari,

er mættur í hús.

Enginn er hressari,

fæ mér kex og djús.

Allt sem ég segi,

rímar rosa vel,

ég nánast aldrei þegi

Eem … Því… mér finnst gaaman að talaa?.. já og rappa… og… hmm…

Rebbi rappari yfir og út!

Mýsla:  Vá, þetta var sko flott! En ef þú ert með hlutverk á ég þá ekki líka að vera með eitthvað hlutverk? Hvert er mitt hlutverk í lífinu?

Rebbi:  Það getur verið hvað sem er. Ummm . . . Þú gætir til dæmis verið hástökkvari!

Mýsla:  Nei, Rebbi! Ég er bara lítil mús. Ég held ég geti ekki orðið góður hástökkvari [Mýsla verður leið]

Rebbi:  En hvað með forseti Íslands?

Mýsla:  Nei, mýs geta ekki orðið forseti Íslands. Bara fólk.

Rebbi:  Jájá, auðvitað. En kaffismakkari?

Mýsla:  En, en … en mér finnst kaffi ekki gott [Mýsla fer að gráta] Ég er ekki með neitt hlutverk. Þú ert kominn með þitt hlutverk en ég mun aldrei finna mitt.

Rebbi:  [Sýnir samhygð] Æi Ó! Mýsla mín ekki vera leið . . . [Eins og það kvikni á perunni] Aha! Ég veit! Þú ert nú þegar með BESTA hlutverkið.

Mýsla:  Nú, hvað er það?

Rebbi:  Þú ert ótrúlega góð vinkona og alveg frábær mús. Þú gleður mig þegar ég er leiður og hjálpar mér þegar ég þarf á hjálp að halda. Síðan ertu svo skemmtileg!

Mýsla:  Jaá . . . en þá ert þú líka með þetta hlutverk. Þú ert góður vinur.

Rebbi:  Já! Það er af því að við erum ekki bara með eitt hlutverk í lífinu heldur mörg! Þú ert ekki bara góð vinkona. Þú ert líka góð að teikna. Það er eitt af hlutverkunum þínum að vera teiknari.

Mýsla:  [Gleðst] Þetta er satt hjá þér Rebbi, mikið ertu klár.

Rebbi:  Takk. Við erum búin að vera svolítið dugleg að hrósa hvort öðru í dag.

Mýsla:  Já, það er svo gaman að vera góð við hvort annað. Rebbi þú veist að mér þykir rosalega vænt um þig.

Rebbi:  Sömuleiðis elsku Mýsla mín. Þú ert besta vinkona mín. Vissirðu það?

Mýsla:  Uhh, já ég held það. Við erum sko bestu vinir. En það er gaman að heyra þig segja það . . . Æi, við þurfum að fara að koma okkur. Bless krakkar! Munum að vera góð við hvert annað.

Rebbi:  Já! Að vera góður vinur er besta hlutverkið. Bless, krakkar. Bless, bless!

 

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Börn Guðs

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla.

Mýsla: Komið þið sæl og blessuð.

Rebbi: [Klórar sér í höfðinu og er mjög hugsi]. Halló, krakkar. Halló, Mýsla.

Mýsla: Rebbi, af hverju ertu svona hugsi á svipinn?

Rebbi: Ja . . . hmm . . . Ég er bara búinn að vera að velta svolitlu fyrir mér í allan dag.

Mýsla: Hverju ertu að velta fyrir þér?

Rebbi: Ja, bara allskonar hlutum. Ég hugsa um hitt og þetta. Og þetta og hitt og . . .

Mýsla: Geturðu verið aðeins nákvæmari.

Rebbi: Ég er að spá í lífið og tilveruna, Guð og jörðina og bara allt þar á milli.

Mýsla: Ég skil.

Rebbi: Það er sérstaklega eitt sem ég er búinn að vera hugsa um í allan dag. Ég bara get ekki hætt að hugsa um það.

Mýsla: Hvað er það?

Rebbi: Það er eiginlega spurning: Hvenær hættum við að vera börn?

Mýsla: Hmm . . . Er það ekki bara þegar maður er orðinn eitthvað ákveðið gamall, þegar við verðum fullorðin?

Rebbi: Jú, kannski . . . Hvenær heldurðu að það sé?

Mýsla: Ég myndi giska á svona . . . 15 ára eða 20 ára eða . . . ég veit það ekki alveg.

Rebbi: Eða kannski bara í kringum 30 eða 40 eða?

Mýsla: Já, kannski. Þegar ég hugsa út í það þá er afi mús kannski enn þá barn.

Rebbi: Ha? Hvernig getur hann verið barn? Hann er afi þinn.

Mýsla: Sko. Já, ég veit. Hann er frekar gamall en þegar við förum í sund þá fer hann samt alltaf í rennibrautina.

Rebbi: [Hissa] Í alvöru?!

Mýsla: Einu sinni sagði ég við afa mús að rennibrautir væru bara fyrir börn. Og veistu hvað hann sagði þá?

Rebbi: Nei, hvað sagði hann?

Mýsla: [Hneyksluð] Hann sagði bara: „Já, ég veit“ og svo renndi hann sér niður á fleygiferð.

Rebbi: Vá, en fyndið. Þannig að afi þinn er enn þá barn?

Mýsla: Jaá, greinilega [hugsi].

Rebbi: Það hlýtur bara að vera. Ég heyrði einhvers staðar að maður sé aldrei of gamall til að vera barn Guðs!

Mýsla: Bíddu, ertu að segja að við séum öll börn Guðs sama hvað við erum gömul?

Rebbi: Já, einmitt. Þarna kom svarið við spurningunni okkar! Sama hvað við erum gömul þá erum við alltaf börn Guðs. Þess vegna má segja að maður hætti aldrei að vera barn!

Mýsla: Við munum alltaf vera börn Guðs. Alveg að eilífu.

Rebbi: Jebb.

Mýsla: Góð pæling hjá þér Rebbi.

Rebbi: Jebbs.

Mýsla: Eigum við að drífa okkur heim og athuga hvort afi mús sé til í að fara með okkur í sund?

Rebbi: Já, það væri gaman.

Mýsla: Við skulum kveðja krakkana. Við þurfum að fara núna krakkar. Takk fyrir í dag. Bless, bless.

Rebbi: Bless!

 

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Afmæli Jesú

Hjálpargögn: Mýsla og Rebbi

Rebbi:  Sæl, öllsömul!

Mýsla:  Halló!

Rebbi:  Ég er orðinn svooo spenntur fyrir afmælinu!

Mýsla:  Ha? Hvaða afmæli?

Rebbi:  Nú afmæliNU!

Mýsla:  Hvað meinarðu Rebbi?

Rebbi:  Ég er auðvitað að tala um aðal afmælisveisluna.

Mýsla:  Nú … æji, mér var ekki boðið í neitt afmæli á næstunni …

Rebbi:  Jú, þér er boðið!

Mýsla: Ha? Ertu viss?

Rebbi:  JÁHÁ, öllum í heiminum er boðið!

Mýsla:  Um hvað ertu að tala?

Rebbi:  Stærsta afmælispartý ársins. Og það er sko árlegt.

Mýsla:  Rebbi, nú verður þú að útskýra þetta betur fyrir mér. Ég skil hvorki upp né niður. Hver á eiginlega afmæli?

Rebbi:  Nú Jesús auðvitað!

Mýsla:  Jaá [fattar]. Ertu að tala um jólin?

Rebbi:  Jebbs, afmælið hans Jesú.

Mýsla:  Ég var ekki búin að hugsa út í þetta. En gaman! Afmæli eru svo skemmtileg.

Rebbi:   Það finnst mér líka … Hvernig er drauma afmælisveislan þín Mýsla?

Mýsla:  Hmm … á tunglinu!

Rebbi:  Ha? Á tunglinu? Af hverju á tunglinu?

Mýsla:  Því að tunglið er úr osti og allir vita að músum finnst ostur góður. Ég er bara að grínast!

Rebbi:  Haha, þú er fyndin. En hvernig heldur þú að Jesús vilji hafa afmælisveisluna sína?

Mýsla:  Hmm … Ég held að hann dansi uppi í himnaríki með öllum englunum og allir borði piparkökur og skemmti sér saman. Hvernig heldur þú að Jesús vilji halda upp á afmælið sitt?

Rebbi:  Ég held að Jesús vilji mest af öllu að við séum glöð og ánægð og góð hvert við annað. Hann er örugglega ánægður með að við fögnum afmælinu hans með fjölskyldu okkar og vinum.

Mýsla:  Já, það er örugglega rétt hjá þér. Kannski er það þess vegna sem við erum alltaf að reyna gleðja hvort annað um jólin. Með því að gleðja hvort annað erum við að gleðja Jesú.

Rebbi:  Akkúrat. Það er svo gott að gleðja aðra.

Mýsla: Og óska hvert öðru gleðilegra jóla. Gleðileg jól, Rebbi minn! Gleðileg jól, krakkar! Ég vona að þið hafið það gott yfir jólin.

Rebbi: Já, hafið það gott. Gleðileg jól!

 

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Uppskriftin

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla. Blað eða miði.

Mýsla: Halló Rebbi.

Rebbi: Nei, sæl og blessuð Mýsla. Mikið er gott að þú sért komin. Ég verð að segja þér frá einu!

Mýsla: Nú, hvað ætlarðu að segja mér?

Rebbi: Þú veist hversu gaman mér finnst að borða góðan mat. Og að uppáhalds eftirrétturinn minn er súkkulaðikakan sem amma býr til?

Mýsla: Já, ég veit það. Þú minnist oft á þessa frægu súkkulaðiköku.

Rebbi: Haha, það getur passað. Og veistu hvað? Amma gaf mér uppskriftina um daginn þannig núna get ég prófað að baka hana alveg sjálfur!

Mýsla: Nau nau nau, það er frábært. Ertu ekki spenntur að prófa að baka uppáhaldskökuna þína?

Rebbi: Heldur betur. Ég get ekki beðið! Sjáðu, hún skrifaði uppskriftina á þennan miða fyrir mig.

Mýsla: Má ég lesa hana?

Rebbi: Gjörðu svo vel.

Mýsla: Hmmm . . . Ég á svolítið erfitt með að skilja hvað stendur. Amma þín skrifar nefnilega með svona tengiskrift. Hún er mjög flott en það er svolítið erfitt að lesa hana.

Rebbi: JÁ, ÉG VEIT! Þess vegna lét ég pabba skrifa þetta aftur upp fyrir mig á hina hliðina. Bíddu aðeins. [Rebbi snýr blaðinu við]. Svona, þetta er betra.

Mýsla: Já, nú get ég lesið hvað stendur. Þetta virðist vera flott uppskrift.

Rebbi: Jebb, amma er búin að vera í mörg ár að þróa þessa uppskrift og hún verður alltaf betri og betri. Þegar ég hugsa út í það þá er amma alveg svakalega góð að baka og mér finnst hreinlega að hún ætti að gefa út sína eigin uppskriftabók.

Mýsla: Ég væri sko alveg til í að eiga þá bók. Talandi um bækur, veistu hvaða bók er líklega mest lestna bók í öllum heiminum?

Rebbi: Hmmm . . . Byrjar hún á B?

Mýsla: Já, krakkar vitið þið hvaða bók það er?

[Krakkarnir svara].

Mýsla: Bíblían! Hárrétt og mér finnst að það megi kannski segja að Biblían sé vinsælasta uppskriftabók í heimi.

Rebbi: Haa? Hvað meinarðu með því, Mýsla?

Mýsla: Biblían er bók full af uppskriftum. Hvernig hægt er að lifa góðu lífi, híhí. [Hlær].

Rebbi: Uppskrift að góðu lífi . . . [Sagt hægt. Hann er hugsi].

Mýsla: Ég er bara að pæla. Biblían er kannski svolítið eins og uppskriftin sem þú fékkst frá ömmu þinni. Ef þú lest uppskriftina vel og fylgir henni eftir þá ættirðu að enda með gómsæta súkkulaðiköku, ekki satt?

Rebbi: Það passar.

Mýsla: Önnur leið til þess að búa til köku væri að lesa ekki uppskriftina og giska bara á allt sem er í kökunni. Þú gætir sett alls konar bökunarvörur að handahófi í skál og hrært. Þú gætir orðið mjög heppinn og hitt akkúrat á allt sem þarf til þess útkoman verði gómsæt súkkulaðikaka. En þú gætir líka verið óheppinn. Þá bragðast útkoman illa.

Rebbi: Jaá, maður gæti til dæmist sett fullt af salti og óvart gleymt súkkulaðinu. Það yrði hræðileg súkkulaðikaka!

Mýsla: Einmitt. Að því leyti er Biblían eins og uppskriftabók. Maður er ekki neyddur til þess að fylgja öllu sem stendur. Þetta eru bara svona uppskriftir eða leiðbeiningar Guðs.

Rebbi: Ég skil. Þannig að með því að fylgja því sem stendur í Biblíunni getur maður lært hvernig er best að lifa lífinu?

Mýsla: Mörgum finnst það allavega. Boðskapur Biblíunnar er nefnilega svo góður. En Guð vill ekki þvinga neinu upp á neinn. Ég held hann vilji bara að við getum fylgt svona góðum leiðbeiningum ef við viljum.

Rebbi: Áhugavert . . .  [Virkar hugsi]. En stundum er erfitt að skilja það sem stendur í Biblíunni.

Mýsla: [Hlær]. Já! En er það ekki bara svolítið eins og skrautskriftin hennar ömmu þinnar?  Það er oft gott að fá einhvern sem skilur textann betur til þess að útskýra fyrir manni.

Rebbi: Já. Pabbi var góður að hjálpa mér að skilja skriftina hennar ömmu . . .

Mýsla: Heyrðu, Rebbi. Má ég vera með þegar þú prófar að baka frægu súkkulaðikökuna?

Rebbi: Já auðvitað kæra vinkona, förum heim og bökum. Pabbi minn getur kannski hjálpað okkur.

Mýsla: Það hljómar vel! Ég er tilbúin að fara. Ég þarf bara að kveðja krakkana. Bless krakkar.

Rebbi: Já! Bless krakkar! Sjáumst fljótt aftur.

 

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Sjónarhorn

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla

Mýsla: Góðan dag krakkar!

Rebbi: Halló öllsömul og sæl Mýsla. Þú lítur vel út í dag kæra vinkona. Er þetta ný hárgreiðsla?

Mýsla: Nei, reyndar ekki. Ég er alltaf með sömu gömlu góðu hárgreiðsluna og svo vex hárið á mér svo ótrúlega hægt. Það mætti halda að það væri bara saumað á mig!

Rebbi: Haha, þú ert nú svolítið fyndin Mýsla! En heyrðu. Mig langar svo að gera eitthvað spennandi í dag, upplifa ævintýri!

Mýsla: Úú spennandi. Hvað ertu með í huga?

Rebbi: Hmmm . . . Mig langar að klifra einhvert hátt upp og horfa yfir heiminn.

Mýsla: Bíddu, hversu hátt upp? [Hljómar smá óörugg].

Rebbi: Bara eins hátt og við komumst!

Mýsla: Tja, ég veit nú ekki alveg með það. Ég er svo lofthrædd, Rebbi.

Rebbi: Mýsla þú verður að koma með. Þetta yrði ekkert ævintýri án þín!

Mýsla: Allt í lagi en pössum okkur þá á því að fara ekki allt of hátt.

Rebbi: Við skulum passa það. Hvað með að fara hér efst upp á þetta brúðuleikús? [Hljómar spenntur].

Mýsla: Jaaaá. Allt í lagi. Kýlum á það . . .

[Rebbi og Mýsla klifra upp á leikhúsið, hægt að útfæra mismunandi eftir aðstæðum].

Rebbi: Upp, upp, upp á fjall [syngur Rebbi spenntur á leiðinni].

Mýsla: Nei . . . niður niður niður niður alveg niðr’á tún [syngur Mýsla óörugg og fer hægt til baka, niður leikhúsið].

Rebbi: Nei, Mýsla þú getur þetta! Ekki vera hrædd. Koma svo!

Mýsla: Úff, anda inn og anda út. Ég skal reyna að komast aðeins hærra.

[Þau komast alla leið upp bæði tvö].

Rebbi: Vúhú. Við komumst upp á topp!

Mýsla: Já heyrðu! Og þetta er ekkert svo hræðilegt. Þetta er eiginlega bara svolítið spennandi og skemmtilegt. Vá, Rebbi, sérðu hvað allir krakkarnir eru litlir héðan, híhí [Orðin öruggari með sig].

Rebbi: Jaá, það eru allir orðnir skuggalega litlir [virðist örlítið óöruggur, því nú byrjar hann smátt og smátt að verða lofthræddur].

Mýsla: Já og sjáðu hvað við sjáum langt. Ég gæti verið hérna í marga klukkutíma.

Rebbi: Hérna uppi? Í marga klukkutíma?? Nei, ég held nú síður. Við ættum eiginlega bara að fara að koma okkur niður aftur . . .

Mýsla: Nei, ekki strax. Við vorum að koma upp. Þig langaði svo að upplifa ævintýri. Horfðu í kringum þig Rebbi. Þetta er alveg magnað.

Rebbi: Nei, Mýsla. Ég get ekki verið hérna lengur . . .

Mýsla: Nú, hvað er að Rebbi?

Rebbi: Ég er svooo lofthræddur.

Mýsla: Ææ, það er ekki gott að heyra. Jæja, eigum við þá ekki bara að fara saman niður aftur.

Rebbi: Jú, takk.

[Rebbi og Mýsla fara aftur niður í leikhúsið].

Rebbi: Úff, þetta er miklu betra.

Mýsla: Líður þér betur núna Rebbi?

Rebbi: Miklu betur. Ég bjóst ekki við að verða svona lofthræddur. Það var óvænt og óþægilegt en takk fyrir að koma með mér í þennan ævintýraleiðangur, Mýsla.

Mýsla: Ekki málið. Takk fyrir að hvetja mig áfram á leiðinni upp.

Rebbi: Skrítið hvernig hlutirnir breytast.

Mýsla: Já, ég hélt ég myndi verða þvílíkt lofthrædd þegar við værum komin á toppinn. En ég  varð það síðan ekki.

Rebbi: Já og alveg öfugt hjá mér.

Mýsla: Einmitt . . . En nú þurfum við að þjóta. Sjáumst krakkar!

Rebbi: Bless. Bless.

Categories
6-9 ára Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Miskunnsami samverjinn: Ekki dæma fyrirfram

Hjálpargögn: Rebbi, Mýsla og bók

[Mýsla kemur, heilsar ekki og fer að lesa í bók].

Rebbi:  Góðan daginn öllsömul. Mýsla, ætlar þú ekki að heilsa krökkunum?

Mýsla: Jú, halló krakkar. Gaman að sjá ykkur. [Fer beint aftur að lesa og flissar svo].

Rebbi:  Hvað er svona fyndið?

Mýsla: Bíddu aðeins . . . [Heldur áfram að lesa] . . . hahaha

Rebbi:  Hvað er svona fyndið?

Mýsla: Æi, ég er bara að lesa í brandarabókinni minni.

Rebbi:  Úú. Ertu til í að lesa einn fyrir okkur?

Mýsla: Nei, þetta er bara fyndið fyrir mýs.

Rebbi:  Nú? Af hverju segirðu það?

Mýsla: Þetta er músabrandarabók. Hún fjallar til dæmis um að fílar séu hræddir við mýs . . . hahaha . . . En það er ekki satt um alla fíla. Þetta er bara staðalímynd.

Rebbi:  Ha? Hvað sagðirðu? Hvað þýðir þetta orð?

Mýsla: Staðalímynd?

Rebbi: Já, hvað þýðir staðalímynd?

Mýsla: Það er þegar fólk heldur eitthvað eitt eigi við um alla. Það er til dæmis staðalímynd að ALLAR mýs borði BARA ost. En ég borða sko ekki BARA ost. Ég borða líka fræ og vínber.

Rebbi:  Ég skil. Má ég samt prófa að lesa og sjá hvort mér finnist brandararnir fyndnir?

Mýsla: Hahaha. Þarna varstu svolítið fyndinn Rebbi. Auðvitað geturðu ekki lesið bókina. Það vita allir að refir geta ekki lesið.

Rebbi: Nú! Hvar heyrðir þú það?

Mýsla: Þetta er bara svona hlutur sem allir vita um refi.

Rebbi: Þetta hlýtur þá að vera . . . þarna sta . . . staðalímynd af refum því ég er fluglæs.

Mýsla: Í alvöru? [hissa] Fyrirgefðu! Ég hlýt þá bara að vera með fordóma [hugsi].

Rebbi:  For-dóm-a. Þú ert alltaf að segja svo erfið orð. Hvað þýðir for-dómar?

Mýsla: Það er þegar maður er búinn að dæma einhvern fyrir fram án þess að vita í raun sannleikann. Eins og til dæmis í sögunni um miskunnsama Samverjann þá héldu allir að Samverjinn myndi ekki hjálpa slasaða manninum. Af því að hann var útlendingur, en svo var Samverjinn sá eini sem stoppaði og hjálpaði manninum.

Rebbi:  Ertu þá að segja að maður eigi ekki að dæma fólk áður en maður kynnist því?

Mýsla: Nákvæmlega.

Rebbi: Áhugavert. Ég held að það sé mjög mikilvægt . . . een Mýsla, má ég lesa einn brandara? Bara einn.

Mýsla: Já, auðvitað. Fyrirgefðu hvernig ég lét áðan. Ég var svo leiðinleg við þig.

Rebbi: Allt í góðu.

Mýsla: Lestu þennan. Hann er góður.

Rebbi:  Allt í lagi, látum okkur sjá . . . „Fíll og mús fóru í sund svo segir fíllinn: Ahhh, ég gleymdi sundskýlunni. Þá segir músin: Það er allt í lagi. Ég er með tvær. Þú getur fengið lánað hjá mér.“

[Bæði fara að hlæja].

Rebbi: Auðvitað myndi músin ekki taka tvær sundskýlur með sér í sund!

Mýsla: Hahaha ég veit. Þetta er svo fyndið. Og svo eru mýs líka svo litlar og fílar svo stórir að fíllinn myndi aldrei passa í sundskýluna!

Rebbi: [Andvarpar]. Við þurfum að fara núna. En við erum sko búin að læra eitt mikilvægt í dag. Munum að vera góð vill alla!

Mýsla: Konur og kalla! Bless, krakkar!