Categories
6-9 ára Barnastarfið Sunnudagaskólinn TTT

Vinir Jesú- Leyniteikning – Sjáið þið hvað þetta er?

Leiðbeiningar:
Teiknið með skýrum tússpenna á karton eða töflu um leið og sagan er sögð.
Hér fyrir neðan er textinn:

1. Jesús átti marga vini.
Sumir voru lamaðir eða veikir og urðu bara að liggja útaf.

2. Aðrir voru litlir og mjóir.

3. Svo voru líka sumir stórir og feitir.

4. Sumir af vinum Jesú voru fiskimenn og áttu bát.

5. Svo voru það börnin.

6. Allt þetta ólíka fólk var vinir Jesú og Jesús vill eiga enn fleiri vini? Eruð þið ekki vinir Jesú?
Sjáið þið hvað þetta er? Þetta gæti verið vinur Jesú. Hvernig haldið þið að þessum vini líði?

Teikning og texti: Elín Elísabet Jóhannsdóttir 2012

2. samverustund – Brúðkaupið í Kana


Biblíutexti:
Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: „Þeir hafa ekki vín.“
Jesús svarar: „Hvað viltu mér, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“
Móðir hans sagði þá við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera.“
Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.
Jesús segir við þá: „Fyllið kerin vatni.“ Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“ Þeir gerðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki hvaðan það var en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“
Þetta fyrsta tákn sitt gerði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína og lærisveinar hans trúðu á hann. Jh. 2.1 – 11

Markmið:
Í þessari hugleiðingu viljum við benda á trúna sem er miðlæg í þessum texta. Að hafa trú merkir það sama og að leggja traust sitt á það sem við teljum að muni hafa mikilvæg áhrif á líf okkar. Vonin tengist trúnni líka á þann hátt. Textinn sem við lesum hér gefur okkur merki um mikilvægi þess að trúa því að Guð sé alltaf nálægur og að hann opinberist okkur í gegnum verk sín.

Hugleiðing:
Hér er Jesús staddur með móður sinni og lærisveinum í brúðkaupi og gleðst með veislugestum.
Það er fallegt og mikilvægt að taka eftir því að móðir hans er fyrsta manneskjan, sem minnst er á í guðspjallinu, sem sýnir algert traust til Jesú. Hún er fyrsta persónan í frásögninni til þess að sýna að rétt viðbrögð við nærveru Jesú séu þau að treysta á orð hans. Hún hvetur hann til þess að sýna mátt sinn og talar af svo miklu öryggi að þjónarnir mótmæltu því ekki að færa honum vatnskerin.

Þetta er fyrsta táknið sem Jesús gefur lærisveinunum um mátt sinn. Mikilvægt er að taka eftir viðbrögðum Jesú sjálfs þegar móðir hans biður hann að veita fólkinu vín.
Hann segir henni að hans tími sé ekki enn kominn og vísar með því til framtíðar.

Upphafið í formálanum segir dýrðina opinberast þegar hin fyrri gjöf muni fullkomnast.

Þar er verið að tala um gjöf Guðs sem við lesum um í Gamla testamentinu þegar Guð færir Móse gjöf sína á fjallinu Sínaí. Sú gjöf var í raun loforð um að fólkið mætti vænta þess að inn í veröld þeirra myndi von bráðar berast hjálp.

Þessi tengsl leggja áherslu á þrjú hugtök: sáttmála, loforð og traust. Öll vitum við hvers virði traustið er og það reynum við í samskiptum okkar. Það er náðargjöf að geta treyst öðrum aðila fyrir tilfinningum sínum og hugsunum. Öll berum við í hjörtum okkar vonir og væntingar þess að dagurinn fari vel og að markmið okkar og ætlanir nái fram að ganga, að dagurinn beri með sér gleði og birtu.

Með því að treysta á orð Jesú og loforð hans um eilífa nærveru sína finnum við styrk til þess að takast á við daginn og við getum fundið innra með okkur mátt til þess að vinna ótrúlegustu verk.
Jesús sannar fyrir lærisveinum sínum að hann búi yfir afli sem liggur ofar þeirra getu. Í því er fólgin opinberun þess að hann sé ekki af þessum heimi kominn. Hann sé annars eðlis. Þegar Jesús segir móður sinni að tími hans sé enn ekki kominn vísar hann til hlutverks síns. Hann gefur vísbendingu um að tilgangur veru hans hér á jörðu sé að opinbera dýrð Guðs, tilvist hans og nærveru.

Texti og frásögn Biblíunnar gefur okkur þetta sama loforð: Að við megum treysta því að Guð sé til og að hann vaki yfir verkum okkar hvern dag.
Jesús segir okkur að treysta því að Guð muni vel fyrir sjá og sannar það að lokum þegar hann á krossinum opinberar dýrð Guðs endanlega. Að máttur hans nái yfir dauða og gröf.
Traust mannsins á kærleika og náð Drottins er gjöf Guðs til okkar. Guð hefur gefið okkur loforð með sáttmála sínum um það að hann verði okkur alltaf nálægur og í því trausti liggur trúin. Í bæninni leggjum við traust okkar á orð Guðs í Drottins hendur vegna þess að þar finnum við von og styrk.

Til umhugsunar:
Hér væri gott að ræða um traust og trú. Vonin er einnig miðlæg hér vegna tilvísunar Jesú til framtíðarinnar. Af hverju trúum við og í hverju er trú okkar fólgin? Þörfnumst við sannana til þess að trúa? Hvað er það í hjarta okkar sem segir okkur að við trúum og hver er grundvöllur trúar okkar? Þetta eru auðvitað stórar og erfiðar spurningar en þær leiða okkur líka inn í fjölbreyttar umræður. Til dæmis mætti ræða um það, hvað það er að vera jafningi, hvernig heilbrigð og eðlileg samskipti eiga að vera, hvernig við erum sjálf trúverðug og traustsins verð, hvað er að vera góður vinur o.s.frv. Hvernig sönnum við vináttu okkar? Hvað felst í hugtökunum sáttmáli, loforð og traust? Birtir bænin þessa þætti á einhvern hátt?

Hugmyndir að efni:
Traustleikir
Kókó-indverskur eltingaleikur
Viltu giftast mér

Tillögur að söngvum:
• Dag í senn, nr. 19
• Ég fyllist gleði, nr. 38
• Heyr þann boðskap, nr. 56
• Enginn er sem þú, nr. 31
• Sál mín lofar þig, nr. 94
• Glory to the father, nr. 50

Categories
Æskulýðsstarf Barnasálmar og söngvar Fermingarstörf Söngvasjóður

Kveikt á öðru kertinu á aðventukransinum. Barnastund á aðventu María Ágústsdóttir 2008

Söngur

Signing og bæn

Kveikt á aðventukransinum með þessum orðum:

Við kveikjum á fyrsta kertinu, spádómakertinu.
Spámaðurinn Jesaja sagði þetta löngu áður en Jesús fæddist (Jes 7.14):
Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.

Við kveikjum á öðru kertinu, Betlehemskertinu.
Í litlu spádómsbókinni hans Míka stendur (Mík 5.1):
En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.

Við kveikjum á þriðja kertinu, hirðakertinu.
Um hirðana lesum við í Lúkasarguðspjalli (Lúk 2.20):
Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

Síðast kveikjum við á fjórða kertinu, englakertinu.
Við heyrum um englana í jólaguðspjallinu (Lúk 2.13)
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð…
Söngur

Jólaguðspjallið flutt

Söngur

Frásögn með hreyfingum
Spádómurinn um Immanúel.
Spádómur er eitthvað sem er sagt löngu áður en það gerist. Í Biblíunni er spádómur orð sem Guð gefur fólki sem kann að hlusta á hann. Stundum skildi fólkið ekki orðin frá Guði. Stundum skiljum við ekki orðin hans Guðs. En við kunnum öll að óska okkur, er það ekki? Fólkið í landinu þar sem Jesús fæddist, Ísrael, óskaði sér að Guð kæmi til þeirra til þess að þeim gæti liðið vel.
Það er svolítið svipað eins og þegar mamma eða pabbi eru í burtu og við óskum okkur að þau séu hjá okkur. Stundum eru þau bara í vinnunni og koma fljótt heim. Stundum fara þau til útlanda og eru þá lengi í burtu. Þá óskum við okkur að þau væru hjá okkur. Og þau koma alltaf aftur til okkar, er það ekki? En stundum þurfum við að bíða svolítið lengi.
Nú skulum við rétta út hendina, beint fyrir framan augun okkar. Horfum á myndina í kirkjunni í gegn um fingurna. Myndin heitir altaristafla. Sjáið þið hana? Ég sé hana alla vega að hluta til. Ég veit að hún er þarna þó að ég sjái hana ekki alveg. Drögum nú að okkur hendina og skoðum myndina aftur. Nú sjáum við hana alveg skýrt.
Guð er alltaf hjá mér, líka þegar ég kem ekki auga á hann.

Staðurinn þar sem Jesús fæðist.
Við heyrðum áðan lesið um staðinn þar sem Jesús fæddist, litlu borgina Bethlehem. Sumum þótti hún ekki nógu merkilegur fæðingarstaður fyrir frelsarann sjálfan. En allir staðir eru merkilegir í augum Guðs. Og Jesús var lagður í jötu. Dýrin éta úr jötunni. Jötur eru ekki alltaf hreinar. En samt eru jötur mikilvægar í augum Guðs.
Hendurnar okkar eru ekki alltaf hreinar. Stundum koma vondar hugsanir í hjarta okkar. En einn fallegi jólasálmurinn sem við syngjum fjallar um að hjartað okkar geti samt verið vaggan hans Jesú. Nú skulum við aftur rétta fram hendina okkar og búa til eins og litla vöggu með lófanum. Finnum hvernig það er að strjúka lófann með hinni hendinni. Svona nálægt er Jesús okkur. Leggjum svo höndina þétt á brjóstið okkar, þar sem hjartað er. Vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri…
Við erum öll merkileg og mikilvæg í augum Guðs og hann langar að vera hjá okkur, alltaf.

Hirðarnir og englarnir lofuðu Guð.
Það þótti ekkert fínt að vera fjárhirðir. Stundum var ekki einu sinni tekið mark á því sem fjárhirðar sögðu. Samt hafa hirðar hafa örugglega verið eins og fólk er flest, margir heiðarlegir og aðrir kannski pínulítið óheiðarlegir. Englar eru ekki fólk. Þeir eru sendiboðar Guðs. Ef við hittum engil tækjum við áreiðanlega mark á því sem hann segði.
En hirðar og englar hafa sama hlutverk. Þetta hlutverk er að lofa Guð. Við erum hvorki hirðar né englar. Við höfum þó sama hlutverk, að lofa Guð. Við lofum Guð með því að þakka honum og sýna fólkinu í kring um okkur kærleika. Nú skulum við búa til litla englavængi með því að láta lófana snertast neðst þar sem heitir úlnliður. Þá verða hendurnar eins og vængir eða kannski blóm eða ljósker. Blómin og ljósin lofa Guð með því að vera til. Við skulum líka lofa Guð með því að vera til og gleðjast og hjálpa hvert öðru.
Í lokin notum við hendurnar okkar til að flétta saman fingur. Það er kallað að spenna greipar. Og svona höfum við hendurnar þegar við biðjum.

Góði Guð. Þakka þér fyrir að við erum til. Þakka þér fyrir mömmu og pabba, afa og ömmu, kennarana og starfsfólkið í skólanum, systkini okkar, vini og bekkjarfélaga. Viltu vernda okkur öll og líka börn sem eiga bágt. Í Jesú nafni. Amen.

Faðir vor
Blessunarorð

Söngur og útganga

Categories
Söngvasjóður

Bréf til foreldra

Hér eru nokkur bréf sem hægt er að senda foreldrum barna í sunnudagaskólanum. Bréfum þessum má t.d. dreifa á foreldramorgnum eða nota efni þeirra á markpóst til að kynna barnastarf og foreldramorgna í kirkjunni.