Categories
Æskulýðsstarf Barnasálmar og söngvar Fermingarstörf Söngvasjóður

Kveikt á öðru kertinu á aðventukransinum. Barnastund á aðventu María Ágústsdóttir 2008

Söngur

Signing og bæn

Kveikt á aðventukransinum með þessum orðum:

Við kveikjum á fyrsta kertinu, spádómakertinu.
Spámaðurinn Jesaja sagði þetta löngu áður en Jesús fæddist (Jes 7.14):
Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.

Við kveikjum á öðru kertinu, Betlehemskertinu.
Í litlu spádómsbókinni hans Míka stendur (Mík 5.1):
En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.

Við kveikjum á þriðja kertinu, hirðakertinu.
Um hirðana lesum við í Lúkasarguðspjalli (Lúk 2.20):
Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

Síðast kveikjum við á fjórða kertinu, englakertinu.
Við heyrum um englana í jólaguðspjallinu (Lúk 2.13)
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð…
Söngur

Jólaguðspjallið flutt

Söngur

Frásögn með hreyfingum
Spádómurinn um Immanúel.
Spádómur er eitthvað sem er sagt löngu áður en það gerist. Í Biblíunni er spádómur orð sem Guð gefur fólki sem kann að hlusta á hann. Stundum skildi fólkið ekki orðin frá Guði. Stundum skiljum við ekki orðin hans Guðs. En við kunnum öll að óska okkur, er það ekki? Fólkið í landinu þar sem Jesús fæddist, Ísrael, óskaði sér að Guð kæmi til þeirra til þess að þeim gæti liðið vel.
Það er svolítið svipað eins og þegar mamma eða pabbi eru í burtu og við óskum okkur að þau séu hjá okkur. Stundum eru þau bara í vinnunni og koma fljótt heim. Stundum fara þau til útlanda og eru þá lengi í burtu. Þá óskum við okkur að þau væru hjá okkur. Og þau koma alltaf aftur til okkar, er það ekki? En stundum þurfum við að bíða svolítið lengi.
Nú skulum við rétta út hendina, beint fyrir framan augun okkar. Horfum á myndina í kirkjunni í gegn um fingurna. Myndin heitir altaristafla. Sjáið þið hana? Ég sé hana alla vega að hluta til. Ég veit að hún er þarna þó að ég sjái hana ekki alveg. Drögum nú að okkur hendina og skoðum myndina aftur. Nú sjáum við hana alveg skýrt.
Guð er alltaf hjá mér, líka þegar ég kem ekki auga á hann.

Staðurinn þar sem Jesús fæðist.
Við heyrðum áðan lesið um staðinn þar sem Jesús fæddist, litlu borgina Bethlehem. Sumum þótti hún ekki nógu merkilegur fæðingarstaður fyrir frelsarann sjálfan. En allir staðir eru merkilegir í augum Guðs. Og Jesús var lagður í jötu. Dýrin éta úr jötunni. Jötur eru ekki alltaf hreinar. En samt eru jötur mikilvægar í augum Guðs.
Hendurnar okkar eru ekki alltaf hreinar. Stundum koma vondar hugsanir í hjarta okkar. En einn fallegi jólasálmurinn sem við syngjum fjallar um að hjartað okkar geti samt verið vaggan hans Jesú. Nú skulum við aftur rétta fram hendina okkar og búa til eins og litla vöggu með lófanum. Finnum hvernig það er að strjúka lófann með hinni hendinni. Svona nálægt er Jesús okkur. Leggjum svo höndina þétt á brjóstið okkar, þar sem hjartað er. Vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri…
Við erum öll merkileg og mikilvæg í augum Guðs og hann langar að vera hjá okkur, alltaf.

Hirðarnir og englarnir lofuðu Guð.
Það þótti ekkert fínt að vera fjárhirðir. Stundum var ekki einu sinni tekið mark á því sem fjárhirðar sögðu. Samt hafa hirðar hafa örugglega verið eins og fólk er flest, margir heiðarlegir og aðrir kannski pínulítið óheiðarlegir. Englar eru ekki fólk. Þeir eru sendiboðar Guðs. Ef við hittum engil tækjum við áreiðanlega mark á því sem hann segði.
En hirðar og englar hafa sama hlutverk. Þetta hlutverk er að lofa Guð. Við erum hvorki hirðar né englar. Við höfum þó sama hlutverk, að lofa Guð. Við lofum Guð með því að þakka honum og sýna fólkinu í kring um okkur kærleika. Nú skulum við búa til litla englavængi með því að láta lófana snertast neðst þar sem heitir úlnliður. Þá verða hendurnar eins og vængir eða kannski blóm eða ljósker. Blómin og ljósin lofa Guð með því að vera til. Við skulum líka lofa Guð með því að vera til og gleðjast og hjálpa hvert öðru.
Í lokin notum við hendurnar okkar til að flétta saman fingur. Það er kallað að spenna greipar. Og svona höfum við hendurnar þegar við biðjum.

Góði Guð. Þakka þér fyrir að við erum til. Þakka þér fyrir mömmu og pabba, afa og ömmu, kennarana og starfsfólkið í skólanum, systkini okkar, vini og bekkjarfélaga. Viltu vernda okkur öll og líka börn sem eiga bágt. Í Jesú nafni. Amen.

Faðir vor
Blessunarorð

Söngur og útganga

Categories
Átak í kreppunni Æskulýðsdagurinn Æskulýðsstarf Fermingarstörf Fullorðinsfræðsla Hjálparstarf kirkjunnar

Vefur Hjálparstarfs kirkjunnar

Vef Hjálparstarfs kirkjunnar má nota á margvíslegan hátt í fræðslustarfi kirkjunnar.
Help.is