Categories
6-9 ára Iðja Lúther TTT

Iðja

Búum til SKÍRNARPERLU sem hægt er að hengja upp á greinar til að skreyta með kirkjurýmið. Hér þarf hver og einn að fá HVÍTA kúlu úr tré eða frauðplasti (sem fæst í föndurbúðum) og fallegan borða til að þræða í gegnum hana svo hægt sé að hengja á grein. Þegar allar skírnarperlurnar eru saman komnar á trénu okkar í kirkjunni, sjáum við með skýrum hætti hvað skírnin er mikilvæg í lífi kirkjunnar og okkar sjálfra. Skírnarperlan er HVÍT vegna þess að hvíti liturinn er tákn um hreinleika frá sorgum, áhyggjum og erfiði. Í skírninni hvílum við í faðmi Guðs eins og lítið barn í örmum foreldris sem elskar það út af lífinu.

Útfærsla: á frauðplastkúlurnar má hver og einn skrifa sinn skírnardag, teikna mynd af fjölskyldunni sinni eða teikna falleg tákn, eins og kross, hjarta, rós og hring (sjá útfærslu á Lúthersrósinni fyrir Æskulýðsdag kirkjunnar).

Categories
6-9 ára Leikir Lúther TTT

Leikur

Við ætlum að finna á okkar eigin kroppi og skinni hvernig skírnin og kvöldmáltíðin – sakramentin okkar – líta út og eru framkvæmd.
Hér má leika sér með vatnið og hella því í skál, prófa að ,,skíra” dúkku eða einhvern viðstaddan, ræða um reynslu okkar af því að sjá skírn í kirkju eða heimahúsi og líka hvernig skírnin á sér stað á ólíkum stað í lífi fólks. Sumir eru skírðir sem ungabörn aðrir sem unglingar eða fullorðnir.

Við ætlum líka að setja upp eins konar ,,kvöldmáltíð” – búum til ,,altari” eða notum altarið í kirkjunni ef við erum þar, og látum ganga brauð sem er brotið/rifið niður og svo vínber – af því að Jesús notaði ávexti vínviðarins í síðustu máltíðinni sinni með lærisveinunum.

Categories
6-9 ára Lúther TTT

Til leiðbeinandans

Í þessari samveru ætlum við að skoða hvaða hlutverk það er sem kirkjan hefur í lúthersku kirkjunni og til þess ætlum við að horfa á sakramentin tvö sem Lúther skrifaði mikið um: skírnina og kvöldmáltíðina. Gott að lesa vel kaflana í “Hér stend ég” sem fjalla um skilning Lúthers á því hvaða hlutverki kirkjan og sérstaklega sakramentin hafa að gegna. Sakramenti þýða “leyndardómur” og hafa líka verið kölluð “náðarmeðul” á íslensku. Það er vegna þess að við trúum því að í gegnum efnin í sakramentunum (vatnið í skírninni, brauðið og vínið í altarisgöngunni) sé náð Guðs miðlað til manneskjunnar á alveg sérstakan, leyndardómsfullan hátt.

Hér þurfum við að passa upp á að verða ekki of abstrakt og nota ekki bara “himnesku” þegar við tölum um það sem kirkjan er. Við getum notað myndir og líkingar eins og fjölskyldu, tré, líkama, skip eða múrsteinsbyggingu til að tala um hvernig kirkjan er. Líkingar Jesú um þau sem trúa á hann og mynda kirkjuna, móta líka skilning Lúthers og okkar sjálfra um sakramentin, skírnina og kvöldmáltíðina.

SKÍRNIN hafði sérstaka stöðu í huga Lúthers og hann sagði einhvern tímann að skírnardagurinn hans væri merkilegasti dagur lífs hans – þótt hann myndi ekkert eftir honum sjálfur. Og hann sagði líka að eina “vígslan” sem skipti máli væri sjálf skírnin – ekki djákna-, munka-, presta- eða biskupsvígslur. Það er vegna þess að skírnin táknar á alveg sérstakan hátt kærleika og náð Guðs sem manneskjan fær að taka á móti. Skírnin er þannig áþreifanlegur farvegur fagnaðarerindisins í lífi manneskjunnar hér og nú. Ungbarnaskírnin er sérstakt tákn um náð Guðs í lífi manneskjunnar, vegna þess að ungbarnið sjálft er elskað og virt fyrir það sem það ER ekki það sem það GERIR eða GETUR.

KVÖLDMÁLTÍÐIN er hitt sakramentið, og er tákn um kjarnaatriði kristinnar trúar, sem er náðin og minningin um dauða og upprisu Jesú Krists. Rifjum upp að kvöldmáltíðin er haldin eins og Jesús og vinir hans upplifðu á skírdagskvöld, áður en Jesús var handtekinn og dæmdur til dauða. Hér er hægt að lesa kaflana í Jóhannesarguðspjalli um orðin sem Jesús fór með og minnti lærisveina sína á að brauðið og vínið tákna hans eigin líkama og blóð.

Categories
6-9 ára Iðja Lúther TTT

Iðja

Skrautskrifa upphafsstafinn sinn.
Þessi föndurstund kallast á við þá merkilegu iðju sem var iðkuð á miðöldum og á tíma Lúthers, sem er að skrautrita merkilegan texta – eins og handrit að Biblíunni – og sérstaklega gera upphafsstöfum hátt undir höfði. Skoðið t.d. Guðbrandsbiblíu sem var fyrsta prentaða Biblían á Íslandi og hvernig hver bók og kafli hefst með stórkostlega flottum upphafsstöfum.

Í þessari iðju ætlum við að skrautrita okkar eigin upphafsstafi, til þess þarf blað og góða liti.

Categories
6-9 ára Leikir Lúther TTT

Leikur

Siðbótarstórfiskaleikur.
Við þurfum rými sem hægt er að hlaupa í, og í upphafi er öllum hópnum komið fyrir í öðrum endanum.
Valdir eru einn eða fleiri,,siðbótarmenn” sem vilja ná fleirum inn í umbótarhreyfinguna sína, þeir standa reiðubúnir að ,,klukka” hina, þegar hópnum er gefið merki að hlaupa enda á milli. Ekki má klukka þá sem ná yfir á hinn endann. Þeir sem siðbótarmennirnir ná að klukka, slást í þeirra hóp.
Leikurinn endar þegar siðbótarmönnunum hefur tekist að ná öllum í sinn hóp.

Categories
6-9 ára Lúther TTT

Til leiðbeinandans

Hér er gott að undirbúa samtalið með því að lesa vel kaflana í “Hér stend ég” um hvernig Lúther vildi leggja áherslu á að trúin væri það sem á stað í hjartanu og snérist um sambandið milli einstaklingsins sjálfs og Guðs. Prinsippið hér er að engan millilið þarf milli manneskjunnar og Guðs – þess vegna voru prestar, biskupar, páfar og munkar, eða kenningar kirkjunnar, ekki nauðsynlegir í augum Lúthers. Það sem skipti máli var einstaklingurinn og áhrifin sem hann leyfði Guðs orði að hafa á sitt eigið líf.

Hluti af þessu var að Biblían sjálf og helgiþjónustan í kirkjunni átti ekki heldur að hafa neina milliliði fyrir fólk að njóta. Þess vegna lagði Lúther mikla vinnu í að ÞÝÐA Biblíuna yfir á sitt eigið móðurmál sem var þýska – en áður hafði Biblían bara verið fáanleg á latínu, sem var alþjóðlegt mál kirkjunnar. Einnig voru messurnar allar á latínu, en því vildi Lúther breyta – hann vildi að allir sem væru viðstaddir hefðu tök á að njóta helgihaldsins og taka þátt í því.

Categories
6-9 ára Iðja Lúther TTT

Iðja

Negla á dyr mikilvæg skilaboð. Hér ætlum við að endurgera gjörninginn sem öll siðbótarminningin snýst um, þ.e.a.s. þegar Lúther negldi sínar 95 tesur á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg.

Hér þarf að undirbúa vel:
– útbúa fleka eða gamla hurð, sem má taka við hamarshöggum og nöglum.
– skrifa á blað/blöð hluti sem ykkur finnst skipta öllu máli í trúnni okkar og samfélaginu. Vera búin að ræða um það sem við viljum sjá öðruvísi, það sem okkur finnst að eigi að gerast og hvað má ekki gleymast!
– hafa hamar og nagla við höndina.
– finna flottan og áberandi stað sem hurðin getur staðið svo fólk geti virt fyrir sér ykkar eigin “95 tesum”.

Categories
6-9 ára Leikir Lúther TTT

Leikur

Upphitun. Styttuleikurinn. Tvö og tvö vinna saman og skiptast á að vera stytta og listamaður. Listamaðurinn mótar styttuna að vild eftir því hvernig Lúther upplifði Guð í sinni eigin trúarbaráttu. Stundum var hann áhyggjufullur, stundum upplifði hann létti og gleði. Stundum var hann bugaður en stundum fullur af von. Stundum leið honum eins og hann væri dæmdur skúrkur, stundum eins og hann væri laus úr gæsluvarðhaldi. Notið þessar tilfinningar til að móta ykkar eigin styttu.

Categories
6-9 ára Lúther TTT

Til leiðtogans

Hér er tækifæri til að fara yfir söguna um hvernig Lúther ákvað að standa í fæturna og mótmæla aflátsbréfasölu munksins Jóhanns Tetzels. Lesið kaflann í ,,Hér stend ég” sem fjallar um aflátssöluna og hvernig Lúther fannst það kolröng leið til að boða fagnaðarerindið. Leggja má t.d. áherslu á að fyrir Lúther snerist þetta um djúptrúarleg atriði og hann var búinn að pæla mikið og rannsaka eigin trú og hjarta – sem er stundum kallað trúarbarátta.

Categories
6-9 ára Lúther TTT

Samvera 4: KIRKJAN

Til leiðbeinandans
Leikur
Iðja

Söngæfing: Samverunni lýkur með söngæfingu sem tekur eins langan tíma og leiðtoginn telur þurfa.
Ef til vill þarf að eyða meiri tíma í undirbúning söngleiksins og má þá taka eins margar samverur undir þann undirbúning eins og þurfa þykir.