Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur DVD Sunnudagaskólinn TTT

NEBBANÚ

nebbs

Smellið hér. Nauðsynlegar upplýsingar um þættina.

Passinn – (Týndi sauðurinn)

Kennsluleiðbeiningar

1. hluti – sýndur

Í þessum þætti er unnið með söguna um týnda sauðinn (Lúkas 15:3-7). Nebbi á í vandræðum því blaðamannapassinn hans fýkur upp á hillu.

 

Á milli þáttahlutanna

Leikur – Að fela hlut: Krakkarnir hjálpa sunnudagskólafræðaranum að fela hlut á meðan einn sjálfboðaliði bíður frammi. Sjálfboðaliðinn á svo að leita að hlutnum á sama tíma og allir syngja eitthvert lag hátt eða lágt eftir því sem viðkomandi nálgast eða fjarlægist hlutinn. Þetta er hægt að endurtaka nokkrum sinnum. Einnig er hægt að láta krakkana alla leita að mörgum hlutum (t.d. 20 sprittkertum eða skeiðum o.s.frv.) sem búið væri að fela víðsvegar um rýmið.

 

2. hluti – sýndur

Í seinni hluta þáttanna hjálpa börnin Nebba með því að blása.

 

Umræðupunktar

Spurning: Munið þið að í Biblíusögunni týndist einn sauður af hundrað. Hvað gerði hirðirinn þegar hann áttaði sig á þessu?

 

Svar: Hann leitaði og leitaði að þessum eina sauði þar til hann fannst. (Eins og þegar við leituðum í leiknum áðan.)

 

Spurning: Hvernig haldið þið að týnda sauðnum hafi liðið þegar hann var týndur?

 

Svar: Hann var örugglega hræddur og einmana. En þá er gott að vita að hirðirinn leitaði og gafst ekki upp fyrr en sauðurinn fannst. Góði hirðirinn í sögunni er Guð sjálfur, sem gefst ekki upp og hættir ekki að leita fyrr en hann finnur okkur.

 

Spurning: Nebbi týndi blaðamannapassanum sínum en fann hann svo á endanum aftur því hann gafst ekki upp. En hverju gleymdi Nebbi í lokin?

 

Svar: Hljóðnemanum sínum. Við öll eins og Nebbi getum nefnilega gleymt mikilvægustu hlutum en það gerir Guð ekki.

 

 

Munum að: Guð gleymir okkur aldrei og leitar að okkur ef við týnumst.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Ítarefni Sunnudagaskólinn TTT

Hlutbundin kennsla

Góði hirðirinn Mattheus 18. 12-14, Lúkas 15. 4-6, Jóhannes 10

 

Leikur

 Kennslugögn: Teppi eða lak og börnin sjálf.

 Safnið börnunum saman og segið þeim söguna.

Byrjið á að spyrja þau.

Hvernig mynduð þið lýsa Guði? Hvernig lítur Guð út?

– Leyfið þeim að svara og gefið góðan tíma í það. (Vel mætti skrifa svör þeirra á töflu eða spjald ef aðstæður leyfa).

– Leyfið mér nú að segja ykkur nokkur dæmi um það hvernig Guði er lýst í Biblíunni: Bjarg, hæli (sem er öruggur staður), garðyrkjumaður, brauð lífsins, vinur, ljós heimsins, meistari, læknir, konungur, kennari, skapari og hirðir.

Veit einhver hvað hirðir er?

– Hirðir er sá sem passar kindur. Sá sem er góður hirðir þekkir hverja einustu kind með nafni sem hann er að passa og kindurnar þekkja hirðinn. Þeim líður vel og þær eru öruggar þegar hirðirinn er með þeim. Jesús sagði um sjálfan sig: Ég er góði hirðirinn. Það merkir þá að við erum kindurnar sem hann er að passa.

         Einu sinni sagði Jesú dæmisögu um mann sem átti hundrað kindur. Eitt lambið týndist. Maðurinn skildi hinar 99 eftir og leitaði að þessu eina lambi. Þegar hann hafði fundið lambið var hann svo glaður að hann hélt veislu og bauð vinum sínum heim til sín. Hann var svo glaður af því honum þótti svo vænt um kindurnar sínar og hver einasta þeirra skipti hann máli. Þannig þykir Jesú vænt um okkur öll.

 

Leikur

Biðjið um 5-7 sjálfboðaliða úr hópnum. (Ef börnin í sunnudagaskólanum eru undir 10 talsins er um að gera að leyfa þeim öllum að vera með). Ef börnin þekkjast ekki látið þau segja hvað þau heita. Veljið einn til að vera hirðinn. Hinir eru kindurnar. Látið kindurnar ganga um í hring og jarma. Bindið slæðu eða trefil fyrir augu hirðisins í smástund og veljið eina „kind“ úr hópnum og látið hana fela sig undir teppinu eða lakinu. Leysið svo slæðuna eða trefilinn frá augum hirðisins og leyfið honum að spreyta sig á að finna út hvaða sauður er horfinn. Þegar sauðurinn kemur undan teppinu þá verður hann hirðir næsta leiks. Ef börnin eru of mörg í leikinn má velja annan hóp til að vera kindur í næsta holli.

 

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur DVD Sunnudagaskólinn TTT

Nebbanú

nebbs

Kennsluleiðbeiningar – 6. Fjallið

1. hluti – sýndur

Þessi þáttur er upphaflega skrifaður með frásöguna af því þegar Jesús ummyndaðist á fjallinu í huga (Matteus 17:1-8). Að þessu sinni tengjum við hana upprisu Jesú.

Nebbi á í vandræðum með að finna skjól fyrir miklum hávaða.

Á milli þáttahlutanna

Leikur – Hávaði og hljóð. Biðjið krakkana um að búa til eins mikinn hávaða og þau geta og þagna svo þegar sunnudagaskólafræðarinn setur höndina upp. Hægt er að safna saman pottum, sleifum, hljóðfærum og öðru sem börnin/foreldrar geta notað í hávaðasköpun sinni. Meðan á hávaðanum stendur snýr stjórnandi leiksins baki í hópinn og segir eitt einfalt orð á venjulegum hljóðstyrk. Stjórnandinn getur verið einhver sjálfboðaliði úr sal eða sunnudagskólafræðarinn sjálfur. Biðjið krakkana svo um að giska á orðið sem þau mjög líklega heyrðu ekki áður en rétt orð er uppgefið. Þá er tekin önnur umferð þar sem stjórnandinn segir nýtt orð á sama hljóðstyrk en nú í algerri þögn, þar sem börnin leggja allt frá sér, spenna greipar, loka augum og hlusta á nýtt orð. Markmiðið þarna er að allir heyri orðið hátt og skýrt. Leikinn er svo hægt að endurtaka t.d. með nýjum stjórnendum.

2. hluti – sýndur

Í seinni hluta þáttanna hjálpa börnin Nebba með því að einbeita sér með honum.

Umræðupunktar

Spurning: Í biblíusögunni heyrðum við að lærisveinar Jesú hefðu orðið hræddir þegar Jesús dó á krossinum. Hvers vegna var það?

Svar: Þeir voru hræddir um að verða handteknir eins og hann.

Spurning: Svo sáu þeir Jesú upprisinn og þá voru þeir ekki lengur hræddir. Hvers vegna ekki?

Svar: Vegna þess að þeir sáu Jesú og trúðu því að hann væri með þeim alla daga.

Spurning: Hvort var auðveldara í leiknum áðan að hlusta í hávaðanum eða þögninni?

Svar: Það var auðveldara að hlusta á orðið í þögninni því þá gátum við einbeitt okkur betur að því að hlusta. Þegar við biðjum bænir erum við að tala við og hlusta á Jesús/Guð. Við lokum augunum okkar og leggjum saman hendurnar svo ekkert trufli okkur. Þannig getum við einbeitt okkur að bæninni og átt betra samtal við Jesús/Guð.

Spurning: Hvernig fór Nebbi að því að einbeita sér þótt það væri óstöðvandi hávaði allt í kring um hann?

Svar: Með okkar hjálp og bæn til Guðs, fann hann friðinn innra með sér sem var eins og að vera uppi á háu fjalli. Eftir smá kyrrð gekk honum mun betur að undirbúa heimsóknina sína.

Munum að: Það er gott að taka frá tíma á hverjum degi í friði og ró og tala við Guð.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Ítarefni Sunnudagaskólinn TTT

Biblíusagan – Hlutbundin kennsla

Haninn galar tvisvar (Jóhannesarguðspjall 18.15-27)

17571687_10155104019079257_1014423873_o 17622186_10155104018499257_984250385_o

Hlutur : Hani. Búinn til úr pappadiski og pappír í tvenns konar litum, eins og myndirnar sýna. Tekur 3-5 mínútur.

Saga:

Sýnið hanann:
Vitið þið hvað þetta er? Þetta á að vera hani. Hanar eru mjög duglegir og vakna snemma á morgnana. Um leið og sólin kemur upp eiga þeir það til að gala hátt og snjallt og vekja alla. Getið þið galað eins og hanar?

Leyfið börnunum að gala.

Í sunnudagaskólanum höfum við heyrt um svo margt sem Jesús gerði og sagði til að kenna okkur um hvað Guði þykir vænt um okkur.

Bráðum koma páskar og tíminn núna fram að páskum heitir páskafasta. Á páskaföstunni og páskunum lærum við um hvernig elska og kærleikur Guðs til okkar kemur fram í því sem gerðist á páskunum þegar Jesús dó á krossinum og reis upp frá dauðum.

Vinir Jesú eru oft nefndir lærisveinar. Að vera lærisveinn er það sama og að vera nemandi. Þannig erum við líka lærisveinar því við erum að læra af Jesú og um Jesú í sunnudagaskólanum.

Einn af vinum Jesú hét Símon, en Jesús kallaði Símon fyrir Pétur. Vitið þið hvað nafnið Pétur þýðir? Svar: Klettur, eða stór steinn. Jesús kallaði hann Pétur eða klett vegna þess að hann treysti honum svo vel.

Jesús vissi að bráðum myndu hræðilegir atburðir gerast. Hann sagði vinum sínum frá því að bráðum yrði hann handtekinn og svo sagði hann við vini sína: Bráðum munu sumir ykkar afneita mér og ekki vilja viðurkenna að þið þekkið mig.

Þá sagði Pétur: Ég mun aldrei afneita þér.

Jesús svaraði: Áður en haninn hefu galað tvisvar í fyrramálið verður þú búinn að afneita mér þrisvar.

Svo gerðist allt eins og Jesús hafði sagt. Hann var handtekinn og farið var með hann burtu.

Vinir hans urðu hræddir, líka Pétur, en hann ákvað að fylgjast með því hvað mennirnir ætluðu að gera við Jesú og stóð þar skammt frá og hlustaði á.

Þar sem hann stóð kom kona sem kannaðist við Pétur og hún spurði hann: „Ert þú ekki lærisveinn Jesú?“

Þá svaraði Pétur: „Nei, ég! Alls ekki.“

Um leið galaði haninn.

-Hér má leyfa börnunum (eða velja eitt barn til þess) að gala eins og hani.

Pétri brá við hanagalið og  leiður yfir því sem hann hafði sagt og svo var honum líka kalt. Þarna var búið að kveikja eld og hann ákvað að hlýja sér. Þá var hann aftur spurður. Ert þú ekki vinur þessa manns sem er búið að handtaka.

Og Pétur svaraði: „Nei, ég er ekki vinur hans.“

„Jú, víst!“ Sagði þá einhver annar. „Ég hef séð þig með honum.“

„Nei“ sagði Pétur.

Og um leið galaði haninn aftur.

Pétur varð mjög leiður þegar hann hafði áttað sig á því sem hann hafði gert, en það var nákvæmlega eins og Jesús vissi og hafði sagt lærisveinunum að ætti eftir að gerast.

Seinna þennan sama dag var Jesús krossfestur á Golgatahæð og þar dó hann. Pétur og hinir vinir Jesú urðu bæði sorgmæddir og hræddir. Þetta var á föstudaginn langa.

Í næsta sunnudagaskóla fáum við að heyra hvað gerðist á skírdag.

 

 

 

Categories
6-9 ára Barnastarfið DVD Sunnudagaskólinn TTT

Tófa – Haninn

Í þessum þætti er unnið með söguna af því þegar haninn galaði á Pétur.

 

Tófa verður vör við það á morgnana að einhverjir undarlegir atburðir virðast hafa átt sér stað hjá henni að næturlagi. Hana grunar að þjófur sé að verki og setur upp gildru í formi hanatístudúkku. Um nóttina vaknar hún þegar haninn hennar tístir en kemst þá að því að það er hún sjálf sem gengur í svefni.

Gal hanans vakti Pétur til umhugsunar um að hann hafði gert nákvæmlega það sem hann hafði lofað að gera aldrei, að afneita Jesú,

Categories
6-9 ára Barnastarfið DVD Ítarefni Sunnudagaskólinn TTT

Nebbanú – Veðrið

Nebbaþættina má nálgast á netinu hér.

SMELLIÐ HÉR! Mikilvægar upplýsingar um Nebbaþættina.

Kennsluleiðbeiningar – 5. Veðrið

1. Hluti – sýndur

Í þessum þætti er unnið með orð Jesú um fyrirgefninguna (Matteus 18:21-35), þegar Pétur spyr Jesú hversu oft við eigum að fyrirgefa og Jesús svarar sjötíu sinnum sjö. Nebbi á í vandræðum með að klæða sig samkvæmt veðrinu.

Á milli þáttahlutanna

Leikur – Að telja: Biðjið krakkana um að hoppa eða setjast/standa upp til skiptis í 490 skipti (=70×7) og á sama tíma að telja saman í kór. Ekki líður á löngu þar til þau gefast upp eða ljóst er að þau klára markmiðið ekki þar sem sunnudagaskólafræðarinn passar að ekki sé talið mikið yfir 30 skipti. Takmarkið er að krakkarnir upplifi að 490 sé rosalega mikið. Næst má biðja þau um að telja öll höfuðhár sín (eða annarra). Eftir smá stund af höfuðhárstalningu má benda þeim á að sumt sé bara of mikið til að hægt sé að telja það!
Fjalla má meira um það sem er óteljandi með því t.d. að halda tveimur speglum ská á móti hvor öðrum og sýna krökkunum spegilmyndina margfaldast út í það óteljanlega. Einnig má sýna þeim myndir af einhverju óteljandi: Hér að neðan eru dæmi um tengla sem hægt er að nota: SandurMynd hér.
SykurkornMynd hér.
StjörnurMynd hér.

 

2. hluti – sýndur

Í seinni hluta þáttanna hjálpum við Nebba eins og við getum með því að segja honum hvernig veðrið er úti.

Umræðupunktar

Spurning: Hvernig gekk okkur að telja áðan?

Svar: Ekki vel enda er maður lengi að telja upp í háar tölur og sumt er ekki hægt að telja.

Spurning: Hvað sagði Jesús að við ættum að fyrirgefa oft og hvað meinti hann með því?

Svar: Hann sagði 70×7 eða samtals 490 sinnum, það sem Jesús meinti var að við ættum alltaf að vera tilbúin til að fyrirgefa. Óteljandi oft!

Spurning: Nebbi varð ósáttur þegar hann hélt þið væruð að skrökva að honum um hvernig veðrið væri. Það var ekki gaman. Hvernig leið ykkur þegar hann baðst afsökunar?

Svar: Okkur leið betur, fyrirgefningin getur nefnilega leitt til sáttar og gleði.

Munum að: Það er gott að fyrirgefa. Verum sólarmegin í lífinu, sama hvernig viðrar.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn TTT

Brúðuleikrit Vaka og Rebbi

Ofur Rebbi

Vaka birtist. Hún er með plástur á öðrum framfætinum.

Vaka: Halló, krakkar. Sjáið þið framfótinn minn? Ég ætla að segja ykkur hvað kom fyrir mig í gær. Það var svakalega vont.

Meðan Vaka er að segja þetta kemur Rebbi inn. Hann er með slæðu bundna utan um hálsinn á sér eins og skikkju (hér má líka notast við viskustykki).

Vaka: Ég var að loka hurðinni heima hjá mér þegar allt í einu kom vindhviða og hurðin skelltist á framfótinn og …

Vaka, sem fram að þessu veit ekki að Rebbi er kominn, rekst á Rebba og bregður mjög.

Vaka: Úff! Ertu kominn, Rebbi? Ég varð bara ekkert vör við þig.
Rebbi: Blessuð og sæl, Vaka. Ég var einmitt að æfa mig í að læðast.
Vaka: Ertu að æfa þig í að læðast? Af hverju?
Rebbi: Af því ég er búinn að ákveða hvað ég ætla að vera þegar ég er orðinn stór og það er mjög erfitt og þess vegna verð ég að æfa mig að vera eins og hann.
Vaka: Hvað ætlarðu að verða þegar þú ert orðinn stór?
Rebbi: Það er ennþá leyndarmál. Ég skal segja þér það ef þú lofar að segja engum.
Vaka: Ég lofa.
Rebbi: Ég ætla að verða ofurhetja eins og … SÚPERMANN!

Rebbi hoppar og skoppar út um allt eins og hann sé að reyna að fljúga.

Vaka: Hahahahaha. Þú ert svo fyndinn. Nei, hvað ætlarðu að vera í alvöru?
Rebbi: Í alvöru? Ég var ekkert að grínast. Ég ætla að verða ofurhetja eins og Súpermann. Ég er búinn að fá mér skikkju og allt. Ég á bara eftir að læra að fljúga. Sjáðu!

Rebbi gerir aðra tilraun til að fljúga.

Vaka: Af hverju viltu verða eins og Súpermann?
Rebbi: Af því hann er svo sterkur og hann er alltaf að hjálpa öllum.
Vaka: Og er í rauðum nærbuxum utan yfir buxurnar sínar.
Rebbi: Vaka! Ekki gera grín að Súpermann. Hann getur flogið og allt.
Vaka: Súpermann er ekki til í alvöru. Það getur enginn maður flogið nema í flugvél eða þyrlu. Pabbi sagði mér það.
Rebbi: Er það? Nú? (Hugsi). Jæja, þá verð ég bara eins og (… syngur batman stefið)  Batmann!
Hann getur ekki flogið, en er samt voða sterkur og er alltaf að hjálpa öllum.

ps- (Ef þið munið ekki hvernig það er smellið þá hér).
Vaka: Og er líka í nærbuxum utan yfir buxunum sínum. Hahahaha!
Rebbi: Hættu Vaka! Ekki gera grín að ofurhetjubúningum.
Vaka: (Hlær). Allt í lagi, allt í lagi.
Rebbi: Ég veit! Ef ég verð Batman þá mátt þú vera Róbin.
Vaka: Róbin?
Rebbi:  Já, aðstoðarmaður Batmanns.
Vaka: Ég veit hver Róbin er, en mig langar ekki til að vera hann. Batman og Róbin eru heldur ekki til í alvöru. Þeir eru bara til í bókum og bíó.
Rebbi: Sagði pabbi þinn það líka?
Vaka: Já.
Rebbi: Æi, þá veit ég ekkert hverjum ég vil líkjast fyrst Súpermann er ekki til og Batmann ekki heldur.
Vaka: Jú, ég veit hverjum þú ættir að líkjast.
Rebbi: Hverjum?
Vaka: Gettu! Hann huggaði mig þegar ég klemmdi mig í gær …
Rebbi: Uuuu ….?
Vaka: … Og gaf mér líka plástur.
Rebbi: Ég? Á ég að líkjast mér?
Vaka: Nei, þú átt bara að vera þú, Rebbi.
Rebbi: Finnst þér það?
Vaka: Finnst mér það? JÁ!Þú ert alltaf tilbúinn að hjálpa öllum og svo ertu líka fljótur að hlaupa. Þú ert eins og ofurhetja.
Rebbi: Uuuu … Takk.
Vaka: Ég vil líka vera eins og þú, Rebbi. Mig langar að hjálpa öðrum eins og þú hjálpaðir mér í gær. Má ég vera aðstoðarmaður þinn?
Rebbi: Aðstoðarmaður? Já, hehe, auðvitað. Þá ert ég Batmann og þú ert Róbin.
Vaka: Rebbi!
Rebbi: Í þykjustunni, auðvitað. En þinn má samt heita Vaka.
Vaka: Allt í lagi og þinn heitir Rebbi.
Rebbi: Sestu þá fyrir aftan mig, á Rebbamótorhjólið mitt, Vaka.
Vaka: Allt í lagi, Rebbi.
Vaka fer bak við Rebba og Rebbi gerir mótorhjólahljóð.
Rebbi: Nanananana … REBBI!   (Batman stef).
Vaka: Bless, krakkar. Munið að vera góð hvert við annað og hjálpa öðrum, eins og Rebbi. Sjáumst næsta sunnudag.
Vaka og Rebbi: Bless, bless!

ENDIR

Categories
6-9 ára Iðja Lúther TTT

Iðja

Búum til SKÍRNARPERLU sem hægt er að hengja upp á greinar til að skreyta með kirkjurýmið. Hér þarf hver og einn að fá HVÍTA kúlu úr tré eða frauðplasti (sem fæst í föndurbúðum) og fallegan borða til að þræða í gegnum hana svo hægt sé að hengja á grein. Þegar allar skírnarperlurnar eru saman komnar á trénu okkar í kirkjunni, sjáum við með skýrum hætti hvað skírnin er mikilvæg í lífi kirkjunnar og okkar sjálfra. Skírnarperlan er HVÍT vegna þess að hvíti liturinn er tákn um hreinleika frá sorgum, áhyggjum og erfiði. Í skírninni hvílum við í faðmi Guðs eins og lítið barn í örmum foreldris sem elskar það út af lífinu.

Útfærsla: á frauðplastkúlurnar má hver og einn skrifa sinn skírnardag, teikna mynd af fjölskyldunni sinni eða teikna falleg tákn, eins og kross, hjarta, rós og hring (sjá útfærslu á Lúthersrósinni fyrir Æskulýðsdag kirkjunnar).

Categories
6-9 ára Leikir Lúther TTT

Leikur

Við ætlum að finna á okkar eigin kroppi og skinni hvernig skírnin og kvöldmáltíðin – sakramentin okkar – líta út og eru framkvæmd.
Hér má leika sér með vatnið og hella því í skál, prófa að ,,skíra” dúkku eða einhvern viðstaddan, ræða um reynslu okkar af því að sjá skírn í kirkju eða heimahúsi og líka hvernig skírnin á sér stað á ólíkum stað í lífi fólks. Sumir eru skírðir sem ungabörn aðrir sem unglingar eða fullorðnir.

Við ætlum líka að setja upp eins konar ,,kvöldmáltíð” – búum til ,,altari” eða notum altarið í kirkjunni ef við erum þar, og látum ganga brauð sem er brotið/rifið niður og svo vínber – af því að Jesús notaði ávexti vínviðarins í síðustu máltíðinni sinni með lærisveinunum.

Categories
6-9 ára Lúther TTT

Til leiðbeinandans

Í þessari samveru ætlum við að skoða hvaða hlutverk það er sem kirkjan hefur í lúthersku kirkjunni og til þess ætlum við að horfa á sakramentin tvö sem Lúther skrifaði mikið um: skírnina og kvöldmáltíðina. Gott að lesa vel kaflana í “Hér stend ég” sem fjalla um skilning Lúthers á því hvaða hlutverki kirkjan og sérstaklega sakramentin hafa að gegna. Sakramenti þýða “leyndardómur” og hafa líka verið kölluð “náðarmeðul” á íslensku. Það er vegna þess að við trúum því að í gegnum efnin í sakramentunum (vatnið í skírninni, brauðið og vínið í altarisgöngunni) sé náð Guðs miðlað til manneskjunnar á alveg sérstakan, leyndardómsfullan hátt.

Hér þurfum við að passa upp á að verða ekki of abstrakt og nota ekki bara “himnesku” þegar við tölum um það sem kirkjan er. Við getum notað myndir og líkingar eins og fjölskyldu, tré, líkama, skip eða múrsteinsbyggingu til að tala um hvernig kirkjan er. Líkingar Jesú um þau sem trúa á hann og mynda kirkjuna, móta líka skilning Lúthers og okkar sjálfra um sakramentin, skírnina og kvöldmáltíðina.

SKÍRNIN hafði sérstaka stöðu í huga Lúthers og hann sagði einhvern tímann að skírnardagurinn hans væri merkilegasti dagur lífs hans – þótt hann myndi ekkert eftir honum sjálfur. Og hann sagði líka að eina “vígslan” sem skipti máli væri sjálf skírnin – ekki djákna-, munka-, presta- eða biskupsvígslur. Það er vegna þess að skírnin táknar á alveg sérstakan hátt kærleika og náð Guðs sem manneskjan fær að taka á móti. Skírnin er þannig áþreifanlegur farvegur fagnaðarerindisins í lífi manneskjunnar hér og nú. Ungbarnaskírnin er sérstakt tákn um náð Guðs í lífi manneskjunnar, vegna þess að ungbarnið sjálft er elskað og virt fyrir það sem það ER ekki það sem það GERIR eða GETUR.

KVÖLDMÁLTÍÐIN er hitt sakramentið, og er tákn um kjarnaatriði kristinnar trúar, sem er náðin og minningin um dauða og upprisu Jesú Krists. Rifjum upp að kvöldmáltíðin er haldin eins og Jesús og vinir hans upplifðu á skírdagskvöld, áður en Jesús var handtekinn og dæmdur til dauða. Hér er hægt að lesa kaflana í Jóhannesarguðspjalli um orðin sem Jesús fór með og minnti lærisveina sína á að brauðið og vínið tákna hans eigin líkama og blóð.