Categories
Barnasálmar og söngvar Krílasálmar

Lýsing á samverunni

DÝNA

Börn sitja í fangi mömmu eða pabba á dýnu eða teppi sem sett hefur verið fyrir framan altarið eða á öðrum hentugum stað í kirkjurýminu.

1. Forspil

Hjálpargögn: Hljóðfæri eða geisladiskur og spilari, stór blævængur.

Upphafsstaða: Mömmur og pabbar sitja á dýnu á gólfinu með börnin í fanginu. Hópurinn myndar hálfhring og allir horfa fram nema leiðbeinandi sem situr andspænis hópnum.

Sálmur eða önnur tónlist er spiluð af geisladiski eða á hljóðfæri t.d. fiðlu eða orgel. Stórum blævængi er sveiflað mjúklega við tónlistina. Mikilvægt er að ná augnsambandi við börnin, að hreyfingar séu hægar og stórar og að allir nái að njóta stundarinnar.

2. Signing og morgunbæn

Hjálpargögn: Bænaengill (lítil fingrabrúða, t.d. úr sunnudagaskólaefni)og þríhorn.

Upphafsstaða: Mömmur og pabbar sitja á dýnu á gólfinu með börnin í fanginu. Hópurinn myndar hálfhring og allir horfa fram nema leiðbeinandi sem situr andspænis hópnum.

Slegin eru þrjú slög á þríhorn sem boða komu bænaengilsins. Bænaengillinn birtist (hann getur t.d. komið upp úr lítilli körfu eða krús) og býður alla velkomna.
Engillinn leiðir signingu eins og í upphafi guðsþjónustu og biður morgunbæn t.d. „Nú er ég klæddur og kominn á ról“. Hann óskar börnum góðrar Krílasálmastundar og fer svo sína leið.

3. Velkominn Jakob

Hjálpargögn: Klukkuspil (ekki nauðsynlegt).

Upphafsstaða: Mömmur og pabbar sitja á dýnu á gólfinu með börnin í fanginu. Hópurinn myndar hálfhring og allir horfa fram nema leiðbeinandi sem situr andspænis hópnum.

Sunginn er einfaldur söngur þar sem hvert barn er nefnt á nafn og boðið velkomið. Hægt er að leika undir á klukkuspil t.d. C og G (grunntónn og fimmund í C-dúr). Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma og ná augnsambandi við hvert barn.

4. Guð gaf mér eyra

SBB 89

Upphafsstaða: Barn liggur á dýnu á gólfinu og horfir á mömmu eða pabba sem sitja eða krjúpa og syngja sálminn með hreyfingum.

Guð gaf mér eyra,
• Mamma eða pabbi snertir eyru barnsins á „eyra“.

svo nú má ég heyra.
• Mamma eða pabbi snertir sín eigin eyru á „heyra“.

Guð gaf mér auga,
• Augnsvæði barnsins er snert á „auga“.

svo nú má ég sjá.
• Mamma eða pabbi snertir sín eigin augu á „sjá“.

Guð gaf mér hendur, svo gjört geti meira.
• Mamma eða pabbi tekur í hendur barnsins og hreyfir þær frjálst við lag og texta.

Guð gaf mér fætur, sem nú stend ég á.
• Mamma eða pabbi tekur um fætur barnsins og hreyfir þá frjálst við lag og texta.

5. Upp, upp, upp á fjall

Upphafsstaða: Barn liggur á dýnu og horfir á mömmu eða pabba sem syngja þetta einfalda lag með tilheyrandi hreyfingum.

Upp, upp, upp á fjall, upp á fjallsins brún.
• Hermt er eftir fjallgöngu með því að láta vísifingur og löngutöng beggja handa sinna „ganga upp“ líkama barnsins, frá tám til höfuðs.

Niður, niður, niður, niður, alveg niðrá tún.
• Á sama hátt er „hlaupið niður fjallið“ frá höfði niður að tám.

Tillaga að tilbrigði við leikinn:
Staldrað er við í miðju laginu þ.e. „uppi á fjallsbrúninni“ og barnið knúsað og kysst í hálsakotið. Lagið má t.d. syngja þrisvar sinnum, í fyrsta sinn fær barnið einn koss, í annað sinn fær barnið tvo og í þriðja sinn þrjá kossa.

Að lokum stendur mamma eða pabbi á fætur og tekur barnið upp um leið og lagið er sungið. Í fyrri línu lagsins (Upp, upp, upp á fjall) er barninu lyft upp eins hátt og hægt er og í seinni línunni (Niður, niður) er barnið látið síga í fangið og knúsað innilega í lok söngsins.

Þetta lag má einnig syngja í keðju.

GÓLF

Allir fara út á gólf til að dansa. Mikilvægt er að það sé gott pláss.

6. Daginn í dag

SBB 35

Hjálpargögn: E.t.v. undirleikshljóðfæri, t.d. píanó, gítar eða tambúrína.

Upphafsstaða: Foreldrar standa hlið við hlið í hring með börnin í fanginu. Börnin snúa fram.

Daginn í dag, daginn í dag
Eitt skref til hægri á „Daginn“, vinstri fótur að án þunga á „dag“, eitt skref til vinstri á seinna „daginn“ og hægri fótur að án þunga á seinna „dag“.
gerði Drottinn Guð, gerði Drottinn Guð.
Börnum lyft upp tvisvar sinnum, einu sinni á hvoru „Drottinn“.
Gleðjast ég vil, gleðjast ég vil
Sömu skref og í fyrstu línunni „Daginn í dag“.
og fagna þennan dag, og fagna þennan dag.
Börnum lyft upp tvisvar sinnum, einu sinni á hvoru „þennan“.
Daginn í dag gerði Drottinn Guð,
Sömu skref og í fyrstu línunni „Daginn í dag“.
gleðjast ég vil og fagna þennan dag.
Foreldrar ganga fjögur skref áfram og lyfta börnunum upp. Dvalið er smástund inni í miðju hringsins og börnum gefinn tími til að sjá hvert annað.
Daginn í dag, daginn í dag
Foreldrar ganga fjögur skref afturábak og láta börnin síga í fangið.
gerði Drottinn Guð.
Foreldrar snúa sér í hring.

7. Þig lofar faðir líf og önd
SB 223

Þetta er algengasti sálmur sem sunginn er í kirkjunni en hann er sunginn nánast á hverjum sunnudegi í flestum kirkjum. Dansinn virkar nokkuð erfiður en er rökréttur og lærist fljótt því tengingin við textann er afar skemmtileg.

Hjálpargögn: E.t.v. undirleikshljóðfæri, t.d. tambúrína.

Upphafsstaða: Foreldrar standa í tveimur röðum, með góðu bili milli raða, andspænis hver öðrum með börnin í fanginu. Börnin snúa fram og dansfélagar horfast í augu.

Þig lofar, faðir, líf og önd,
Börnum vaggað til beggja hliða fjórum sinnum.
þín líkn oss alla styður.
Foreldrar ganga fjögur skref áfram.
Þú réttir þína helgu hönd
Foreldrar lyfta upp hægri hönd og klappa fjórum sinnum í lófa hvert annars.
af himni til vor niður.
Börnum lyft hátt upp á „himni“ og niður aftur í fangið.
Og föðurelska, þóknan þín,
Hvert foreldri strýkur barni dansfélaga síns á hvora kinn.
í þínum syni til vor skín,
„Dós í dós“ skref – æfist sérstaklega! Mikilvægt er að snúa andlitinu alltaf í sömu átt. Foreldrar ganga fram á „í þínum“ og snúa þá hægri hliðum saman. Gengið er til hægri á „syni“ og snúa pörin þá bak í bak, gengið til hægri á „til vor“ og snúa þá vinstri hliðar saman, gengið tilbaka á „skín“ og eru þá allir komnir í upphafsstöðu. Gengin eru eins mörg skref og þurfa þykir (u.þ.b. tíu skref) Þessi staður í dansinum er langerfiðastur og þarf að æfa nokkrum sinnum. Það fer vel á því að bíða á „skín“ eftir að allir eru komnir aftur á sinn stað.
þitt frelsi náð og friður.
Fjögur skref afturábak og endað í upphafsstöðu.

STÓLAR

Mömmur og pabbar setjast með börnin í fanginu í stóla sem raðað hefur verið í hring á hentugum stað í kirkjunni.

8. Englar Guðs

SBB 45

Hjálpargögn: E.t.v. undirleikshljóðfæri t.d. píanó eða gítar.

Upphafsstaða: Mömmur og pabbar sitja í hring á stólum með börnin í fanginu. Börnin horfa í augu mömmu eða pabba.

Englar Guðs þeir vaka yfir mér
alla daga og nætur, hvert sem ég fer,
Barninu hossað í takt við lag og texta.
út á götu,
Mamma eða pabbi heldur um bak og höfuð barnsins, beygir sig fram og um leið hallar barnið aftur.
upp á hól,
Mamma eða pabbi reisir barnið aftur í upprétta stöðu.
undir borði,
Mamma eða pabbi heldur um bak og höfuð barnsins, beygir sig fram og um leið hallar barnið aftur.
upp á stól,
Mamma eða pabbi reisir barnið aftur í upprétta stöðu.
alla daga og nætur þeir vaka yfir mér.
Barninu hossað í takt við lag og texta.
• Lagið stöðvast og eftirvænting skapast áður en síðasta setningin er sungin.

Vúúps….
Mamma eða pabbi heldur um bak og höfuð barnsins, setur fætur í sundur og lætur barnið „detta“ á milli fótanna. Gott er að gefa sér góðan tíma og leyfa börnunum að kíkja hvert á annað.
Sem betur fer!
Síðasta setningin sungin um leið og barnið er reist upp aftur.

9. Ég vil spila og syngja fyrir Guð
SBB 68

Hjálpargögn: Hljóðfæri t.d. hristur eða hringlur.

Upphafsstaða: Mömmur og pabbar sitja í hring á stólum með börnin í fanginu. Börnin horfa inn í hringinn.

Hvert barn fær hljóðfæri t.d. hringlu eða hristu sem það hristir frjálst við lag og texta.

Tillaga að tilbrigði við leikinn:
Hvert barn spilar einleik og textanum er breytt þannig að nafn barnsins er sungið t.d. „Anna spilar og syngur fyrir Guð“.

10. Kringum litla bátinn

SBB 115

Hjálpargögn: Stór dúkur eða lak og e.t.v. lítið hristuegg.

Upphafsstaða: Foreldrar sitja í hring á stólum með börnin í fanginu. Börnin horfa inn í hringinn. Allir halda í stóran dúk eða lak og leika eftir stórsjó með því að hrista lakið. Áður en lagið er sungið er hægt að líkja eftir vindi með blásturshljóðum.

Kringum litla bátinn bylgjan reis svo há.
Jesús svaf í bátnum, veðrið buldi á.

Hræddust þeir í bátnum brim og veðragný.
Lakið hrist og líkt eftir stórsjó.
Jesús kyrrði hafið
Foreldrar hætta að hrista og lakið staðnæmist. Lagið stöðvast og þannig skapast eftirvænting áður en síðasta setningin er sungin.
allt varð hljótt á ný
Lakið er kyrrt meðan síðasta setningin er sungin.

Tillaga að tilbrigði við leikinn:
Lítill hlutur t.d. hristuegg er látið ofan á lakið sem tákn fyrir bátinn og þegar lakið er látið staðnæmast er hluturinn alveg kyrr þegar síðasta setningin er sungin.

GÓLF

11. Hver hefur skapað blómin björt?
SBB 102

Við höfum leyft okkur að gera tilbrigði við textann í laginu „Hver hefur skapað blómin björt?“ fyrir þennan dans og syngjum í staðinn um hina ýmsu líkamshluta. Það er góð hugmynd að syngja lagið með réttum texta einhvern tíma á námskeiðinu, t.d. í upphafi á dýnunni og gera hreyfingarnar með.

Upphafsstaða: Frjáls á gólfi, hvorki raðir né hringur. Mömmur og pabbar halda á börnunum í fanginu og þau snúa fram.

Allir syngja lagið við nýja textatilbrigðið:

Við finnum okkur félaga, félaga, félaga! Við finnum okkur félaga að dansa við!
Allir ganga frjálst um gólfið þar til komið er að „dansa við“, þá stansa mömmur og pabbar tvö og tvö saman, andspænis hvert öðru. Börnin horfast í augu.

Leiðbeinandi segir: „Hver hefur skapað… (einhver líkamshluti nefndur, t.d. nebbann, mallakút, fingurna, tásurnar, hárið o.s.frv.) þinn?

Þá syngja allir:

Hver hefur skapað nebbann þinn, nebbann þinn, nebbann þinn? Hver hefur skapað nebbann þinn?
Mömmur og pabbar benda á nebbann (eða þann líkamshluta sem við á) á barni dansfélagans.
Guð á himninum!
Mömmur og pabbar benda vísifingri upp til himins.

Dansinn er endurtekinn frá „Við finnum okkur félaga“ og leita mömmur og pabbar þá að nýjum dansfélaga. Sungið er um nýjan líkamshluta í hvert sinn. Þetta er gert nokkrum sinnum.

Í lokin er sungið:
Svo hættum við að dansa nú, dansa nú, dansa nú! Svo hættum við að dansa nú, dansa nú!

12. Ó, blíði Jesú
SBB 130

Hjálpargögn: Stórt teppi eða lak.

Upphafsstaða: Teppið er lagt á gólfið og barnið lagt í miðjuna. Mamma eða pabbi stendur við annan enda teppisins og leiðbeinandi við hinn. Barnið horfir á mömmu eða pabba. Hópurinn myndar hring í kringum teppið á meðan vaggað er.

Leiðbeinandi og mamma eða pabbi taka í hornin á teppinu við hvorn sinn enda. Þau lyfta teppinu upp með barninu í og vagga því á meðan 1. erindi sálmsins er sungið. Hópurinn stendur í hring og fylgist með hverju barni. Þegar lokið er við sönginn og annað barn sett á teppið er gott að raula eitt erindi á meðan.

DÝNA

13. Lokabæn

Hjálpargögn: Bænaengill (lítil fingrabrúða, t.d. úr sunnudagaskólaefni).

Upphafsstaða: Mömmur og pabbar sitja á dýnu á gólfinu með börnin í fanginu. Hópurinn myndar hálfhring og allir horfa fram nema leiðbeinandi sem situr andspænis hópnum.

Bænaengillinn birtist (hann getur t.d. komið upp úr lítilli körfu eða krús), þakkar börnunum fyrir samveruna og leiðir þau í lokabæn t.d. Vertu Guð faðir, faðir minn.

14. Eftirspil

Categories
Barnasálmar og söngvar Krílasálmar

Yfirlit samveru

Hjálpargögn: Dýna eða teppi fyrir börn að liggja á, dúkka eða bangsi (sýnidúkka leiðbeinanda), þríhorn, klukkuspil, e.t.v. önnur hljóðfæri ef hægt er (t.d. fiðla, orgel, gítar, tambúrína, hristuegg o.s.frv.), „bænaengill“ (lítil fingrabrúða t.d. úr sunnudagaskólaefni), stórt klæði t.d. lak (til að rugga börnunum í og í laginu Kringum litla bátinn), stór blævængur, sápukúlur, tónlist á geisladiskum og geislaspilari.

Flest lögin eru úr:
SBB: Sálmabók barnanna
SB: Sálmabók íslensku kirkjunnar

Dýna
1. Forspil (tónlist og blævængur) Sjá myndband

2. Signing og morgunbæn (bænaengill og klukkuspil)
3. Velkominn Jakob (klukkuspil) Sjá myndband
4. Guð gaf mér eyra, SBB 89 Sjá myndband
5. Upp, upp, upp á fjall Sjá myndband

Gólf
6. Daginn í dag, SBB 35 Sjá myndband
7. Þig lofar faðir líf og önd, SB 223

Stólar
8. Englar Guðs, SBB 45 Sjá myndband
9. Ég vil spila og syngja fyrir Guð (hringlur/hljóðfæri), SBB 68
10. Kringum litla bátinn (dúkur eða lak), SBB 115 Sjá myndband 1. Sjá myndband 2

Gólf
11. Hver hefur skapað, SBB 102
12. Ó. blíði Jesú (teppi, dúkur eða lak), SBB 130

Dýna
13. Vertu Guð faðir, faðir minn (bænaengill)
14. Eftirspil (tónlist og sápukúlur)

Categories
Barnastarfið Foreldrastarf Helgihald Krílasálmar

Krílasálmar