Categories
6-9 ára Æskulýðsstarf Barnastarfið Biblíusögur DVD

NEBBANÚ

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Brúðuleikrit Efnispottur

Brúðuleikrit – Vaka og Rebbi

Categories
6-9 ára Barnasálmar og söngvar Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla

Hlutbundin kennsla

PÁSKAR

Litla Biblían – Jóhannesarguðspjall 3:16

 

hjartaklippHlutur:
Mynd af hjarta, eða hjarta klippt út úr rauðum pappa og sett inn í Biblíu sem bókamerki. Skrifið inn í hjartað:

Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn
til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Kennsla:
Vitið þið hvaða bók þetta er?
– Biblían.
Biblían er bók um Guð og það sem Guð vill segja við okkur. Biblían er í rauninni ekki ein bók heldur margar. Í hana er safnað saman mörgum bókum sem voru skrifaðar á mjög löngum tíma, nokkur hundruð árum.
Sjáið hvað þetta eru margar blaðsíður (Gaman að segja hversu margar blaðsíðurnar eru).
Það tekur langan tíma að lesa um allt sem Guð vill segja við okkur í Biblíunni.

Nú ætla ég að segja ykkur svolítið merkilegt.
Það mikilvægasta sem stendur í Biblíunni er í raun mjög einfalt.

Opnið Biblíuna og lesið Jóh. 3:16.
Þessi orð hafa verið kölluð litla Biblían því þetta er það mikilvægasta sem Guð vill segja við okkur í einni setningu.

En skilduð þið það sem ég var að lesa?
Ég skal skýra það betur út.

Dragið hjartað sem þið teiknuðuð eða klipptuð út upp úr Biblíunni.

Sýnið börnunum hjartað.
Nei, sko. Hvað er þetta?
– Hjarta.

Þegar við sjáum svona hjarta eins og ég held á hvað dettur okkur í hug?
– Ást, kærleikur.

Af hverju skyldi hjarta vera tákn ástar og kærleika?
– Kannski vegna þess að þegar okkur þykir svo vænt um einhvern að við elskum þá getum við fundið það í hjartanu okkar.

Og mikilvægu orðin, Litla Biblían, sem ég las áðan þýða: Guð elskar heiminn, elskar okkur.
Á páskunum gleðjumst við vegna þess að Guð elskar okkur.

Þess vegna gaf hann okkur son sinn, Jesú, sem fæddist lítið barn í Betlehem, kenndi um kærleika Guðs og gerði kraftaverk. Hann síðar tekinn fastur og dó á krossinum á Golgata.

Jesús dó en ást Guðs til okkar vakti hann aftur til lífsins, reisti hann frá dauðum.

Að trúa á Jesú merkir að við trúum á ást Guðs og sú ást deyr aldrei.

Boðskapur Biblíunnar og boðskapur páskanna er mjög skýr og einfaldur. (Lesið litilu biblíuna aftur). Við getum meira að segja stytt þetta niður í þrjú orð.

GUÐ-ELSKAR-MIG

Lærum þessi orð, segjum þau saman og munum þau: Guð elskar mig!

Categories
6-9 ára Barnastarfið DVD Sunnudagaskólinn

Tófa – Fýlan

Í þessum þætti er unnið með fótaþvottinn. Tófa er úti að leika sér í pollunum í stígvélunum sínum. Þegar hún kemur inn ætlar hún að fá sér að borða en finnur vonda lykt sem hún áttar sig ekki á hvaðan kemur. Á endanum áttar hún sig á að vonda lyktin kemur af hennar eigin fótum. Hún fer í fótabað og málið er leyst.

Vel má minna á að á dögum Jesú gekk fólk í opnum skóm eða sandölum og var orðið mjög skítugt um fæturna í lok hvers dags. Þess vegna var mjög mikilvægt að þvo sér um fæturna.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Brúðuleikrit – Rebbi og Vaka

Láttu Ofur – Rebba um málið

ATH! Áður en leikritið hefst væri gott að vera með GSM síma nálægt sem Rebbi „finnur“ í lok leikritsins.

Rebbi birtist raulandi Batman stefið í sinni útfærslu. Rifjið upp Batman stefið hér. Rebbi er klæddur í ofurhetjuskikkjuna sína (viskustykki eða eitthvað annað tilfallandi sem er bundið um háls Rebba).

Rebbi: Nananananana REBBI! Nananana REBBI!

Vaka birtist.

Vaka: Halló, Rebbi.

Rebbi: Halló, Vaka. Ofur – Rebbi hér. Kominn til að hjálpa þér.

Vaka: Það er ekkert annað.

Rebbi: Eru einhverjir að stríða þér? Láttu Ofur-Rebba um málið. Ég skal sjá um hrekkjusvínin fyrir þig.

Rebbi ólmast um og gerir alls konar karate og bardagahljóð og syngur Nananananana REBBI!

Vaka: Nei, Rebbi! Það er enginn að stríða mér!

Rebbi: Svafstu of lengi? Er dagurinn ónýtur? Láttu Ofur-Rebba um málið. Ég get bjargað deginum.

Vaka: Nei, ég vaknaði snemma í morgun og þetta er bara góður dagur.

Rebbi: Ég get bjargað þér!

Rebbi stekkur á Vöku og skellir henni niður.

Vaka: Ái! Nei, takk. Þú þarft ekki að bjarga mér! Það er ekkert að! Ekki láta svona Rebbi!

Rebbi fer ofan af Vöku, snýr sér frá henni, hengir haus og er mjög leiður.

Rebbi: Æi, ég er ömurleg ofurhetja.

Vaka: Hvað er að, Rebbi minn.

Rebbi: Ég get ekki hjálpað neinum. Það segja allir að það sé allt í lagi og ég eigi ekki að hjálpa þeim.

Vaka: Æi, Rebbi minn. Þú ert svo góðhjartaður. En getur þú ekki bara verið glaður yfir því þegar allt gengur vel hjá öðrum? Er það ekki bara fínt.

Rebbi: Kannski fyrir þig. En það er ekkert gaman að vera ofurhetja ef það eru engin vandræði.

Vaka: Ekki vera dapur, Rebbi minn. Hvernig get ég hjálpað þér?

Rebbi: Hjálpað mér? Ég er ofurhetjan. Ég á að hjálpa þér.

Vaka: Ég veit það. Þú ert Ofur-Rebbi.

Rebbi: Þú getur samt hjálpað mér.

Vaka: Hvernig?

Rebbi: Hjálpaðu mér að hjálpa þér?

Vaka: Hjálpa þér að hjálpa mér?

Rebbi: Nei, hjálpa mér að hjálpa þér.

Vaka: Ég meinti það.

Rebbi: Gott! Hvernig viltu að ég hjálpi þér?

Vaka: Það hlýtur að vera eitthvað.

Vaka hugsar.

Vaka: Jú, nú veit ég.  Ég týndi símanum mínum.

Rebbi: Athyglisvert. Hvar sást síminn síðast?

Vaka: Ég var í leik í honum og svo sofnaði ég með hann og þá var hann horfinn.

Rebbi: Ekki hafa áhyggjur. Láttu Ofur-Rebba um málið. Leyfðu mér að hugsa.

Rebbi hugsar.

Rebbi: Mér dettur eitt í hug. Þú varst síðast að leika þér með símann og sofnaðir með hann.

Vaka: Já.

Rebbi: Þú veist að það er óhollt að vera með símann í rúminu sínu. Svoleiðis á aldrei að gera.

Vaka: Ég veit það, ég bara …

Rebbi: Beygðu þig!

Vaka: Beygja mig?

Rebbi: Já, beygðu þig aðeins.

Vaka beygir sig fram í áttina að Rebba. Rebbi kíkir undir skelina hennar.

Rebbi: Þetta var alveg eins og ég vissi. Síminn er þarna undir skelinni þinni.

Vaka: Í alvöru.

Þarna gæti verið fyndið að láta síma hringja í vasa sunnudagaskólakennarans.

Rebbi: Og það er einhver að hringja í þig.

Vaka: Geturðu náð honum úr skelinni.

Rebbi: Bíddu aðeins.

Þau stympast aðeins og síminn kemur í ljós.

Rebbi: Sko, þarna var hann!

Vaka tekur símann upp.

Vaka: Vá! Rebbi, þú fannst hann. Þakka þér kærlega fyrir. Þú ert sko ofurhetjan mín.

Rebbi: Tjah! Ekkert að þakka. En nú þarf ég að fara og bjarga fleirum. Bless Vaka og bless krakkar.

Rebbi syngur Nananana REBBA stefið.

Vaka: Nei, bíddu. Manstu ég er aðstoðarmaður þinn.

Rebbi: Já, það er rétt. Ertu til í fleiri ævintýri.

Vaka: Já.

Rebbi: Láttu Ofur Rebba um málið og komdu með.

Rebbi og Vaka: Bless, krakkar.

ENDIR

 

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Ítarefni Sunnudagaskólinn

Biblíusagan – Hlutbundin kennsla

Skírdagur

(Jóhannesarguðspjall 13.1-7)

Hlutur: Kóróna úr pappa eða leikfangakóróna.

Kennsla: Sýnið kórónuna, leyfið börnunum jafnvel að prófa hana sjálf og spyrjið þau:

Hvaða fólk er með kórónu?

– Drottningar og konungar.

Hvað gera konungar?

– Þeir stjórna ríkjum, fara í stríð. Allir þjóna þeim.

Er Jesús konungur?

– Ef þau segja nei má minna þau á að vitringarnir leituðu að stjörnu hins nýfædda konungs og Jesús hefur oft verið kallaður konunugur.

Hvernig konungur er Jesús?

– Leyfið þeim að svara.  Punktar til að enda umræðuna. Jesús sagðist sjálfur hafa allt vald á himnum og á jörðinni en hann var ekki kominn til að stjórna heldur til að þjóna. Þetta sýndi hann vinum sínum, lærisveinunum skömmu áður en hann dó á krossinum.

Páskahátíðin var á næsta leyti og Jesús fann það á sér og vissi að bráðum myndi allt breytast. Hann átti marga óvini sem sögðu að Jesús væri hættulegur því hann sagðist vera sonur Guðs og vildu láta handtaka hann. Hann vissi að ef það yrði gert myndi hann deyja, verða tekinn af lífi.

Honum þótti það mjög erfitt tilhugsunar. Hann átti marga vini sem hann elskaði mikið og hann vildi alls ekki fara frá þeim.

Hann ákvað að bjóða þeim í veislu. Máltíðin var kveðjustundin hans til þeirra.

Hann gaf þeim brauð og vín og sagði þeim að í hvert skipti sem þeir kæmu saman til að borða með þessum hætti þá væri hann með þeim. Hann myndi aldrei yfirgefa þá þótt hann ætti eftir að deyja. Þetta var kveðjustund sem vinir hans gleymdu aldrei.

Meðan þeir voru að borða stóð Jesús upp, klæddi sig úr kyrtlinum sínum og vafði handklæði um mittið. Svo sótti hann vaskafat. Hann hellti vatni í vaskafatið og þvoði fætur lærisveinanna. Þetta þótti þeim skrýtið því að það var bara þjónustufólk sem þvoði fætur, ekki vinir og ALLS EKKI konungar. Jesús er öðru vísi konungur.

Allir konungar jarðarinnar láta þjóna sér.

Jesús er konungur sem þjónar öllum og kennir okkur að gera það sama. Hann kenndi okkur. Það mikilvægasta af öllu er að elska hvert annað og þjóna hvert öðru.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Ítarefni Sunnudagaskólinn TTT

Biblíusagan – Hlutbundin kennsla

Haninn galar tvisvar (Jóhannesarguðspjall 18.15-27)

17571687_10155104019079257_1014423873_o 17622186_10155104018499257_984250385_o

Hlutur : Hani. Búinn til úr pappadiski og pappír í tvenns konar litum, eins og myndirnar sýna. Tekur 3-5 mínútur.

Saga:

Sýnið hanann:
Vitið þið hvað þetta er? Þetta á að vera hani. Hanar eru mjög duglegir og vakna snemma á morgnana. Um leið og sólin kemur upp eiga þeir það til að gala hátt og snjallt og vekja alla. Getið þið galað eins og hanar?

Leyfið börnunum að gala.

Í sunnudagaskólanum höfum við heyrt um svo margt sem Jesús gerði og sagði til að kenna okkur um hvað Guði þykir vænt um okkur.

Bráðum koma páskar og tíminn núna fram að páskum heitir páskafasta. Á páskaföstunni og páskunum lærum við um hvernig elska og kærleikur Guðs til okkar kemur fram í því sem gerðist á páskunum þegar Jesús dó á krossinum og reis upp frá dauðum.

Vinir Jesú eru oft nefndir lærisveinar. Að vera lærisveinn er það sama og að vera nemandi. Þannig erum við líka lærisveinar því við erum að læra af Jesú og um Jesú í sunnudagaskólanum.

Einn af vinum Jesú hét Símon, en Jesús kallaði Símon fyrir Pétur. Vitið þið hvað nafnið Pétur þýðir? Svar: Klettur, eða stór steinn. Jesús kallaði hann Pétur eða klett vegna þess að hann treysti honum svo vel.

Jesús vissi að bráðum myndu hræðilegir atburðir gerast. Hann sagði vinum sínum frá því að bráðum yrði hann handtekinn og svo sagði hann við vini sína: Bráðum munu sumir ykkar afneita mér og ekki vilja viðurkenna að þið þekkið mig.

Þá sagði Pétur: Ég mun aldrei afneita þér.

Jesús svaraði: Áður en haninn hefu galað tvisvar í fyrramálið verður þú búinn að afneita mér þrisvar.

Svo gerðist allt eins og Jesús hafði sagt. Hann var handtekinn og farið var með hann burtu.

Vinir hans urðu hræddir, líka Pétur, en hann ákvað að fylgjast með því hvað mennirnir ætluðu að gera við Jesú og stóð þar skammt frá og hlustaði á.

Þar sem hann stóð kom kona sem kannaðist við Pétur og hún spurði hann: „Ert þú ekki lærisveinn Jesú?“

Þá svaraði Pétur: „Nei, ég! Alls ekki.“

Um leið galaði haninn.

-Hér má leyfa börnunum (eða velja eitt barn til þess) að gala eins og hani.

Pétri brá við hanagalið og  leiður yfir því sem hann hafði sagt og svo var honum líka kalt. Þarna var búið að kveikja eld og hann ákvað að hlýja sér. Þá var hann aftur spurður. Ert þú ekki vinur þessa manns sem er búið að handtaka.

Og Pétur svaraði: „Nei, ég er ekki vinur hans.“

„Jú, víst!“ Sagði þá einhver annar. „Ég hef séð þig með honum.“

„Nei“ sagði Pétur.

Og um leið galaði haninn aftur.

Pétur varð mjög leiður þegar hann hafði áttað sig á því sem hann hafði gert, en það var nákvæmlega eins og Jesús vissi og hafði sagt lærisveinunum að ætti eftir að gerast.

Seinna þennan sama dag var Jesús krossfestur á Golgatahæð og þar dó hann. Pétur og hinir vinir Jesú urðu bæði sorgmæddir og hræddir. Þetta var á föstudaginn langa.

Í næsta sunnudagaskóla fáum við að heyra hvað gerðist á skírdag.

 

 

 

Categories
6-9 ára Barnastarfið DVD Sunnudagaskólinn TTT

Tófa – Haninn

Í þessum þætti er unnið með söguna af því þegar haninn galaði á Pétur.

 

Tófa verður vör við það á morgnana að einhverjir undarlegir atburðir virðast hafa átt sér stað hjá henni að næturlagi. Hana grunar að þjófur sé að verki og setur upp gildru í formi hanatístudúkku. Um nóttina vaknar hún þegar haninn hennar tístir en kemst þá að því að það er hún sjálf sem gengur í svefni.

Gal hanans vakti Pétur til umhugsunar um að hann hafði gert nákvæmlega það sem hann hafði lofað að gera aldrei, að afneita Jesú,

Categories
6-9 ára Barnastarfið Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Brúðuleikrit – Rebbi og Vaka

Takktakktakk.

Vaka birtist. Hún heldur á penna eða blýanti og fyrir framan hana eru auð blöð og hún er að skrifa á eitt þeirra.

Vaka: Halló krakkar. Sjáið hvað ég á flottan penna/blýant. Ég fékk hann í afmælisgjöf um daginn og í dag verður þetta þakkarpenni/blýantur.

Vaka heldur áfram að skrifa og Rebbi birtist.

Rebbi: Halló Vaka. Hvað ertu með?

Vaka snýr sé frá honum.

Vaka: Ég er bara að skrifa svolítið með þakkarpennanum/blýantinum mínum.

Rebbi: Hvað ertu að skrifa.

Vaka: Bara, smá leyndó.

Rebbi reynir að komast til að sjá hvað hún er með.

Rebbi: Láttu ekki svona. Leyfðu mér að sjá.

Vaka snýr sér aftur undan.

Vaka:  Bíddu aðeins.

Heldur áfram að skrifa.

Rebbi: Ég er orðinn svo forvitinn! Hvað ertu eiginlega að skrifa?

Vaka: Augnablik.

Vaka skrifar og Rebbi bíður smá stund.

Vaka: Jæja, gjörðu svo vel!

Vaka annað hvort réttir Rebba blaðið en ef það er þægilegra fyrir brúðustjórnandann getur hún líka opnað leiðina fyrir Rebba til að komast að blaðinu og lesa.

Rebbi les.

Rebbi: El-sku Rebbi. Ég þakka þér fyrir af-mælis-gjöfina sem þú gafst mér um daginn.

Rebbi verður smá meyr.

Rebbi: Já, varstu að skrifa mér! Uhh, það er ekkert annað. Uuuu… ekkert að þakka, Vaka mín. Þetta var nú bara smá lítilræði sem var bara sjálfsagt að … uuu … Já, en semsagt. Þakka þér fyrir að þakka mér fyrir.

Vaka: Það var ekkert að þakka.

Rebbi: Jæja. En nú förum við að leika.

Vaka: Nei, því miður, Rebbi minn. Ég er upptekin. Ég á eftir að skrifa öllum sem gáfu mér afmælisgjafir.

Rebbi: Öllum? Hvað eru þeir margir?

Vaka: Sautján.

Rebbi: Og ætlarðu að skrifa sautján bréf? Þú verður svo lengi að því. Það er alger óþarfi.

Vaka: Nei, maður verður að þakka almennilega fyrir sig.

Rebbi: Nei, það skiptir ekki svo miklu máli.

Vaka: Nú? Fannst þér þá ekki gott að fá þakkarbréfið frá mér?

Rebbi: Jú, mjög gott og gaman.

Vaka: Mig langar til að gleðja hina afmælisgestina líka alveg eins og ég gladdi þig.

Rebbi: Já, ég skil. Allt í lagi, Vaka. Ég skal bíða meðan þú skrifar.

Vaka: Takk.

Rebbi bíður smástund.

Rebbi: Vaka! Ég var að hugsa eitt. Heldurðu að Guð verð ekki líka glaður ef við munum eftir að þakka honum fyrir.

Vaka: Jú, alveg örugglega. Það er mjög mikilvægt að muna eftir að þakka Guði fyrir allar gjafir hans til okkar.

Rebbi: Já, til dæmis að þakka fyrir lífið, vinina, blómin sem eru farin að spretta, vorið sem er að koma og allt.

Vaka: Já, alveg rétt, Rebbi minn. Ertu búinn? Má ég halda áfram að skrifa?

Rebbi: Nei, Ég er með hugmynd, Vaka. Ég gæti hjálpað þér.

Vaka: Nú, hvernig.

Rebbi: Ég á alveg eins penna/blýant heima. Ég gæti skrifað á helminginn af bréfunum fyrir þig og þú skrifað undir þau. Þannig verðurðu fljótari.

Vaka: Vá! Góð hugmynd, Rebbi. Þakka þér fyrir.

Rebbi: Þakka þér fyrir að þakka mér fyrir.

Vaka: Þakka þér fyrir að þakka mér fyrir að þakka þér fyrir.

Rebbi: Og þakka þér fyrir að þakka mér fyrir að þakka þér fyrir að þakka mér …

Vaka: Hahaha. Komum heim.

Rebbi: Þakka þér fyrir að koma heim.

Vaka: Nú er komið að því að kveðja krakkana, Rebbi.

Rebbi: Þakka þér fyrir að minna mig á það.

Vaka: Bless krakkar!

Rebbi: Þakk þér fyrir að segja: Bless krakkar. Og krakkar mínir: Munum eftir að þakka fyrir okkur, bæði mönnum og Guði.

ENDIR 

 

Categories
6-9 ára

Tófa – Töfrahatturinn

Þessi þáttur af Tófu er saminn upprunalega við frásöguna af Móse í sefkörfunni (2. Mós. 2). En hér er hún notuð til stuðnings við söguna um musterisgjaldið (Mattheus 17.24-27).

Tófa veiðir undarlegan hatt upp úr ánni og rétt eins og peningurinn kom úr munni fisksins kemur eitthvað óvænt úr hattinum.