Categories
6-9 ára Barnastarfið Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Hlutbundin kennsla: Marta og María

Hugmynd að hlut í fjársjóðskistu:
– Tuskudýr

Hlutur: Ýmislegt til baksturs eins og hveiti, kakó, sykur, egg og svo framvegis. Tilbúin kaka (til dæmis bollakaka).

Kennsla: Hverjum finnast kökur vera góðar? Hvernig verða kökur til? Það þarf að hræra þær saman og baka þær. Hvaða efni eru notuð til að búa til köku? (Hveiti, kakó, sykur, súkkulaði, mjólk, lyftiduft, egg o.fl). Hafið þið smakkað hveiti eða kakó? (Ef tækifæri er til má alveg leyfa þeim að smakka örlítið af því). Sum efnin í kökunni eru vond á bragðið en önnur góð.

Einu sinni kom Jesú í heimsókn til tveggja systra sem hétu Marta og María. Um leið og hann kom fór Marta inn í eldhús til að baka og búa til mat handa gestinum en María systir hennar settist bara niður og hlustaði á það sem hann hafði að segja. Mörtu fannst ekki sanngjarnt að hún þyrfti að gera allt og bað Jesú um að segja Maríu að hjálpa sér. Jesús svaraði: Marta, þú hefur áhyggjur og hefur mikið að gera en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið og það verður ekki frá henni tekið.
Hvað átti Jesú við? Hann var ekki að skamma Mörtu fyrir að hafa verið dugleg. Það er mikilvægt að vera duglegur og gera ekki bara það sem manni finnst skemmtilegt og þægilegt en það er líka nauðsynlegt að gefa sér tíma til að hlusta á Guð, eins og María gerði. Munið þið þegar við vorum að smakka efnin í kökunni áðan? Sum efnin eru vond á bragðið ef þau eru borðuð ein og sér en önnur, eins og súkkulaðið og sykurinn voru góð þó þau væru ekki með í kökunni. En þegar þeim er hrært saman og kakan er bökuð komumst við að því að þau eru öll nauðsynleg til að kakan bragðist vel. Best er að vera duglegur eins og Marta en að muna líka eftir að hlusta á Guð eins og María.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Hlutbundin kennsla: Mustarðskornið

Hlutir: Hvítt blað og penni eða blýantur.

Kennsla
            Í dag langar mig til þess að við hugsum um það smáa. Hvað heitir til dæmis minnsti fingurinn á hendinni okkar? Litlifingur. Og nú má rétta upp hönd og ég leyfi nokkrum að svara. Hvað er minnsta dýr sem þið hafið séð? (Gefið börnunum góða stund í svörin) Hvað er minnsta leikfang sem þið eigið? Hvað er stysta orð sem þið munið eftir? Hver er minnsti hluturinn hérna inni?
            Það er svo gaman að heyra ykkur segja frá öllum þessum litlu hlutum af því ég hugsa sjaldan um litla hluti. Kannski er það vegna þessa að þeir eru svo litlir að ég tek ekki eftir þeim.
Jesús sagði einu sinni frá einu sem var pínulítið. Bíðið þið ég ætla að teikna mynd af því fyrir ykkur (teiknið einn pínulítinn punkt sem rétt svo sést á mitt blaðið). Sjáið þið þetta? Ekki? Það er vegna þess að það er svo pínu, pínulítið. Þetta er mynd af frækorni sem heitir mustarðskorn. Mustarðskorn eru ein minnstu frækorn í heimi. En mustarðskorn eru ekki alltaf lítil. Þegar þeim er sáð í jörðina og þau fá að vaxa geta þau orðið að risastórum trjám. Miklu stærri en þið, miklu stærri en ég og sum mustarðstré geta orðið miklu hærri en þessi kirkja. (Farið samt varlega í þetta í þeim kirkjum þar sem kirkjuturnar eru háir og segið þá heldur að mustarðstré geti orðið hærri en hús ).

Finnst ykkur ekki skrýtið að fræ sem er svona lítið (sýnið aftur blaðið þar sem punkturinn er varla sýnilegur) geti orðið svona stórt.
Nú ætla ég að segja ykkur nokkuð merkilegt. Jesús sagði að trúin okkar þyrfti ekki að vera stærri en pínulítið mustarðskorn. Hugsið ykkur! Í alvöru! Ekki stærri en það?
Jesús veit að við getum ekki byrjað strax eins og stórt mustarðstré. Við þurfum að byrja einhversstaðar. Um leið og við byrjum að trúa á Jesú byrjar trúin að vaxa með okkur og eftir því sem við kynnumst Jesú betur stækkar trúin innra með okkur. Jesús sagði: Trúin þarf ekki að vera stærri en mustarðskorn. (Haldið blaðinu upp).
 

 

Categories
6-9 ára Barnastarfið Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Hlutbundin kennsla: Bartímeus blindi

Fylgihlutur
Blóm eða falleg mynd. Trefill.

Kennsla:
Hafið blómið eða myndina sem þið eruð með í felum. Byrjið kennsluna á því að fá sjálfboðaliða úr röðum fullorðinna og bindið trefilinn fyrir augu hans/hennar. (Athugið að sjálfboðaliðinn þarf að vera með bundið fyrir augun allan tímann meðan þið segið söguna).
Spyrjið: Vitið þið hvað ég tók með mér í dag?
Bíðið eftir svari. – Nei, þið getið ekki vitað það því ég er með það falið.
Sýnið nú það sem þið tókuð með og spyrjið: Vitið þið núna hvað ég tók með mér í dag? Leyfið börnunum að svara. Af hverju vitið þið það núna? Af því þið sjáið það. Ef þið gætuð ekki séð þá vissuð þið ekki enn hvað ég tók með.
Spyrjið börnin hvort þau telji að sjálfboðaliðinn viti hvað þú komst með. Nei, auðvitað ekki. Hann/hún er blind/ur í smá stund því hann/hún er með bundið fyrir augun. Getið þið ímyndað ykkur hvernig það væri ef við gætum ekki séð allt það fallega sem er í kring um okkur?
Á dögum Jesú var blindur maður sem hét Bartímeus. Hann var betlari. Að vera betlari þýðir að hann sat alla daga og bað þá sem gengu fram hjá honum að gefa sér peninga. Dag einn heyrði Bartímeus fólkið tala um að Jesús væri að koma. Þó Bartímeus vissi að hann gæti ekki séð Jesú var hann ákveðinn í að láta Jesú taka eftir sér. Þegar Jesús gekk framhjá hrópaði hann: Jesús, miskunna þú mér. Fólkið í kring bað hann um að hætta þessum hávaða og vera ekki að trufla Jesú. Bartímeus hlustaði ekkert á það og hrópaði enn hærra: Jesús, miskunna þú mér.
Jesús heyrði í Bartímeusi og bað fólkið að sækja hann. Þegar Bartímeus kom spurði Jesú hann: Hvað viltu að ég geri fyrir þig? Bartímeus svaraði: Herra að ég fái aftur sjónina. Þá svaraði Jesús: Far þú, trú þín hefur bjargað þér. Um leið fékk Bartímeus sjónina aftur. Allt í einu gat hann séð heiminn. Hann gat séð blómin, fuglana, trén og sína eigin spegilmynd.
Bjóðið nú sjálfboðaliðanum að taka trefilinn frá augunum.
Segið: Hann/hún (nafn sjálfboðaliða) getur nú séð okkur aftur eftir að vera blindaður/blinduð í smá stund. Fyrir Bartímeus var þetta eins og að fá nýtt líf.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Biblíusagan/hlutbundin kennsla: Tvöfalda kærleiksboðorðið

(Matteus 22. 36-40)

Hlutur 
Heimsmetabók Guinness eða Ripley’s belive it or not. Þessar bækur eru til á mörgum heimilum og að sjálfsögðu til útleigu á bókasöfnum. Veljið annaðhvort einhver met úr bókinni sem er skemmtilegt að segja frá eða notið einhver eftirfarandi.

Kennsla
Hér er bók sem segir frá alls konar heimsmetum. Til dæmis hvað er stærst og hvað er minnst, lengst, dýpst og hæst. Til dæmis
Vitið þið hvaða dýr er stærst í heimi?  -Hvalur (steypireyður).
Vitið þið hvað lengsta skegg í heimi er langt? – Jafn langt og ef þrír fimm ára  krakkar myndu standa ofan á hver öðrum. (tæpir þrír metrar).
Vitið þið hvaða dýr er fljótast í heimi að hlaupa? -Blettatígur (getur hlaupið á  100 km hraða).

Einu sinni spurðu menn Jesú að því hvaða boðorð Guðs væri mikilvægasta boðorð í heimi. Jesús svaraði: Elskaðu Guð af öllu hjarta og elskaðu náungann eins og þú elskar sjálfa(n) þig. Þá langar mig að spyrja ykkur, krakkar. Hver er náungi og hvað er náungi? (Fáið svör).

Svar: Náungi er allir aðrir menn. Við eigum að láta okkur þykja vænt um alla eins og okkur þykir vænt um okkur sjálf. Þá getum við líka sagt þetta svona: Elskaðu Guð af öllu hjarta og alla aðra menn eins og þú elskar sjálfa(n) þig. Jesús sagði að þetta væri mikilvægasta boðorðið því ef við allir færu eftir því yrði heimurinn betri.