Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Biblíusagan- hlutbundin kennsla: Sjálfvaxandi sáðkornið

8. janúar 2017

Sáðkornið sjálfvaxandi (Markúsarguðspjall 4. 26-29)

 Hlutbundin kennsla:

Hlutur: Paprika (ef ekki þá epli eða einhver annar ávöxtur með fræjum).

Verið tilbúin með papriku, sýnið börnunum hana. Bæði má vera búið að skera hana í sundur  eða gera það meðan þið kennið.

Kennsla: Paprika er ekki stór ávöxtur en inni í henni eru mörg fræ, eða sáðkorn (oftast á bilinu 300-700) og þau geta öll orðið að papriku. Er ekki merkilegt að einn ávöxtur geti búið til mörg hundruð paprikuplöntur?

Þannig virka fræ. Af fræi vex planta. Þetta minnir mig á dæmisögu sem Jesús sagði.

Maður sáði sáðkorni í jörðina. Eftir nokkra daga sá hann eitthvað koma upp úr moldinni. Kornið óx af sjálfu sér og varð að plöntu en maðurinn skildi ekkert hvernig það gerðist, enda er það verk Guðs.

Þetta minnir á að fyrst erum við pínulítil börn og svo stækkum við eins og fyrir kraftaverk og verðum seinna fullorðin. Eins og í dæmisögu Jesú vöxum við og þroskumst og alveg sama hvað við verðum gömul þá erum við alltaf börn Guðs, alla ævina.

– Eftir sunnudagaskólann er tilvalið að sneiða paprikuna niður í litla bita og gefa börnunum.

ATH – Paprikufræ eru einföld til ræktunar. Ef þið viljið taka þetta lengra er hægt að rækta paprikuplöntu í sunnudagaskólanum og leyfa börnunum að fylgjast með því hvernig hún vex. Aðferðin er eftirfarandi:

  1. Setjið fræin í volgt vatn í skál í smástund.
  2. Fyllið lítinn blómapott með mold.
  3. Búið til holu í moldina með fingrinum eða með blýanti.
  4. Setjið fræið í holuna og fyllið með mold.
  5. Hafið plöntuna á hlýjum stað.
  6. Passið að moldin þorni ekki.

 

Categories
Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla

Biblíusagan – Jólaguðspjallið – Lúkas 2

Sönn jólagleðin

Hlutur: Pakkið inn í jólapappír Jesúbarninu í jötu eða mynd af fjárhúsinu í Betlehem.

Í dag skulum við fá börnin til að spjalla við okkur um jólin. Tölum um hvað jólin eru skemmtileg. Dæmi um hvað hægt er að segja:
– Rétti upp hönd sá sem hlakkar til jólanna.
– Hvað er skemmtilegast við jólin?
– Hvað langar ykkur mest til að fá í jólagjöf?
Verum því viðbúin að börnin hafi frá mörgu að segja og gefum þeim góðan tíma til að tjá sig.

Sýnið þeim jólapakkann ykkar og segið þeim að þú ætlir að opna hann á eftir og leyfa þeim að sjá hvað er í pakkanum.

– Hvers vegna höldum við jólin?

Rifjið upp jólaguðspjallið með leiðandi spurningum á borð við:
– Hvað hét mamma hans Jesú?
Einu sinni kom Engill til Maríu og sagði henni að hún myndi eignast son sem hún skyldi láta heita Jesú. Jesús væri sonur Guðs.
– Hvar fæddist Jesús?
– Hvernig gerðist það?
– Hvað sagði engillinn fjárhirðunum?
– Hvað gerðu þeir?
Guð elskaði okkur svo mikið að hann sendi Jesú til okkar og hann fæddist sem lítið barn í Betlehem. Við fögnum því og höldum jólin hátíðleg á hverju ári til að minnast þess.

Rífið nú upp gjöfina.

Mikilvægasta jólagjöfin er að Guð gaf okkur son sinn, Jesú.

Categories
Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla

Biblíusaga- Hlutbundin kennsla – Gullna reglan

gullna Mattheusarguðspjall 7.12

Takið A4 blað, brjótið langsum í þrennt (7 sm hvert brot) og klippið eftir brotinu. Límið því næst hlutana saman og merkið mælikvarða inn á, eins og á reglustiku (þarf ekki að vera nákvæmur mælikvarði). Það er tilvalið að skrifa á reglustikuna: Gullna reglustikan. – Sjá meðfylgjandi myndir.

Þegar því er lokið væri gott ef búið væri að líma reglustikuna upp með kennaratyggjói áður en sunnudagaskólinn hefst þar sem hún sést og setjið einnig upp autt blað við hliðina á henni.

Sjáið þið hvað ég bjó mér til hér. Vitið þið hvað þetta er?  (Fá svar). Já, það er rétt. Ég bjó mér til stóra reglustiku og ég kalla hana gullnu reglustikuna. Ég bjó hana til svo hún gæti minnt mig á gullnu regluna sem Jesús bjó til. Gullna reglan er svona: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra. Það merkir: Komið fram við aðra eins og þið viljið láta koma fram við ykkur. Hvernig getum við gert það?

– Uppástunga: Að hugga einhvern sem er að gráta, að hjálpa einhverjum þegar hann dettur. Fleira? – Skrifið á blaðið það sem börnin stinga upp á og ræðið hugmyndirnar. Endið umræðurnar á þessum nótum: Væri ekki gott ef við færum öll alltaf eftir gullnu reglunni hans Jesú, að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur?

Í dag er tilvalið að segja einnig sögu vitringanna. Hér er hún sögð með myndum fyrir skjávarpa:

SMELLIÐ HÉR

Categories
Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla

Biblíusagan – Vinir lamaða mannsins (Mark 2.1-12)

Hlutir – Nokkrar bækur (ef tími og tækifæri er til væri gaman að pakka þeim fyrst inn í jólapappír. Það á vel við á aðventunni).

 Kennsla – Byrjið á því að velja sjálfboðaliða úr hópi eldri barna (ef ekki þá e-n fullorðinn) og biðjið sjálfboðaliðann að lyfta bókinni með útréttum höndum og flötum lófum.

Bíðið í nokkrar sekúndur og spyrjið hvort þetta sé orðið erfitt. (Þessar sekúndur eru mikilvægar til að gera það erfiðara þegar fleiri bókum er bætt við). Ef sjálfboðaliðinn segir þetta ekki erfitt bætið bók eða bókum ofan á þá sem fyrir er. Haldið því áfram þar til bækurnar renna á gólfið. (Verið tilbúin að grípa bækurnar svo þær skemmist ekki). Bjóðið fleiri börnum að prófa. Hrósið þeim fyrir hversu dugleg þau eru og nefnið hvað það sé erfitt þegar fleiri bókum er bætt við.

Gefið ykkur tíma til að stoppa leikinn og þegar ró er komin á útskýrið þá fyrir börnunum að þessi bókaleikur minnir okkur á að það getur verið erfitt að standa einn. Það er kannski auðvelt í einhvern tíma en við þurfum á því að halda að eiga vini og að vera vinir. Það er nefnilega svo mikilvægt og gott að standa saman og hjálpast að. Þannig er kirkjan. Kirkja er ekki bara hús heldur fólk sem hjálpast að og hjálpar þeim sem þurfa hjálp.

Þetta minnir mig á sögu sem ég las í Biblíunni. Einu sinni var Jesús staddur í húsi á stað sem heitir Kapernaum. Margir vildu hitta Jesú og skyndilega var orðið svo margt fólk í húsinu að fleiri komust ekki að. Fyrir utan húsið var örtröð fólks sem reyndi að heyra í Jesú og sjá hann gegn um gluggagötin. Þá kom þar lamaður maður sem vonaði að Jesús gæti læknað sig. Hann gat ekki gengið sjálfur en var svo lánsamur að eiga fjóra góða vini sem báru hann í sjúkrabörum á milli sín. Þegar vinir mannsins sáu allt fólkið fyrir utan húsið brugðu þeir á það ráð að klifra upp á þakið. Þeir tóku vin sinn með sér og gátu gert gat á þakið. (Það væri ekki hægt á húsum eins og við þekkjum en á tímum Jesú voru þökin öðru vísi). Svo létu þeir lamaða manninn síga niður til Jesú og Jesús læknaði hann. Vinir hans hjálpuðust að og þannig hjálpuðu þeir lamaða manninum.

Bjóðið nú tveimur börnum að koma og endurtakið bókaþrautina nema núna bera þau bækurnar saman. Þau standa anspænis hvort öðru með lófana fram og þið setjið bækurnar ofan á. Þetta er kannski ennþá erfitt en það er miklu auðveldara en að halda á bókunum einn. Það er gott að hjálpast að.

 

SMELLIÐ HÉR! til að finn söguna um vinina fjóra fyrir powerpoint

Einnig er hægt að segja sögu hirðanna í dag. Hér er hún sögð með myndum fyrir skjávarpa: http://efnisveita.kirkjan.is/saga-hirdanna-myndasyning/

Categories
Barnastarfið Biblíusögur Hlutbundin kennsla Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Biblíusagan- Ríki unglingurinn (Mark. 10:17-27)

Hlutir

Götóttur sokkur, nál og tvinni.

Kennsla

Þegar ég ætlaði að leggja af stað í sunnudagaskólann í morgun sá ég að það var komið gat á uppáhalds sokkinn minn. (Sýnið börnunum sokkinn og rekið jafnvel fingur í gegn um gatið).  Ég ætla að reyna að stoppa í sokkinn, sauma fyrir gatið og tók þess vegna með mér nál og tvinna (sýna). Og nú tek ég tvinnann og þræði hann hérna í gegn um gatið efst á nálinni. Vitið þið hvað það heitir?

– Já, nálarauga. Er ekki merkilegt að við skulum segja að nál sé með auga?

(Gerið nokkrar misheppnaðar tilraunir til að þræða nálina. Ef leiðbeinandi er flinkur með nál og tvinna má gera sér upp klaufaskap).

Jæja, nú er þetta komið og á meðan ég stoppa í sokkinn ætla ég að að segja ykkur sögu af Jesú.

Einu sinni kom ungur maður til Jesú og spurði hann. Hvað á ég að gera til að eiga eilíft líf? Jesús svaraði: Farðu eftir boðorðum Guðs og vertu góður og heiðarlegur maður.

Ungi maðurinn svaraði: Ég hef haldið boðorðin síðan ég var lítill strákur.

Seldu allt sem þú átt og gefðu fátækum, svaraði Jesús. Þá varð ungi maðurinn leiður og fór. Hann var nefnilega ríkur og þótti svo vænt um peningana sína að hann vildi ekki sleppa þeim frá sér.

Þá sagði Jesús við lærisveinana, vini sína, að það væri auðveldara fyrir úlfalda að fara gegn um nálarauga en fyrir ríkan mann að komast inn í Guðs ríki. Hugsið ykkur bara! Það var nú nógu erfitt fyrir mig að þræða tvinnann gegn um nálaraugað. Haldið þið að risastór úlfaldi kæmist þar í gegn?

Vinir Jesú urðu hissa á að hann skyldi segja þetta og spurðu? Hvernig er það þá hægt að komast í Guðs ríki? Jesús svaraði: Mennirnir geta það ekki sjálfir en Guð getur allt.

 

Til vara má einnig rekja sögu jólanna. Hér er frásagan af boðun Maríu með myndum fyrir skjávarpa:

SMELLIÐ HÉR!

Categories
6-9 ára Barnastarfið Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Hlutbundin kennsla – Salt jarðar

(Mattheusarguðspjall 5.13)

Hlutur

Saltstaukur úr gegnsæju gleri.

Kennsla

Vitið þið að einu sinni sagði Jesús að við ættum að vera salt?

Sýnið krökkunum saltstaukinn og spyrjið: Hverjir hafa smakkað salt?

Leyfið þeim sem vilja að fá nokkur korn á handarbakið til að sleikja af. Hvernig finnst ykkur saltið vera á bragðið.

Hvers vegna ætli Jesús hafi sagt að við værum salt?

Saltið er kannski ekki gott á bragðið eitt og sér en þegar það er sett Í mat þá bragðast maturinn betur. Þegar Jesús sagði að við ættum að vera salt meinti hann að við ættum að hafa góð áhrif eins og saltið hefur góð áhrif á matinn.

Hvernig höfum við góð áhrif?

            Hvar getum við haft góð áhrif?

            Gefið börnunum tíma til að svara.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Hlutbundin kennsla: Jónas í hvalnum

Hlutur

Blaðra og lítill taflmaður, karl úr lúdóspili eða einhverju sambærilegu. Undirbúningur: Setjið taflmanninn eða lúdókarlinn inn í blöðruna áður en þið segið söguna. Verið búin að blása blöðruna aðeins upp áður en þið segið söguna og haldið fyrir blástursopið.

 

Kennsla

Ég ætla að segja ykkur sögu úr Biblíunni.
Einu sinni var maður sem hét Jónas. Honum brá mikið einn daginn þegar hann fékk skilaboð frá Guði (togið sitthvoru megin við blástursopið á blöðrunni þannig að það heyrist ískur í smástund). Jónasi brá vegna þess að Guð sagði honum að fara til borgar sem hét Níníve. Fólkið í Níníve var búið að gleyma kærleikanum. Það var ekki gott hvert við annað og hegðaði sér illa. Guð sagði Jónasi að fara og segja fólkinu að það yrði að haga sér betur og Guð væri reiður við það. Jónas vildi alls ekki gera (sleppið öllu loftinu úr blöðrunni). Og hann ákvað að flýja frá Guði. Hann fékk að far með mönnum á fiskibáti sem ætluðu að sigla til útlanda. Þegar báturinn var kominn á sjóinn kom skyndilega mjög vont veður, mikill vindur (biðjið börnin að búa til vind með því að blása). Og öldurnar á sjónum urðu hærri og hærri (biðjið börnin að búa til öldur með höndunum. Meðan óveðrið geysar í sunnudagaskólanum blæs leiðbeinandinn upp blöðruna þar til hún verður stór. Bindið fyrir blástursopið meðan þið segið næsta hluta sögunnar). Jónas sagði við mennina: Þetta veður er mér að kenna af því ég er á flótta frá Guði. Hendið mér í sjóinn og þá verður veðrið aftur gott og þið komist þangað sem þið viljið sigla. Fyrst vildu mennirnir ekki hlusta á Jónas en svo gáfust þeir upp og hentu honum í ólgandi hafið. Um leið og þeir gerðu það varð veðrið betra en þá kom fiskur sem var jafn stór og hvalur, gleypti Jónas í einum munnbita. Jónas var lifandi í maga stóra fisksins og fiskurinn synti út um allt (sýnið það með blöðrunni og látið taflmanninn/lúdókarlinn hringla inni í blöðrunni). Svo allt í einu spýtti fiskurinn Jónasi í land (sprengið blöðruna, leyfið karlinum að detta í gólfið og biðjið börnin að hjálpa ykkur að leita að honum. Þegar þið hafið fengið taflmanninn/lúdókarlinn aftur haldið þið áfram með söguna). Jónas áttaði sig strax á að hann var kominn til Níníve og vissi að það þýddi ekkert annað en að hlýða Guði (Réttið út handlegginn. Hafið lófann flatan og látið hann snúa upp. Látið taflmanninn/lúdókarlinn ganga eftir handleggnum í átt að hendinni og látið hann staðnæmast um það bil þar sem púlsinn er). Jónas talaði við fólkið í Níníve og það hlustaði mjög vel á hann (réttið fingurna í átt að lúdókarlinum eins og þeir séu fólk). Þegar fólkið heyrði skilaboðin frá Guði varð það mjög leitt, sá eftir öllu saman og bað Guð að fyrirgefa sér (kreppið fingurna). Og fólkið mundi þá aftur eftir kærleikanum, lærði að elska hvert annað og það fann og vissi að Guð hafði fyrirgefið því (Látið fingurna dansa).

Categories
6-9 ára Barnastarfið Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Hlutbundin kennsla: Eyrir ekkjunnar

Hlutur
Lítil budda með tveimur krónum í.
Kennsla:
            Í dag tók ég með mér litla peningabuddu og ég ætla að sýna ykkur hvað ég á mikinn pening í henni. Opnið budduna og kíkið ofan í. Þetta er nú ekki mikið. Sýnið krökkunum krónurnar. Veit einhver hvað þetta er mikið? Ein króna er minnsti peningur sem til er á Íslandi og þetta eru tvær krónur!! En þessar tvær krónur minna mig á svolítið sem ég las. Einu sinni sá Jesús margt ríkt fólk gefa mikla peninga til musterisins/kirkjunnar (á dögum Jesú var kristin kirkja ekki til). Þar sá hann fátæka ekkju (ekkja er kona sem er búin að missa manninn sinn). Þessi fátæka kona gaf tvo smápeninga, eins og þessar tvær krónur hérna. Ríka fólkið gaf mikinn pening en fátæka ekkjan bara tvær krónur. Samt sagði Jesús að hún hafi gefið mest. Þá meinti hann að hver einasta króna skipti ekkjuna miklu máli, miklu meira máli en fyrir fólkið sem átti nóga peninga. Samt gaf hún það sem hún átti.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Hlutbundin kennsla: Hver er mestur?

Hlutur
Í dag þarf ekki hlut heldur velur sunnudagaskólaleiðtoginn eitt barn úr röðum sjálfboðaliða.
Kennsla
Segðu við börnin: Í dag vantar mig einn sjálfboðaliða til að hjálpa mér aðeins á eftir. Eftir að sjálfboðaliðinn hefur verið valinn útskýrirðu að þú munir kalla hana/hann til þín á eftir.
Nú ætla ég að segja ykkur sögu. Einu sinni voru vinir Jesú að rífast um hver þeirra væri mestur og merkilegastur þegar þeir kæmu í himnaríki. Þeir voru mjög stoltir af sjálfum sér og hver og einn hélt að hann hlyti að vera merkilegastur. Þeir spurðu Jesú hvað honum fyndist en í stað þess að velja einn af lærisveinunum gerði hann þetta …

Farið og sækið sjálfboðaliðann ykkar og stillið honum/henni fyrir framan hópinn. Jesús sótti barn og setti fyrir framan vini sína og sagði: Sannlega segi ég yður: Þér komist aldrei í himnaríki nema þér snúið við og verðið eins og börn. Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér.
Er það ekki merkilegt. Jesús sagði vinum sínum, lærisveinunum að vera eins og börn? Hvað átti Jesús við? – Hann átti við að ung börn eru sjaldan að keppast eða metast en sumir fullorðnir eru of uppteknir af því. Þeir vilja ráða, eiga meiri peninga og vera merkilegir í augum annarra. En Jesús sagði það það væri ekki það sem skipti máli. Jesús sagði að það sem skiptir mestu máli í augum Guðs og í himnaríki sé að vera auðmjúkur og með hreint hjarta eins og lítið barn.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Hlutbundin kennsla Sunnudagaskólinn

Hlutbundin kennsla: Sakkeus

Hlutir

Sparibaukur með smápeningum í (má vera lítill poki en helst ekki gegnsær). Klippið út svart hjarta og rautt hjarta og látið í pokann með peningunum.

Kennsla

Látið klingja í peningunum í bauknum og leyfið börnunum að giska á hvað er í honum. Alveg rétt. Peningar.

Nú langar mig að segja ykkur sögu af manni sem átti mikið af peningum en fáa vini. Hann hét Sakkeus.

Sakkeus vann við að safna peningum fyrir konunginn. Hann tók hluta af peningunum sem fólkið átti og lét konunginn hafa. Það heitir skattur. Sakkeus tók stundum meiri pening af fólki en hann átti að gera og stakk þeim peningunum í vasann sinn. Það heitir að stela. Þess vegna átti Sakkeus ekki marga vini. Fólkið treysti honum ekki. Hann vildi eiga vini en honum þótti bara of vænt um peningana sína. Sakkeusi leið oft illa í hjartanu og vildi eiga vini (sýnið svarta hjartað). En hver vill eiga vin sem stelur af manni?

Dag einn heyrði Sakkeus að Jesús væri að koma í bæinn og hann ákvað að fara og sjá þennan fræga mann. Þegar Sakkeus kom niður í bæ var svo margt fólk þar að hann gat ekki séð Jesú, enda var hann mjög lágvaxinn. Þessvegna klifraði hann upp í stórt mórberjatré. Þar sá hann Jesú vel. Þá gerðist svolítið óvænt. Allt í einu leit Jesús upp í tréð og sagði: Sakkeus, komdu niður. Í dag ætla ég að koma í heimsókn til þín.

Heimsókn til mín? Hugsaði Sakkeus. Jesús veit hver ég er en samt vill hann vera vinur minn?

Og þeir fóru heim til Sakkeusar og fengu sér að borða. Sakkeus kynntist Jesú og þá leið honum vel og langaði til að vera góður maður aftur. Hann sagði að allir sem hann hefði tekið of mikinn pening af mættu koma til hans og hann myndi borga þeim fjórum sinnum meira til baka. Hvers vegna sagði hann það? Vegna þess að honum leið miklu betur í hjartanu sínu (sýna rauða hjartað) því hann hafði eignast sannan vin, Jesú.