Categories
6-9 ára Barnastarfið Biblíusögur Sunnudagaskólinn

Biblíusaga: Jósef og bræður hans

 

ATHUGIÐ!
Sagan um Jósef og bræður hans er mjög efnisrík, þess vegna er hún hér mikið stytt. Þessi útgáfa leggur áherslu á það sjónarhorn sögunnar: Að snúa illu til góðs.
Söguna í heild sinni má svo finna í 1. Mósebók köflum 37 og 39-47.

 

JÓSEF OG BRÆÐUR HANS

Einu sinni var strákur sem hét Jósef. Hann átti ellefu bræður. Bræður hans voru mjög afbrýðisamir út í Jósef vegna þess að pabbi þeirra hafði gefið honum mjög flott föt en ekki þeim. Þeir þoldu það ekki og voru vondir við hann daginn út og inn. Jósef hefur eflaust tekið þetta nærri sér og ekki vitað hvað hann átti að gera. Loks urðu bræður hans svo reiðir að þeir ákváðu að losa sig við hann. Þeir fóru með Jósef langt frá heimilinu, klæddu hann úr fallegu fötunum hans og seldu hann sem þræl til útlanda.

(Vitiði hvað þræll er? Það þýðir að vera eign einhvers annars, eins og hver annar hlutur. Sá sem var þræll, eins og Jósef var nú orðinn, var ekki lengur frjáls heldur meira eins og fangi. Þrælar réðu engu sjálfir og eigendur þeirrra voru oft vondir við þá og létu þá vinna erfiða vinnu og gáfu þeim lítinn eða vondan mat að borða.)

Þegar bræður Jósefs höfðu losað sig við hann, rifu þeir fallegu fötin hans, helltu dýrablóði yfir þau, og sögðu pabba sínum að villidýr hefði ráðist á Jósef og étið hann. Vesalings pabbi þeirra var mjög sorgmæddur því hann hélt að Jósef væri dáinn.

En Guð var með Jósef alla daga. Hann vissi allt sem hafði gerst og sleppti aldrei taki sínu af Jósef.

Tíminn leið og þegar Jósef hafði verið í Egyptalandi í mörg ár var hann orðinn góður vinur Faraós, sem var konungurinn í Egyptalandi. Faraó teysti Jósef svo vel að hann gerði hann að stjóra yfir öllu landinu. Jósef, sem var einu sinni fátækur þræll var nú orðinn frjáls og einn ríkasti maður Egyptalands.

En bræðrum Jósefs gekk ekki svona vel því í landinu þeirra var erfitt að fá mat og fólk var mjög fátækt. Þeir fréttu að það væri til nægur matur í Egyptalandi og fóru því í höll landstjórans til þess að biðja um mat fyrir sig og fjölskyldu sína. Þeir höfðu ekki hugmynd um að sjálfur landstjórinn í Egyptalandi væri Jósef bróðir þeirra. En Jósef þekkti þá um leið.

Jósef hlustaði á þá og spurði þá svo: „Þekkið þið mig ekki?“

„Nei!“ Sögðu bræður hans. „Við höfum aldrei séð þig áður.“

Þá svaraði Jósef: „Ég er Jósef bróðir ykkar, sem þið voruð alltaf svo vondir við og selduð sem þræl til Egyptalands.“

Þá urðu bræður hans hræddir því þeir héldu að Jósef myndi hefna sín og refsa þeim.

(En hvað haldið þið að Jósef hafi gert? – Haldið þið að hann hafi öskrað á þá eða látið setja þá í fangelsi? … Nei.)

Jósef sagði við bræður sína: „Þið ætluðuð að gera mér illt … en nú hefur Guð snúið því til góðs.“

Og hann faðmaði bræður sína að sér og fyrirgaf þeim.

Jósef lét þá svo sækja pabba sinn og þegar pabbi þeirra sá að Jósef var á lífi, eftir öll þessi ár, grét hann af gleði. Allir fluttu þeir svo með fjölskyldur sínar til Egyptalands þar sem nóg var til af öllu. Þar lifðu þau góðu lífi saman með Jósef.

(Hugsið ykkur, allt það slæma sem kom fyrir Jósef, náði hann að breyta í eitthvað gott með hjálp Guðs. – Við getum líka gert það, snúið illu til góðs og þannig sigrað illt með góðu.)

Categories
6-9 ára Barnastarfið Leikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit B: Rebbi og Músapési: Jesús elskar líka lygalaupa

Rebbi kemur að Músapésa snöktandi

Rebbi: Músapési, hvað er að?

Músapési: Æ, Rebbi ég get ekki talað um það.

Rebbi: Ekki einu sinni við gamlan Ref?

Músapési: Nei, mér líður svo illa.

Rebbi: Þá er gott að tala við einhvern.

Músapési: Jaaááá, en ég held að ég geti ekki sagt frá því.

Rebbi: Nú, gerðist eitthvað?

Músapési: Já…

Rebbi: Hvað?

Músapési: …alveg hræðilegt.

Rebbi: Gáðu hvort þér líður ekki betur ef þú segir mér frá því.

Músapési: Sko…hérna…ég hérna…

Rebbi: Já, ég er að hlusta.

Músapési: Ég plataði Mýslu alveg svakalega og nú elskar Jesú mig ekki lengur (byrjar að gráta.)

Rebbi: Hvað ertu að segja!?

Músapési: Já, ég veit…þetta er hræðilegt.

Rebbi: Ég skil vel að þér líði illa, en á ég að segja þér svolítið?

Músapési: Hvað? (Snöktir.)

Rebbi: Ég held að þú sért á villigötum.

Músapési: Já, ég er algjör lygalaupur.

Rebbi: Nei, það var nú ekki það sem ég átti við.

Músapési: Hvað þá?

Rebbi: Ég held að þú sért búinn að gleyma hvað Jesú elskar þig mikið.

Músapési: Heldur þú að honum þyki ennþá vænt um mig?

Rebbi: Ég held ekkert um það, ég er handviss um það.

Músapési: Hvernig getur þú verið svona viss?

Rebbi: Manstu eftir laginu „Elska Jesú er svo dásamleg?“

Músapési: Já…

Rebbi: (Syngur.) „Svo há að þú kemst ekki yfir hana“…Syngdu með!

Músapési: Svo djúp þú kemst ekki undir hana.

Rebbi: …Svo víð þú kemst ekki út úr henni, elska svo dásamleg!

Músapési: Ég kann þetta lag alveg.

Rebbi: Þá þarftu að fara vel með textann.

Músapési: Af hverju?

Rebbi: Hann segir allt sem þú þarft að vita núna.

Músapési: Nú?

Rebbi: Já…Það er nefnilega svoleiðis að Jesú elskar þig svo mikið að þú kemst aldrei út úr elsku hans.

Músapési: Jaaáááá, ertu að segja að Jesú hætti aldrei að elska mig?

Rebbi: Einmitt!

Músapési: Alveg sama hvað ég geri?

Rebbi: Já, en honum finnst það samt mjög leiðinlegt þegar þú ert að plata.

Músapési: Hvað get ég þá eiginlega gert!

Rebbi: Beðið Jesú fyrirgefningar á því að hafa verið að plata systur sína.

Músapési: Auðvitað!

Rebbi: Svo þarftu að fara til Mýslu, segja henni að þú hafir verið að plata og biðja hana fyrirgefningar.

Músapési: Já það er rétt hjá þér.

(Rebbi kinkar kolli.)

Músapési: Þá er best að ég drífi mig af stað.

Rebbi: Gerðu það, og gleymdu aldrei hvað Jesús elskar þig heitt.

Músapési: Það geri ég örugglega ekki aftur.

Categories
6-9 ára Barnastarfið Leikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit A: Rebbi og biblíusagan

Leiðbeinandinn: Þá er bara komið að því að fletta og finna biblíusögu dagsins.

Rebbi:  Já…þetta er meira en lítið dularfullt. Ég botna bara ekkert í því hvernig bréf þar sem verið er að rukka mig fyrir eggjaskuld, tengist Biblíunni á einhvern hátt.

Leiðbeinandinn: Nei. En svona er þetta oft. Sögurnar í Biblíunni tengjast gjarnan daglega lífinu okkar á einn eða annan hátt.

Rebbi: Já… einmitt.

Leiðbeinandinn: Jæja. Hér er sagan. Einu sinni var þjónn sem skuldaði kónginum mikla peninga. Kóngurinn vildi láta þjóninn borga skuldina og lét færa hann til sín. En þjónninn gat ekki borgað skuldina svo kóngurinn ætlaði að taka allt sem hann átti og selja það upp í skuldina.

Rebbi: Já! Nú skil ég. Þessi saga er um þjón sem skuldaði…alveg eins og ég.

Leiðbeinandinn: Já það er rétt hjá þér. Þú ert býsna glöggur refur.

Rebbi: Já…(fer hjá sér).

Leiðbeinandinn: En þjónninn var í sömu sporum og þú, Rebbi minn. Hann gat ekki borgað skuldina. Hann átti engan pening svo hann bað kónginn að gefa sér örlítinn frest.

Rebbi: Og gerði kóngurinn það?

Leiðbeinandinn: Já… hann gerði reyndar betur en það. Hann ákvað að gefa honum upp skuldina.

Rebbi: Gefa honum upp skuldina? Hvað þýðir það?

Leiðbeinandinn:  Það þýðir í rauninni að hann þurfi bara ekkert að borga!

Rebbi: Já. Vá! Heyrðu…alveg eins og þú gerðir fyrir mig. Þú ætlar að borga skuldina fyrir mig.

Leiðbeinandinn: Já… það er eiginlega eins.

Rebbi: Vá hvað þjónninn var heppinn. Hann hefði aldrei getað borgað skuldina.

Leiðbeinandinn: Nei. En veistu hvað gerðist þá?

Rebbi: Nei.

Leiðbeinandinn: Þegar þjónninn gekk út frá kónginum, hitti hann vin sinn. Vinur hans skuldaði honum smá pening.

Rebbi: Já…og gaf þá ekki þjónninn honum bara upp skuldina…

Leiðbeinandinn: Maður hefði nú haldið það. En hann gerði það ekki. Hann heimtaði að vinurinn borgaði sér alla skuldina og það strax.

Rebbi: og gat vinurinn það?

Leiðbeinandinn: Nei. Hann gat það ekki! Hann bað um frest en þjónninn vildi bara alls ekki gefa honum frest og lét varpa honum í fangelsi!

Rebbi: Vá! Sá hefur verið vondur og ósanngjarn. Ef ég myndi hitta þennan þjón myndi ég sko….urra á hann ….og bíta í rassinn á honum! Urrrr!

Leiðbeinandinn: Já, ég skil að þú sért reiður. Enda var þetta skrýtin framkoma.

Rebbi: Já….ji…en hvað ætli kóngurinn hefði sagt, ef hann hefði nú frétt af þessu?

Leiðbeinandinn: Kóngurinn frétti einmitt af þessu og hann varð öskureiður. Hann skammaði þjóninn fyrir að hafa verið svona miskunnarlaus og hætti við að gefa honum upp skuldina. Hann varpaði honum meira að segja í fangelsi!

Rebbi: Ég er ekki hissa á því. En hvað á þessi saga að kenna okkur?

Leiðbeinandinn: Þessi saga er í rauninni um fyrirgefninguna. Guð fyrirgefur okkur allt sem við gerum rangt. En hann vill líka að við fyrirgefum þeim sem gera eitthvað á okkar hlut.

Rebbi: Einmitt það já.

Leiðbeinandinn: En eigum við nú ekki að syngja eitthvað skemmtilegt?

Rebbi: Jú gerum það.