Categories
6-9 ára Barnastarfið Myndaseríur Sunnudagaskólinn

Tveir peningar- Hreyfimyndasería

Sjá hreyfimyndaseríuna í viðhengi hér neðst á síðunni. Smellið við hvern tölustaf.

1. Í dag ætla ég að segja ykkur tvær stuttar sögur úr Biblíunni. Báðar fjalla þær um peninga.

2. Dag nokkurn var Jesús staddur í musterinu. Hann var að kenna fólkinu allt mögulegt um Guð.

3. Prestarnir í musterinu voru ekki vinir Jesú. Þeir öfunduðu hann því allir vildu vera nálægt honum og heyra allt sem hann hafði að segja. Þá langaði til þess að koma Jesú í klandur.

4. -Heyrðu, Jesú, sagði annar presturinn. – Hvernig er þetta með þig og lærisveina þína? Ég sé að þið standið þarna hjá peningakistu musterisins. Þú veist að allir eiga að borga musterisgjald.

5. Jesús vissi hvað þeir voru að hugsa og hann vissi líka að hann átti ekki neinn pening. -Pétur minn, sagði hann við einn lærisveininn. -Getur þú farið niður að vatninu og veitt einn fisk fyrir mig. Pétur var svolítið undrandi á þessari bón. En Pétur var vanur því að Jesús kæmi með óvenjulegar hugmyndir svo hann var til í að gera hvað sem var. – En af hverju á ég að veiða fisk? spurði hann. – Af því að það er peningur í maganum á fisknum.

6. Pétur gat ekki annað en brosað.

7. Hann hafði séð Jesú gera svo mörg kraftaverk og undur að hann efaðist ekki eina mínútu um að hann myndi einmitt veið fisk sem hefði pening í maganum. Prestarnir í musterinu hristu bara hausinn og fannst þetta vera tóm vitleysa. Hann dreif sig strax út úr musterinu.

8. Hann var fljótur niður að vatninu. Hann þurfti ekki að bíða lengi eftir því að fiskur biti á færið hans. Hann dró fiskinn að landi og flýtti sér með fiskinn í musterið.

9. Allir skoðuðu fiskinn. -Allt í einu sáu allir glitta í pening…

10. og skyndilega skoppaði hann út úr munni fisksins og niður á gólf.

11. Jesús tók peninginn upp

12. og lét hann detta niður í peningakistuna. Nú voru þeir búnir að borga musterisgjaldið.

13. Nú kemur hin sagan.

14. Hún fjallar líka um pening.

15. Í þessari sögu er Jesús líka staddur í musterinu.

16. Prestunum var enn uppsigað við og reyndu allt sem þeir gátu til að láta setja Jesú í fangelsi. Til þess að það gæti gerst urðu þeir að reyna að plata hann til að brjóta lögin. – Hvernig er það, Jesús, á að borga keisaranum skatt?

17. Þeir vissu vel að lögin og reglurnar voru þannig að ALLIR urðu að borga keisaranum skatt en þá grunaði að Jesús vildi ekki borga skattinn. Jesús vissi hvað þeir voru að hugsa. -Sýnið mér peninginn, sagði hann þá.

18. Þeir sýndu honum pening. – Hmmm…hver er á myndinni á peningnum? spurði hann.
-Nú, þetta er mynd af keisaranum, svöruðu prestarnir óþolinmóðir. -Þá hlýtur keisarinn að eiga þennan pening, sagði Jesú. Það hlýtur því að eiga að borga keisaranum hann. En það má ekki gleyma að borga Guði það sem Guð á, bætti hann við.

19. Jesús hafði snúið á þá og þeir skömmuðust sín. Það var eins og Jesús hefði alltaf rétt fyrir sér.
En hvað er það sem við eigum að borga Guði? Hvernig gerum við það?

(Með því að sýna öðrum kærleika, vináttu, hjálpa öðrum, gefa fátækum, biðja til Guðs, fara í sunnudagaskólann o.s.frv.)

Myndir og texti: Elín Elísabet Jóhannsdóttir 2015