Categories
6-9 ára Barnastarfið Sunnudagaskólinn

Leyniteikning: Byggt á bjargi og sandi

Sjá leiðbeiningateikningar í viðhenginu neðst á síðunni.

Segið börnunum söguna um leið og þið teiknið myndirnar. Best er að æfa sig áður en sagan er flutt og teiknuð fyrir börnin.
Skemmtilegast er að segja söguna án þess að lesa textann beint af blaði.

1. Einu sinni voru tveir menn sem ætluðu byggja sér hús. – Ég ætla að byggja húsið mitt hér (teiknið strikið) á þessu trausta bjargi, sagði annar þeirra.

2. Ég sé að þetta bjarg er afskaplega sterkt og traust. Hér getur húsið mittt staðið traustum fótum, bætti hann við stoltur og hófst þegar handa við bygginguna.

3. Brátt hafði hann byggt fallegt hús á bjarginu.

4. Hinn maðurinn valdi sér líka byggingarstað. – Ég ætla að byggja húsið mitt þarna, niðri á sandinum, sagði hann og hljóp niður í fjöru. Sandurinn var hlýr og mjúkur. -Hér er notalegt að vera, hugsaði hann glaður.

5. Hann hófst strax handa og brátt átti hann lítið fallegt hús á sandinum.

6. En allt í einu fór að hellirigna.

7. (Teiknið bogann frá vinstri og að húsinu á sandinum). -Komdu upp á bjargið til mín, kallaði maðurinn niður af bjarginu. Þú ert öruggari þar en hér. Maðurinn á sandinum lét ekki segja sér það tvisvar. Hann fann hvernig sandurinn var farinn að blotna og skolast til. -Húsið mitt þolir ekki þessa hreyfingu á sandinum. Það er ekki öruggt, sagði hann við sjálfan sig og þaut upp á bjargið (Teiknið seinni bogann sem liggur frá húsinu á sandinum og upp á bjargið.

8. Nú var vatnið farið að flæða yfir allt. Húsið á sandinum var komið á bólakaf. Það var ekki gott að byggja hús á sandi.

En getið þið séð hvað ég er búin að teikna? Er þetta ekki næstum því eins og Örkin hans Nóa? Við gætum teiknað nokkur dýr á þilfarið. (Kannski vilja börnin prófa að teikna dýrin).

Teikningar og texti: Elín Elísabet Jóhannsdóttir, 2015