Categories
Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Bartímeus blindi

Hjálpargögn Rebbi og Mýsla. Sólgleraugu, vasaljós og bómull.

Rebbi (Kemur syngjandi inn með ljós í hendinni) . . . Sjá við göngum í ljósi Guðs. Sjá við göngum í ljósi Guðs. Krakkar! Allir að syngja með . . . sjá við göngum í ljósi Guðs . . .

Mýsla (Kemur inn með sólgleraugu) Halló krakkar! Vá! Hvað þið syngið vel.

Rebbi dúmm de dúmm . . . finnst þér það ekki og sjáðu ljósið mitt (sveiflar ljósinu) vúhhúú!

Mýsla Ekki lýsa svona í augun á mér. Það er svo vont fyrir augun. Ái æi oj . . . ég er með bágt í augunum.

Rebbi Ha! Hvað er að og af hverju ertu með sólgleraugu?

Mýsla Ég vaknaði í morgun og gat ekki opnað augun. Ég var með grænt slím í augunum og ég er bara svo aum. Ó æi!

Rebbi Ojjjbara ullabjakk . . . grænt slím!

Mýsla Ég gat varla opnað augun í morgun. Það var svooo vont og það er ennþá slím í augunum á mér.

Rebbi Æi aumingja þú Mýsla. Þú hefur bara verið alveg blind og labbað um eins og draugur með slím í augunum. Krakkar, hafið þið fengið svona slím í augun? (Leyfa börnunum að svara)

Mýsla Æi þetta var mjög sárt og þess vegna er ekki gott að fá svona sterkt ljós í augun. Ljósið þitt er samt flott Rebbi.

Rebbi Takk Mýsla. Ég fékk það gefins í gær. Ég bjó til frábæran leik sem mig langaði til að fara í. Viltu vera með okkur í leiknum?

Mýsla Já ég væri alveg til í að vera með, en ég ætlaði að athuga hvort þú gætir verið miskunnsamur og hjálpað mér smá?

Rebbi Auðvitað vil ég hjálpa þér Mýsla. Hvað viltu að ég geri fyrir þig?

Mýsla Gætirðu hjálpað mér að hreinsa aðeins betur augun svo að ég geti séð betur og verið með í leiknum?

Rebbi Ha!? Viltu að ég Rebbi hjálpi þér að hreinsa þetta ógeðslega græna slím úr augunum á þér? Ég kann það ekkert.

Mýsla Jú þú getur það alveg. Ég er með heitt vatn og bómul svo að þetta er ekkert mál.

Rebbi (hikar og setur upp fýlusvip) Ööööö . . .

Mýsla Krakkar viljið þið hjálpa mér?

Rebbi Nei! Nei ég get alveg hjálpað þér Mýsla. Ég kann þetta alveg, en þetta er svolítið ógeðslegt. (Hjálpar Mýslu að hreinsa augun)

Mýsla Ó Æ hvað þetta er vont, en það er gott að þú hjálpar mér Rebbi svo að ég geti verið með í leiknum þínum.  . . . Já nú líður mér miklu betur og þarf ekki að nota sólgleraugun. Takk Rebbi!

Rebbi uhh ekkert að þakka (hryllir sig og hendir bómulinum frá sér)

Mýsla Ég veit að þetta er ekki fallegt, en þú varst nú góður við mig að hjálpa mér Rebbi.

Rebbi Takk Mýsla. Ég vona að ég fái ekki martröð í nótt og dreymi grænt slím (leikur draug) Vúhh!

Mýsla Þetta var nú ekki svo slæmt. Hættuessu Rebbi! Þú ert ekkert sniðugur að stríða mér svona.

Rebbi Vúhhú! (heldur áfram með draugalætin) Ég er Mýsla draugur með grænt slím . . .

Mýsla Ókei ókei . . . Hvernig er leikurinn sem þú ætlaðir að kenna okkur Rebbi?

Rebbi Hehehe æi ég ætlaði ekki að stríða þér. Ég er glaður að geta hjálpað þér, ég þarf líka stundum hjálp með mitt appelsínugula slím. Viltu fyrirgefa mér?

Mýsla Já, þú ert góður vinur. Hvernig var aftur leikurinn?

Rebbi Ég ætla að láta ljósið mitt skína á einhvern hlut og þið eigið að vera eins snögg og þið getið að segja hvað hluturinn heitir. Ok allir tilbúnir . . . einn tveir og byrja!

(Farið í leikinn í smá stund, eftir leikinn)

Rebbi og Mýsla Bless krakkar það var gaman að leika við ykkur. Sjáumst næsta sunnudag.

Categories
Leikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Eyri ekkjunnar

Hjálpargögn: Rebbi og mýsla.  

Rebbi Úúúúff. Úffhúff.

Mýsla Er eitthvað að Rebbi minn?

Rebbi Úúúúff hvað ég er svangur. Ég er svoooo svangur.  Ég borðaði næstum ekkert í morgunmat. Bara smá bjúgu. . . og kartöflur. . . og brauðsneið . . . með osti og sultu og tómat og spægipylsu og remúlaði og slátri og ullarsokk.

Mýsla Ullarsokk?!

Rebbi Já. Ég var svo gráðugur að ég var búinn að kyngja þegar ég fattaði að þetta var ullarsokkur.

Mýsla Og ertu samt strax orðinn svangur?

Rebbi Já! Ég er refur sko. Refir borða mjög mikið og ég er svooo svangur að ég get varla hreyft mig.  

Mýsla Jæja já.  Þá skulum við koma í leik.

Rebbi Allt í lagi, ef ég þarf ekki að hreyfa mig hratt.

Mýsla Neibb. Engin hlaup.

Rebbi Mmm . . . hlaup.  

Mýsla Rebbi? Rebbiiiii!

Rebbi Fyrirgefðu.   Hvaða leikur er þetta?

Mýsla Frúin í Hamborg

Rebbi Hvar??? (skimar í kringum sig) Hver er það?? Þessi kona þarna?  Há dú jú læk Æsland?

(við Mýslu) Er Hamborg ekki annars í útlöndum?

Mýsla Nei leikurinn heitir Frúin í Hamborg.  

Rebbi Ó? Ég skil. Jæja – Hvernig er leikurinn?

Mýsla Hann er svona.  Ég spyr þig “hvað keyptirðu fyrir peningana sem Frúin í Hamborg gaf þér?”

Rebbi Gaf mér?? Á ég pening?  Vúhú!

Mýsla Í leiknum já. Og þú segir mér hvað þú keyptir, en þú mátt ekki svara mér með “já – nei – svart eða hvítt”. Skilurðu ?

Rebbi Já já.

Mýsla Þá byrjum við!  Hvað keyptirðu fyrir peningana sem Frúin í Hamborg gaf þér

Rebbi uuuuuu…..

Mýsla Rebbi!

Rebbi Jájá – ég er að hugsa

Mýsla Mátt ekki segja já.

Rebbi Ah. Nei það er satt

Mýsla Og ekki segja nei . . .

Rebbi Æji – nú er það svart

Mýsla (andvarpar) og ekki heldur svart . . .   

Rebbi Alveg rétt!! Reynum aftur. Ég held ég skilji þetta núna

Mýsla Allt í lagi.  Hvað keyptirðu fyrir peningana sem Frúin í Hamborg gaf þér?

Rebbi Súkkulaðiköku.  Riiiiiiiiisavaxna súkklaðiköku.   Með rjóma. Namminamm . . .

Mýsla Og hvernig er rjóminn á litinn?

Rebbi Hvítur auðvitað.  Neiiii! Æji neijá. Aaaargh.

Mýsla Hahahaha – nú spyrð þú mig.

Rebbi Þetta er mjög erfiður leikur.  Hvað keyptirðu fyrir peningana sem konan þarna gaf þér?

Mýsla Ég keypti fullt af lyfjum.

Rebbi Haaa?

Mýsla Og hjálpargögn. Og mat.  Fatnað.

Rebbi Ha?! Hvað meinarðu?

Mýsla Ég lét peningana fara alla í Hjálparstofnun kirkjunnar.

Rebbi Hvað er það?

Mýsla Peningar sem fara í hjálparstofnun kirkjunnar, er fyrir fólk úti í heimi, sem vantar föt, hreint vatn, meðul og mat.

Rebbi Vá! En fallegt og ótrúlega nauðsynlegt.

Mýsla Já Rebbi minn – við höfum það nefnilega svo gott.  En það eru margir sem eiga varla til neitt að borða.  Og það fólk þarf hjálp. Okkar hjálp.

Rebbi Okkar? En ég er bara lítill refur.  

Mýsla Það er enginn svo lítill að hann geti ekki hjálpað.   

Rebbi Nú fæ ég samviskubit. Ég ætlaði að nota peningana í súkkulaðiköku

Mýsla Það er allt í lagi.  Við þurfum bara að muna líka eftir að hjálpa öðrum, á milli þess sem við hjálpum okkur sjálfum.  Eins og Jesús sagði – við eigum að elska náunga okkar eins og okkur sjálf.

Rebbi Gott ráð. Ég ætla strax að fara  og póstleggja súkkulaðiköku útí heim.  (rýkur út)

Mýsla Öööö . . . Rebbi.  Fallega hugsað en . . . REbbi!!! Bless krakkar! Ég held ég verði að ná Rebba áður en hann treður köku oní umslag . . .   REEEEEBBBIIIII !!!!!

Categories
Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Gullna reglan

Hjálpargögn: Leiðbeinandi og tvær brúður. Geta verið nánast hvaða brúður sem eru. 

Rebbi og Mýsla eru að leika sér.

REBBI (er með bolta í munninum) grrhhhhh . . .

MÝSLA Vel gripið Rebbi! En – nei – ekki bíta í nýja boltann minn!

REBBI Hihihehhu!

MÝSLA Hættu! Hah ? Hvað sagðirðu?

REBBI (losar boltann úr kjafti) Fyrirgefðu sagði ég . . .

MÝSLA Allt í lagi.  Komum í mömmó – ég verð mamman og þú verður litla barnið.  (Fer að raula og humm) Dæræræræ

REBBI (Missir boltann og skimar eftir honum)  

MÝSLA Það er að koma maaatur elskan!

REBBI Elskan? Uuuh . . . frábært ! Og mér þykir líka voða vænt um þig Mýsla mín.

MÝSLA Nei Rebbi!

REBBI Jújú – mér þykir vænt um þig sko –

MÝSLA Æji það er gott, mér þykir líka vænt um þig – en manstu, í leiknum er ég mamman og þú ert litla barnið.

REBBI Alveg rétt. Fyrirgefðu – ég gleymdi mér.  Litla barnið. Ókei.

MÝSLA Það er kominn matur elskan.

REBBI Aaaah. Gúggúúú dadddaaa prplllhhhhhh (fruss)

MÝSLA Heyrðu! Ekki frussa framan í mig. Ojbara.  Þú ert bara barn þá, ekki litla barn.

REBBI Alltílæ. Fyrirgefðu frussið.

MÝSLA Ekkert mál. Maaatur!!

REBBI Veeeei. Mamma!  Ég vil pizzu í matinn! Nei – súrt slátur!

MÝSLA Nei nei. Það er soðinn fiskur. Komdu nú inn og taktu boltann með þér inn.

REBBI Boltann? Já. Ert þú ekki með hann?

MÝSLA Nei þú varst með hann.

REBBI (Skimar) Er það? Nei – þú tókst hann áðan. Var það ekki?

MÝSLA Ertu búin að týna nýja boltanum mínum?

REBBI Ég? Nei! Ég týndi engu. Þú hefur týnt honum sjálf!

MÝSLA Nei.  Þú ert með hann. Þú hefur ábyggilega stungið honum til hliðar og ætlað með hann heim.

REBBI Mýsla!? Nei – það er ljótt að segja svona!

MÝSLA Og það er ljótt að stela!

REBBI Ég stal engu!

MÝSLA Þú lýgur og það er ljótt að ljúgaaaa (fer að skæla)

REBBI og MÝSLA hálfskæla og rífast þegar leiðbeinandi kemur og gripur í taumana

LEIÐB. Halló halló halló! – Krakkar hvað gengur á?

MÝSLA Hann stal boltanum mínum!

REBBI Nei! Hún er að ljúga upp á mig!

LEIÐB. Þetta er ekki fallegt að heyra.  En . . . eruð þið nokkuð að meina þennan bolta?

MÝSLA og REBBI (andköf) Tókst Þú boltann??  

LEIÐB Nei nei.  Ég tók hann ekki. Það stal enginn neinu. Og það var enginn að ljúga. Þið voruð ansi fljót að segja svolítið ljótt, er það ekki.

MÝSLA En ég hélt . . . (leið á svip).

LEIÐB Ég veit. En þá á maður að spyrja. Og trúa vinum sínum.  Hafið þið heyrt um gullnu regluna? Hún er svona “það sem þér viljið að aðrir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra” Það þýðir “eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig, þannig skaltu koma fram við aðra”.  Við viljum að vinir okkar treysti okkur – er það ekki?

REBBI OG MÝSLA Jú . . .

LEIÐB Þá verðum við líka að treysta öðrum.  Þurfið þið ekki að segja núna eitthvað við hvort annað?

MÝSLA Viltu fyrirgefa mér Rebbi?

REBBI (um leið) Ég er svangur.  

LEIÐB Rebbi!

REBBI Já! fyrirgefðu líka Mýsla.  Mér þykir vænt um þig og auðvitað fyrirgef ég þér.

LEIÐB Fallegt hjá ykkur og farið nú að leika – við krakkarnir ætlum að syngja svolítið.

Categories
Brúðuleikrit Sunnudagaskólinn

Leikrit – Faðir vor

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla

REBBI Ó-Ó-Ó . . . Æji ég finn svo til.  Svo ægilega til. Uhuhuuuuu . . . Hæ ææææjæjæjææææ krakkar (hálfskælandi) mikið er gaman að sjá ykkuuhuhhuuuur! . . . (harkar af sér) Úff!  Hafið þið fengið tannpínu?  Og þurft að fara til tannlæknis?  Nú þarf ég að gera það og það er svo vohohohoooðalegt . . .

MÝSLA (kemur raulandi inn)  Ég skal gefa þér kökusnúð með kardemommum og sykurhúð . . .

REBBI (Hvíslar) Krakkar – ekki segja Mýslu að ég hafi verið að skæla.  Allt í lagi?

MÝSLA Nei – Rebbi minn – en gaman að hitta þig!

REBBI Hææjæjæjæja . . . Mýsla.

MÝSLA Er ekki allt í lagi Rebbi minn?

REBBI Jú. Æjæjæjæj . . . ææægilega er gaman að hitta þig líka – ertu komin til að syngja í sunnudagaskólanum?

MÝSLA Já, mér finnst það svo gaman – en Rebbi, áður en við syngjum, þá kom ég með smá nammi með mér sem ég fékk í gær. Og ég geymdi sérstaklega handa þér stóra fílakaramellu, því ég veit að þér finnst þær svo góðar. Viltu fá?

REBBI Sérstaklega handa mér?

MÝSLA (Glöð) Já! Ég var að vonast til að hitta þig í dag.

REBBI Óóó – buhuhu . . . mikið var það fallegt af þér.

MÝSLA Jahérna Rebbi minn.  Ég vissi ekki að þú værir svona tilfinninganæmur.

REBBI Nei ég skæli ekki útaf því – ég get ekki borðað karamelluna.

MÝSLA Nú ? ertu í nammibindindi?

REBBI Alls ekki. Ég þarf að fara til tannlæknis – æjæjæjj . . .

MÝSLA Aaaah. Elsku Rebbi minn. Og ertu með svona mikla tannpínu?  Ég kann ráð við því. Nú við bara kippum tönninni úr.

REBBI Ha?!  

MÝSLA Já.  Við gætum notað spotta – bundið í gítarinn og spilað svo rosa hratt “djúp og breið!”

REBBI Uuuuh . . .

MÝSLA Eða! Eða við tökum í spottann og hlaupum öll saman út.

REBBI Neinei . . .

MÝSLA Svo á ég hamar sem . . .

REBBI Nei! Neineinei.  Ég veit að þú vilt hjálpa, eða . . . ég held það . . . en mér er ekkert illt í tönninni lengur.

MÝSLA Rebbi . . .

REBBI Alveg satt. Mér er ekki illt í munninum.  Mér er illt í magaaaaanuuuum.

MÝSLA Ó? Maganum? Ó . . . Rebbi. Kvíðirðu fyrir því að fara?

REBBI Nei! Ég er mjög hugrakkur Refur. Kvíði ekkert fyrir því.  Kannski smá. Kannski rosalega mikið. Kannski hef ég ekkert sofið í marga daga.  En bara kannski.

MÝSLA Elsku Rebbi minn. Það er ekkert mál að fara til tannlæknis. Í alvöru.  En þegar maður er hræddur og kvíðir fyrir, þá er mjög gott að biðja til Guðs. Það róar mann. Til dæmis að fara með Faðirvorið.

REBBI Fara meððað ? Hvert? Og hvernig hjálpar það?

MÝSLA Nei að biðja – Faðir vor er bæn sem Jesús kenndi okkur.  Og þú kannt það örugglega. En nú skulum við öll fara með það með þér.  Eruð þið tilbúin krakkar?

Allir fara með faðirvorið

REBBI Vá!  Mér líður miklu betur.  Það er ekkert vont í maganum núna?

MÝSLA Einmitt. Nú ertu búinn að spjalla við Guð og biðja hann um að vera með þér og passa þig.  Það hjálpar alveg ótrúlega.

REBBI Takk Mýsla og takk krakkar.  Hérna . . . Mýsla – Fílakaramellan . . . ?

MÝSLA Hahaha! Ég held að bæði tönnin þín og maginn hafi gott af því að sleppa henni í bili. En ég skal halda áfram að geyma hana handa þér.  

REBBI Ég veit! Allt í lagi. En má ég bara skoða hana?

MÝSLA. Komdu.  Auðvitað máttu það. Bless krakkar.

Categories
Aðventa og jól Sunnudagaskólinn

Ljósaleikur á aðventu

Helgileikur á aðventukvöldi í Grensáskirkju 2018
Fermingarbörn flytja
María Ágústsdóttir og Daníel Ágúst Gautason
Fermingarbörn í fermingarkyrtlum ganga inn, tvö og tvö saman, fyrst ljósberar, svo lesarar.
[Kirkjan rökkvuð, bara ljós við altari]
2-5 ljósberar stilla sér upp sitt hvoru megin fremst í kirkjunni.
5-10 lesarar stilla sér upp við altarið.

Skoðið fylgiskjöl

Categories
6-9 ára Sunnudagaskólinn

Leikir – Fylgið mér / Jesús kallar lærisveina sína

Við erum litlir lærisveinar – hugleiðing og spurningaleikur
Kókó – indverskur eltingaleikur

Categories
Aðventa og jól Sunnudagaskólinn

Helgileikur með einföldu sniði

Bryndís Svavarsdóttir setti saman.

Smá formáli

Þessi helgileikur var fyrst fluttur 2012 af börnum í æskulýðsstarfi Ástjarnarkirkju Hafnarfirði. Helgileikurinn var svo ljúfur í framkvæmd, ekkert stress yfir að muna texta, að hann var fluttur þar aftur 2013, 2014 og 2015. Árið 2015 var hann fyrst fluttur í Víðistaðakirkju af börnum í æskulýðsstarfi þar og hefur verið árviss í helgihaldi þar síðan. Það sem gerir flutninginn svo einfaldan er að aðeins ein persóna er sögumaður og mæli ég með að það sé fullorðinn einstaklingur. Eftir því sem frásögninni vindur fram leika allir sín hlutverk. Fyrsta árið, lét ég leikarana ganga inn í salinn þegar kom að hlutverki hvers og eins (aðallega vegna þröngs húsakosts og plássleysis) en það hafði þann ókost að þeir sem komu inn síðast misstu af sögunni. Í Víðistaðakirkju sá ég að það væri hentugra að láta leikarana sitja á fremsta bekk (líka hægt að nota aftasta bekk) og láta þá ganga upp á leiksviðið þegar að þeim kom. Allra nauðsynlegustu leikarar eru, Jósef, María, 1 hirðir, vitringur og engill… en eftir því sem fleiri leikarar eru til staðar má fjölga hirðum, vitringum og englum og einnig er hægt að bæta við keisara og hermanninum sem tilkynnir um skrásetninguna. þá er mjög fallegt ef það er hægt að hengja stjörnu (skemmtilegt ef hún glitrar) yfir fjárhúsinu og einhver í sal (eða vitringur) gæti lýst á hana með vasaljósi þegar minnst er á stjörnuna í sögunni.

Skoðið fylgiskjöl hér að neðan

Categories
6-9 ára Sunnudagaskólinn

Söngvar – Fyrirgefningin

Hér að neðan eru tilvalin lög fyrir þessa samveru

Árlegur baráttudagur gegn einelti er 8. nóvember.

Categories
6-9 ára Sunnudagaskólinn

Söngur með hreyfingum

Hér að neðan eru nokkur lög með hreyfingum fyrir kirkjustarfið











Hér er betri útskýring á laginu TAKK

Categories
6-9 ára Sunnudagaskólinn

Kennslumyndbönd

Það verða gerð fleiri myndbönd og þetta verður endurgert síðar í haust. Njótið þar til ný myndbönd birtast.