Categories
Barnasálmar og söngvar

Ein ómerkileg setning

Hvernig hefði farið ef fólkið í Betlehem hefði tekið á móti Jesú? Hvernig væri ef allir tækju á móti Jesú?
Úr sögunni Chris og drekinn (Chris and the Dragon) e. Pay Sampson. Irma Sjöfn Óskarsdóttir þýddi.

Pay Sampson
Ein ómerkileg setning
Þetta er saga um hann Krissa sem var aldrei til friðs.. En þegar hann var valinn í
hlutverk Jósefs í jólaleikriti skólans þar sem sagt var frá fæðingu frelsarans
reyndi hann svo sannarlega að gera sitt besta. Óhappið varð þegar hann lagðist af
öllum þunga á sviðstjöldin og allt hrundi niður. Í framhaldi af þessari ógæfu þá
missti hann hlutverkið og kennarinn hans lét besta vin hans, Tuma, hafa
hlutverkið. Í staðinn var Krissi settur í hlutverk gistihúseigandans í Bethlehem. Í
stað þess að leika aðalhlutverkið í leiknum er Krissi í því minnsta því
gistihúseigandinn sagði aðeins eina setningu í leikritinu….
Krissa leið illa. Í dag ætlaði mamma hans að koma í skólann í fyrsta sinn og þá til
að horfa á hann. Hún ætlaði að koma og horfa á hann leika Jósef í jólaleikritinu. Í
eitt skipti á hans stuttu ævi hélt mamma hans að hann væri að afreka eitthvað.
Hún var búin að segja öllum í götunni frá væntanlegu afreki sonarins og nú ætlaði
hún að koma í skólann og taka ömmu með sér.
Krissi gat ekki sagt henni eins og var. Hvernig átti hann að fara að því að segja
henni að hann hefði klúðrað öllu og væri ekki í hlutverki Jósefs heldur í hlutverki
gistihúseigandans sem vísaði Maríu og Jósef á dyr. Hlutverkið var ein setning. Ein
ómerkileg setning. Hann átti að hrista hausinn, segja Jósef og Maríu að ekkert rúm
væri fyrir þau í gistihúsinu og loka síðan dyrunum. Það var allt og sumt sem honum
var treyst fyrir og síðan héldi leikritið áfram án þess að hann kæmi þar nærri.
Mamma var að eyða tíma sínum til einskis með því að koma og sjá hann leika svo
ómerkilegt hlutverk.
“Þú þarft ekki að koma. Þetta er ekki svo mikilvægt”, sagði Krissi
“Auðvitað komum við”, sagði mamma.
Hann gekk þungum skrefum af stað í skólann. Þegar Krissi kom í skólann leit hann
inn í samkomusalinn og horfði vonsvikinn á raðir af tómum sætum. Hlutverk
gistihúseigandans var ekkert til að vera að velta sér upp úr. Það var hægt að læra
hlutverk eins og þetta á nokkrum sekúndum. Á þessari stundu hefði Krissi kosið að
vera ekki með í leikritinu. Hann lét sér jafnvel koma til hugar að strjúka frá öllu
saman.
Þarna var hann þó enn þegar krakkarnir komu til að fara í búningana sína fyrir
leikritið. Krissi var enn í búningi Jósefs, fallegum kyrtli með rauðum og gylltum
röndum. Hann hafði reynt að fara í Tuma kyrtil en hann náði aðeins niður á hné.
Rauði og gyllti kyrtillinn hans Jósefs hafði litið út eins og fallhlíf á Tuma svo að
Davíð kennari sem stjórnaði leikritinu hafði talið vænlegra að þeir héldu sig við
upphaflegu búningana.
Allir voru tilbúnir en leiktjaldið hafði enn ekki verið dregið frá. Krissi beið bak við
sviðsmyndina. Falinn bak við gistihúshurðina. Hann heyrði kliðinn í salnum.
Þá sá hann Davíð gefa merkið. Tjaldið var dregið frá. Tumi stóð
á miðju sviðinu þar sem að Krissi hefði átt að vera. Allar mömmurnar í salnum
andvörpuðu “OHHHH”
Einhvers staðar í salnum sátu þær mamma og amma. Þær myndu horfa á Jósef og
sjá að þetta væri ekki Krissi. Þær myndu velta fyrir sér hvað hefði farið úrskeiðis.
Mamma hafði sagt öllum vinum sínum frá því að hann ætti að vera Jósef.
Hann kíkti út um rifu á hurðinni og hörfaði. Salurinn var fullur af fólki. Röð eftir
röð af mömmum og pöbbum, litlum bræðrum og systrum. Á fremsta bekk sat
Margrét kennari og brosti til prestsins. Þar sátu líka karlar í gráum jakkafötum og
fínar konur í dýrum, flottum kápum.
Þessi Margrét. Hann skyldi einhvern tímann ná sér niðri á henni.
Þetta var allt henni að kenna.
Jósef, María og asninn nálguðust. Bráðum myndi Jósef banka á hurðina. Bráðum
ætti hann að segja þessa ómerkilegu setningu:
“Nei, hér er ekkert rúm, komið ykkur í burtu. Þið heyrðuð hvað ég sagði”
Þetta yrði allt og sumt. Búinn. Leikritið myndi halda áfram án hans og allir
merkilegu atburðirnir ættu sér stað. Eftir því biðu allar mömmurnar.
Lísa myndi taka dúkkuna hennar Sallýjar upp úr jötunni og mamma hennar Lísu
myndi grípa andann á lofti. “Ohhh”
Englarnir kæmu svífandi á hvítu kyrtlunum sínum og mömmur englanna myndu
stynja, “Ohhhh”.
Fjárhirðarnir kæmu með lömbin sín og mömmur fjárhirðanna myndu andvarpa,
“Ohhh”
Vitringarnir kæmu inn í skæru kyrtlunum , með kórónur á höfðinu og mömmur
vitringanna myndu hvísla “Ohhhh”
Það eina sem mamma Krissa sæi væri hann að hrista höfuðið og loka dyrunum.
Enginn myndi andvarpa Ohhh, yfir því.
Tumi bankaði á gistihúshurðina. Krissi heyrði bankið en hann hélt að enginn annar
heyrði svo að hann bankaði sjálfur fast á dyrnar innan frá. Síðan opnaði hann
dyrnar og stóð frammi fyrir öllum. Það ríkti dauðaþögn í salnum. Allir biðu.
Tumi litli brosti til hans og sagði: “Er rúm í gistihúsinu fyrir okkur. Konan mín
verður að fá að hvíla sig.”
Og þarna stóð Tumi brosandi og beið.
Allir voru að bíða. Bíða eftir Krissa. Bíða eftir að hann segði að það væri ekkert
rúm í gistihúsinu fyrir Jósef og Maríu. Bíða eftir að leikritið héldi áfram. Krissi
byrjaði að brosa líka. Kannski var þetta ekki svo ómerkilegt hlutverk þrátt fyrir
allt, hugsaði hann með sér
Hann leit út í salinn. Allir biðu. Margrét kennari og skólanefndin í sparifötunum
sínum á fremst bekk, presturinn, mömmurnar, pabbarnir, ömmurnar , afarnir,
allar litlu systurnar og bræðurnir. Á aftasta bekk biðu kennararnir
Allir biðu eftir Krissa. Biðu eftir að hann hristi hausinn og lokaði dyrunum. Allir
biðu eftir að besti hluti leikritsins hæfist. Biðu eftir jötunni, englunum,
fjárhirðunum og vitringunum.
Þegar hér var komið við sögu var Tumi hættur að brosa. Hann hóf að hvísla
setningu gistihúseigandans svo að Krissi heyrði.
Krissi brosti vinalega til hans. Hann hafði ekki gleymt því sem hann átti að segja.
En hann ætlaði ekki að segja það núna. Í huga hans var að fæðast frábær
hugmynd.
Hann brosti til Margrétar og síðan til allra sem sátu í salnum. Aðeins dauft bros
fyrst en síðan varð það breiðara og breiðara. Hann brosti framan í gult andlit
Tuma og svart andlit Lísu þangað til að andlit hans lýsti af vingjarnlegu brosi og
gestrisnin skein úr augum hans .
Þá allt í einu reif hann gistihúshurðina upp á gátt með mikilli sveiflu. Hann benti á
opnar dyrnar og sagði hárri röddu.
Pláss! Nóg pláss ! Það eru jólin, er það ekki ? Komið inn og látið fara vel um
ykkur, kæru vinir !
Það ríkti dauðaþögn í salnum.
Þá byrjaði presturinn að hlæja. Síðan fóru mennirnir í jakkafötunum og fínu
konurnar á fremsta bekk að hlæja, svo mömmurnar, pabbarnir, litlu bræðurnir og
systurnar. Kennararnir á aftasta bekk hlógu og hlógu. Að lokum stóðu allir upp og
hlógu, klöppuðu og fögnuðu svo að undirtók í húsinu. Meðan þetta stóð yfir tosaði
Krissi Maríu og Jósef inn í gistihúsið og lokaði dyrunum á eftir þeim.
Já, hvernig hefði farið ef María og Jósef hefðu verið velkomin í Betlehem forðum.
Krissi tók þann kostinn að bjóða þau velkomin þrátt fyrir að sagan segði annað.
Sögulok
Þannig var sagan um hann Krissa, í senn brosleg og lærdómsrík. Auðvitað ruglaði
hann leikritið sem kannski ekki var rétt. En þegar það hafði gerst þá vakti það
umræður og þeir sem sáu leikritið fóru að hugsa. Hvernig hefði farið ef fólkið í
Betlehem hefði tekið á móti Jesú ? Hvernig væri ef allir tækju á móti Jesú ?
Þá upplaukst það fyrir þeim sem urðu vitni að orðunum hans Krissa að einmitt
þetta var það sem átti að hugsa um á aðventunni. Krissa tókst að fá fólkið til að
hugsa um að það sem skipti máli var að taka á móti Jesú. Bjóða hann velkominn !
Endir
Úr sögunni Chris og drekinn (Chris and the Dragon) e.. Pay Sampson. Irma Sjöfn
Óskarsdóttir þýddi.

Categories
Barnasálmar og söngvar

Dýrmætasta jólagjöfin

Jólasaga eftir Birgi Snæbjörnsson (frá 1968). Bræður metast um jólagjafirnar og yngri bróðirinn leitar á náðir ömmu sinnar sem segir honum frá dýrmætustu jólagjöfinni.

Það er komið aðfangadagskvöld. Úti er myrkt og milt. Minnkandi máni veður í
skýjum og brosir góðlega niður til mannheima og skin hans fellur ásamt
stjörnuskininu niður yfir snjóbreiðurnar. Allur skarkali borgarinnar virðist óra
fjarri. En frá kirkjunum má rekja breiðar slóðir í snjónum sem kvíslast í allar áttir.
Þetta kvöld höfðu borgarbúar hópast þangað til að hlusta á hinn dásamlega
boðskap, sem þaðan hljómaði: “Sjá yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur
Drottinn.” Margir höfðu með fögnuði hlýtt á þessi fögru boð engilsins, og síðan
haldið heim með jólaljósin tendruð í hugum sýnum og hjörtum. Það voru þessi
ljós, sem áttu að lifa til næstu jóla og lýsa mönnunum fram úr þeim niðamyrkrum,
er yfir heimi þeirra hvíla.
En því miður náði jólaboðskapurinn ekki til allra borgarbúanna, og á sumum
heimilum höfðu engin sönn jólaljós verið tendruð, og börnin höfðu farið á mis við
jólagjöfina mestu.
Heimili þeirra bræðra Jónsa og Svenna var eitt af þeim síðast töldu. Þetta voru
tápmiklir strákar 10 og 8 ára gamlir og áttu heima í stóra húsinu við Sjávargötu.
Við skulum skyggnast inn til þeirra og sjá, hvernig aðfangadagskvöld þeir eiga. Þeir
voru báðir í nýjum jólafötum. Eftir ágætis kvöldverð var kveikt á stóru jólatré. En
drengirnir hugsuðu ekkert um hið fagra tré, né heldur um það að syngja jólasálma.
Nei, hugir þeirra voru allir við jólagjafirnar, sem úthlutað hafði verið og það var
ekkert smáræði, sem þeir fengu í jólagjöf, drengirnir. Var nú sest að leikjum, og
undu þeir nokkra hríð glaðir við sitt, svo draga hefði mátt í efa að aðrir hefðu átt
betra kvöld. En ekki leið á löngu áður en drengirnir fóru að metast um það hvor
hefði fengið meira í jólagjöf og reis af því hávær deila. Báðir héldu fram gjöfum
sínum, og þótti hvorum um sig sinn fugl fegri. Að síðustu slengdi Jónsi því á Svenna
litla, sem hann vissi að mest mundi særa hann. “Þú ert svo lítill, að þú færð
aðeins smábarnaleikföng.” Þetta hreif. Svenni þaut fram að stofuhurðinni og þreif
hana opna og skellti henni síðan aftur, svo að undir tók í húsinu. Því næst hljóp
hann að stiganum og fleygði sér þar niður. Hann beið fyrst rótlaus eftir því, að
einhver huggari kæmi. En allir virtust hafa gleymt honum. Hann setti upp skeifu
og fór því næst að gráta. En ekkert dugði. Hann herti grátinn um allan helming og
byrjaði að sparka niður fótunum. En enginn kom. Nú virtist honum sem allir væru
vondir og kvöldið, sem hann hafði hlakkað svo mikið til, andstyggilegt.
Hvert gat hann flúið með sorgir sínar? Jú, allt í einu mundi hann það.
Hann reis á fætur, þaut upp stigann og inn í herbergi ömmu gömlu og nam ekki
staðar fyrr en hann sat í kjöltu hennar. Amma virtist ekkert undrandi yfir þessari
heimsókn, hún strauk Svenna blíðlega um vangann og sagði ofur rólega: “Svona,
svona, í kvöld má enginn vera reiður eða óánægður, eða hvað gengur annars að
þér, Svenni litli?” Drengurinn fer nú að rekja raunir sínar og er alls ómyrkur í máli.
En amman þaggar fljótt niður í honum því að þannig má hann ekki hugsa. “Eða
fékkst þú ekki mikið í jólagjöf?” spyr hún. Jú, Svenni var ekki frá því. Hann telur
upp fjölda marga eigulega hluti allt frá bókum upp í stóran bíl. “Hefur þú engu
gleymt?” spyr gamla konan, er hann hafði lokið upptalningunni. Svenni hugsar sig
um og verður allt í einu skömmustulegur og þorir vart að líta framan í ömmu sína,
er hann segir: “Jú, ég gleymdi víst vettlingunum, sem þú gafst mér, en ég þakka
þér voðalega vel fyrir þá.” En amman svarar brosandi: “Ekki átti ég við þá
smágjöf, heldur við aðra miklu dýrmætari. Þú hlýtur að muna eftir einu enn?”
Drengur telur nú aftur allar gjafirnar í huga sér, en gat ómögulega séð, að hann
hefði gleymt nokkru. “Nei, amma mín, “ sagði hann, “ ég fékk alls ekki fleiri
jóolagjafir.” En gamla konan var ekki af baki dottin, þótt þungur væri róðurinn.
Næst spurði hún Svenna litla, hvers vegna jólin væru haldin hátíðleg.
Og því gat Svenni svarað. “Það er vegna þess, að þá fæddist Jesús fyrir 1968
árum.”
“Já, það er einmitt það, “ sagði amma, “þá gaf Guð heiminum son sinn…“Já , en
það gerði hann fyrir 1968 árum amma og þá var ég ekki til,” skaut Svenni inn í.
“Það er rétt, “ svaraði gamla konan, “en Guð gaf ekki aðeins son sinn þeim, er þá
lifðu. Hann gefur ætíð þessa dýrmætu jólagjöf þeim er vilja taka á móti henni.”
“Fæ ég þá einnig Jesúbarnið í jólagjöf, amma, þótt ég sé svona pínulítill og fái
aðeins smábarnagjafir?” “Já, drengurinn minn litli. Allir bæði smáir og stórir fá
þessa gjöf, sem er dýrmætust allra gjafa. Þegar ég var ung stelpa, fengum við ekki
annað á jólunum en tólgarkerti, spil, vettlinga, sokka eða eitthvað af fötum til
þess að við klæddum ekki jólaköttinn, en þá skyggðu þessar gjafir ekki á
jólagjöfina mestu sem Guð gaf, og þá tóku allir á móti henni með gleði og enginn
var óánægður. Þeir eru ekki hamingjusamastir sem fá flestar þessa heims
jólagjafir, heldur þeir, er taka á móti jólagjöf Guðs. Því skalt þú, Svenni minn,
einnig taka á móti Guðs gjöf. Þú skalt læra orð Jesú Krists og breyta eftir þeim,
einnig skalt þú lesa frásögurnar um hann og reyna að líkjast honum. Þá eignast þú
ekki aðeins yndisleg jól, heldur einnig hamingju og farsæld í öllu þínu lífi.”

Categories
Barnasálmar og söngvar

Dóttir gestgjafans

Sagan um Fæðingu Jesú sögð frá öðru sjónarhorni. Úr bókinni: Jólasögur frá ýmsum löndum. Skálholtsútgáfan.

Það var mikið að gera í litla gistihúsinu í útjaðri borgarinnar. Þar var hvert herbergi skipað. Rakel hafði verið í stöðugum sendiferðum og snúningum allan daginn. Nú var ofurlítið hlé. Hún gekk upp í herbergið sitt og horfði út um gluggann. Dimmblá rökkurmóða lá yfir landinu umhverfis Betlehem, og veðrið var hlýtt og kyrrt. Rökkrið læddist yfir landið, og tindarnir á Líbanon voru að hverfa.

Ávaxtatrén í garðinum drupu höfði og biðu í hljóðri ró eftir hækkandi sól og nýju sumri. Jafnvel þótt veturinn hér í Landinu helga væri mildur, var hann þó biðtími jarðargróðans eftir nýju vori.

Rakel var tíu ára. Hún var einkabarn foreldra sinna og hvers manns hugljúfi. Aðeins eitt skyggði á gleði foreldranna yfir þessu barni sínu. Hún hafði illkynjaðan hörundskvilla á höndum, sem engum hafði tekist að lækna. Mattheus faðir Rakelar, var heiðarlegur og vel metinn veitingamaður. Hann ásamt Söru konu sinni, hafði rekið þetta veitingahús lengi og hafði það gott orð á sér. Ekki voru hjónin auðug en sjálfbjarga. Bæði voru guðrækin og héldu vel lögmálið.

Í rökkurbyrjun þetta umgetna kvöld, komu ung hjón heim að dyrum gistihússins. Konan reið á asna en maðurinn var gangandi. Þau báðu um gistingu, en Mattheus sagði að hvert herbergi væri fullskipað. “Þetta er síðasta gistihúsið, María”, sagði maðurinn og leit á hana vandræðalegur. “Þá er að taka því, vinur minn, okkur leggst eitthvað til”, sagði hún og sneri asnanum við, án þess þó að vita, hvert halda skyldi. Maðurinn fylgdi henni eftir frá húsinu.

Rakel hafði fylgst með þessari gestakomu úr herbergisglugganum sínum. Andlit ungu konunnar blasti við henni. Aldrei hafði hún séð fegurri eða göfugmannlegri konu. En um leið og ókunna konan heyrði svar Mattheusar, var eins og vonarneisti slokknaði í svip hennar. Rakel vissi ekki, hvernig stóð á því. Hana tók svo sárt, að pabbi hennar skyldi vísa þessari konu burt. Og leiftursnöggt kom henni ráð í hug. Hún hljóp til pabba síns og bað hann með miklum ákafa að bjóða hjónunum að vera í fjárhúsunum þeirra, sem stóðu þar skammt frá. Annar endi þeirra var auður. Mattheus kallaði á eftir hjónunum, og þau námu staðar.

Hann gekk til þeirra og Rakel með honum. “En ykkur er velkomið að vera í nótt í fjárhúsunum mínum”, sagði hann. “Annar endi þeirra er auður, og það verður hlýrra fyrir ykkur að vera þar en úti.” Konan leit hlýlega til þeirra og sagði: “Við þökkum kærlega fyrir. Þetta skulum við þiggja, Jósef.” Svo sneri hún sér að Rakel og spurði: “Eru þetta þín ráð, blessað barn?” Rakel leit niður fyrir sig og sagði svo lágt, að varla heyrðist: “Já, mér þótti svo leitt að sjá ykkur fara.” “Við þökkum
velvildina. Góða nótt”, sagði Jósef. Og svo héldu þau í áttina til fjárhúsanna, en Mattheus hélt aftur inn í húsið að sinna gestum sínum og Rakel með honum. Og nóttin kom og leið. Mikill mannfjöldi var í borginni og fullt í öllum gistihúsum. En það, sem gerðist þessa nótt, og vakti umtal daginn eftir , var þó ekki það sem gerðist í gistihúsunum, heldur hitt, sem gerðist í fjárhúsinu hans Mattheusar.
Þegar Rakel kom á fætur um morguninn, heyrði hún ákafar samræður milli gestanna í stofunni. Hún hlustaði á þær um stund. Svo fór hún inn í eldhús til mömmu sinnar. “Hvað hefur komið fyrir í nótt?” spurði hún. “Það er sagt, að einhverjir hjarðmenn hér úti á völlunum hafi fengið vitrun í nótt um að Messías sé fæddur”, svaraði móðir hennar. “Hvernig þá mamma?” “Þeir sáu skínandi birtu og heyrðu englaraddir, sem sögðu þeim þetta”, svaraði Sara. “Og hvar fæddist þetta barn?” “Það er sagt að hjarðmennirnir hafi fundið það eftir tilvísun englanna í fjárhúsunum okkar. Það gistu þar einhver húsnæðislaus hjón í nótt. En nú er pabbi þinn að líta eftir, hvort þetta sé ekki einhver vitleysa”, svaraði Sara.

Skömmu síðar kom Mattheus heim. Hann sagði þær fréttir að fætt væri lítið barn í fjárhúsunum þeirra. Um nóttina hefðu fáeinir hjarðmenn komið þangað, fagnað yfir fæðingu barnsins og veitt því lotningu. Sjálfur sagðist hann hvorki skilja upp né niður í þessu. “En heldur þú þá að þetta litla barn sé Messías, sem spámennirnir segja frá?” spurði Rakel. “Ég veit ekkert um það góða mín, En allt er þetta eitthvað dularfullt”, svaraði hann.

En nú varð þeim litið út um gluggann og sáu að þrír gráskeggjaðir öldungar komu ríðandi á úlföldum og stefndu að fjárhúsunum. Þeir horfðu við og við upp í himininn, eins og þeir væru að líta eftir einhverju leiðamerki. Þeir fóru af baki við fjárhúsið og gengu inn. Þegar Rakel sá þetta, héldu henni engin bönd.

Hún hljóp út að fjárhúsunum. Hún staðnæmdist þar í dyrunum. Þar sá hún gráskeggjuðu öldungana falla á kné fyrir barninu og færa því gjafir. Hún horfði á þetta undrandi og hljóp svo heim aftur. Þar sagði hún frá því, sem hún hafði heyrt og séð. Hún heyrði öldungana tala um einhvern nýfæddan konung, og einhverja stjörnu sem þeir hafi séð. Nú var hún sannfærð um það að hjarðmennirnir hefðu rétt fyrir sér. Mattheus sagði að spámennirnir hefðu spáð því að Messías ætti að taka konungdóm með þjóð sinni. Rakel fór upp í herbergi sitt og hugsaði um alla þessa undarlegu atburði. Hún hafði ekki getað séð barnið úr dyrum hússins. En hún fékk mikla löngun til að sjá það.
Hvernig skyldi það líta út? En þá yrði hún líka að gefa því eitthvað eins og öldungarnir. En hvað átti það að vera?

Nú heyrði Rakel, að nábúar þeirra komu til að spyrja eftir atburðum næturinnar. Foreldrar hennar leystu úr þessu eftir getu, en flestum þótti saga þeirra ótrúleg.

Sara bjó sig til að færa hinum ungu hjónum einhverja næringu. Og þegar Rakel frétti það, bað hún um að fá að vera með. En meðan Sara bjó sig að heiman braut Rakel heilan um, hvað hún ætti að gefa barninu. Loks ákvað hún, hvað það skyldi vera. Hún ætlaði að gefa því perlufestina sína. Það var það fallegasta sem hún átti. Hún tók festina úr kassanum sínum, virti hana fyrir sér og fól hana svo í lófa sínum. Hún vildi ekki láta aðra vita að hún ætlaði að gefa litla barninu hana.

Þær Sara og Rakel fóru nú út í fjárhúsin. Þar voru ungu hjónin með litla barnið sitt. Þau ljómuðu af ánægju og barnið hvíldi við brjóst móður sinnar. Sara færði þeim mat og drykk, sem þau tóku við með þökkum. Rakel færði sig smátt og smátt nær. Hún starði á litla barnið. En hvað þaðvar yndislegt. Hún tók festina og lét hana yfir höfuð barnsins. María horfði brosandi á litlu stúlkuna.

“Ætlar þú að gefa honum þessa fallegu festi. En hvað þú ert góð.” “Hann má eiga hana. Hann er svo yndislegur”, svaraði Rakel. “Langar þig að taka hann?” “Já, má ég það?” “Það er ekki of mikið fyrir gjöfina og hvað þú lést þér annt um okkur í gær.” Svo tók Rakel litla barnið í fangið. En hvað augun hans voru fögur. Hún fann gleðistraum fara um sig alla. Eftir dálitla stund rétti hún móðurinni
drenginn aftur. Svo kvöddu þær mæðgur ungu hjónin og héldu aftur heim að gistihúsinu.

En þegar Rakel kom heim, tók hún eftir nokkru einkennilegu. “Sjáðu, mamma. Mér er batnað í höndunum.”
Sara horfði undrandi á dóttur sína og sá að hrúðrin voru horfin af höndunum, en falleg, heilbrigð húð komin í staðinn. “Sannarlega er þetta barn Guðs sonur, fyrst að þessi snerting hefur læknað jafn illkynjaðan sjúkdóm. Farðu nú til föður þíns og sýndu honum þetta. En gleymdu ekki að þakka Guði þessa dásamlegu lækningu.”

Úr bókinni: Jólasögur frá ýmsum löndum.

Categories
Barnasálmar og söngvar

Afmælisdagbókin

Örstutt norsk saga, endursögð.

Categories
Barnasálmar og söngvar

Af hverju er allt lokað á jólunum?

Hvort viltu vera á veitingastað kl.6 á aðfangadagskvöld- eða í kirkju.
Lítil saga sem pabbi segir drengnum sínum.
Höfundur: Magnús Erlingsson.

Af hverju er allt lokað á jólunum?
“Pabbi, af hverju er allt lokað á jólunum?”
Litli drengurinn horfði alvarlegur á pabba sinn. “Hvers vegna ertu að hugsa um
það?” Spurði pabbi á móti. “Pabbi hennar Dídíar gleymdi að kaupa kók fyrir jólin.”
“Nú skil ég”, sagði pabbi. “Varstu hræddur um að ég gleymdi að kaupa gosdrykki
fyrir jólin? Þú mátt koma með mér þegar ég fer að kaupa.” “En af hverju eru allar
búðir lokaðar um jólin?”
Það var greinilegt að litli drenguinn lét ekki slá sig út af laginu. Þegar hann spurði
að einhverju þá var það af því að hann vildi vita það. Þess vegna vildi hann alltaf
fá svar við spurningum sínum.
Pabbi klóraði sér á bak við eyrað. “Það er nú saga að segja frá því”, sagði hann.
“Einu sinni var veitingamaður sem rak veitingastað í ónefndu þorpi út í sveit.”
“Er þetta ævintýri?” Spurði drengurinn. Ævintýri voru hans uppáhald. “Já”, sagði
pabbi. “Þetta er ævintýri”.
Í veitingahúsinu var alltaf fullt af fólki. Á daginn komu fínar frúr og ríkir karlar og
keyptu sér súkklaðisnúða, rjómatertur og marsípanhringi og drukku heitt kakó með
rjóma. Síðdegis komu verkamennirnir og fengu sér kaffi á veitingahúsinu. Á
kvöldin var borðaður veislumatur og sumir fengu sér öl og sherrý.
“Amma drekkur sherrý” hrópaði litli drengurinn. “Já, það veit ég líka” sagði pabbi
og hélt áfram með söguna.
Þetta var sem sagt afar vinsælt veitingahús. En í þorpinu var líka lítil kirkja. Það
var ekki eins margt um manninn í kirkjunni og á veitingahúsinu. Einu sinni ákvað
veitingamaðurinn að stríða prestinum svolítið. “Ég skil ekki af hverju þú lokar ekki
þessari kirkju, prestur minn kæri”, sagði veitingamaðurinn. “Það kemur hvort sem
er aldrei neinn til þín nema örfáar gamlar konur á sunnudögum.” “Þú ert nú
sjaldséður kirkjugestur”, sagði presturinn, og kannski ertu ekki dómbær á hverjir
eru á kirkjubekknum hverju sinni. En það skal ég segja þér, að á jólunum er alltaf
troðfullt í kirkjunni.” “Það er bara af því að fólkið hefur ekkert annað að gera á
jólunum. Ég þori að veðja við þig að enginn kæmi í kirkjuna þína ef ég hefði opið
á veitingahúsinu mínu á jólunum. Þorirðu að veðja?” Nú var hlaupinn ákafi í
veitingamanninn. Prestuinn var hugsi nokkra stund. Svo sagði hann: “Ég skal veðja
við þig. Tapi ég veðmálinu, skal ég koma á hverjum degi í heilt ár á
veitingastofuna til þín og kaupa þar súkkulaðisnúða og kaffi. En ef þú tapar,
verður þú að lofa því að koma í kirkju á hverjum sunnudegi í heilt ár.” Þeir tókust
í hendur upp á veðmálið.
Veitingamaðurinn hugsaði með sér að hann skyldi nú aldeilis vinna þetta veðmál.
Hann hengdi auglýsingar um allan bæ: Það yrði veisla á veitingahúsinu klukkan sex
á aðfangadagskvöld, ókeypis fordrykkir og innbökuð lambalæri. Til að tryggja enn
frekar aðsóknina réð hann til sín mann til að leika jólasvein og heila hljómsveit til
að leika fyrir dansi. Allt var ókeypis í tilefni af jólunum.
Það hlakkaði í veitingamanninum. Nú fengi presturinn aldeilis fyrir ferðina.
Hverjum dytti í hug að fara í kirkjuna þegar slík veisla væri í boði? Svo rann upp
aðfangadagur. Það var kalt veður, frost og snjókoma. Það fer enginn í óupphitaða
kirkjuna í kvöld, hugsaði veitingamaðurinn með sér. Svo sló klukkan sex. Jólin voru
komin. Ding, dong, sögðu klukkurnar. Ding, dong. En það var enginn, sem kom í
veitingahúsið. Lambalærin stóðu ósnert á borðunum og kólnuðu. Enginn kom til að
drekka allt ölið, sem búið var að hella í krúsirnar.
“Getur það verið” hugsaði veitingamaðurinn, getur það verið að fólkið sé allt í
kirkjunni? Veitingamaðurinn setti á sig húfu og trefil og fór af stað út í
fanndrífuna. Hann gekk í átt að kirkjunni. Hvaða söngur var þetta? Það var verið
að syngja jólasálma í kirkjunni. Það var svo margt fólk að sumir komust ekki inni í
kirkjuna heldur stóðu úti á tröppum og sungu þar. “Gleðileg jól”, sagði fólkið
hvert við annað.
“Þannig atvikaðist það, að veitingamaðurinn fór að sækja kirkju reglulega”, sagði
pabbi og lauk við söguna. “Því að á jólunum fer fólk í kirkju og minnist þess að
frelsarinn Jesús fæddist í Betlehem. Það eru haldin hátíðleg jól á hverju heimili og
engan langar að fara í búðir eða á veitingahús.”
“En hver borðaði þá öll lambalærin?” spurði litli drengurinn sem alltaf þurfti að
vita allt.
Magnús Erlingsson

Categories
Barnasálmar og söngvar

Stutt aðventusaga: Jesús er stærsta jólagjöfin

Palli er fimm ára og uppgötvar að Jesús er stærsta jólagjöfin

Aðventusaga
Palli var kominn í jólafötin sín, lítill fimm ára snáði. Hann stóð við sófaborðið og horfði á ljósin
fjögur, sem loguðu á aðventukransinum. Hann var að hugsa um það, þegar mamma kveikti á fyrsta
kertinu og um það, að í vikunni þar á eftir bökuðu þau saman piparkökur, hann og mamma. Ó, hvað
þær voru góðar. Þær voru líka ennþá betri af því að hann hafði fengið að móta úr þeim karla og
kerlingar. Annan sunnudaginn í aðventu kveiktu þau á öðru kerti, og fóru síðan saman í
kirkjuskólann. Hann mundi ekki vel hvað presturinn sagði, en þó mundi hann vel eftir því, að hann
sagði frá því, að í Betlehem, borginni sem Jesús fæddist í, hefðu fjárhirðar verið að gæta sauða og
þá hefði engill komið til þeirra og sagt þeim, að hann væri að boða þeim mikinn fögnuð.
Palli mundi líka vel þegar mamma kveikti á þriðja kertinu og því fjórða. Nú horfði hann á öll fjögur
kertin um leið og allar þessar hugsanir rifjuðust upp fyrir honum. “ Páll, Páll!” Það var mamma sem
kallaði á hann. Hún var komin í fínan kjól og pabbi í nýju gráu jakkafötin sín.
“Komdu, við erum að fara í kirkju.”
Þegar þau voru komin í kirkjuna, hafði Palli orð á því við pabba, hvað allir væru brosandi og fínir, og
hann spurði pabba hvers vegna. Pabbi sagði, að það væri vegna þess, að jólin væru gengin í garð.
Palli hlustaði mjög vel á það sem presturinn sagði. Hann sagði frá því þegar Jesús fæddist. Hann
sagði, að María og Jósef hefðu ekki fengið neina gistingu nema í fjárhúsi.
Palli hugsaði mikið um það, að fæðast í fjárhúsi eins og amma og afi áttu í sveitinni. Það komu tár í
litlu barnsaugun. Litla barnið var sett í jötu. Aldrei hafði Palli getað ímyndað sér, að barn hefði
fæðst í kindakofa. Mamma hafði sagt honum, að hann hefði fæðst á fæðingardeild. Þetta var því
erfitt að skilja fyrir lítinn dreng. Presturinn sagði líka, að Jesús væri jólagjöf Guðs til okkar.
Og hann minnti líka á, að þegar við opnuðum jólagjafirnar við jólatréð, þá skyldum við minnast þess,
að Jesúbarnið væri stærsta jólagjöfin.
Um kvöldið þegar þau þrjú, mamma, pabbi og Palli höfðu lokið við að borða jólamatinn og sungið
jólasöngvana, settust þau við jólatréð og opnuðu pakkana undir trénu. Nokkrir pakkar voru frá
ömmu og afa í Reykjavík og nokkrir pakkar frá ömmu og afa í sveitinni og svo fékk Palli pakka frá
mömmu og pabba. Ó, hvað hann var glaður yfir öllum pökkunum. Hann gleymdi þó ekki stærstu
jólagjöfinni, sem er Jesús. Hann gleymdi ekki heldur að þakka Guði fyrir þessa gjöf, og fyrir það, að
hún var handa honum

Categories
Barnasálmar og söngvar

Aðventuhugleiðing eftir Sigurð Ægisson

Við megum ekki vera svo önnum kafin fyrir jólin að við týnum Jesúbarninu.

Categories
Barnasálmar og söngvar

Skuggaleikhús

Hér er að finna hugmynd um það hvernig útbúa má vitringana þrjá sem skuggaleikhús.

Categories
Barnasálmar og söngvar

Helgihald heimilanna á aðventu

Kristján Valur Ingólfsson

Categories
Barnasálmar og söngvar

Aðfangadagur

Ævintýri um græðgi. Úr bókinni ,,Jólaljós, sígildar jólasögur“ í samantekt Ásgeirs Björnssonar o.fl. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.1985

Aðfangadagur
Fyrir mörgum, mörgum árum komu tveir fátækir förumenn að stórum og ríkmannlegum bóndabæ í
Danmörku og báðust gistingar. “Nei,” sögðu bóndi og húsfreyja einum rómi. “Við höfum ekkert rúm
fyrir flækinga.” Förumennirnir urðu að halda ferð sinni áfram og brátt komu þeir að koti þar sem
fátækur bóndi og kona hans bjuggu. Þeir börðu á dyr og spurðu hvort þeir gætu fengið
næturgistingu. “Það er ykkur velkomið ef þið getið gert ykkur að góðu það lítilræði sem við getum
boðið ykkur.” Ferðalangarnir þökkuðu innilega fyrir sig og gengu í bæinn. Þeir höfðu ekki dvalið
lengi hjá fátæku hjónunum þegar konan hvíslaði að bónda sínum: “Eigum við ekki að athuga hvort
við getum ekki gefið gestum okkar eitthvað gott að borða? Það er jú aðfangadagskvöld. Við skulum
slátra kiðlingi.” Svo slátruðu þau kiðlingi, steiktu kjötið og átu öll nægju sína. Þegar komið var að
háttatíma gengu hjónin úr rúmi fyrir gesti sína og buðu þeim rúmin sín. Sjálf lögðust þau til svefns á
gólfinu í eldhúsinu. Næsta dag, jóladag, fóru þau öll fjögur til kirkju. Þegar messu var lokið báðu
hjónin förumenn að gera sér þann greiða að dvelja lengur hjá sér. “Við eigum svo mikið af kjöti
núna og þið verðið endilega að hjálpa okkur með að borða það. “ Ferðalangarnir þökkuðu fyrir sig og
kváðust gjarnan vilja dvelja hjá þeim jóladag og annan í jólum. Snemma morguns þriðja í jólum
kvöddu flakkararnir fátæku hjónin og þökkuðu þeim með fögrum orðum gestrisnina. Þeim fannst
leitt að geta ekki launað hjónunum gestrisnina því þeir sögðust ekkert eiga til að gefa í staðinn.
“Það gerir nú ekkert til”, svöruðu hjónin einum rómi. “Við hýstum ykkur ekki til að fá greiðslu fyrir
það.” Rétt í þann mund er flakkararnir voru að fara, sagði annar þeirra: “Var kiðlingurinn hyrndur?”
“Já, já”, svaraði bóndi. “En hornin eru lítils virði. Þau étur enginn.” “Hve mörg voru hornin?” Spurði
flakkarinn. “Þau voru nú tvö”, svaraði bóndi. “Jæja, þá færð þú tvær óskir,” sagði flakkarinn.
“Óskið þess sem þið viljið”. Bóndi sagðist einskis óska nema Guðs blessunar, daglegs brauðs og eilífs
lífs eftir dauðann. “Guð veiti ykkur það”, sögðu förumennirnir. “Við komum aftur að ári.” Og þeir
fóru leiðar sinnar.
Upp frá þessu gekk fátæka bóndanum og konu hans allt í haginn. Kýrin bar þremur hraustum kálfum,
báðar ærnar þeirra báru fjórum lömbum hvor og gyltan fæddi svo marga grísi að það var varla tölu á
komið. Allt, sem þau gróðursettu, óx og dafnaði svo undrun sætti. Þannig urðu þau vel efnuð og leið
betur en nokkru sinni áður. Hjónunum var oft hugsað til förumannanna. Þau hlökkuðu mikið til
næstu jóla því þá kæmu þessir ágætis menn í heimsókn á ný eins og þeir höfðu lofað. Allir í sveitinni
höfðu tekið eftir velgengni hjónanna í kotinu og veltu vöngum yfir henni. Og þau, sem hugsuðu mest
um hvernig stæði á þessari dæmalausu velgengni, voru ríku hjónin á stórbýlinu. Og þegar þau fréttu
að alla velgengnina ættu fátæku hjónin því að þakka að þau hýstu tvo flækinga um síðustu jól urðu
þau bálreið. Þeim fannst jafnvel að kotbóndinn hefði stolið óskunum tveim frá sér. Förumennirnir
komu jú fyrst til þeirra á stórbýlið og – ef þau hefðu vitað þá… Þegar ríku hjónin fréttu að
förumennirnir væru væntanlegir aftur um næstu jól báðu þau kotbóndann og konu hans
vinsamlegast að leyfa sér nú að taka á móti blessuðum mönnunum. Hjónakornin úr kotinu gátu ekki
annað en látið það eftir þeim. Sérstaklega af því að þetta voru nú nágrannar þeirra og raunar besta
fólk.
Á aðfangadagskvöld var barið að dyrum í kotinu. Förumennirnir voru komnir eins og þeir höfðu lofað.
Hjónin tóku á móti þeim með kostum og kynjum og áttu ekki orð til að lýsa þakklæti sínu fyrir allt
það sem förumennirnir höfðu gert fyrir þau. Förumennirnir spurðu hvort þeir mættu dvelja hjá þeim
yfir jólin. “Alveg væri það nú meira en velkomið”, sögðu hjónin í kór. En svo mundu þau hverju þau
höfðu lofað nágrönnum sínum. Þau sögðu förumönnunum að þessum ágætu nágrönnum hefði þótt
það svo leitt að geta ekki tekið á móti þeim um síðustu jól. Nú vildu þeir bæta fyrir það og bjóða
förumönnunum að dvelja hjá sér yfir jólin. “Jæja, úr því að þið viljið”, sögðu förumennirnir. “Við
förum þangað í kvöld en í fyrramálið förum við með ykkur til kirkju.” Vikapilturinn á stórbýlinu var
látinn bíða við túngarðinn og fylgjast með mannaferðum. Þegar hann sá til förumannanna hljóp hann
inn í bæ og hrópaði: “Þeir eru komnir, þeir eru komnir!” Stórbóndinn og kona hans flýttu sér til að
taka á móti gestunum. Þau báðust innilega afsökunar á því að hafa vísað þeim burt í fyrra og buðu
þeim svo inn í stofu.
Bóndinn hafði slátrað feitum uxa og húsfreyja var búin að steikja kjötið. Dýrindis kræsingar voru
bornar á borð og þegar gengið var til náða voru förumennirnir leiddir inn í fínasta svefnherbergið á
bænum þar sem stóðu tvö uppbúin rúm. Næsta dag vöknuðu förumennirnir árla morguns. Bóndinn og
kona hans báðu þá blessaða að vera hjá sér yfir jólin. En förumennirnir sögðust þurfa að kveðja því
þeir ætluðu í kirkju. Síðan sögðust þeir myndu halda ferð sinni áfram. Bóndi spennti strax bestu
hesta sína fyrir vagninn og bauðst til að aka þeim til kirkju. Áður en förumennirnir lögðu af stað
þökkuðu þeir alla gestrisnina en kváðust því miður ekki geta greitt fyrir hana því þeir ættu enga
peninga. “En bíðið við”, sagði annar þeirra. “Var uxinn ekki hyrndur?” “Jú, jú, vissulega”, svaraði
bóndi ákafur. Hann hafði heyrt söguna um kiðlingshornin frá því árið áður og nú ætlaði hann ekki að
láta happ úr hendi sleppa. “Hvað voru hornin mörg?”spurði förumaður. Húsfreyja togaði í ermina á
jakka bónda sins og hvíslaði: “Segðu fjögur, segðu fjögur.” Bóndi sagði því að uxinn hefði verið með
fjögur horn. “Nú, já! Þá getið þið fengið fjórar óskir, tvær hvort ykkar.” Síðan settust þeir í vagninn
og bóndi ók af stað til kirkju. Bóndi flýtti sér alla leiðina og þegar til kirkju var komið sagði bóndi:
“Því miður get ég ekki komið inn með ykkur. Ég verð að flýta mér heim.” Bónda fannst hann yrði að
flýta sér heim því hann gat ekki beðið með að óska sér. Hann var að hugsa um allt þetta þegar annar
hesturinn hnaut við fót og missti skeifu. Bóndi varð að stöðva og bæta úr því. En loks þegar hann var
búinn að járna hestinn og ætlaði af stað aftur sá hann sér til mikillar gremju að hinn hesturinn var
líka búinn að missa skeifu. “Fjandinn hirði ykkur trunturnar ykkar!” hrópaði bóndi í bræði. Fyrr en
varði voru hestarnir á bak og burt. Vesalings bóndinn sat nú þarna í vagninum með taumana í
höndunum en án hesta. Hann varð að skilja vagninn eftir og halda heim fótgangandi.
Bóndi var búinn að fá eina ósk uppfyllta. Og þó hann bölvaði sjálfum sér fyrir klaufaskapinn hafði
hann ekki miklar áhyggjur. Hann átti eina ósk eftir og konan átti tvær eftir. Hann gæti auðveldlega
eignast eins marga hesta og hann vildi, ásamt alls konar gulli og gersemum. Hann þurfti bara að
vanda sig þegar hann óskaði sér.
Því þrammaði hann áfram veginn, léttur í lund.
Meðan á þessu gekk beið húsfreyja heima. Hún var orðin óþolinmóð að bíða eftir bónda sínum. Hún
var oft búin að ganga út fyrir til að gá að manni sínum en ekki bólaði á honum. Loks missti hún alveg
þolinmæðina, dæsti og sagði: “Æ, hvað ég vildi að endemis þrjóturinn, hann bóndi minn, væri nú
kominn hingað heim.” Og hún hafði ekki fyrr sleppt orðinu en bóndinn stóð á hlaðinu hjá kerlingu,
ljóslifandi. “Æ, hvaða klaufaskapur. Nú er ég búin að nota aðra óskina mína og nú á ég bara eina
eftir. En hvernig stendur á því að þú stendur þarna eins og þvara? Hvar er vagninn og hestarnir?” “Ég
var sá erkiklaufi að missa út úr mér að fjárinn mætti hirða hestana og hann er víst búinn að því.
Þetta er samt allt þér að kenna. Það fylgir ógæfa því að hafa rangt við. Þú sagðir að uxinn hefði
verið með fjögur horn. Þú skrökvaðir og ég vildi að hornin væru föst á hausnum á þér”, tautaði
bóndi önugur. Og viti menn. Bóndi trúði ekki sínum eigin augum. Hornin sátu föst á höfði kerlingar
og æpti hún hástöfum: “Hvað hefurðu gert? Hvað hefurðu gert? Nú voru þau búin að nota þrjár óskir
og aðeins ein var eftir. Bóndi reyndi að róa konu sína og sagði: “Vandaðu þig nú, mín kæra, við
eigum aðeins eina ósk eftir. Óskaðu þér nú nóg af peningum, notaðu tækifærið!” “Nei, þakka þér
fyrir”, svaraði konan snúðugt. “Þú skalt ekki láta þér detta í hug að ég ætli að ganga um með horn á
hausnum það sem eftir er ævinnar.” Og hún var ekki lengi að óska þess að hornin hyrfu af hausnum
á henni. Um leið hurfu hornin en hjónin stóðu eftir með sárt ennið, hestunum og uxanum fátækari.
Græðgin varð þeim að falli!
Úr “Jólaljós, sígildar jólasögur” í samantekt Ásgeirs Björnssonar o.fl. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. 1985