Categories
Efnispottur Söngvasjóður

Hvað heita brúðurnar í sunnudagaskólanum?

Hvað heita brúðurnar í sunnudagaskólanum?

Categories
Starfs - og leikmannaskóli kirkjunnar

Dýrð sé Guði- söngur með hreyfingum

02 Að hlaða múrsteinum eða byggja dómkirkjur

Christopher Wren teiknaði Pálskirkjuna í Lundúnum (meðal allra fallegustu byggingum í heimi). Hann sagði eitt sinn frá viðbrögðum nokkurra byggingaverkamanna þegar þeir voru spurðir hvað þeir væru að gera. Þeim sem leiddist eða voru þreyttir svöruðu, „Ég er að hlaða múrsteinum“ og „Ég er að bera steina“.

Verkamaður einn, sem var að hræra steypu, var hins vegar kátur og ánægður með starf sitt. Þegar hann var spurður um iðju sína svaraði hann, „Ég er að byggja glæsilega dómkirkju“.
Nálgun

Skoðanakannanir hafa leitt í ljós að flestum finnst leiðinlegt í vinnunni. Slíkt fólk hlakkar ekki til að mæta til vinnu, heldur leiðist starf sitt. Því dreymir um stóra lottóvinninginn svo að það geti sest í helgan stein.

Guð skapaði okkur ekki til þess að okkur þyrfti að leiðast að vinna. Hann skapaði okkur svo við mættum þjóna Honum í allri okkar iðju, einnig í vinnunni. Eitt og sama orðið er notað yfir nafnorðin, „vinna“ og „tilbeiðsla“ í ritningunni. Guð vill að við njótum starfsins því í starfinu felst tilbeiðsla til Guðs. Vinna okkar er aðeins ein aðferð við að lofa Guð. Páll skrifaði í einu bréfa sinna að við ættum að gleðjast í störfum okkar því við séum að vinna fyrir Guð en ekki menn. (Sjá Kólossubréfið 3:23.) Páll skrifaði einnig, „Hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar“ (1.Korintubréf 10:31).

Ef þú vinnur aðeins til að afla tekna og komast af, verður þú aldrei ánægð/ur í starfi. En ef þú ert staðráðin/n í að vegsama Guð með starfi þínu verður þú ekki aðeins ánægð/ur í starfi, heldur mun Guð einnig mæta öllum þörfum þínum.

01 Inngangur

Natan spámaður hafði orðið. Davíð konungur hlýddi á. Natan var með boðskap frá Drottni til Davíðs og þar sem hann var mikill mælskusnillingur hóf hann mál sitt með sögu:

„Tveir menn voru í sömu borg. Annar var ríkur, hinn fátækur. Hinn ríki átti fjölda sauða og nauta, en hinn fátæki átti ekki nema eitt gimbrarlamb, sem hann hafði keypt og alið. Það óx upp hjá honum og með börnum hans, það át af mat hans og drakk af bikar hans og svaf við brjóst hans og var eins og dóttir hans. Þá kom gestur til ríka mannsins, og hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til þess að matreiða fyrir ferðamanninn, sem til hans var kominn, heldur tók gimbrarlamb fátæka mannsins og matbjó það fyrir manninn, sem kominn var til hans.“ (2.Samúelsbók 12:1-4.)

Davíð hlustaði af athygli á sögu Natans. Hann reiddist síðan ákaflega og sagði, „Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Sá maður, sem slíkt hefir aðhafst, er dauðasekur.“ BINGÓ. Boðskapur Natans hafði komist til skila, nú þurfti hann bara að yfirfæra söguna á áheyrandann: „Þú ert maðurinn!“

Natan vissi það sem allir góðir ræðumenn vita: Mynd segir meira en mörg orð. Grípandi myndlíking sem valin er af kostgæfni og beitt af lipurð kemur meiru til skila og er áhrifaríkari en mörg orð.

Þetta vissi Jesús líka. Hann talaði í dæmisögum. Í Matteusarguðspjalli 13:34 er sagt að Jesús hafi ekki talað öðruvísi en með dæmisögum. Hann notaði ávallt sögur og myndlíkingar til að leggja áherslu á orð sín. Hann tók dæmisögur sínar úr daglegu lífi fólks í Mið-Austurlöndum. Þær fjalla um bændur og fjölskyldur, sauði og geitur, hlöður og hvíta akra. Fólk sem hlýddi á Jesú undraðist orð hans.

Því miður undrast unglingar nú til dags ekki oft orð prestanna. Þeim leiðist gjarnan undir ræðum þeirra. Sumir ræðumenn kunna þó að tala til ungmenna og nota til þess sögur og myndlíkingar af hreinni snilld.

Þær sögur sem hér fylgja hafa verið notaðar með góðum árangri í æskulýðsstarfi um allan heim. Sjálfur hef ég notað margar þeirra. Ef saga er valin af kostgæfni og frásögnin vönduð er nokkuð víst að hún muni höfða til unglinganna.

Vissulega eru til fleiri góðar sögur en þær sem hér birtast. Sumar bækur eru svo ítarlegar og þykkar að manni reynist ómögulegt að nota þær. Ég á eina slíka sem í eru nærri átta þúsund sögur. Satt best að segja hefur mér reynst erfitt að finna hentuga sögu í henni þegar ég hef þurft á henni að halda. Sögurnar hér á eftir eru því valdar með tilliti til gæða fremur en magns.

Wayne Rice

Categories
Aðventa og jól

Sporin í sandinum og 99 aðrar dæmi- og atvikssögur

Kynning á sögunum

Þær sögur sem hér er að finna eru hvalreki fyrir alla sem tala út frá Biblíunni, hvort sem áheyrendur eru á gelgjuskeiðinu eða öðrum tímabilum lífsins. Sögurnar eru alls 100 og útskýra trúarleg atriði út frá ýmsum sjónarhornum. Þær eiga það sameiginlegt að ná athygli áheyrenda, einkum unglinga, boðskapurinn kemst auðveldlega til skila og sögurnar sitja eftir í huga áheyrandans.

En þó sögurnar séu góðar, eru þær aðeins dæmisögur notaðar til að útskýra trúarleg atriði. Það er einmitt trúarlega nálgunin sem skiptir mestu máli. Vöndum hana sem kostur er. Mikið er í húfi.

Categories
Starfs - og leikmannaskóli kirkjunnar

Ef ég væri fiðrildi – söngur með hreyfingum

Categories
Starfs - og leikmannaskóli kirkjunnar

Takk – söngur með hreyfingum

Categories
Leikir

Alþjóðlegur bænadagur kvenna 2008

Kæra samstarfsfólk að Alþjóða bænadegi kvenna um allt land.

Undirbúningsnefnd að bænadeginum 2008 sendir ykkur sínar bestu kveðjur og þakkar fyrir síaukna þátttöku í þessu alþjóðlega samstarfi ár frá ári.

Hér er dagskráin svo sem við höfum þýtt hana og stytt eftir enskri útgáfu gvæjönsku landsnefndarinnar. Þið ljósritið hana að vild.

Við ætlum að nota eftirfarandi söngva og sálma á samkomunni í Íslensku Kristskirkjunni:

Daginn í dag
Kærleiki Guðs á stóra ströndu minnir
Ver mér nær
Þér lýðir lofið Drottin
Megi gæfan þig geyma

Eins og vant er munum við taka samskot fyrir Hið íslenska Biblíufélag. Að þessu sinni er safnað fyrir Biblíum til afskekktra svæða á Indlandi. Hægt er að senda söfnunarféð beint á Hið íslenska Biblíufélag, Guðbrandsstofu, Hallgrímskirkju, Pósthólf 243, 121 R. eða biðja viðkomandi sóknarprest fyrir framlagið.

Það hefur verið fróðlegt að fá fregnir utan af landi um mismunandi form bænadagsins, og viljum við enn hvetja ykkur til að senda okkur fréttir og myndir eða hringja í okkur að bænadeginum loknum, svo að skýrslan sem við skilum til höfuðstöðvanna í New York endurspegli enn frekar það sem gert er á Íslandi öllu.

Friðarkveðjur,
fyrir hönd landsnefndar Alþjóðabænadags kvenna 2008,
María Ágústsdóttir

Glærur með myndum.

Categories
Ítarefni

Gott betur – hjónanámskeið

Gott betur. Námskeið fyrir hjón og fólk í sambúð. Höfundur: Benedikt Jóhannsson, sálfræðingur.

Categories
Barnasálmar og söngvar

Aðfangadagur

Ævintýri um græðgi. Úr bókinni ,,Jólaljós, sígildar jólasögur“ í samantekt Ásgeirs Björnssonar o.fl. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.1985

Aðfangadagur
Fyrir mörgum, mörgum árum komu tveir fátækir förumenn að stórum og ríkmannlegum bóndabæ í
Danmörku og báðust gistingar. “Nei,” sögðu bóndi og húsfreyja einum rómi. “Við höfum ekkert rúm
fyrir flækinga.” Förumennirnir urðu að halda ferð sinni áfram og brátt komu þeir að koti þar sem
fátækur bóndi og kona hans bjuggu. Þeir börðu á dyr og spurðu hvort þeir gætu fengið
næturgistingu. “Það er ykkur velkomið ef þið getið gert ykkur að góðu það lítilræði sem við getum
boðið ykkur.” Ferðalangarnir þökkuðu innilega fyrir sig og gengu í bæinn. Þeir höfðu ekki dvalið
lengi hjá fátæku hjónunum þegar konan hvíslaði að bónda sínum: “Eigum við ekki að athuga hvort
við getum ekki gefið gestum okkar eitthvað gott að borða? Það er jú aðfangadagskvöld. Við skulum
slátra kiðlingi.” Svo slátruðu þau kiðlingi, steiktu kjötið og átu öll nægju sína. Þegar komið var að
háttatíma gengu hjónin úr rúmi fyrir gesti sína og buðu þeim rúmin sín. Sjálf lögðust þau til svefns á
gólfinu í eldhúsinu. Næsta dag, jóladag, fóru þau öll fjögur til kirkju. Þegar messu var lokið báðu
hjónin förumenn að gera sér þann greiða að dvelja lengur hjá sér. “Við eigum svo mikið af kjöti
núna og þið verðið endilega að hjálpa okkur með að borða það. “ Ferðalangarnir þökkuðu fyrir sig og
kváðust gjarnan vilja dvelja hjá þeim jóladag og annan í jólum. Snemma morguns þriðja í jólum
kvöddu flakkararnir fátæku hjónin og þökkuðu þeim með fögrum orðum gestrisnina. Þeim fannst
leitt að geta ekki launað hjónunum gestrisnina því þeir sögðust ekkert eiga til að gefa í staðinn.
“Það gerir nú ekkert til”, svöruðu hjónin einum rómi. “Við hýstum ykkur ekki til að fá greiðslu fyrir
það.” Rétt í þann mund er flakkararnir voru að fara, sagði annar þeirra: “Var kiðlingurinn hyrndur?”
“Já, já”, svaraði bóndi. “En hornin eru lítils virði. Þau étur enginn.” “Hve mörg voru hornin?” Spurði
flakkarinn. “Þau voru nú tvö”, svaraði bóndi. “Jæja, þá færð þú tvær óskir,” sagði flakkarinn.
“Óskið þess sem þið viljið”. Bóndi sagðist einskis óska nema Guðs blessunar, daglegs brauðs og eilífs
lífs eftir dauðann. “Guð veiti ykkur það”, sögðu förumennirnir. “Við komum aftur að ári.” Og þeir
fóru leiðar sinnar.
Upp frá þessu gekk fátæka bóndanum og konu hans allt í haginn. Kýrin bar þremur hraustum kálfum,
báðar ærnar þeirra báru fjórum lömbum hvor og gyltan fæddi svo marga grísi að það var varla tölu á
komið. Allt, sem þau gróðursettu, óx og dafnaði svo undrun sætti. Þannig urðu þau vel efnuð og leið
betur en nokkru sinni áður. Hjónunum var oft hugsað til förumannanna. Þau hlökkuðu mikið til
næstu jóla því þá kæmu þessir ágætis menn í heimsókn á ný eins og þeir höfðu lofað. Allir í sveitinni
höfðu tekið eftir velgengni hjónanna í kotinu og veltu vöngum yfir henni. Og þau, sem hugsuðu mest
um hvernig stæði á þessari dæmalausu velgengni, voru ríku hjónin á stórbýlinu. Og þegar þau fréttu
að alla velgengnina ættu fátæku hjónin því að þakka að þau hýstu tvo flækinga um síðustu jól urðu
þau bálreið. Þeim fannst jafnvel að kotbóndinn hefði stolið óskunum tveim frá sér. Förumennirnir
komu jú fyrst til þeirra á stórbýlið og – ef þau hefðu vitað þá… Þegar ríku hjónin fréttu að
förumennirnir væru væntanlegir aftur um næstu jól báðu þau kotbóndann og konu hans
vinsamlegast að leyfa sér nú að taka á móti blessuðum mönnunum. Hjónakornin úr kotinu gátu ekki
annað en látið það eftir þeim. Sérstaklega af því að þetta voru nú nágrannar þeirra og raunar besta
fólk.
Á aðfangadagskvöld var barið að dyrum í kotinu. Förumennirnir voru komnir eins og þeir höfðu lofað.
Hjónin tóku á móti þeim með kostum og kynjum og áttu ekki orð til að lýsa þakklæti sínu fyrir allt
það sem förumennirnir höfðu gert fyrir þau. Förumennirnir spurðu hvort þeir mættu dvelja hjá þeim
yfir jólin. “Alveg væri það nú meira en velkomið”, sögðu hjónin í kór. En svo mundu þau hverju þau
höfðu lofað nágrönnum sínum. Þau sögðu förumönnunum að þessum ágætu nágrönnum hefði þótt
það svo leitt að geta ekki tekið á móti þeim um síðustu jól. Nú vildu þeir bæta fyrir það og bjóða
förumönnunum að dvelja hjá sér yfir jólin. “Jæja, úr því að þið viljið”, sögðu förumennirnir. “Við
förum þangað í kvöld en í fyrramálið förum við með ykkur til kirkju.” Vikapilturinn á stórbýlinu var
látinn bíða við túngarðinn og fylgjast með mannaferðum. Þegar hann sá til förumannanna hljóp hann
inn í bæ og hrópaði: “Þeir eru komnir, þeir eru komnir!” Stórbóndinn og kona hans flýttu sér til að
taka á móti gestunum. Þau báðust innilega afsökunar á því að hafa vísað þeim burt í fyrra og buðu
þeim svo inn í stofu.
Bóndinn hafði slátrað feitum uxa og húsfreyja var búin að steikja kjötið. Dýrindis kræsingar voru
bornar á borð og þegar gengið var til náða voru förumennirnir leiddir inn í fínasta svefnherbergið á
bænum þar sem stóðu tvö uppbúin rúm. Næsta dag vöknuðu förumennirnir árla morguns. Bóndinn og
kona hans báðu þá blessaða að vera hjá sér yfir jólin. En förumennirnir sögðust þurfa að kveðja því
þeir ætluðu í kirkju. Síðan sögðust þeir myndu halda ferð sinni áfram. Bóndi spennti strax bestu
hesta sína fyrir vagninn og bauðst til að aka þeim til kirkju. Áður en förumennirnir lögðu af stað
þökkuðu þeir alla gestrisnina en kváðust því miður ekki geta greitt fyrir hana því þeir ættu enga
peninga. “En bíðið við”, sagði annar þeirra. “Var uxinn ekki hyrndur?” “Jú, jú, vissulega”, svaraði
bóndi ákafur. Hann hafði heyrt söguna um kiðlingshornin frá því árið áður og nú ætlaði hann ekki að
láta happ úr hendi sleppa. “Hvað voru hornin mörg?”spurði förumaður. Húsfreyja togaði í ermina á
jakka bónda sins og hvíslaði: “Segðu fjögur, segðu fjögur.” Bóndi sagði því að uxinn hefði verið með
fjögur horn. “Nú, já! Þá getið þið fengið fjórar óskir, tvær hvort ykkar.” Síðan settust þeir í vagninn
og bóndi ók af stað til kirkju. Bóndi flýtti sér alla leiðina og þegar til kirkju var komið sagði bóndi:
“Því miður get ég ekki komið inn með ykkur. Ég verð að flýta mér heim.” Bónda fannst hann yrði að
flýta sér heim því hann gat ekki beðið með að óska sér. Hann var að hugsa um allt þetta þegar annar
hesturinn hnaut við fót og missti skeifu. Bóndi varð að stöðva og bæta úr því. En loks þegar hann var
búinn að járna hestinn og ætlaði af stað aftur sá hann sér til mikillar gremju að hinn hesturinn var
líka búinn að missa skeifu. “Fjandinn hirði ykkur trunturnar ykkar!” hrópaði bóndi í bræði. Fyrr en
varði voru hestarnir á bak og burt. Vesalings bóndinn sat nú þarna í vagninum með taumana í
höndunum en án hesta. Hann varð að skilja vagninn eftir og halda heim fótgangandi.
Bóndi var búinn að fá eina ósk uppfyllta. Og þó hann bölvaði sjálfum sér fyrir klaufaskapinn hafði
hann ekki miklar áhyggjur. Hann átti eina ósk eftir og konan átti tvær eftir. Hann gæti auðveldlega
eignast eins marga hesta og hann vildi, ásamt alls konar gulli og gersemum. Hann þurfti bara að
vanda sig þegar hann óskaði sér.
Því þrammaði hann áfram veginn, léttur í lund.
Meðan á þessu gekk beið húsfreyja heima. Hún var orðin óþolinmóð að bíða eftir bónda sínum. Hún
var oft búin að ganga út fyrir til að gá að manni sínum en ekki bólaði á honum. Loks missti hún alveg
þolinmæðina, dæsti og sagði: “Æ, hvað ég vildi að endemis þrjóturinn, hann bóndi minn, væri nú
kominn hingað heim.” Og hún hafði ekki fyrr sleppt orðinu en bóndinn stóð á hlaðinu hjá kerlingu,
ljóslifandi. “Æ, hvaða klaufaskapur. Nú er ég búin að nota aðra óskina mína og nú á ég bara eina
eftir. En hvernig stendur á því að þú stendur þarna eins og þvara? Hvar er vagninn og hestarnir?” “Ég
var sá erkiklaufi að missa út úr mér að fjárinn mætti hirða hestana og hann er víst búinn að því.
Þetta er samt allt þér að kenna. Það fylgir ógæfa því að hafa rangt við. Þú sagðir að uxinn hefði
verið með fjögur horn. Þú skrökvaðir og ég vildi að hornin væru föst á hausnum á þér”, tautaði
bóndi önugur. Og viti menn. Bóndi trúði ekki sínum eigin augum. Hornin sátu föst á höfði kerlingar
og æpti hún hástöfum: “Hvað hefurðu gert? Hvað hefurðu gert? Nú voru þau búin að nota þrjár óskir
og aðeins ein var eftir. Bóndi reyndi að róa konu sína og sagði: “Vandaðu þig nú, mín kæra, við
eigum aðeins eina ósk eftir. Óskaðu þér nú nóg af peningum, notaðu tækifærið!” “Nei, þakka þér
fyrir”, svaraði konan snúðugt. “Þú skalt ekki láta þér detta í hug að ég ætli að ganga um með horn á
hausnum það sem eftir er ævinnar.” Og hún var ekki lengi að óska þess að hornin hyrfu af hausnum
á henni. Um leið hurfu hornin en hjónin stóðu eftir með sárt ennið, hestunum og uxanum fátækari.
Græðgin varð þeim að falli!
Úr “Jólaljós, sígildar jólasögur” í samantekt Ásgeirs Björnssonar o.fl. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. 1985